« Ritningarlesturinn 13. nóvember 2006Logi lifandi elsku eftir Jóhannes af Krossi kominn út á íslensku »

11.11.06

  09:02:20, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 418 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 11. nóvember 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 16. 9-15

Og ég segi yður: Aflið yður vina með hinum rangláta mammón, svo að þeir taki við yður í eilífar tjaldbúðir, þegar honum sleppir. Sá sem er trúr í því smæsta, er einnig trúr í miklu, og sá sem er ótrúr í því smæsta, er og ótrúr í miklu. Ef þér reynist ekki trúir í hinum rangláta mammón, hver trúir yður þá fyrir sönnum auði? Og ef þér reynist ekki trúir í því sem annars er, hver gefur yður þá það, sem yðar er? Enginn þjónn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón." En farísearnir, sem voru menn fégjarnir, heyrðu þetta og gjörðu gys að honum. En hann sagði við þá: "Þér eruð þeir, sem réttlætið sjálfa yður í augum manna, en Guð þekkir hjörtu yðar. Því það, sem hátt er að dómi manna, er viðurstyggð í augum Guðs.
Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Martein frá Tours (316?-397). Hugleiðing dagsins: Úr Hómilíubók. Um föstu: Og verður þá tekinn af þeim uppgangur himnaríkis hæðar

Hvorki skal Guðs hyggjandi merkja að mannfjölda né að mannmetnaði, heldur er hennar von í lítillátum hjörtum, sem Jesaja mælti spámaður: „Hver dalur,“ kvað hann, „mun fyllast og hvert fjall og hóll mun lægjast“ (Jes 40. 4).

Þá fyllist dalur, er lítillátur maður tekur vel við Guðs orðum svo sem dalur við dögg og grær síðan góðra verka gras af. En það launar Guð með ævaranda uppgangi (upphefð).

En þá lægist fjall eða hóll, er metnaðarmenn fyrirlíta Guðs kenning, svo sem fjall eða hóll skýtur af sér dögginni og þeir missa svo ástarverka grátsins, og verður þá tekinn af þeim uppgangur himnaríkis hæðar sem Dominus mælti: „Þeim mun gefið verða,“ kvað hann, „er áður á, og mun hann gnótt fá. En of þann, er eigi á, þá mun það ið litla, er hann þykir eiga, verða af honum tekið.“ [bls. 168-169]

Bræðralag kristinna trúarkenninga

VERIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

 

No feedback yet