« Ritningarlesturinn 11. júlí 2006Ritningarlesturinn 9. júlí 2006 »

10.07.06

  05:40:48, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 789 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 10. júlí 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists mánudaginn 10. júlí er úr Matteusarguðspjalli 9. 18-26

18 Meðan hann var að segja þetta við þá, kom forstöðumaður einn, laut honum og sagði: „Dóttir mín var að skilja við, kom og legg hönd þína yfir hana, þá mun hún lifna.“ 19 Jesús stóð upp og fór með honum og lærisveinar hans. 20 Kona, sem hafði haft blóðlát í tólf ár, kom þá að baki honum og snart fald klæða hans. 21 Hún hugsaði með sér: „Ef ég fæ aðeins snert klæði hans, mun ég heil verða.“ 22 Jesús sneri sér við, og er hann sá hana, sagði hann: „Vertu hughraust, dóttir, trú þín hefur bjargað þér.“ Og konan varð heil frá þeirri stundu. 23 Þegar Jesús kom að húsi forstöðumannsins og sá pípuleikara og fólkið í uppnámi, 24 sagði hann: „Farið burt! Stúlkan er ekki dáin, hún sefur.“ En þeir hlógu að honum. 25 Þegar fólkið hafði verið látið fara, gekk hann inn og tók hönd hennar, og reis þá stúlkan upp. 26 Og þessi tíðindi bárust um allt það hérað.

Í dag minnist kirkjan: Hl. Veroniku Giuliani (1660-1721), Klörusystur.  

Hugleiðing dagsins: Hl. Romanos hinn tónelski (?- um 560), sálmaskáld.
Sálmur 23: Um konuna með blóðlátið.

„Ef ég fæ aðeins snert klæði hans!“

Eins og konan sem þjáðist af blóðlátinu varpa ég mér fram fyrir fætur þína, Drottinn, svo að þú frelsir mig frá bágindum mínum og fyrirgefir mér afbrot mín. Þannig hrópa ég til þín af hjartans angist: „Drottinn, bjarga mér!“

Hún kom til þín, ó Frelsari, þar sem hún hélt að þú værir eins og hver annar maður. En lækning hennar leiddi henni fyrir sjónir að þú ert jafnframt Guð og maður í senn. Óséð snart hún fald klæða þinna full ótta og sagði við sjálfa sig: „Hvernig get ég komið fram fyrir auglit þess sem ekkert leynist fyrir, ég sem ber blygðun afbrota minna? Ef hinn Alhreini sér blóðlát mitt snýr hann við mér bakinu þrátt fyrir að ég hrópi til hans: Drottinn, bjarga mér. Þegar fólk sér mig munu allir vísa mér á bug og segja: „Hvert ert þú að fara? Horfðu til blygðunar þinna, kona, gleymdu því ekki hver þú ert og hvern þú ætlar að snerta núna. Ætlar þú, hin óhreina, að snerta þann sem er Alhreinn! Farðu og hreinsaðu sjálfa þig og þegar þú hefur afmáð skömm þína, þá getur þú hrópað: Drottinn, bjarga mér! Viljið þið valda mér meiri sársauka en rekja má til veikinda minna? Ég veit að hann er hreinn og því hrópa ég til hans til að öðlast lausn frá vansæmd minni og blygðun. Stöðvið mig ekki svo að ég geti hrópað: Drottinn, bjarga mér.

Vatnið streymir frá uppsprettu sinni til allra. Hvaða rétt hefur þú til að stöðva framrás þess? Þú verður vitni að græðslu hans. Á hverjum degi hvetur hann sérhvert okkar og eitt að koma þegar hann segir: „Komið til mín, þér sem berið byrðar sjúkdómanna og ég mun veita ykkur hvíld“ (sjá Mt 11. 28). Hann þráir að gefa öllum náðargjöf heilbrigðisins. Hvers vegna beitið þið mig þá harðýðgi og hindrið mig í að hrópa: Drottinn, bjarga mér?“

Sá sem ekkert fær dulist fyrir snýr sér til lærisveina sinna og spyr: „Hver snart klæði mín?“ (Mk 5. 30). Pétur, hvers vegna segir þú mér að mikil mannmergð umlyki mig? Þeir snerta ekki Guðdóm minn, en þessi kona snart Guðdómseðli mitt þegar hún snart sýnileg klæði mín. Og hún öðlaðist heilsuna að nýju þegar hún hrópaði: Drottinn, bjarga mér . . .

„Kona, vertu hugrökk frá og með þessari stundu. Vertu heil frá og með þessari stundu. Þetta er ekki verk minna eigin handa, heldur trú þín í verki. Fjölmargir hafa snert fald klæða minna, en þeir öðluðust ekki styrk vegna þess að þeir komu ekki til mín með trú sína. Þú hefur snortið mig í mikilli trú og hefur læknast. Því set ég þig fyrir sjónir allra manna svo að þeir geti sagt: Drottinn, bjarga mér.“

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet