« Hinsegin tilvera eða svona?Ritningarlesturinn 11. ágúst 2006 »

12.08.06

  07:22:39, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 559 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 12. ágúst 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mt 17. 14-20

Þegar þeir komu til fólksins, gekk til hans maður, féll á kné fyrir honum og sagði: „Herra, miskunna þú syni mínum. Hann er tunglsjúkur og illa haldinn. Oft fellur hann á eld og oft í vatn. Ég fór með hann til lærisveina þinna, en þeir gátu ekki læknað hann.“ Jesús svaraði: „Ó, þú vantrúa og rangsnúna kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá yður? Hversu lengi á ég að umbera yður? Færið hann hingað til mín.“ Og Jesús hastaði á hann og illi andinn fór úr honum. Og sveinninn varð heill frá þeirri stundu. Þá komu lærisveinarnir til Jesú og spurðu hann einslega: "Hvers vegna gátum vér ekki rekið hann út?" Hann svaraði þeim: „Vegna þess að yður skortir trú. Sannlega segi ég yður: Ef þér hafið trú eins og mustarðskorn, getið þér sagt við fjall þetta: Flyt þig héðan og þangað, og það mun flytja sig. Ekkert verður yður um megn.“

Í dag minnist kirkjan: Heil. Loðvíks frá Toulouse (1274-1297). Hugleiðing dagsins: Heil. Kýrillos frá Jerúsalem (313-388?), biskup í Jerúsalem og kirkjufræðari. Fyrirlestrarnir um trúfræði 5. 10-11: „Auk okkur trú“

Orðið trú er hið talaða orð, en skilja ber það með tvennum hætti. Um er að ræða eitt stig trúar, þá kenningarlegu, þegar sálin nálgast eitthvað ákveðið atriði. Og hún er sálinni holl eins og Drottinn segir: „Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim, sem sendi mig, hefur eilíft líf“ (Jh 5. 24). . .

En það er einnig um annað stig trúar að ræða sem Kristur gefur sem náðargjöf: „Einum er fyrir Andann gefið að mæla af speki, öðrum að mæla af þekkingu í krafti sama Anda. Hinn sami Andi veitir einum trú, öðrum lækningagáfu“ (1Kor 12. 8-9). Sú trú sem Andinn miðlar með þessum hætti er ekki einungis kenningarfræðileg, heldur kemur til leiðar verkum sem eru mennskum mætti ofviða. Hver sem hefur slíka trú segir við fjallið: Fær þig úr stað og það mun það gera. Í hvert sinn sem einhver segir slíkt í trú og trúir að það muni gerast og efast ekki í hjarta sínu, mun hann öðlast þessa náð.

Um þessa trú er komist svo að orði: „Ef þú hefur trú eins og mustarðskorn.“ Rétt eins og fræ mustarðskornsins er örlítið en kemur miklu til leiðar, og þrátt fyrir að því sé sáð í örlítinn reit verði það mikið að umfangi með trjákrónu sinni og veiti fuglum himins skjól, má segja hið sama um trúna sem kemur miklu til leiðar í sálinni á skömmum tíma. Þegar sálin er upplýst í trúnni sér hún Guð og nýtur ásæisins á Guði að því marki sem slíkt er hugsanlegt og fer um óravíddir alheimsins. Og áður en þessi heimur líður undir lok mun hún sjá dóminn og það endurgjald sem fólgið er í fyrirheitinu.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

1 athugasemd

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þökk fyrir góðan texta og vekjandi.

12.08.06 @ 07:40