« Síðan lauk hann upp huga þeirra, að þeir skildu ritningarnar„Brann ekki hjartað í okkur?“ »

19.04.06

  05:33:02, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2420 orð  
Flokkur: Fólksfækkunarvandamálið

Refsivöndur Evrópu? - Hvernig brotthvarfið frá kristindóminum mun leiða til upplausnar

Greinarhöfundar: Ed Vitagliano, Greinin er samin 12. apríl s. l. og er birt með vinsamlegu leyfi AgapePress.

Veit einhver hvar við getum fundið Etrúska? Þið vitið, einhverja sem tilheyrðu hinni fornu menningu Etrúska á Ítalíu til forna sem voru forverar Rómverja?

Jæja, þeir eru víst ekki til lengur. Etrúskarnir runnu saman við rómverska menningu og hættu að vera til sem sjálfstæð menningarheild.

Ef vaxandi fjöldi sérfræðinga og menningarsögufræðinga hafa á réttu að standa, þá er afar líklegt að sömu spurningunni verði varpað fram eftir hundrað ár, en nú einungis hvað áhrærir Ítali, Spánverja eða Rússa.

Eða eins og Mark Steyn orðar þetta með svo dapurlegum hætti í „The New Criterion:“ „Stór hluti þess sem við nefnum hinn Vestræna heim í dag mun ekki lifa þessa öld af og í reynd mun hann hverfa með áþreifanlegum hætti á okkar eigin tímum, meðal annars flest lönd Vesturevrópu.“

Fæðingahrunið
Hvað er það sem getur staðið að baki slíkra hamfara? Önnur heimstyrjöld? Kjarnorkuátök? Eyðingarmáttur farsóttar, eitthvað svipað og gerðist í svartadauða á fjórtándu öld? Nei, engar hörmungar í ætt við slíkt, segja sérfræðingar. Reyndin er sú að Evrópa er smám saman að deyja út með því að neita að eignast nægilega mörg börn til að fylla upp í skörð þeirra sem deyja árlega.

Kaþólski fræðimaðurinn George Weigel, heiðursmeðlimur í „the Ethics and Public Policy Center“ og höfundur „The Cube and the Cathedral“ kemst svo að orði: „Evrópa er að fremja sjálfsmorð með fólksfækkun sinni með því að tæma sjálfa sig af íbúum.“

Til þess að íbúafjöldinn haldist stöðugur verður fæðingarstuðullinn að haldast í 2, 1 fæðingu á konu. Fyrri talan (2) tryggir endurnýjun mæðra og feðra, sú síðari (0, 1) mætir ungbarnadauðanum. Ef frjósemisstuðullinn fer undir þetta lágmark tekur íbúunum að fækka, ef vaxandi fjöldi nýbúa bætir slíkt ekki upp.

„Fæðingahrunið“ er það sem fólksfjöldasérfræðingar nefna hrapandi fjölda fæðinga í iðnvæddum ríkjum,“ segir menningarrýnirinn Chuck Colson: „Um alla Evrópu og Austurasíu er fæðingartíðnin vel undir 2, 1 fæðingum á hverja konu.“

Þjóðfélagsfræðingurinn Ben Wattenberg, höfundur bókarinnar „How the New Demography of Depopulation Will Shape Our Future,“ setur þetta fæðingahrun í sögulegt samhengi: „Aldrei síðustu 650 árin síðan á tímum svartadauðans hefur dregið svo mjög úr fæðingum og frjósemi og það svona mikið og lengi á svona mörgum stöðum.

Samkvæmt tölfræðilegum niðurstöðum Sameinuðu þjóðanna og öðrum rannsóknarniðurstöðum, kemst Patrick Buchanan svo að orði í „The Death of the West“ að um 2050 muni Evrópa (frá Íslandi til Rússlands) sjá íbúafjölda sinn minnka úr 728 milljónum (árið 2000) niður í 600 milljónir, og jafnvel 556 milljónir. Ef áframhaldandi þróunar gætir verða Evrópubúar einungis 207 milljónir við lok aldarinnar.

