« Þegar dauðinn knýr dyraÁsýnd jarðarinnar er mörkuð syndinni á okkar tímum »

12.09.06

  06:40:30, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 613 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 12. september 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lúkas 6. 12-19

En svo bar við um þessar mundir, að hann fór til fjalls að biðjast fyrir og var alla nóttina á bæn til Guðs. Og er dagur rann, kallaði hann til sín lærisveina sína, valdi tólf úr þeirra hópi og nefndi þá postula. Þeir voru: Símon, sem hann nefndi Pétur, Andrés bróðir hans, Jakob og Jóhannes, Filippus og Bartólómeus, Matteus og Tómas, Jakob Alfeusson og Símon, kallaður vandlætari, og Júdas Jakobsson og Júdas Ískaríot, sem varð svikari. Hann gekk ofan með þeim og nam staðar á sléttri flöt. Þar var stór hópur lærisveina hans og mikill fjöldi fólks úr allri Júdeu, frá Jerúsalem og sjávarbyggðum Týrusar og Sídonar, er komið hafði til að hlýða á hann og fá lækning meina sinna. Einnig voru þeir læknaðir, er þjáðir voru af óhreinum öndum. Allt fólkið reyndi að snerta hann, því að frá honum kom kraftur, er læknaði alla.
Í dag heiðrar kirkjan: Hið heilaga Nafn Maríu Guðsmóður. Hugleiðing dagsins: Heilagur Ágústínus (354-430), biskup í Hippo (Norðurafríku) og kirkjufræðara. Úr bréfi til Proba: „Hann var alla nóttina á bæn til Guðs.“

Þegar Páll postuli segir: „Gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði“ (Fl 4. 6) felur þetta ekki í sér að við gerum þær kunnar Guði vegna þess að þetta veit hann áður en þær glæðast. Þetta skírskotar til þess hvort við gerum okkur ljóst að bænir okkar séu okkur hollar eða ekki með þolgæði okkar og staðfestu frammi fyrir Guði, en að þær séu ekki fánýt mælgi . . . Þannig er okkur alls ekki óheimilt að biðja í langan tíma fremur en að það sé tilgangslaust, það er að segja þegar slíkt kemur ekki í veg fyrir önnur góðverk eða nauðsynjaverk. Þegar við gerum þetta verðum við að þrá það sem við biðjum um í bæninni, eins og ég hef áður vikið að.

Þegar einhver biður þannig í langan tíma er það ekki fánýt mælgi (Mt 6. 7), eins og sumt fólk heldur. Málgleði er eitt, en að elska í langan tíma er annað. Þegar ritað er að Drottinn sjálfur „var alla nóttina í bæn“ og að hann „baðst ákaft fyrir“ (Lk 22. 44), þá vildi hann gefa okkur fordæmi með því að biðja fyrir okkur í tímanum, hann sem ásamt Föðurnum heyrir bænir okkar að eilífu.

Sagt er að munkarnir í Egyptalandi grípi til tíðra en fáorðra bænaákalla sem þeir varpa á loft sem örvum. Þetta gera þeir til þess að dragi ekki úr þeirri vökulu árvekni sem nauðsynleg er þeim sem biður þannig að athyglin dvíni og verði að einbeitingarskorti. Bæn þarf alls ekki að felast í mörgum orðum, heldur andvörpum. Þannig er unnt að iðka hana langtímum saman af brennandi ákafa . . . Að biðja mikið felur í sér að knýja langtímum saman og af hjartanleika á dyr þess sem við áköllum (Lk 11. 5). Þetta er sökum þess að bænin felst fremur í andvörpum og tárum en í samræðum og orðagnótt.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet