« Ritningarlesturinn 12. júlí 2006Ritningarlesturinn 10. júlí 2006 »

11.07.06

  07:57:31, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 454 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 11. júlí 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists þriðjudaginn 11. júlí er úr Matteusarguðspjalli 9. 32-38

32 Þegar þeir voru að fara, var komið til hans með mállausan mann, haldinn illum anda. 33 Og er illi andinn var út rekinn, tók málleysinginn að mæla. Mannfjöldinn undraðist og sagði: „Aldrei hefur þvílíkt sést í Ísrael.“ 34 En farísearnir sögðu: „Með fulltingi höfðingja illra anda rekur hann út illu andana.“ 35 Jesús fór nú um allar borgir og þorp og kenndi í samkundum þeirra. Hann flutti fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi. 36 En er hann sá mannfjöldann, kenndi hann í brjósti um þá, því þeir voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa. 37 Þá sagði hann við lærisveina sína: „Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir. 38 Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“

Í dag minnist kirkjan: Hl. Benedikts (480-543), frumherja klausturstefnunnar í Evrópu.  

Hugvekja dagsins:

Píus páfi XII, páfi frá 1939 til 1958
Úr predikun í Heilags Pálsbasilíkunni-utan-múrsins
þann 18. september 1947

Heilagur Benedikt, faðir Evrópu

Heilagur Benedikt er faðir Evrópu. Þegar rómverska keisaradæmið liðaðist í sundur sökum hnignunar og lasta og barbararnir streymdu inn í fyrrum yfirráðasvæði þess, hefur þessi maður verið nefndur síðasti Rómverjinn (samkvæmt orðum Tertúllíans). Hann sameinaði rómverska arfleifð guðspjöllunum og í krafti þessara tveggja arfleifða sameinaði hann Evrópubúa undir gunnfána Krists . . . Herdeildir benediktusarmunka dreifðust frá Eystrasalti til Miðjarðarhafsins, frá Atlantshafi til slétta Póllands og leiddu uppreisnargjarna og ósiðaða þjóðflokka til friðar með hjálp krossins, bóka og plógsins.

„Biðjið og vinnið.“ Fela ekki þessi einkunnarorð Benediktusarreglunnar í tiginni beinskeytni sinni í sér lögmál og reglu öllu mannkyninu til handa? Bænin er guðdómleg ráðsályktun og sama gildir um vinnuna. Þetta tvennt verðum við að leggja rækt við Guði til dýrðar og huga okkar og líkama til velsældar . . . Núna [skömmu eftir Aðra heimstyrjöldina] stynur Evrópa undan óáran og fári . . . Í miðju þessu fárviðri sem leiddi Evrópu til hruns sökum hörmunga og upplausnar er ekki óviðeigandi eða gagnslaust að minnast þess að mikill innri máttur langrar og ágætrar siðmenningar sem grundvallaðist á traustum grunni leit dagsins ljós í Evrópu.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga.

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet