« Í tilefni stólræðu séra Skúla S. Ólafssonar í Keflavíkurkirkju sunnudaginn 13. ágúst 2006.Hinsegin tilvera eða svona? »

13.08.06

  06:43:38, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 618 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 13. ágúst 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Jh 6. 41-51

Nú kom upp kurr meðal Gyðinga út af því, að hann sagði: „Ég er brauðið, sem niður steig af himni,“ og þeir sögðu: „Er þetta ekki hann Jesús, sonur Jósefs? Vér þekkjum bæði föður hans og móður. Hvernig getur hann sagt, að hann sé stiginn niður af himni?“ Jesús svaraði þeim: „Verið ekki með kurr yðar á meðal. Enginn getur komið til mín, nema Faðirinn, sem sendi mig, dragi hann, og ég mun reisa hann upp á efsta degi. Hjá spámönnunum er skrifað: ,Þeir munu allir verða af Guði fræddir.' Hver sem hlýðir á Föðurinn og lærir af honum, kemur til mín. Ekki er það svo, að nokkur hafi séð Föðurinn. Sá einn, sem er frá Guði, hefur séð Föðurinn. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir, hefur eilíft líf. Ég er brauð lífsins. Feður yðar átu manna í eyðimörkinni, en þeir dóu. Þetta er brauðið, sem niður stígur af himni. Sá sem etur af því, deyr ekki. Ég er hið lifandi brauð, sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði, mun lifa að eilífu. Og brauðið, sem ég mun gefa, er hold mitt, heiminum til lífs.“

Í dag minnist kirkjan: Heil. Pontíans frá Hippolytus (d. 235). Hugleiðing dagsins:Jóhannes Páll páfi II. Hirðisbréfið Ecclesia de Eucharistia, 11: „Og brauðið, sem ég mun gefa, er hold mitt, heiminum til lífs.“

Kirkjan hefur ekki þegið Evkaristíuna frá Kristi og Drottni sínum eins og eina gjöf meðal margra annarra – hversu dýrmætar sem þær svo kunna að vera – heldur sem þá háleitustu vegna þess að með þessari gjöf gefur hann sig sjálfan, persónu sína og heilaga mennsku, rétt eins og hjálpræði sitt. Hún einskorðast ekki við hið liðna vegna þess að „allt það sem Kristur er - allt sem hann gerði og leið fyrir alla menn - á sér hlutdeild í hinni guðdómlegu eilífð, er þannig hafið yfir alla tíma“ (Trúfræðslurit kaþólsku kirkjunnar, 1085).

Þegar kirkjan ber fram Evkaristíuna, minninguna um dauða Drottins og upprisuna, verður þessi miðlægi atburður hjálpræðisins raunverulega nærverandi og „hjálpræði okkar nær fram að ganga“ (Lumen Gentium 3). Þessi fórn er svo afgerandi hvað áhrærir mannkynið að Jesús Kristur bar hana sjálfur fram og hvarf ekki til baka til Föðurins fyrr en hann hafði falið okkur hana á hendur líkt og við hefðum verið stödd þarna sjálf. Sérhver hinna trúuðu getur þannig tekið þátt í henni og öðlast ávinning hennar með ósegjanlegum hætti. Þetta er sú trú sem kynslóðir kristinna manna hafa upplifað í aldanna rás. Yfirstjórn kirkjunnar hefur sífellt staðfest þessa trú af fagnaðarríku þakklæti sökum ósegjanlegs gildi þessarar gjafar. Enn og aftur vil ég leggja áherslu á þennan sannleika og deila með ykkur, kæru bræður og systur í tilbeiðslu frammi fyrir þessum leyndardómi: Miklum leyndardómi, miskunnarríkum leyndardómi. Hvað meira gat Jesús gert fyrir okkur? Sannlega leiðir hann okkur fyrir sjónir elsku í Evkaristíunni „þar til yfir lauk“ (sjá Jh 13. 1), takmarkalausa elsku.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet