« Ritningarlesturinn 14. júlí 2006Ritningarlesturinn 12. júlí 2006 »

13.07.06

  07:16:51, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 494 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 13. júlí 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists fimmtudaginn 13. júlí er úr Matteusarguðspjalli 10. 7-15

7 Farið og prédikið: ,Himnaríki er í nánd.' 8 Læknið sjúka, vekið upp dauða, hreinsið líkþráa, rekið út illa anda. Gefins hafið þér fengið, gefins skuluð þér láta í té. 9 Takið ekki gull, silfur né eir í belti, 10 eigi mal til ferðar eða tvo kyrtla og hvorki skó né staf. Verður er verkamaðurinn fæðis síns. 11 Hvar sem þér komið í borg eða þorp, spyrjist þá fyrir um, hver þar sé verðugur, og þar sé aðsetur yðar, uns þér leggið upp að nýju. 12 Þegar þér komið í hús, þá árnið því góðs, 13 og sé það verðugt, skal friður yðar koma yfir það, en sé það ekki verðugt, skal friður yðar aftur hverfa til yðar. 14 Og taki einhver ekki við yður né hlýði á orð yðar, farið þá úr því húsi eða þeirri borg og hristið dustið af fótum yðar. 15 Sannlega segi ég yður: Bærilegra mun landi Sódómu og Gómorru á dómsdegi en þeirri borg.

Í dag minnist kirkjan: Hl. Henry II (972-1024)

Hugleiðing dagsins: Hl. Gregor hinn mikli (um 540-604), páfi og kirkjufræðari
Hugvekja um guðspjöllin, 6

„Gefins hafið þér fengið, gefins skuluð þér láta í té.“

Ef þið æskið þess getið þið einnig verðskuldað að bera hið fagra nafn sendimanna Guðs. Ef hvert ykkar og eitt eftir bestu getu og innblæstri úr hæðum snúið nágranna ykkar frá illu og leiðið til betri vegar, áminnið þann sem leiðst hefur afvega á Konungsríkið eða á þá refsingu sem hann á í vændum að eilífu, þá eruð þið augljóslega sendimenn heilagra orða Jesú. Megi engin koma og segja: Ég get ekki uppfrætt aðra eða hvatt áfram. Gerið allt sem í ykkar valdi stendur svo að þið verðið ekki beðin um það einhvern daginn, að gera skil á talentunni sem þið þáðuð og láguð á illu heilli. Því að jafnvel maðurinn sem vildi fremur fela talentu sína en að ávaxta hans hafði þegið eina talentu (sjá Mt 25. 14).

Hrífið aðra með ykkur. Gerið þá að samferðamönnum ykkar á vegferð ykkar til Guðs. Þegar þið leggið leið ykkar á markaðstorg eða í almenningsböð borgarinnar og einhver verður á vegi ykkar sem situr með hendur í skauti, bjóðið honum þá að slást í för með ykkur. Það er í daglegum athöfnum ykkar sem þið verðið eitt með öðrum. Eruð þið á leið til Guðs? Forðist að koma til hans alein. Megi sá sem þegar hefur heyrt ákall hinnar guðdómlegu elsku í hjarta sínu draga af því lærdóm náunga sínum til góðs.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet