« Saga opinberra fólksfækkunarmarkmiða stjórnvalda í Bretlandi og BNA og tengsl þeirra við stefnumarkmið stofnana Sameinuðu þjóðanna og alþjóðastofnanaJólapredikun í Stykkishólmi árið 2002 »

06.03.06

  21:10:06, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1801 orð  
Flokkur: Pjetur Hafstein Lárusson

REFSINGIN

Smásaga eftir Pjetur Hafstein Lárusson

- Enn slær hún sín tíu slög, hin dimmhljóma klukka - . Hversu oft skyldi ég ekki hafa handfjatlað þetta umslag, látið það leika milli fingra minna - opnað það? Tekið úr því bréfið, - tveggja arka bréf, haldið því frammi fyrir augunum og getið mér til um orðin, sem þar eru væntanlega skrifuð? Ég hef meira að segja marg oft leitt hugann að skriftinni, sem ég þó aldrei hef séð. Ég get mér þess til að rithöndin sé áferðafalleg. Þó er það hugsanlega ekki á rökum reist frekar en aðrar tilgátur. Innihald þessa bréfs er mér hulið, rétt eins og rithöndin. Ég sting því aftur í umslagið, eins og svo ótal oft áður. Set það svo í vasann. Ég er löngu hættur að gera mér vonir um að geta nokkurn tíma lesið bréfið. Skyldi það vera þess vegna, sem ég meðhöndla það af stakri natni, jafnvel virðingu?

Umhverfis mig er allt svart. Svartamyrkur, - þykkt eins og þéttofin voð. Mér er horfið allt tímaskyn. Tilfinning mín fyrir rými mótast af þessum órjúfanlegu veggjum, sem umlykja mig. Þegar ég vakna, vakna ég myrkrinu. Ljós birtist mér aðeins í draumi. Mig dreymir gjarnan sólargeisla. Þeir varpa birtu á djúpan hyl. Ofan í þennan hyl steypist hár foss, en ekki breiður. Sé þetta mynd úr fortíð minni, þá er hún mér gleymd. Flest er mér gleymt. Og það fáa sem ég man tekst mér ekki að setja í rökrétt samhengi.
Ekki man ég í hvaða erindum ég var þarna. Sennilega hef ég einfaldlega verið á göngu án annars tilgangs en þess að ganga. Mér er heldur ekki ljóst, hvar ég var. Þó minnist ég þess að húsið stóð utan alfaraleiðar. Og ég held að ég hafi átt leið þarna um áður. Þó er það ekki víst. En þennan umrædda dag fann ég umslagið. Það lá ómerkt spölkorn framan við húsið. Ég gat mér þess til að það tilheyrði einhverjum, sem byggi í húsinu. Engin dyrabjalla var við útidyrnar, svo ég bankaði á dyrnar. Sennilega hef ég bankað nokkuð fast, í það minnsta hrökk hurðin af stöfum. Ég ræskti mig og kallaði inn í húsið. Ekkert svar barst.
Rétt innan við dyrnar stóð lítið borð. Mér flaug í hug að réttast væri að leggja umslagið á það og koma mér síðan á brott. En það gerði ég ekki; sennilega hef ég efast um að ómerkt umslag vekti athygli nokkurs manns. Nema þá forvitnin hafi rekið mig áfram. Hvað sem því leið fór ég inn. Ég kallaði aftur og enn kom ekkert svar.
Nei, ég veit ekki hvað rak mig til að ganga um þetta ókunnuga heimili, eins og hver önnur boðflenna. Þetta var snoturt heimili og án alls íburðar. Húsrýmið var ekki mikið. Greinilegt var að þarna bjuggu eldri hjón. Allt heimilið bar vott um fágun og nægjusemi húsráðenda.
Hvernig mátti það vera að mér fannst ég eiga að kannast við þetta heimili, þótt ég þekkti þar ekki nokkurn hlut? Það var líkast því, sem andblær þess væri mér á einhvern hátt ekki framandi. Gömul hughrif leituðu á mig. Gömul hughrif...
Ég er ekki maður þeirrar gerðar, sem fer snuðrandi um annarra manna híbýli. Ég leitaði því að heppilegum stað, til að leggja umslagið á, svo ég gæti sem fyrst yfirgefið húsið. Auðvitað má segja að eldhúsbekkurinn hafi verið nærtækur staður í þessu sambandi. Umslag við hliðina á eldhúsvaski gæti tæpast farið fram hjá nokkrum manni. Og sennilega var litla borðið við útidyrnar þrátt fyrir allt ekki svo óheppilegur staður. Já, það var best að leggja umslagið þar.
Um leið og ég tók í hurðarhúninn, eftir að hafa lagt frá mér umslagið, gerðist það! Það er tæpast að ég hafi mig í að segja frá því, jafn ótrúlegt og það er. Vilja ekki allir að þeim sé trúað? En þetta gerðist nú samt.
Mér hefði ekki þótt það neitt undarlegt, hvað þá heldur yfirnáttúrulegt, þótt hurðarhúnninn hefði staðið á sér. Og það var einmitt það, sem hann gerði. Hann var blýfastur, sama hvernig ég hamaðist á honum. Hitt þótti mér undarlegra að um leið og ég snerti húninn varð almyrkt í húsinu. Ég hélt fyrst að þetta væri af völdum þjófavarnarkerfis, sem ég hefði aldrei heyrt minnst á. Það gat svo sem vel staðist, enda ýmislegt, sem fer fram hjá fáskiptnum mönnum eins og mér.
Fljótlega gafst ég upp á að reyna að opna dyrnar. Þess í stað ákvað ég að smokra mér út um glugga. Ég þreifaði mig áfram í myrkrinu. Vonandi væri auðvelt að opna gluggana. Og vonandi ætti enginn leið fram hjá húsinu þegar ég skriði út. Ég væri illa settur ef lögreglan kæmist í málið. Tilhugsunin var þungbær.
En brátt kom í ljós að ég þurfti ekki að gera mér rellu út af þessu. Ég fikraði mig áfram meðfram öllum veggjum hússins, meira að segja milliveggjunum. Fálmandi höndum fór ég um þá, fullviss þess, að innan andartaks mundu lófar mínir snerta rúðugler eða jafnvel bakdyr ef heppnin væri með mér.
En þetta átti ekki þannig að fara. Það var ekki nóg með að engar bakdyr væri að finna; allir gluggar hússins voru horfnir! Þegar mér varð þetta ljóst, varð ég mjög hræddur. Samt hafði ég fulla stjórn á mér, enda hlyti mér að takast að brjótast út í gegnum dyrnar, þótt ég gæti ekki opnað þær með eðlilegum hætti. En hræðslan varð að skelfingu, þegar mér varð ljóst að dyrnar voru einnig horfnar. Það var engin leið út!
Eftir að hafa staðið um stund þar sem útidyrnar höfðu verið, lamaður af skelfingu og eftir því ráðalaus, fálmaði ég mig um húsið öðru sinni. Ég kom þegar að borðinu, sem ég hafði lagt umslagið á og þótt mér væri auðvitað ljóst að ég gæti ekki lesið innihald þess, stakk ég því í vasann. Ég leitaði ekki lengur útgönguleiðar; vissi sem var að hana var hvergi að finna. Ég komst fljótlega að raun um það, að fyrir utan það að hvergi varð komist út, virtist allt vera óbreytt frá því ég kom inn í húsið. Við það varð mér rórra, hvernig sem á því stóð.
Nei, ég veit ekki hversu lengi ég hef verið lokaður innan veggja þessa húss. Mánuði? Ár? Það er mér hulið. Ég sætti mig einfaldlega við orðinn hlut, enda væsir svo sem ekki um mig. Að vísu sé ég ekkert, en hér er öll þægindi að finna; þægilega stóla, notalegt rúm og annað það, sem ég þarfnast til að mér líði vel. Og þótt undarlegt megi virðast, hef ég enga þörf fyrir mat. Mér nægir kranavatnið. Nei, það væsir ekki um mig.
Jafnan eru þau tíu, þessi dimmhljóma högg Borgundar - hólmsklukkunnar í dagstofunni. Aldrei hef ég trekkt hana upp, enda óþarft, því hún gengur eigi að síður. Þótt ég geti ekki fylgst með tímanum og hafi svo sem ekki sérstakan áhuga á því, úr því sem komið er, er mér ljóst að hún slær ekki með reglubundnu millibili. Stundum er stutt milli þess sem hún slær, stundum langt. En jafnan eru höggin tíu. Fyrst svona mislangt er milli þess að klukkan hljómi liggur í augum uppi, að þessum tíu höggum er ekki ætlað að segja mér hvað þeim tíma líði, sem fólk lifir og hrærist í, enda slær klukkan engum nema mér. Þetta er klukka míns eigin tíma eða tímaleysis, væri ef til vill réttara að segja. Nú rennur hún upp, stundin óþekkta, stundin tímalausa.
Ég dreg myndir á myrkrið. Til að byrja með dró ég eingöngu upp myndir af búslóðinni í húsinu, eins og ég mundi hana, eftir þær fáu mínútur, sem hún blasti við augum mínum. Síðar þreifaði ég á öllu, sem hér er að finna, eins og blindur maður; lærði form þess og stærð, mýkt og hörku. Við það urðu myndirnar nákvæmari. Loks tók ég að mála hugsanir mínar á myrkrið. Þessar myndir eru jafnan ljósleitar, til mótvægis við myrkrið, sem þær eru málaðar á og umlykur mig. Þannig eyði ég vökustundum mínum, meðan draumar bíða þess að ég ferðist um lönd þeirra.
Og svo slær hún, Borgundarhólmsklukkan, sín tíu högg og afmáir þær myndir, sem ég hef málað síðan hún sló síðast. Til að byrja með var mér fremur illa við það. En það átti eftir að breytast og nú er ég feginn að þurfa ekki að safna of mörgum myndum á þetta myrkur. Því enda þótt þetta sé mikið myrkur, kolsvart og órjúfanlegt, þá veit ég að það er aðeins innan veggja þessa húss. Hvað nú, ef gluggarnir skyldu birtast aftur og ljósið flæða inn um þá eins og dansandi glitþræðir? Já, og hvað ef útidyrnar lykjust upp fyrir allri þessari birtu? Væri mér þá frjálst að ganga út, láta sem myrkrið hefði aðeins verið skynvilla eða jafnvel helber misskilningur? Sennilega. En vonir mínar standa ekki lengur til þess að svo fari. Myrkrið hefur veitt mér nýja sýn og ég er þess fullviss að birtan mundi aðeins blinda mig.
Ég dreg enn eina myndina á myrkrið, mála gulan fjarska; tvískiptan gulan fjarska, rofinn rauðri línu. Og ég veit að senn mun hún aftur slá sín tíu slög, hin dimmhljóma klukka.

--

Birtist í bókinni Nóttin og alveran, smásögur 2004. Útgefandi Bókaforlagið Salka.

No feedback yet