« Þjóðaratkvæðagreiðsla um fósturdeyðingar í PortúgalVesturlönd afneita trúarlegum rótum sínum »

27.01.07

  11:29:24, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 371 orð  
Flokkur: Málefni samkynhneigðar á sviði þjóðfélags og kirkju

Ráðstefna um lausn frá samkynja kynlífsháttum

Hér er staddur um þessar mundir Alan Chambers, forseti Exodus International, samtaka fyrrverandi samkynhneigðra manna, sem horfið hafa frá þeirri kynhneigð. Ég var í fyrradag á ágætri samkomu hjá hópi trúaðra manna úr ýmsum söfnuðum í Gúttó í Hafnarfirði, þar sem Alan flutti sitt fyrsta erindi hérlendis (þýtt jafnóðum á íslenzku).

Alan þessi er líklega um eða undir fertugu; hann er nú kvæntur maður, og eiga þau hjónin tvö börn. Hann hefur verið kristinnar trúar frá bernskuárum og sótt sína kirkju reglulega. En í fyrrnefndu erindi sínu lýsti hann því, hvernig hann frá því u.þ.b. á níu ára aldri upplifði tilfinningar til sama kyns, sem ágerðust, unz hann fór um margra ára bil út á braut homosexúels lífernis. En þar kom, að hann eignaðist sína reynslu af þeirri hjálp Guðs sem leiddi hann, þrátt fyrir óyfirunna tilfinningu framan af, til rétts vilja og vals, af þeirri braut sem hann var á.

Alan er maður hógvær og opinn í vitnisburði sínum, ódæmandi, minnist þess sífellt í umfjöllun sinni, að Guð elskar alla menn, og gefur góða innsýn í erfiðleika margra samkynhneigðra við að glíma við tilfinningar sínar, eftir að þeir fara að upplifa að þeir hallist fremur að eigin kyni en hinu. Það er óhætt að hvetja menn til að kynna sér reynslu hans, fræðandi og sanngjarnan málflutning, sem miðast umfram allt við að ná til samkynhneigðra, bera því vitni að Guð elski þá og geti hjálpað þeim frá þeirri hneigð í samkynja kynlíf, sem þeir ráða vart eða ekki við af eigin mætti.

Alan Chambers verður bráðlega í Kastljóss-viðtali, sem þegar hefur verið tekið upp. Hann er með dagleg erindi eða ráðstefnuinnlegg á ferð þeirra hjóna hingað frá fimmtudegi til sunnudags. Hann verður í dag, laugardag, ræðumaður á ráðstefnu um samkynhneigð í Fíladelfíu, frá kl. 10-15.00 (létt máltíð í hádeginu; rádstefnugjald: 1000 kr.). Einnig mun hann tala í Hvítasunnukirkjunni í Keflavík á morgun, sunnudag, kl. 11:00.

4 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þessi ráðstefna í Fíladelfíu var jafnvel enn betri en fundurinn í Hafnarfirði. Alan er stórsnjall og greindur fyrirlesari, afar upplýsandi og fjallaði þarna um miklu víðara svið en í fyrrakvöld, kenndi okkur m.a. góða lexíu um það, hvernig við getum betur nálgazt samkynhneigða á réttan, kristilegan hátt. Hann svaraði einnig fyrirspurnum og gerði það listavel, af sanngirni, dýpt og skilningi og spannaði yfir allt, sem ræða þurfti, og það með meitluðum hætti án orðalenginga. Erindin og umræðurnar voru tekin upp á myndband, sem verður síðan fáanlegt á DVD-diski hjá Fíladelfíu.

Ég vil af þessu tilefni þakka Kristni Ásgrímssyni, skipuleggjanda þessarar heimsóknar, Verði Leví Traustasyni og ónefndum þýðanda Alans alla þeirra góðu vinnu að þessari vel heppnuðu heimsókn.

27.01.07 @ 15:55
Athugasemd from: Grétar Einarsson
Grétar Einarsson

Það hefur án efa verið fróðlegt að hlýða á þetta en á sama tíma sorglegt og dapurlegt. Sköpun GUÐS er ekki umbreytanleg hvað svo sem dauðlegir menn reyna. Því miður hefur mannkynið reynt sitt besta í gegnum tíðina að laga hana að því sem sumum finnst réttara og þóknanlegra á hverjum tíma, út frá eigin skilningi og túlkun og því miður oft á tíðum út frá eigin fordómum og skilningsleysi, jafnvel fávisku. Exodus er dæmi um slika tilraun sem ekki gengur alveg eins og skildi. Það er vonandi að ekki verði framhald á þessari skelfingu!

27.01.07 @ 18:09
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Já, það var vissulega fróðlegt, sorglegt og dapurlegt, en þó mestan part gleðilegt og uppbyggjandi að hlýða á Alan Chambers. Væri betur, ef Grétar hefði verið þar sjálfur, þá hefði hann síður neina sjáanlega ástæðu til að kvarta hér yfir “þessari skelfingu!”

Annars hélt ég að einmitt það nýjasta í læknavísindum væri að bæta menn og laga, svo í útliti sem í sjálfri genasamsetningunni. En kannski er það bara einhver misskilningur í mér.

27.01.07 @ 20:52
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Að gefnu tilefni skal tekið fram, að hér má einungis leggja inn pósta undir fullu nafni, eins og stendur skýrum stöfum í skilmálum innleggja; öðrum póstum verður eytt, sömuleiðis öllum sem fela í sér guðlast og annan síkan ófögnuð.

29.01.07 @ 00:21
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

blog tool