« Áhlaup efnishyggjunnar á stofnfrumur fósturvísaVitnisburður úr lífsins náðarljóði »

27.11.06

Rétt og rangt í máli Manúels í Miklagarði

Eftirfarandi grein birtist í Lesbók Morgunblaðsins 7. okt. sl. Vert er að hafa hana aðgengilega hér á Kirkjunetinu, enda tengist hún öðru efni á þessu vefsetri, og hér geta menn nú rætt efni hennar í athugasemdum. –JVJ.

"Þegar æsingurinn í kringum Benedikt páfa og islam fór að hjaðna, áttaði fólk sig á því, að páfinn hafði verið grátt leikinn, orð hans tekin úr samhengi og viðbrögðin viljandi mögnuð upp." Svo segir í nýlegri frétt Páfagarðs (Zenit.org). Í fyrirlestri sínum við háskólann í Regensburg var páfinn í raun að hvetja til samræðna og rökræðu um trúarbrögð í stað þess að útiloka þau frá alvarlegri umræðu, eins og oft á sér stað í samtíð okkar, þar sem trúnni á Guð er vísað á afmarkaðan bás ætlaðan vissum menningarafkima sem að öðru leyti sé lokaður frá menningu og samfélagi Vesturlandaþjóða. Átti menn sig á þessu samhengi páfaræðunnar, "hafa fylgismenn vantrúarinnar í samtíð okkar miklu meiri ástæðu til að gremjast páfanum en nokkrir aðrir.

Sú staðreynd kann að skýra þá stæku andúð gegn páfa sem birtist í leiðara New York Times 16. sept.," segir enn í sömu frétt.

Umgjörð setningarinnar, sem páfinn tíundaði úr orðræðu Manúels II keisara í Konstantínopel í lok 14. aldar, var ágætlega rakin í grein í Lesbók Mbl. 23/9, sbr. einnig Reykjavíkurbréf 24/9. Vissulega voru ummæli keisarans ekki kjarninn í fyrirlestri páfans. Engu að síður er vert að skoða þau nánar.

Missagnir íslenzkra fréttamiðla og raunverulegt inntak orða Manúels II
Fyrst er þess að geta, að nánast allir íslenzkir fréttamiðlar, m.a. Rúv, fóru rangt með það sem stóð skýrum stöfum í ræðu páfans. Keisarinn Manúel sagði EKKI, "að Múhameð spámaður hefði aðeins fært heiminum illsku og miskunnarleysi," eins og Nýja fréttastöðin orðaði þetta 22/9. Morgunblaðið hefur staðið sig fjölmiðla bezt við að gera grein fyrir tilvitnun páfans í keisarann, t.d. í fréttaskýringu 26/9, á meðan Fréttablaðið endurtekur þann sama dag orðalag NFS-stöðvarinnar.

Það, sem Manúel 2. sagði í raun, var að það nýja, sem Múhameð hefði fært (was Mohammed Neues gebracht hat, eins og segir í fyrirlestri páfa), hefði aðeins verið slæmir hlutir og ómannúðlegir (Schlechtes und Inhumanes) á borð við fyrirmæli hans um, að trúna, sem hann boðaði, ætti að útbreiða með sverði. Gegn þessu lagði keisarinn áherzlu á skynsemiseðli trúarinnar, hún sé ávöxtur sálarinnar, ekki líkamans. Því þurfi að beita hæfileikanum til að tala og hugsa rétt til þess að sannfæra skynsemisverur og leiða þær til trúar, en ekki nota ytri valdbeitingu og hótanir. Guð vilji engar blóðsúthellingar, og það sé í andstöðu við sjálft eðli Guðs að breyta í ósamræmi við skynsemina. Nútímamönnum veitist sennilega auðvelt að vera sammála þessari röksemd.

Keisaranum, sem átti þarna í díalóg við lærðan, persneskan guðfræðing, málsvara islams, var vel ljóst, að sú trú hafði tekið við miklum, dýrmætum arfi úr Gyðingdómi og kristinni trú. Hið kristna stórveldi Eþíópía náði á 6. öld inn á Arabíuskagann; þannig bárust þangað kristin áhrif. Kaupmenn Gyðinga báru og með sér trúaráhrif, og Múhameð átti ennfremur samneyti við kristna menn á ferð sinni um Sýrland. Þannig kynntist hann eingyðistrúnni, sem var (vel að merkja) ekki regla í heiminum um daga Krists, heldur undantekning. Mörgu háleitu og góðu í kenningunni um kærleiks- og mikilfengleika-eðli Guðs tók Múhameð við frá hinum gyðing-kristna arfi. En það nýja, sem islam færði svo kristnum mönnum við Miðjarðarhaf, fólst ekki sízt í útbreiðslu trúarinnar með sverðsins mætti, oft með allsherjaruppgjöf íbúanna, en stundum með vörn borga og miklu blóðbaði eftir töku þeirra (dæmi: Cæsarea árið 640).

Enda þótt múslimir reyndust að sumu leyti vægir stjórnendur eftir landvinninga sína, – sem gaf þeim sjálfum tækifæri til að þiggja margt gott úr persneskri, sýrlenzkri og hellenskri menningararfleifð sem þar var fyrir, m.a. á sviði ljóðlistar, myndlistar, raunvísinda, læknisfræði, heimspeki og guðfræði – þá beittu þeir kristna menn þvingunum, m.a. með sérstökum kvaðarskatti, jizya, banni við því að þeir gengju í skóm, stigju á bak hesti eða verðu sig fyrir árás, banni við byggingu kirkna og klaustra, hringingu kirkjuklukkna og við því að útbreiða og vitna um trú sína (krossfesting og guðlegt eðli Krists voru bannfærð viðhorf). Þetta ásamt einstöku ofsóknum o.fl. leiddi til þess að kristin trú þurrkaðist næstum út í Norður-Afríku og víðar á nokkrum öldum. Eins og fram kemur í nýlegri bók próf. Richards Fletcher, The Cross and the Crescent (Penguin 2003, s. 36–37), er talið að nál. 75–90% af kristnum mönnum á hinum þéttbýlli yfirráðasvæðum múslima hafi snúizt til islamstrúar. Það gerðist reyndar takmarkað fyrstu öldina eftir landvinningana, en megnið af þessum trúskiptum átti sér stað næstu tvær aldirnar. Af fimm leiðandi höfuðkirkjum fornaldar urðu þrjár, Alexandría í Egyptalandi, Antíokkía í Sýrlandi og Jerúsalem, sem lamaðar, einangraðar og úr leik í kristinni orðræðu heimsins, svo að Róm og Konstantínopel urðu einar um hituna (R.W. Southern).

Keisarinn Manúel var eðlilega að tala í sínum aðstæðum – í því litla sem eftir var af Austrómverska keisaradæminu í lok 14. aldar, en það hafði áður teygt sig yfir geysilegt landflæmi við austan- og sunnanvert Miðjarðarhaf og nánast allar eyjarnar þar, hluta Ítalíu, allt Grikkland og miklu meira til. Og þeir, sem höfðu rúið býzantíska ríkið löndum sínum, voru vitaskuld múslimir, sem reyndar höfðu gengið miklu lengra en svo, því að réttum 100 árum eftir lát Múhameðs var framsókn herja þeirra komin svo langt, að þeir höfðu bæði yfirunnið meirihluta Spánar og áttu í orrustu við kristna menn í Poitiers nál. Tours í miðju Vestur-Frakklandi (árið 732). Þar og í fleiri orrustum tókst Frönkum undir forystu Karls Martels (afa Karlamagnúsar keisara) að stöðva útþenslustefnu múslima í Vestur-Evrópu. Aðeins 62 árum eftir ummæli Manúels keisara unnu Tyrkir síðustu leifarnar af Býzanz-ríkinu með töku Konstantínópel 1453. Þeir lögðu undir sig allan Balkanskagann (héldu Grikkjum hernumdum til 1829), réðust á Ungverjaland og sátu tvisvar um Vínarborg (1529 og 1683) – þvílíkur var framgangur múslima, sem á margar hliðar þrengdi þannig að hinum kristnu þjóðum.

Þegar Reykjavíkurbréf Mbl. hefur það eftir Der Spiegel, að í hugum margra sé rætur heilags stríðs gegn vestrinu að finna í krossferðunum (sem stóðu yfir 1096–1291), þá er það sögulega rangt; hugmynd Kóransins um jihad var að baki útbreiðslustríðum múslima (m.a. gegn kristnum) mörgum öldum fyrir krossferðirnar; hið fyrsta þeirra landvinningastríða gegn kristnum byggðum hófst um 634 (Landið helga). Síðar varð arabíska yfirstéttin værukær til útþenslu og trúarboðunar í allri sinni velmegun og glæstu menningu. En þá kom upp endurnýjaður trúareldmóður og hernaðarþróttur meðal yngri þjóða í islamstrú, Berba, Mamelúka og Selsjúka (Tyrkja), sem leiddi til nýrrar framsóknar múslima og upphafs krossferðanna í lok 11. aldar og síðar til falls krossfararíkjanna á 13. öld og Miklagarðs 1453.

Afstöðu Manúels II verður að skoða í ofangreindu ljósi, sem og út frá því, að í eiginlegri trúarkenningu færði islam þeim kristnu ekkert nýtt og gott sem þeir áttu ekki fyrir, en svipti hins vegar þá, sem tóku Múhameðstrú, mörgum grundvallargildum kristinnar trúar, einkum trúnni á Heilaga Þrenningu, Guðssonareðli Krists og einstætt endurlausnarverk hans.

Islam færði SUMUM þjóðum betra siðferði og betri trú en þær höfðu fyrir
Það er alrangt, ef menn telja islam ekki hafa fært neinum þjóðum framför í trúar- og siðferðisefnum. Islam ruddi brott fjölgyðistrú og blóðfórnum bæði í Arabíu og hinu gamla Persaveldi (sem var eitt stórríkið sem múslimir unnu strax upp úr miðri 7. öld) og síðar enn austar í Asíu, en gerði það að verulegu leyti með valdbeitingar-þvingun, á meðan Gyðingar, kristnir og Zaraþústra-menn nutu vissrar tillitssemi, af því að þeir töldust "fólk Bókarinnar". En hjá mörgum hinna heiðnu þjóða tíðkaðist lítil virðing fyrir konum, og þrátt fyrir að múslimir njóti ekki álits hér á Vesturlöndum fyrir ástandið á því sviði, þá var boðun islams í þeim efnum hikstalaust ýmsum þeirra þjóða til góðs. Þannig fordæmdi Múhameð þann sið að grafa óvelkomin, nýfædd meybörn lifandi og kenndi fylgismönnum sínum að stúlkur væru Guðs gjöf eins og drengir. Eins predikaði hann gegn takmarkalausu eiginkvennahaldi bedúína, heimilaði þeim í mesta lagi fjórar konur, ef þeir gætu meðhöndlað þær af sanngirni, annars skyldu þeir láta sér eina nægja.

Í báðum þessum tilvikum voru kristnir menn á miðöldum með háar siðferðiskröfur, ívið hærri en Múhameð : hjá kristnum og Gyðingum var einkvæni reglan, og hvarvettna sem kristnin breiddist út, var barnaútburður bannaður, jafnt í löndum Norður-Afríku og víðar í rómverska heimsveldinu sem hér á Íslandi. Þannig sjáum við, að kristnu fólki færði Múhameðstrúin enga framför í þessum málefnum. Öðrum – eins og bedúínum – varð islam hins vegar siðbót í þessu efni og mörgum öðrum að auki. Páfinn Benedikt hefur líka lýst því yfir, að hann "ber einlæga virðingu fyrir islamstrú," eins og fram er komið í fréttum. Páfagarður endurtekur þar að auki orð 2. Vatíkanþingsins (1962–65) sem lúta að trú múslima, þ.e. í kirkjusamþykktunum Lumen Gentium, 16. gr., og einkum í Nostra ætate (3), þar sem segir m.a., að kirkjan líti með virðingu til múslima, þeir tilbiðji einn Guð, ævarandi, miskunnarfullan og almáttkan, leitist við af öllu hjarta sínu að gefa sig undir hans órannsakanlegu úrskurði, virði siðlegt líferni og stundi Guðsdýrkun með bæn, ölmusugjöf og föstu (sjá nánar Kirkju.net*). Af þessu er ljóst, að því fer fjarri, að kaþólska kirkjan óvirði trú múslima.

Allt eru þetta staðreyndir máls, sem vert er að hafa í huga sem bakgrunn þeirra umræðna, sem fram hafa farið eftir fyrirlestur páfans í Regensburg.

Höfundur er guðfræðingur og lagði stund á miðaldafræði við Cambridge-háskóla 1980–83.

-----------
* Sjá http://www.kirkju.net/index.php/jon/2006/09/28/p743 (2. Vatíkanþingið um islamstrú).

5 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég er ekki fyrr búinn að setja þessa grein á netið en ég fæ netbréf frá fréttaþjónustunni Zenit með þessari tilkynningu: “ZENIT starts in ARABIC!” Arabískan er líka eitt þeirra tungumála, sem hægt er að smella á, þegar farið er inn á upphafssíðu fréttavefsetursins. Ég bæði hrósa þeim í Vatíkaninu vegna þessa og óska þeim til hamingju.

