« 5. Afstaða Páfastóls til útbreiðslu guðrækninnar á hinu Alhelga Hjarta Jesú Tvær villur fara ávallt saman »

12.10.06

  06:47:41, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 657 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 12. október 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 11. 5-13

Og hann sagði við þá: "Nú á einhver yðar vin og fer til hans um miðnætti og segir við hann: ,Vinur, lánaðu mér þrjú brauð, því að vinur minn er kominn til mín úr ferð og ég hef ekkert að bera á borð fyrir hann.' Mundi hinn þá svara inni: ,Gjör mér ekki ónæði. Það er búið að loka dyrum og börn mín og ég komin í rúmið. Ég get ekki farið á fætur að fá þér brauð'? Ég segi yður, þótt hann fari ekki á fætur og fái honum brauð vegna vinfengis þeirra, þá fer hann samt fram úr sakir áleitni hans og fær honum eins mörg og hann þarf. Og ég segi yður: Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða. Er nokkur sá faðir yðar á meðal, að hann gefi syni sínum, er biður um fisk, höggorm í staðinn, eða sporðdreka, ef hann biður um egg? Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá Faðirinn himneski gefa þeim Heilagan Anda, sem biðja hann."

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Seraphin frá Montegranaro (1540-1604). Hugleiðing dagsins: Heil. Símon nýguðfræðingur (um 949-1022), andlegur faðir úr Austurkirkjunni. Ákall til Heilags Anda, Inngangur að sálmunum: „Hve miklu fremur mun þá Faðirinn himneski gefa þeim Heilagan Anda, sem biðja hann."

Kom þú, Heilagur Andi, hið sanna ljós. Kom þú, eilífa ljós. Kom þú, huldi leyndardómur. Kom þú, nafnlausa gersemi. Kom þú, ósegjanlegi veruleiki. Kom þú, óþrjótandi sæla. Kom þú, ljósið sem aldrei sest. Kom þú og vek alla þá sem sofa. Kom þú, upprisa dauðra. Kom þú, hinn máttugi sem ætíð skapar og endurskapar og umbreytir öllu með viljamætti þínum. Kom þú, sem ávallt ert hreyfingarlaus en nemur þó aldrei staðar, vitja okkar sem liggjum með hinum lífvana, ó þú, sem ert himnunum æðri.

Kom þú, eilífa fullsæla. Kom þú sem þráðir og þráir angistarfulla sál mína. Kom þú sem ert sá Eini til þess sem er einmana eins og þú sérð mig í einsemd minni. Kom þú, sem fær mig til að segja skilið við allt og gerir mig að einfara í heiminum. Kom þú, sem sjálfur varðst að þrá minni, sem fékkst mig til að þrá, þú hinn Eini og óaðgengilegi. Kom þú, lífsandi minn. Kom þú, huggaðu hrellda sál mína. Kom þú, unaður minn, dýrð og ævarandi gleði.

Ég færi þér þakkir fyrir að hafa orðið að einum Anda ásamt mér (sjá Rm 8. 16), án hulu og án breytileika og eins og þú ert, sá sem ert Guð sem ert öllum æðri og sem hefur orðið mér allt í öllu (sjá 1Kor 15. 28). . . Ég þakka þér fyrir að hafa orðið mér ljósið sem aldrei sest, sólin sem ekki hnígur til viðar. Þú getur hvergi hulist, þú sem fyllir alheiminn með dýrð þinni! Nei, aldrei hefur þú hulist neinum, heldur erum það við sem hyljum okkur fyrir þér og höfnum að fylgja þér eftir.

Meistari! Kom þú nú og reis tjald þitt í mér í dag (Jh 1. 14), reistu bústað þinn og veldu í mér, þjóni þínum, sífellt, óaðskiljanlega og allt til enda, ó þú, ert hinn gæskuríki. Megi ég aftur finna sjálfan mig í þér þegar ég hverf úr þessum heimi, ó þú, gæði mín, og megi ég ríkja með þér, Guð, sem ert öllum öðrum æðri.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet