« Ásýnd jarðarinnar er mörkuð syndinni á okkar tímumVísindi reynsluguðfræðinnar »

11.09.06

  07:37:04, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 615 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 11. september 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 6. 6-11

Annan hvíldardag gekk hann í samkunduna og kenndi. Þar var maður nokkur með visna hægri hönd. En fræðimenn og farísear höfðu nánar gætur á Jesú, hvort hann læknaði á hvíldardegi, svo að þeir fengju tilefni að kæra hann. En hann vissi hugsanir þeirra og sagði við manninn með visnu höndina: „Statt upp, og kom hér fram.“ Og hann stóð upp og kom. Jesús sagði við þá: „Ég spyr yður, hvort er heldur leyfilegt að gjöra gott eða gjöra illt á hvíldardegi, bjarga lífi eða granda því?“ Hann leit í kring á þá alla og sagði við manninn: „Réttu fram hönd þína.“ Hann gjörði svo, og hönd hans varð heil. En þeir urðu æfir við og ræddu sín á milli, hvað þeir gætu gjört Jesú.
Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Kýpríanos (d. 258). Hugleiðing dagsins: Heil. Aþanasíus (295-373), biskup í Alexandríu, kirkjufræðari. Gegn heiðingjum: Lækningin á hvíldardeginum, tákn fyllingar sköpunarinnar

Jörðin er góð eins og hún var sköpuð og eins og við sjáum hana vegna þess að þetta var vilji Guðs. Enginn getur dregið þetta í efa. Ef óreiða ríkti í sköpunarverkinu, ef um blinda þróun í alheiminum væri að ræða, þá gætum við dregið þessa fullyrðingu í efa. En þar sem alheimurinn var skapaður af speki og þekkingu með skynsamlegum hætti og skrýddur allri hugsanlegri fegurð, er það sökum þess að sá sem ríkir yfir honum í fyrirhugun sinni er óhjákvæmilega enginn annar en Orð Guðs. . .

Þar sem þetta Orð er hið gæskuríka orð Guðs allrar gæsku, þá er það Orðið sem stóð öllu að baki og sameinaði andhverfurnar og gerði úr þeim eina samræmda heild. Það er hann, „kraftur Guðs og speki Guðs“ (1Kor 1. 24) sem lætur himinhvelfinguna snúast og ber jörðina uppi með orði máttar síns (Heb 1. 3). Sólin veitir jörðinni birtu með því ljósi sem kemur frá honum og með sama mæli er mánanum mæld sín hlutdeild. Fyrir hans tilstuðlan safnast vatnið saman í skýjabólstrunum og regnið vökvar jörðina, hafinu haldið innan takmarka sinna og jörðin þakin margvíslegustu jurtum (sjá Sl 104). . .

Ástæðan sem býr því að baki að þetta Orð, Orð Guðs, kom til sköpunar sinnar er undursamleg. . . Eðli skapaðra vera er forgengilegt, vanmáttugt og dauðlegt. En þar sem Guð alheimsins er gæskuríkur og gjafmildur í eðli sínu elskar hann mannkynið. . . Þar sem allt skapað eðli er forgengilegt og í upplausn þá snýr Guð ekki baki við því til að lúta sínum eigin tilhneigingum þannig að alheimurinn yrði tortímingunni að bráð. Í gæsku sinni stjórnar hann og viðheldur sköpunarverkinu með Orði sínu. . . Þannig er því forðað frá því að vera að fórnardýri sjálfs sín sem væri hlutskipti þess ef Orðið vekti ekki yfir því, það er að segja tortímingunni. „Hann er ímynd hins ósýnilega Guðs, frumburður allrar sköpunar. Enda var allt skapað í honum . . . hið sýnilega og hið ósýnilega . . . Og hann er höfuð líkamans, kirkjunnar“ (Kol 1. 15-18).

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet