« Vísindi reynsluguðfræðinnarUm þrælahald og rangfærslur veraldarhyggjunnar (secularism) »

10.09.06

  08:49:07, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 544 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 10. september 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mk 7. 31-37

Síðan hélt hann úr Týrusarbyggðum, um Sídon og yfir Dekapólisbyggðir miðjar til Galíleuvatns. Þá færa þeir til hans mann, daufan og málhaltan, og biðja hann að leggja hönd sína yfir hann. Jesús leiddi hann afsíðis frá fólkinu, stakk fingrum sínum í eyru honum og vætti tungu hans með munnvatni sínu. Þá leit hann upp til himins, andvarpaði og sagði við hann: „Effaþa,“ það er: Opnist þú. Og eyru hans opnuðust, og haft tungu hans losnaði, og hann talaði skýrt. Jesús bannaði þeim að segja þetta neinum, en svo mjög sem hann bannaði þeim, því frekar sögðu þeir frá því. Menn undruðust næsta mjög og sögðu: „Allt gjörir hann vel, daufa lætur hann heyra og mállausa mæla.“

Í dag heiðrar kirkjan: Blessaða Agnesi Tsao-Kouy (d. 1622), kínverskan píslarvott. Hugleiðing dagsins: Jóhannes Tauler (1300-1361), dóminíkani og einn „Vina Guðs“ í Rínardalnum. Úr 49. predikuninni: „Allt gjörir hann vel, daufa lætur hann heyra og mállausa mæla.“

Það er afar brýnt að gera sér grein fyrir hvað gerir menn daufdumba. Allt frá þeirri stundu sem hinn fyrsti maður tók að leggja eyra að raust óvinarins varð hann daufdumba og þetta tókum við í arf. Þannig getum við ekki heyrt ljúfa raust Orðsins eilífa. Engu að síður vitum við að Orðið eilífa er svo nálægt okkur hið innra í sjálfri verund okkar, að sjálf mennska okkar og eðli, okkar eigin hugsanir og allt annað sem unnt er að nefna, segja eða skilja er ekki eins rótfast djúpt hið innra með okkur eins og Orðið eilífa. Það kallar á okkur í sífellu en við heyrum ekki raust þess vegna þess hversu daufdumba við erum. . . Sálareigindir mannsins eru svo daufdumba að hann er orðinn með öllu heyrnarlaus og þekkir ekki sitt eigið sjálf. Ef hann leitaðist við að tala um það sem býr hið innra með honum væri hann þess ekki umkominn vegna þess að hann ber ekki skyn á eðli sitt, fremur en að skilja hvað býr verkum hans að baki. . .

Í hverju felst þetta skaðvænlega og sársaukafulla hvísl óvinarins? Það felst í sérhverri afskræmdri ímynd eða hugdettum sem glæðast í huga þínum, hvort sem slíkt má rekja til náttúrlegrar þrár þinnar eða langana hvað áhrærir þennan heim og það sem í honum er að finna, hvort sem það svo er auður, mannvirðingar, vinir eða vináttubönd, þitt eigið eðli eða annað það sem leggur hald sitt á ímyndunarafl þitt.

Hann hefur greiðan aðgang að þér í krafti þessa alls.

En þegar Drottinn okkar kemur og stingur fingrinum í eyra mannsins og rýfur tunguhaft hans, hversu göfugur verður maðurinn þá ekki!

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

  

No feedback yet