Hrun fjölskyldugilda
Hvers vegna hefur þetta gerst? Í reynd eru það margir samverkandi þættir og þróun sem skapað hefur þetta „fárviðri.“

Gene Edwards hjá „World magazine“ dregur þetta þannig saman: „Hvers vegna íbúum fer fækkandi? Sökum alheimslegrar gengisfellingar á fjölskyldugildum. Sökum getnaðarvarnatækninnar hefur kynlífið verðið aðskilið frá barnseignum. Sökum kvenna sem stefna að eigin strafsframa og karlmanna sem njóta kynlífs án þess að axla ábyrgð hjónabandsins: Hvers vegna þá börn? Fyrir fjölmargar konur og karla hefur þungun orðið að óþægilegum hliðaráhrifum, eitthvað sem unnt er að koma í veg fyrir með getnaðarvörnum eða með því að skreppa í fóstureyðingu.“

Veiths telur að hér sé fóstureyðingunum einkum um að kenna: „Litla og óhreina „barnið hennar Evu“ felst í fólksfjöldafækkuninni. Eitt af því sem fólksfjöldafræðingar minnast sjaldan á er að heimsbyggðin er að tortíma íbúum framtíðarinnar.“

Lífsverndarhópar í Bandaríkjunum hafa miklar áhyggjur af tíðni fóstureyðinga hér í landi og Veiths segir að einum þriðja til einum fimmta hluta þungana ljúki með fóstureyðingu. Sumar Evrópuþjóðir ganga enn lengra en þetta: „Í Rússlandi gangast konur að meðaltali undir fjórar fóstureyðingar á ævinni,“ segir hann. „Hér er um tvær fóstureyðingar að ræða fyrir hvert fætt barn. Það er að segja Rússar myrða tvo þriðju hluta barna sinna áður en þau fæðast.“

Allt eru þetta einkenni siðblindrar nautnahyggju sem gagntekur Vesturlönd, „fullkomin nautnaheimspeki,“ eftir því sem Allan Carlson, forseti „The Howard Center for Family, Religion and Society“ kemst að orði.

„Alls staðar í Evrópubandalaginu og Bandaríkjunum beinst öll athyglin að matarást, tíðu kynlífi og óbeislaðri skemmtun,“ segir Carlson. „Þeir eru sárafáir hlutfallslega sem leiða hugann að börnum. Frjósamir ungir karlmenn treysta á tæknivæddar gervilausnir og efnafræðina til að fullnægja þörfum náttúrunnar. Á stöðum sem eru jafn ólíkir innbyrðis og Spánn, Ítalía, Danmörk og Þýskaland, er tekið að ástunda kynlífið snemma á unglingsárunum, en slíkt leiðir nánast aldrei til þess að barn fæðist.“

Þrátt fyrir viðleitni sumra Evrópuþjóða til að glæða áhuga fullorðins fólk á því að ala börn, eins og til að mynda með skattaívilnunun eða fjárgreyðslum, þá telja sumir sérfræðingar að fullnæging persónulegra fýsna muni verða ofan á.

Joseph Chamie, forstjóri Mannfjölgunarþróunarstofnunar Sameinuð þjóðanna segir: „Engir fólksfjölgunarfræðingar trúa því að fæðingartíðinin muni rísa. Hvað þarf mikið til svo að unnt sé að sannfæra konu um að eignast fjögur börn? Fólki er umhugað um útlit sitt, menntun og starfsframa.“

Kaldhæðnin felst í því engu að síður að eftirsóknin eftir skemmtunum og ríkidæmi gæti leitt til þjóðfélagshruns.

„Þegar kemur að því að spá um framtíðina, þá er það frjósemisstuðullinn sem er áþreifanlegasta talan,“ segir Steyn. „Ef einungis milljón börn fæðast árið 2006, þá mun reynast erfitt að láta tvær milljónir fullorðinna manna koma inn á vinnumarkaðinn árið 2026.“

Veith minnist einungis á fáar afleiðingar fólksfækkunarinnar: „Þegnarnir eru ekki einungis neytendur heldur einnig framleiðendur,“ segir hann: „Fólksfækkun getur lagt efnahagslífið í rúst sem veldur bæði vinnuaflsskorti og vöntun á kaupendum. Stjórnvöld sem búa við minnkandi íbúafjölda verða að horfast í augu við minni hernaðarumsvif og færri skattgreiðendur. Minnkandi íbúafjöldi hefur ávallt falið í sér menningarlega hnignun samfara skorti á sköpunargáfu og framkvæmdaþrá á öllum sviðum þjóðlífsins.“

Fráfallið frá kristindóminum
Þessar útskýringar hrökkva ekki til að dómi menningarrýnisins og dálkahöfundarins Don Feders sem sér fráfallið frá kristinni arfleifð sem rætur fólksfjöldavandans.

„Það er engin tilviljun að það sem er mest einkennandi fyrir hina nýju Evrópu . . . er að afneita uppruna álfunnar,“ segir Feders sem er í reynd Gyðingur: „Drögin að stjórnarskrá Evrópubandalagsins (skjali upp á 70.000 orð) hafa ekki að geyma eina einustu skírskotun til kristindómsins. Þannig er bókstaflega strikað yfir meira en þúsund ár Evrópskrar sögu.

Fjallað hefur verið ítarlega um fráfallið frá kristindóminum í flestum Evrópulöndum. Þannig bendir rithöfundurinn og dálkahöfundurinn James P. Gannon á að í fimm Evrópulöndum – Frakklandi, Belgíu, Hollandi, Þýskalandi og Ítalíu – hefur reglubundin kirkjusókn minnkað frá því að vera um það bil 40% íbúafjöldans niður í um 20%, Eins og Weigel kemst að orði, þá er Vesturevrópa orðin síðkristið menningarsvæði.“

Feder telur að um beint samband sé að ræða á milli trúleysis og skorts á tilfinningu fyrir ábyrgð gagnvart framtíðinni sem verður þess valdandi að fólk eignist ekki börn: „Eftir að hafa glatað trúnni og tileinkað sér siðfræði róttækrar sjálhverfu hafa Evrópubúar hætt að sækja kirkju og eru hættir að taka Biblíuna alvarlega, Þeir hafa glatað trúnni á framtíðina og eru hættir að eignast börn.“

Maria Burani, forseti þingskipaðrar nefndar um velferð fjölskyldunnar og barnsins í Róm, kemst svo að orði í viðtali við „Citizen Magazine,“ að trúin sé grundvöllur þeirrar lífsafstöðu sem fjölskyldan þarfnast: „Ef þú hefur ekki tileinkað þér trúarlega og siðræna afstöðu hið innra, þá ertu andvígur því að eignast þessa krakka vegna þess að slíkt krefst sjálfsfórnar.“

Auk þess heldur trúarleg afstaða að sjálfsögðu aftur af þeirri eigingirni sem iðulega nærist á róttækri sjálfhverfu sem gagntekur Evrópubúa: „Meðal afleiðinga þess að Evrópa hefur hoggið á trúarlegar rætur sínar og þau siðrænu gildi sem slíku eru samfara er fæðingarhrunið niður fyrir endunrnýjunarmörk.“ segir Gannon: „Fóstureyðingar, getnaðarvarnir, samþykki hjónabanda samkynhneigðra og lauslæti eru sjúkdómseinkennin.“

Evrópa undir Íslam
Engu að síður verður útlitið fyrir Evrópu en dekkra þegar horft er til þess að margar Evrópuþjóðir velja sér varhugaverða braut til að bæta úr fólksfækkuninni: Innflytjendur. Þar sem Norðurafríka og Miðausturlönd bjóða upp á hlutfallslega ódýrt vinnuafl hafa milljónir múslimskra innflytjenda flætt yfir álfuna s. l. hálfa öld.

„Múslimskur íbúafjöldi Vesturevrópu hefur vaxið úr 250,000 fyrir 50 árum í 20 milljónir í dag,“ segir Feder.

Ólíkt Vesturlandabúum eiga Múslimar yfirleitt stórar fjölskyldur. Samkvæmt því sem Robert S. Leiken, forstjóri „the Immigration and National Security Program“ við Nixonmiðstöðina segir, þá hefur meiri frjósemi múslima ásamt búsetuskiptum orðið þess valdandi, að fjöldi Múslima í Evrópu hafi tvöfaldast árið 2025 að dómi „National Intelligence Council.“

Í ljósi þessa segir Colson hreint út: „Samsetning fólksfjöldans gæti komið því til leiðar sem Márunum og Ottómanveldinu auðnast ekki: Að koma Evrópu undir Íslam.“

Hvað um það? Er slík afstaða til múslimskra innflytjanda ekki eins og hvert annað ofstæki?

Tæpast segja áhyggjufullir Vesturevrópubúar. Ef Evrópa félli undir áhrifasvæði Íslam hefði það ótrúlegar breytingar í för með sér fyrir menningu Evrópu: „Á 50 til 100 árun hyrfi Evrópa Shakespears, Victors Hugo, Rembrandts og Bachs. Evrópa þeirra Churchills og Karls Wojtyla hyrfi af sjónarsviðinu og tilheyrði einungis sögubókum og söfnum,“ segir Ferder. „Eða þá að leyfar hinnar kristnu Evrópu eiga sömu örlög í vændum og Búddastytturnar í Afghanistans sem Talíbanastjórnin kom fyrir kattarnef.“

Pólitískar breytingar verða óumflýjanlegar, fullyrðir Steyn: „Getur þjóðfélag orðið Íslamskt í síríkara mæli án þess að stjórnmálalíf þess mótist einnig af Íslömskum árifum?“

Að sjálfsögðu er hér um hreinar getgátur að ræða, en Steyn spáir því að um 2050 verði margar Evrópuþjóðir knúðar til að heimila samfélögum Múslima að innleiða sharía – lög Íslam. Hann vísar til skoðanakönnunar sem gerð var árið 2004 þar sem kom fram að 60% breskra Múslima vilji lifa samkvæmt múslimskum lögum meðan þeir búi í Englandi.

Í upphafi munu flest evrópsk stjórnvöld líklega berjast gegn þessum kröfum sífellt ágengari múslimskra íbúa sinna. En það kæmi ekki á óvart að sjá sífelldan viðgang þess sem nú þegar er tekið að festa rætur: Sprengjuárásir hermdarverkamanna á London og Madrid, morðið á hinum íhaldssama hollenska þingmanni Pim Fortuyn árið 2002 sem barðist fyrir því að dregið yrði úr aðstreymi Múslima, morðið á kvikmyndagerðarmanninum Theo van Gogh árið 2004 fyrir að hafa móðgað Íslam, óeirðir ungra Múslima um allt Frakkland árið 2005 og uppþotið á þessu ári sem svar við myndbirtungunum sem voru taldar móðgandi í garð Múslima.

Steyn telur að Evrópa verði að horfast í augu við vaxandi óróa „og ekki ólíklegt að á næstu tveimur kjörtímabilum Evrópuþingsins muni innri ósamheldni þess birtast með hefðbundnum hætti og að árið 2010 munum við horfa á brennandi byggingar, götuóeirðir og morðtilræði í bandarískum fjölmiðlum á hverju kvöldi.“

Alla vega segir Carlson að „stórveisla vestrænnar nautnahyggju muni ekki endast öllu lengur. Ískalt lögmál sögunnar kemur hér til: Framtíðin tilheyrir hinum frjósömu. Rétt eins og ættarsamfélög barnmargra Germana blésu nautnasjúku og steingeldu Vestrómversku keisaraveldi út í hafsauga, munu barbararnir hefjast til valda.“

Ritningarnar boða að Guð ríki yfir þjóðunum og framtíð Evrópu dregur sífellt meira dám af Ísrael þegar spámennirnir vöruðu við yfirvofandi refsingu og dómi. Stöndum við á þröskuldi þess að refsivöndur Guðs ríði á Evrópu, eftir að heil öld styrjalda og annarra óhæfuverka hrökk ekki til svo að Evrópa snéri sér að nýju að kristindóminum?

Hversu mikil kaldhæðni felst ekki í því að Evrópsk menning sem krafðist ótakmarkaðs persónulegs frelsis endi undir járnhæl alræðisvalds Múslima. Eða þá að sú menning sem hafnaði kristinni arfleifð sinni verði að sætta sig við íslamska bókstafstrú.

Menningarheildir hafa áður horfið af sjónarsviðinu. Spyrjið bara Etrúskana, ef ykkur auðnast að finna einhvern þeirra.

15 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Það er skuggalega rétt hjá þessum Veiths, að “heimsbyggðin er að tortíma íbúum framtíðarinnar.“ Margt er hér fróðlegra upplýsinga, en einnig gott, að talað sé hispurslaust gegn “nautnaheimspekinni“ og henni leyft að standa berstrípuð eins og hún er í sjálfselsku sinni. En fólk vill nú ekki heyra talað illa um þetta. Þeim mun “hissara” verður það, þegar það kemst á endanum að raun um sannleik þessara orða (hér ofar): “Kaldhæðnin felst í því engu að síður að eftirsóknin eftir skemmtunum og ríkidæmi gæti leitt til þjóðfélagshruns,” eins og Ed Vitagliano segir (einhvern tímann komst ég nú í aðra fína grein eftir hann; en þessi er frábær, og hann tekur vel utan um þetta mál með réttri framsetningu í upphafi, ásamt endinum sem kallast hressilega á við það upphaf).

Einn stór kostur greinar þessarar er, hve víðfeðm hún er, kemur inn á marga þætti, t.d. um fráfallið frá kristindóminum, afkristnun fjölskyldna (sem einnig er hafin hér á fullum hraða, með sáralítilli kirkjusókn alla jafna), um innflytjendamálin og vandann við varðveizlu evrópskrar menningar andspænis múslimskri nærveru í framtíðinni (vel að merkja: Mark Steyn þekki ég vel af snörpum greinum hans í The Spectator).

Það er þakkarvert, að þú haldir uppi þessum efnisflokki hér, nafni, og mikilsvert að efla þessa heimildasöfnun enn frekar, unz svo kemur, að leitað verði margsinnis og úr ýmsum áttum til Kirkjunetsins sem eins bezta gagnabanka hérlendis um þessi mál.

19.04.06 @ 22:51
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Jón Rafn, ég var að vísa á þessa mögnuðu síðu þína í innleggi mínu á vefsíðu hjá Hugsjón.com. – Gleðilegt sumar!

20.04.06 @ 02:00
Lárus Viðar

Ég er forvitinn að vita hvort að afstaða Kirkju.nets manna væri önnur ef að fólksfjöldaþróunin, eins og hún er í Evrópu, væri með svipuðum hætti í löndum t.d. múslima. Sjáið þið þetta fyrir ykkur eins og að Evrópa sé að tapa “samkeppninni” við aðrar heimsálfur?

Út frá sjónarmiði umhverfisverndar er það ágætt að mannskepnunni sé að fækka aðeins, því þá dregur úr rányrkju hennar á náttúrunni. Ég er þeirrar skoðunar að fólksfjöldinn á móður Jörð sé fyrir löngu orðinn of mikill. Ég veit að lítið mál er að brauðfæða allan þennan fjölda en það er þá gert með að brjóta villta náttúru undir ræktarlönd, þrengja að búsvæðum dýra sem stuðlar þannig að útdauða þeirra á endanum.

Ég er þeirrar skoðunar að það eigi einnig eftir að draga úr fólksfjölgun í þriðja heiminum áður en langt um líður, með batnandi efnahag og aukinni fræðslu. Kannski er ég of bjartsýnn en maður verður að leyfa sér smá bjartsýni líka. Enginn get sagt með vissu hvernig framtíðin verður.

Hafið það svo gott í sumar.

20.04.06 @ 21:53
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Svar við fyrri spurningu í 1. klausu: Nei. Samt er hættan á islamiseringu Evrópu vegna núverandi ástands í þessari álfu og gerólíks ástands í löndum Islams vitaskuld stórt áhyggjuefni líka: sú stigmögnun vandræðanna í gömlu Evrópu gerir vont mál verra. Ég veit að fyrirspyrjandinn er Vantrúarmaður og vill veg kristninnar sem minnstan, þannig að hann er sennilega að fiska eftir því, hvort afstaða okkar byggist bara á óttanum við Islam. Hún gerir það ekki, og við vitum, að Evrópa stefnir að hægfara sjálfsmorði, efnahagslegum ósigri gagnvart hinum stóru efnahagsveldis-keppinautum í heiminum og upplausn eða pólariseringu eigin menningar með þessu lagi, alveg burtséð frá því, þótt ekki yrði um stórfellda múslima-þjóðflutninga að ræða hingað í álfuna.

Svar við seinni spurningu í 1. klausu: Já. – Ég er hér a.m.k. að svara fyrir sjálfan mig.

20.04.06 @ 22:45
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Framhaldsklausurnar hjá Lárusi Viðari bera það með sér, að hann hefur ekki náð að tileinka sér lærdómana af fólksfækkunarferlinu til neins viðhlítandi gagns. Hann á eftir að læra þetta betur, ef ekki með lestri, þá í reynd.

20.04.06 @ 22:49
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Öllum fólksfjöldasérfræðingum ber saman um að hið æskilega hlutfall frjósemisstuðuls sé 2,1 barn á hverja konu til að tryggja stöðugleika þjóðfélagsins. Íslendingar eru nú í 1,96, Ítalir hins vegar komnir niður í 1,2. Þetta mun þýða að á næstu áratugum muni þeim fækka niður í 38 milljónir.

Vandamálin sem þeir horfast í augu við í þessu sambandi eru hrikaleg. Einungis eitt dæmi. Lífeyrissjóðskerfi þeirra grundvallast á gegnumstreymi, er ekki söfnunarkerfi eins og hjá okkur Íslendingum. Þetta þýðir að innan skamms verða alltof fáar vinnandi hendur til að framfleyta öldruðum og sjúkum.

Þetta er vandamál sem einskorðast ekki einungis við Ítalíu, heldur allflest ríki Vesturevrópu, þannig að þessi ríki neyðast bókstaflega til að flytja inn erlent vinnuafl sér til framfærslu og þar eru múslimarnir nærtækastir.

Ef – sem Brüssellobbyistarnir hyggjast gera –Tyrkjum verði veitt full aðild að Evrópubandlaginu, þá leysist þetta vandamál að sjálfsögðu, en fórnarkostnaðurinn verður sá að Evrópa verður að íslömsku menningarsvæði. En nautnaheimspekin telur þetta vafalaust í stakasta lagi meðan hennar eigin kynslóð bergir á glóandi víni öldurhúsanna og iðkar ófrjósamt kynlífssvall sitt, rétt eins og þegar Rómaveldi leystist upp sökum eigin siðleysis.

Þannig er það ekki nema ráð í tíma tekið, að taka til að við að kenna komandi kynslóð arabísku til undirbúnings. Þannig er um sanna DAUÐAMENNINGU að ræða sem drekkir sér í blóði barna sinna með „barbarískum“ fóstureyðingum og siðblindu. Er það ekki rétt munað hjá mér að einn rómversku keisaranna stóð í ástarsambandi við hest? Eða eins og Friðrik Prússakeisari orðaði þetta: „Eftir því sem ég kynnist mönnunum betur, því vænna þykir mér um hundinn [hestinn] minn.“

21.04.06 @ 07:48
Lárus Viðar

Þetta er dökk framtíðarsýn sem sett er hér fram. Vissulega eiga þau lönd sem búa við gölluð lífeyrissjóðskerfi eftir að lenda í erfiðleikum með fjölgun eldri borgara, og þeir erfiðleikar eru reyndar þegar hafnir sumstaðar, en það er ekkert sem á eftir að kollvarpa samfélögunum. Samfélagið lagar sig að breytingunum með tímanum, það er nauðbeygt til þess.

Það er eitt sem ekki er minnst á í greininni, sem ég tel vera eina stærstu ástæðuna fyrir fólksfækkuninni í Evrópu en það er umhverfismengunin. Það er nokkuð vel staðfest að frjósemi fólks hefur minnkað á síðustu áratugum vegna mengunar. Þessa mengun má rekja til of mikils fólksfjölda, rányrkju á náttúruauðlindum og losun ýmissa úrgangsefna sem rata á endanum inn í fæðukeðjur og vistkerfi náttúrunnar. Þannig er fólksfjöldinn sjálfur hluti af þessu vandamáli.

Offjölgun manna er vandamál dagsins í dag. T.d. á árabilinu 1987-1999 fjölgaði mannkyninu úr fimm milljörðum yfir í sex, einungis á 12 árum. Sameinuðu Þjóðirnar reikna með í síðustu mannfjöldaspá sinni að fólksfjöldinn nái sjö milljörðum fyrir 2015, átta milljörðum fyrir 2030 og um 2050 verði hér á jörð tæplega níu milljarðar manna.(!)

Vandamálin sem þessi offjölgun á eftir að skapa verða illleysanleg. Tryggja þarf öllu þessu fólki fæðu, vatn, atvinnu, húsaskjól o.s.frv. Þar sem fjöldi manna sveltur í dag, hvernig verður þetta þegar að mannfólkinu hefur fjölgað um helming?

Hvernig var það, þreifst ekki ágætis siðmenning um aldamótin 1900 þegar fólksfjöldi jarðarinnar taldi um 1,7 milljarða?

Fyrir mér er fólksfækkun í þéttbýlustu heimsálfunni jákvæð þróun sem er ekki sprottin af siðblindu nútímans heldur frekar efnahagslegum aðstæðum og minnkandi frjósemi vegna mengunar.

Er það ekki rétt munað hjá mér að einn rómversku keisaranna stóð í ástarsambandi við hest?

Það eru sögusagnir um að Caligula keisari hafi átt í slíku sambandi við uppáhaldshest sinn Incitatus, og hafi jafnvel vilja skipa hann í embætti. Margir telja nú að sögusagnir um grimmd og geðbilun Caligula séu orðum auknar og helst skrifaðar í pólitískum tilgangi á sínum tíma.

21.04.06 @ 12:48
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Lárus, vinsamlega gefðu hér upp fullt nafn, það eru reglurnar – nema þú sért af Viðar-ættinni, þá nægir þetta auðvitað! – Svara þér seinna.

21.04.06 @ 12:58
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Af sex þéttbýlustu meðlimalöndum Evrópubandalagsins munu einungis Bretland og Frakkland auka íbúafjölda sinn milli 2005 og 2050, Bretland um 8% og Frakkland 9.6% (að mestu sökum múslima). Í mörgum aðildarríkjanna er fólkfækkuninni mætt með inflytjendum.

Íbúafjöldinn mun aukast afar lítið næstu 20 árin og síðan gæta mikillar fólksfækkunar:

458 milljónir 2005
469.5 milljónir 2025 (+ 2%).

Á sama tíma er áætlað að Bandaríkjamönnum muni fjölga um 25.6% milli 2000 og 2025. Meðal þeirra tíu landa í heiminum sem hafa lægstan frjósemisstuðul eru Tékkland (1.17), Slóvakía (1.2) og Slóvenía (1.22). Ítalía, Spánn, Þýskaland og Pólland hafa frjósemisstuðul 1.3. Meðaltalið í Evrópubandlaginu er 1.48.

Telur þú mengunina vera svona miklu minni í Bandaríkjunum og það útskýri þennan mun? Skyldu það ekki frekar vera fóstureyðingarnar? (stórlega hefur dregið úr fóstureyðingum í Bandaríkjunum).

Fæðingarstuðullinn fer nú aftur hækkandi í Póllandi eftir að réttur til fóstureyðinga var þrengdur til muna. Trúir þú því að mengunin sé að minnka í Póllandi í samanburði við Þýskaland sem hefur náð verulegum árangri í því að draga úr loftmengun með banni á notkun nagladekkja og víðtækum hreinsunum stórfljóta og vatna?

21.04.06 @ 13:52
Lárus Viðar Lárusson

Afsakið mig, ég las ekki reglurnar.

Ég gæti spurt á móti, Jón Rafn, er nautnahyggjan minni í Bandaríkjunum? Fjölgar Bandaríkjamönnum ekki aðallega vegna innflytjanda? Fæðingartíðnin þar er eilítið hærri (2,09) en í Evrópu en það er samt einungis nóg til að halda í horfinu.

Tek það fram að ég sagði ekki að mengunin væri eina orsökin, fleira kemur til. Reyndar eru Bandaríkin geysistórt land og dreifbýlla en V-Evrópa þannig að já, mengunin er líklega minni þar í heildina séð. Í borgunum er samt líklega lítill munur samanborið við evrópskar borgir, hef samt ekkert í höndunum til að styðjast við.

21.04.06 @ 14:21
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Það krefst heimildaöflunar að ganga úr skugga um þetta Lárus svo að rétt sé farið með staðreyndir. Engu að síður er það staðreynd að fóstureyðingum hefur fækkað í Bandaríkjunum úr um 1.8 milljónum í 1.3 milljónir. En aðalatriði málsins felst í því að jafnvægis sé gætt, það er að segja að stuðullinn sé sem næst 2.1.

Mig minnir að Bretar telji að um 25.000 dauðsföll megi rekja árlega til útblástursmengunar frá bílum. Það er hverfandi miðað við fóstreyðingarnar, mig minnir 250.000 árlega. Þú leiðréttir mig ef ég fer með rangt mál.

Hér á Íslandi reikna sérfræðingarnir hins vegar út að 387.6 deyi af völdum reykinga, en hvergi koma fram upplýsingar um fjölda látinna af völdum svifryks og útblásturs, þannig að ég skil þessa tölu ekki alveg.

Alltént telja Svíar að svifryk í Stokkhólmi sé einhver alvarlegasti mengunarþátturinn.

Hvað áhrærir nautnahyggjunna er hún vafalaust ekki minni í BNA. En að einu leyti hefur viðhorf þeirra breyst umtalsvert: Það er til fóstureyðinga. Það má rekja til lífsverndarsinna sem hafa eflst mjóg á s.l. áratug.

Miðað við barbaríska grimmd fóstureyðinga munu þær vafalaust vekja furðu manna að 50 árum liðnum. Hér er um hreina umhverfismengun hugarfarsins að ræða. En þú svaraðir aldrei spurningu minni um það, hvort þú telur mengunina vera svona miklu meiri skaðvald í Þýskalandi en í Póllandi?

Hvað áhræir Ísland er stuðullinn enn í 1.96. Eins og margreynt hefur á er Ísland yfirleitt 10 til 15 árum á eftir meginlandsþjóðunum. Telur þú það jákvæða þróun að frjósemisstuðullinn hér fari niður í meðaltal EU eða 1.48?

Hvað áhrærir nautnahyggjuna (hedonismann) þá er hún neikvæðasta afbrigði athafnaheimspekinnar (pragmatism). Hún er séramerísk heimspekistefna og að mörgu leyti áhugaverð. Í sinni jákvæðu mynd birtist hún meðal annars hjá heimspekingnum John Dewey og bók hans Reconstruction in Philosophy er vel þess virði að menn kynni sér hana. Í henni lagði hann grunninn að hinni nýju menntastefnu Rooswelts á sínum tíma. Dewey var einn af helstu hugmyndafræðingum demókrata í kreppunni miklu.

21.04.06 @ 14:43
Lárus Viðar Lárusson

En þú svaraðir aldrei spurningu minni um það, hvort þú telur mengunina vera svona miklu meiri skaðvald í Þýskalandi en í Póllandi?

Nei það geri ég ekki. Hversu stórar breytingar á títtnefndum fæðingarstuðli Pólverja erum við annars að tala um?

Þýskaland er mun ríkara land heldur en Pólland og tilhneigingin er hjá ríku fólki að eignast færri börn. Annars er margt sem spilar inn í þetta og það er eflaust að hluta til rétt að nútímafólk er upptekið af störfum sínum og hefur ekki tíma til að hlaða niður börnum.

Telur þú það jákvæða þróun að frjósemisstuðullinn hér fari niður í meðaltal EU eða 1.48?

Reyndar hefur Ísland nokkra sérstöðu þar sem það er eitt dreifbýlasta land í heimi og getur því bætt við sig mörgum íbúum. Svarið er því nei.

21.04.06 @ 15:34
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þú verður að viðurkenna, Lárus, að íbúafjöldi Evrópu í dag (að Rússlandi meðtöldu), eða um 730 milljónir er í sæmilegu jafnvægi og æskilegt að halda honum einhvers staðar í kringum þessa tölu.

Hvað varðar Austurlönd fjær gildir hið sama, að íbúajafnvægið verði sem næst viðhaldsmörkum. Þau eiga nú mörg hver við sama vandamál að stríða og Evrópa, líkt og Japan og Suðurkórea.

Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna telja að jörðin geti framfleytt 35-50 milljörðum með sæmilega jöfnum og réttlátum lífsgæðum.

Þannig er ekkert voðalegt við íbúafjölda sem liggur einhvers staðar milli 6 og 9 milljarðar. Raunin er sú að þegar ríki breytast úr bændasamfélögum í iðnríki dregur úr barneignum þar sem foreldrar þurfa ekki lengur á barnamergð að halda til að sjá um sig í ellinni.

En það nær ekki nokkurri átt að heilu álfurnar drekki sér í blóði barbarískra fóstureyðinga, þegar unnt er að halda íbúafjöldanum í jafnvægi. Það er bara að skjóta undan sér lappirnar til framtíðar lítið.

Það er margt gott hægt að læra af því að lesa rit Lao gamla Tze um jafnvægi ríkisheildarinnar og Kiljan heillaðist svo mjög að á sínum tíma. Í reynd erum við að tala um Tao í víðustu merkingu orðsins. Ragnar þýddi ritið beint úr kínversku fyrir nokkrum árum og enn í dag hefur það mikilvægan boðskap að flytja. Mér skilst að forseti Kína hafi fært Bush eintak að riti Shun gamla um hernaðarlist. Ekki veitir þeim af þarna fyrir vestan. Kjarnaboðskapur Shun gamla (6. öld f Kr.) felst í því að sá vinnur stríð sem aldrei berst.

Þetta var það sem Kristur boðaði einnig: „Sá fellur fyrir sverði sem beitir því.“ Í garðinum þegar hann skammaði Pétur.

21.04.06 @ 15:49
Lárus Viðar Lárusson

Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna telja að jörðin geti framfleytt 35-50 milljörðum með sæmilega jöfnum og réttlátum lífsgæðum.

Ég er forvitinn að sjá hvaðan þessar tölur koma, getur þú vísað á þetta einhvers staðar á Netinu?

21.04.06 @ 16:07
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég vitna í þetta eftir minni, því miður. En vafalaust er hægt að grafa þetta upp í skjalasöfnum Sameinuðu þjóðanna á netinu. Ég hef bara ekki tíma til þess sjálfur.

En segjum að íbúafjöldi jarðar nái sæmilegu jafnvægi einhvers staðar innan 10 milljarða markanna, þá er sæmilegt jafnvægi komið á. Þetta er unnt með markvissum aðgerðum án barbarískra fóstureyðinga og að spilla heilsufari kvenna með því að dæla í þær hormónalyfjum.

Ætli einn af þessum græðgisjúklingum hömlulauss kapítalisma – sem ég lít á sem hverja aðra geðveilu – krefjist ekki jafn mikils og 100.000 til 200.000 manns í Indlandi. Það kæmi mér ekki á óvart.

21.04.06 @ 16:25