« Ritningarlesturinn 12. ágúst 2006Ritningarlesturinn 10. ágúst 2006 »

11.08.06

  06:10:00, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 523 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 11. ágúst 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mt 16. 24-28

Þá mælti Jesús við lærisveina sína: „Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér. Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, mun finna það. Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og fyrirgjöra sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína? Mannssonurinn mun koma í dýrð föður síns með englum sínum, og þá mun hann gjalda sérhverjum eftir breytni hans. Sannlega segi ég yður: Nokkrir þeirra, sem hér standa, munu eigi dauða bíða, fyrr en þeir sjá Mannssoninn koma í ríki sínu.“

Í dag minnist kirkjan: Heil. Fílomenu og heil. Klöru. Hugleiðing dagsins: Skjöl Annars Vatíkanþingsins. Gaudium et Spes,  § 37-38: „Þeir sjá Mannssoninn koma í ríki sínu.“

Heilagar Ritningar uppfræða okkur um það sem reynsla samtímans leiðir í ljós: Að jafnhliða því sem framfarirnar eru manninum afar nytsamar, fela þær í sér miklar freistingar. Þegar gildismatið brenglast og hneigist til illsku frá hinu góða huga einstaklingar og hópar að sínum eigin hagsmunum, en horfa fram hjá þörfum annarra. Þannig hættir heimurinn að verða að stað raunverulegs bræðralags. Í dag ógnar máttur mannsins tilvist sjálfs mannkynsins. . .

Ef einhver þráir að fræðast um það hvernig vinna má bug á þessum óheillavænlegu aðstæðum, greina kristnir menn honum frá því að allar mennskar athafnir verið að hreinsa og fullkomna í mætti kross og upprisu Krists. Maðurinn er þess umkominn að elska sköpun Guðs með endurlausn Krists og sem ný sköpun í Heilögum Anda og ber að bregðast þannig við. Þetta getur hann allt þegið úr hendi Guðs. . . Hann kom inn á vettvang sögunnar sem hinn fullkomni maður og tók hana á eigin herðar til að fullkomna hana (11). Sjálfur opinberaði hann okkur að „Guð er kærleikur“ (1Jh 4. 8) og jafnframt, að hið nýja kærleiksboð væri grundvöllur mennsks fullkomleika og þar með ummyndunar heimsins.

Hann veitir þannig þeim sem trúa á elsku Guðs fullvissu um að vegur elskunnar standi mönnunum opin og að viðleitnin til að skapa alheimslegt bræðralag sé alls ekki vonlaus. Samtímis þessu varar hann mennina við því að ekki eigi að einskorða þessa elsku við mikilvæga málaflokka, heldur að hafa verði hana að leiðarljósi í aðstæðum daglegs lífs. Með því að leggja lífið í sölurnar fyrir okkur synduga menn (12) hefur hann kennt okkur með fordæmi sínu, að sjálf verðum við að axla þann kross sem heimurinn og holdið leggur þeim á herðar sem keppa eftir friði og réttlæti.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

1 athugasemd

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Við þetta bæti ég svo orðum heilags Páls, það er að segja öðrum kafla Bréfsins til Þessalonikíumanna:

En að því er snertir komu Drottins vors Jesú Krists og það, að vér söfnumst til hans, biðjum vér yður, bræður, að þér séuð ekki fljótir til að komast í uppnám eða láta hræða yður, hvorki af nokkrum anda né við orð eða bréf, sem væri það frá oss, eins og dagur Drottins væri þegar fyrir höndum. Látið engan villa yður á nokkurn hátt. Því að ekki kemur dagurinn nema fráhvarfið komi fyrst og maður syndarinnar birtist. Hann er sonur glötunarinnar, sem setur sig á móti Guði og rís gegn öllu því, sem kallast Guð eða helgur dómur. Hann sest í musteri Guðs og gjörir sjálfan sig að Guði. Minnist þér ekki þess, að ég sagði yður þetta, meðan ég enn þá var hjá yður? Og þér vitið, hvað aftrar honum nú, til þess að hann opinberist á sínum tíma. Því að lögleysið er þegar farið að starfa í leyndum og stendur ekki á öðru en að þeim verði burt rýmt, sem nú heldur aftur af. Þá mun lögleysinginn opinberast, - og honum mun Drottinn Jesús tortíma með anda munns síns og að engu gjöra þegar hann birtist við endurkomu sína. Lögleysinginn kemur fyrir tilverknað Satans með miklum krafti, lygatáknum og undrum og með alls konar ranglætisvélum, sem blekkja þá, sem glatast, af því að þeir veittu ekki viðtöku og elskuðu ekki sannleikann, svo að þeir mættu verða hólpnir. Þess vegna sendir Guð þeim megna villu, til þess að þeir trúi lyginni. Þannig munu allir þeir verða dæmdir, sem hafa ekki trúað sannleikanum, en haft velþóknun á ranglætinu.
En alltaf hljótum vér að þakka Guði fyrir yður, bræður, sem Drottinn elskar. Guð hefur frá upphafi útvalið yður til frelsunar í helgun andans og trú á sannleikann. Til þess kallaði hann yður fyrir fagnaðarboðskap vorn, að þér skylduð öðlast dýrð Drottins vors Jesú Krists. Bræður, standið því stöðugir og haldið fast við þær kenningar, er vér höfum flutt yður munnlega eða með bréfi. En sjálfur Drottinn vor Jesús Kristur og Guð, faðir vor, sem elskaði oss og gaf oss í náð eilífa huggun og góða von, huggi hjörtu yðar og styrki í sérhverju góðu verki og orði.

11.08.06 @ 07:56