En á morgun hefst heimsókn Benedikts páfa XVI til Tyrklands, ekki sízt til Miklagarðs (Konstantínopel, sem í munni Tyrkja hefur breytzt í Istanbul), þar sem hann mun m.a. hitta patríarka grísk-orþódoxu kirkjunnar, Bartholomeus II. Biðjum fyrir leiðtoga Vesturkirkjunnar, að Guðs Heilagi Andi fylgi honum, Tyrkjum og múslimum til blessunar, kristnum mönnum í austurvegi ekki síður, en páfanum sjálfum til verndar og leiðsagnar. – Biðjum fyrir einingu Vestur- (rómversk-kaþólsku) og Austurkirkjunnar! (sem okkur er mest þörf sjálfra okkar vegna, gegn vestrænni veraldarhyggju og útþynningu margra stofnanakirkna á kristindómnum).

27.11.06 @ 21:51
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Í nýjasta Zenit-fréttapakkanum eru nokkrar fréttatengdar greinar sem snerta Tyrklandsheimsókn páfans. Ein þeirra er viðtal við R.M.T. Schmid við Becket-stofnunina fyrir trúfrelsi, um ástand trúfrelsismála í Tyrklandi. Hingað til hef ég haldið, að Oxford-fræðimaðurinn R.M.T. Schmid, sem ritað hefur svo ágætlega um hjónabandið sem félagsfyrirbæri sem einungis hæfi karli og konu, væri karlmaður, en nú kemur í ljós, að um konu er að ræða (Raphaelu að skírnarnafni). Ekki er hún verri fyrir það, skarpgreind manneskjan, og þetta viðtal við hana er mjög áhugavert, endilega lesið það í heild. En mig langar til að setja hér part af því “á blað” og leyfi þeim parti að vera á ensku, enn sem komið er, og geri þetta meðfram vegna upphafs Tyrklandsheimsóknar páfans á morgun.

Spurning: How does the Regensburg lecture fit into all this?

Schmid: The Pope’s point was that a dialogue of religions can only take place where there is room for both faith and reason. He warned against two extremes: a rationality that rejects religion and a religion that rejects rationality.

He tried to show that “whether God has to act in accordance with reason” for any religion is a question with far-reaching consequences. To illustrate that it is not a new question he quoted the now infamous 14th-century emperor Paleologus accusing Islam of getting the answer wrong. But the Pope also looked at Christianity and its own moments of placing God above and beyond reason. So, I think he tried to initiate a conversation on the level of a philosophy of religion.

It didn’t seem to go so well at the time and Pope Benedict’s meeting with the highest Muslim authority, the president of religious affairs, is made awkward by the fact that he was someone who spoke out very quickly and very strongly against the Regensburg speech, though he later admitted that he had not read it. But as the Grand Mufti of Istanbul said in this context: What starts out badly may still come to a good end.

27.11.06 @ 22:42
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Í nefndu viðtali er margt mjög áhugavert um ástand og bakgrunn mála í Tyrklandi, hvað varðar bæði kristni og islam og veraldarvæðinguna (secularization) frá veldisárum Mustafa Kemals á fyrri hluta 20. aldar; ennfremur um viðhorf Benedikts páfa (einnig meðan hann var kardínáli) og ýmislegt fleira, t.d. um Jóhannes 23., sem í heilan áratug hafði verið ambassador páfaríkisins í Istanbul.

Fleiri greinar um páfaferðina, m.a. með dagskrá hennar, eru á aðalfréttasíðu Zenit.org. Heimsókninni lýkur upp úr hádegi föstudaginn 1. desember.

27.11.06 @ 22:56
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Fjallað var um Tyrklandsför páfa í ‘Speglinum’ á Rás 1 í kvöld, að mestu leyti á nokkuð hlutlausan hátt. Fram kom m.a., að hann mun fara til Efesus, þar sem talið er, að María Guðsmóðir hafi dvalizt undir lok ævi sinnar. Einnig mun hann skoða hið mikla hús Hagia Sophia, ‘Ægisif’, sem múslimir breyttu í mosku eftir hertöku sína á Konstantínopel, en var síðan breytt í safn um 1935. Þar mun bannað að hafa í frammi neinar trúarathafnir eða biðjast fyrir – svo ströng var veraldarstefna Mústafa Kemals Atatürks.

27.11.06 @ 23:51
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þótt Schmid tali þarna um Manúel keisara sem “now infamous", ber naumast að taka það í þeirri merkingu, að hann hafi í reynd verið illa þokkaður eða frægur að endemum á sinni tíð (enda stóð þarna: “now"). Þvert á móti gefur æviágrip hans í Encyclopediu Britannicu ástæðu til að líta á hann sem ekki aðeins merkan og klókan þjóðhöfðingja, heldur lærðan mann og andlegan – og í klaustri endaði hann ævi sína.

28.11.06 @ 15:24
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution free blog software