« Ritningarlesturinn 11. ágúst 2006Um stríð og frið »

10.08.06

  07:00:22, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 396 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 10. ágúst 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Jh 12. 24-26

Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr, verður það áfram eitt. En ef það deyr, ber það mikinn ávöxt. Sá sem elskar líf sitt, glatar því, en sá sem hatar líf sitt í þessum heimi, mun varðveita það til eilífs lífs. Sá sem þjónar mér, fylgi mér eftir, og hvar sem ég er, þar mun og þjónn minn vera. Þann sem þjónar mér, mun faðirinn heiðra.
Í dag minnist kirkjan: Heil. Lárusar (d. 258?). Hugleiðing dagsins: Heil. Ágústínus (354-430), biskup í Hippo (Norðurafríku) og kirkjufræðari. Predikun 303 á hátíð heil. Lárusar: „Hann hefur miðlað mildilega, gefið fátækum, réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu“ (Sl 112. 8).

Heilagur Lárus var djákni í Rómaborg. Ofsækjendur kirkjunnar kröfðust þess að hann afhenti þeim fjársjóði kirkjunnar. Til að öðlast raunverulegan fjársjóð á himnum þoldi hann píslir sem voru slíkar, að einungis frásögnin ein myndi fylla ykkur skelfingu. Hann var lagður á járngrind yfir eldi. Engu að síður vann hann sigur á öllum líkamlegum þjáningum sínum með styrk sem hann öðlaðist sökum kærleika síns og hjálpar þess sem gerði hann stöðugan: „Vér erum smíð Guðs, skapaðir í Kristi Jesú, til góðra verka, sem hann hefur áður fyrirbúið, til þess að vér skyldum leggja stund á þau“ (Ef 2. 10).

Þetta reitti ofsækjendur hans til reiði. . . Lárus sagði þá: „Sendið mig ásamt nokkrum vögnum til að sækja fjársjóði kirkjunnar.“ Þeir afhentu honum vagnana. Hann fyllti þá af snauðu fólki og sendi til baka og sagði: „Hér má sjá fjársjóð kirkjunnar.“

Bræður. Ekkert er sannara en þetta. Hinn mikli fjársjóður kirkjunnar birtist í þörfum hinna snauðu, svo framarlega sem við berum skyn á það hvernig við getum látið það sem við eigum bera ávöxt. Hinir snauðu eru ætíð á meðal okkar. Ef við felum þeim fjársjóð okkar á hendur munum við ekki glata honum.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

3 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Móðir Teresa frá Kalkútta sagði að snauðastir allra jarðarbúa í dag væru hin auðugu Vesturlönd vegna þess að þau skorti elskuna:

„Þeir þyrma ekki lífsafkvæmum, og líta ekki miskunnaraugum til ungbarna“ (Jes 13. 18).

Þegar dómarinn mikli biður þá að senda vagna eftir fjársjóðum sínum á degi dómsins, hvílík verður þá ekki sú vagnlest?

10.08.06 @ 07:06
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Kærar þakkir fyrir þennan pistil þinn, Jón Rafn, og fyrir tímabæra athugasemdina, með orðum Móður Teresu. Vesturlönd og ekki sízt okkar eigið land eru siðferðislega á leið niður á við og það með fullri aðstoð ráðamanna okkar. Hér er tími fyrir nýja Jesaja, nýjan Hósea, nýjan Malakí, sem segja þeim, sem lýðinn leiða, stjórnmálamönnum og jafnvel hálærðum klerkum, til syndanna.

10.08.06 @ 11:38
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Já, nafni! Nú á tímum fósturdeyðinga, samkynhneigðar, stofnfrumurannsókna á frumfóstrum og væntanlega líknarmorða handan hornsins, er ásýnd íslensks samfélags og þeirra sem ráða málum harla hryggileg. Sannast þar orð Jesaja spámanns:

„Drottinn hefur byrlað þeim sundlunaranda, svo að þeir valda því, að Egyptaland [Ísland] er á reiki í öllum fyrirtækjum sínum, eins og drukkinn maður reikar innan um spýju sína. Ekkert heppnast Egyptalandi [Íslandi], hvorki það sem höfuðið eða hali [Þjóðkirkjan og Alþingi], pálmakvistur [ráðuneyti] eða sefstrá [stjórnmálaflokkar] taka sér fyrir hendur að gjöra (Jes 19. 14-15).

Gott er að geta leitað skjóls í skugga vængja hins Hæsta á slíkum mæðudögum þar sem gullið sem glóir er svikull samferðamaður (Sjá Mt 4. 8 kafla) því að „þegar eldsneytið þrýtur slokknar eldurinn“ (Ok 26. 20).

10.08.06 @ 14:25