« 3. Logi elsku hins Alhelga Hjarta Jesú í dulúð kirkjunnar2. Ástarfuni hins Alhelga Hjarta í umfjöllun kirkjufeðra fornkirkjunnar. »

10.10.06

  07:29:30, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 504 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 10. október 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists er úr Lk 10. 38-42

Á ferð þeirra kom Jesús í þorp nokkurt, og kona að nafni Marta bauð honum heim. Hún átti systur, er María hét, og settist hún við fætur Drottins og hlýddi á orð hans. En Marta lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu. Og hún gekk til hans og mælti: „Herra, hirðir þú eigi um það, að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér.“ En Drottinn svaraði henni: „Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu, en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.“

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Frans Borgia (1510-1572). Hugleiðing dagsins: Heil. Ambrosíus (um 340-397), biskup í Milan og kirkjufræðari. Umfjöllun um Lúkasarguðspjall 7. 85-86: Marta og María í einum líkama Krists

Dæmisagan af góða Samverjanum snýst um miskunn. En það er ekki einungis um eina leið að ræða til að lifa dyggðugu lífi. Eftir dæmisöguna kemur frásögnin af þeim Mörtu og Maríu. Við sjáum að guðrækni annarrar þeirra felst í starfinu, en hin er árvökul gagnvart orði Guðs í trú sinni. Samkvæmt því sem ritað er er slík árvekni trúarinnar meira metin en verkin: „María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.“
Við skulum því einnig keppa eftir því sem verður ekki frá okkur tekið. Við skulum því hlusta af árvekni en ekki athyglisskorti. Við skulum vera eins og María sem er knúin áfram af þrá eftir spekinni. Þetta er fullkomnara verk en önnur. Þú skalt því ekki gagnrýna eða dæma þann fyrir iðjuleysi sem þú sérð að þráir spekina. . .

Engu að síður er Marta ekki gagnrýnd sökum góðrar þjónustu sinnar, jafnvel þó að María hafi valið betri kostinn. Jesús hefur fjölmargar gjafir fram að færa og er gjafmildur. Postularnir töldu ekki við hæfi að hverfa frá boðun orðs Guðs til að þjóna fyrir borðum (P 6. 2). En hvoru tveggja eru ummerki spekinnar. Stefán sem var fullur speki var valinn fyrir sitt leyti til að þjóna. Þannig ber þeim sem þjónar að hlýða þeim sem uppfræðir og sá sem uppfræðir hvetja þann áfram sem þjónar. Líkami kirkjunnar er einn jafnvel þó að limirnir séu margir og einn þarfnast annars: „Augað getur ekki sagt við höndina: ‚Ég þarfnast þín ekki!’ né heldur höfðuðið við fæturna“ (1Kor 12. 21).
Eyrað getur ekki sagt að það tilheyri ekki líkamanum. Sum líffærin eru mikilvægari, en engu að síður eru hin nauðsynleg.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet