« Nafnið Lasarus þýðir Guð er mín hjálpAð þjóna er að ríkja með Kristi »

15.03.06

  09:20:34, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 917 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Quo vadis – hvert ætlarðu?

Í guðspjalli dagsins stefndi Jesú för sinni til Jerúsalem: „Jesús hélt nú upp til Jerúsalem, og á leiðinni tók hann þá tólf afsíðis og sagði við þá: „Nú förum vér upp til Jerúsalem.“ (Mt 20. 17). Þessi texti guðspjalls dagsins er athyglisverður fyrir margra hluta sakir. Í andlegri merkingu leiðir Jesú okkur fyrir sjónir hvernig við komumst til hinnar himnesku Jerúsalem, borgar Guðs á himnum. Það gerum við einungis í leyndardómi krossins og af fyllstu auðmýkt, annars missum við marks, förum villu vegar.

Í gamla daga meðan skipin voru ekki eins fullkomin og í dag og seinni í förum var stefnan tekin í hásuður út af Reykjanestánni og siglt sem svarar 500 sjómílum. Þá var komið í lygnan sjó, eða eins og kallarnir sögðu okkur strákunum: „Þar er hægt að róa á baðkari allan ársins hring!“ Eftir það var svo stefnan tekin til þeirrar heimsálfu sem takmark ferðarinnar miðaðist við hverju sinni.

Skipstjórinn „plottaði“ stefnuna út á sjókortið og eftir útreikningum hans var síðan siglt. Þegar veðrið var gott var sólarhæðin tekin í hádeginu með sextantinum. Þetta gerðu skipstjórinn og fyrsti stýrimaðurinn. Þetta var hálfgildings helgistund um borð og allir sem voru á vakt urðu hljóðir meðan á þessu stóð. Stýrimaðurinn stóð með skeiðklukkuna og skipstjórinn með sextantinn. Skyndilega hrópaði stýrimaðurinn „nú,“ og skipstjórinn las sólarhornið af sextantinum. Síðan hvarf hann ábúðarmikill inn í kortaklefann og reiknaði. Síðan kom hann fram og sagði við þann hásetann sem stóð á stýrinu: „Ætli sé ekki best að skjótonum eins og fimm strik á bakborð!“ Svona gekk þetta dag eftir dag uns komið var til hafnar.

Þannig sigldu sjómenn áður fyrr um öll heimsins höf áfallalaust án þess að villast til sinna Jerúsalemborga. Jafnvel við strákarnir vorum látnir standa stýrisvaktina. Við vorum tveir, rétt rúmlega sextán ára gamlir. Það var skemmtilegast að „standa á róðanum“ í óveðri. Þá leið okkur eins og meðlimum í Fjallaklúbbnum 4 x 4. Annað hvort var skipið statt upp á risaháum fjallatoppum eða niður í djúpum dölum. Í dag viðurkenni ég að við vorum dálítið „baldnir.“ Við vissum upp á hár hvenær kokkurinn fór að undirbúa hádegismatinn. Þá gerðum við það stundum – ekki oft – að skásneiða dallinum upp einhvern öldufaldinn og beygja aðeins í stjór á hárréttu augnabliki. Þá kom skrúfan upp úr sjó og skipið skalf stafnanna á milli eins og eiturlyfjasjúklingur í fráhvarfseinkennum. Síðan heyrðum við kokkinn þruma trilltri röddu ofan úr djúpinu: „Hvaða . . . . . . fífl er á róðanum núna!“ Á slíkum stundum var gott til þess að hugsa að það var hæfilega langt á milli, annars hefði hann gengið frá okkur í eitt skiptið fyrir öll.

Sumir kjósa að sigla glæstu lífsfleyi sínu án þess að virða neinar leikreglur, það sem ég á við er að siglingafræðingurinn mikli – Guð – hefur markað okkur ákveðna stefnu. Þeir taka aldrei sólarhæðina til að leiðrétta stefnuna. Fyrr eða síðar steytir skip þeirra á skeri við ókunna strönd. Þegar skip þeirra skelfur stafnanna á milli í ólgusjó lífsins gefa þeir engan gaum að ópum kokksins – samviskunnar!

Við skulum að lokum hlusta á það hvernig Ágústínus kirkjufaðir hugleiddi þetta guðspjall dagsins fyrir 1700 árum síðan. Ef til vill mun einhver draga lærdóm af því:

„Nú förum vér upp til Jerúsalem. „Það er til ónýtis fyrir yður, þér sem snemma rísið upp“ (Sl 127. 2). Hvað felst í þessum orðum? . . . Kristur, dagur okkar, er risinn. Það er okkur hollt að rísa upp á eftir Kristi, en ekki á undan honum. Hverjir eru það sem rísa upp á undan Kristi? . . . Þeir sem vilja rísa upp hérna niðri þar sem hann lifði í auðmýkt. Þannig geta þeir lært auðmýkt í heiminum, ef þeir vilja rísa upp þar sem Kristur rís upp. Hann sagði nefnilega við þá sem trúa á hann og við erum þeirra á meðal: „Faðir, ég vil að þeir, sem þú gafst mér, séu hjá mér, þar sem ég er“ (Jh 17. 24). Undursamleg gjöf, mikil náð, dýrlegt fyrirheit . . . Vilt þú verða þar sem hann rís upp? Veru þá auðmjúkur þar sem hann var auðmjúkur.

„Ekki er lærisveinninn meistaranum fremri“ (Mt 10. 24) . . . Engu að síður höfðu synir Sebedeusar valið sér stað áður en þeir gengu í gengum auðmýkingu písla Drottins, annar til hægri handar honum og hinn til vinstri. Þeir vildu „rísa snemma upp.“ Drottinn kallaði þá til sín og spurðu þá: „Getið þið drukkið af þeim kaleik sem ég mun drekka af?“ Ég kom til að lifa í auðmýkt og þið viljið rísa upp á undan mér? Fylgið mér að þeirri braut sem ég mun ganga. Ef þið viljið ekki ganga þessa braut, er allt til einskis.“

Sæl megum við vera sem lifum í svo „forneskjulegri hirðingjahugsun“ og fávisku. [1]

[1]. Sjá svar Svavars Knúts Kristinssonar heimspekings við skrifum Jóns Vals Jenssonar: „Vegna Viðhorfsgreinar í Mbl. um mál samkynhneigðra.“

No feedback yet