« Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 10Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 8 »

23.09.07

  14:23:02, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 5596 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 9

HELGISIÐAHRINGUR PRESTKONUNGSINS ENOKS: BOÐSKAPUR IÐRUNAR, FYRIRGEFNINGAR OG LOFGJÖRÐAR

Í riti sínu „Traditionwanderungen: Euphrat-Rhein“ lýsir sænski samanburðartrúfræðingurinn Waldemar Liungmann því hvernig mannfórnir þróuðust með svo nefndri Amratíamenningu í Fornegyptalandi þegar hún tók að leggja stund á jarðrækt um það bil 5000 f. Kr. Fórnardýrið var vafið inn í sefhólk og síðan var höfuðið skorið af. Líkaminn var síðan limaður í sundur, kynfærunum varpað í vatn en líkamspartarnir grafnir í akurlendið. Fórn þessi fór fram í lok uppskerutímans í miðjum maímánuði, en vatn Nílar tók aftur að rísa þann 17. júní.

Til þessa telja menn að rekja megi goðsögnina um Ósirís sem var limaður í sundur í fjórtán (eða sextán) hluta. Síðan gekk gyðjan Ísis um og safnaði líkamsleyfunum saman, en auðnaðist ekki að finna kynfærin. Þannig gengu karlmennirnir niður á fljótsbakkann og grétu hinn týnda guð. Í byrjun ágústmánaðar voru stíflur Nílar rofnar sem táknaði jafnframt að gyðjan varð vanfær og ól barn vegna þess að sjálft fljótið var sæði Ósirísar.Það var síðan guðinn Thoth sem raðaði líkamshlutum guðsins aftur saman og þar með var Ósirís endurfæddur. Plæging ásamt helgisiðum fór svo fram í byrjun nóvembermánaðar og þegar kornið tók að spíra mátti sjá, að Ósirís var svo sannarlega endurborinn. Þannig gekk lífið fyrir sig til samræmis við háttbundin flóð Nílar og göngu tunglsins í aldanna rás, eða allt til um það bil 3300 f. Kr. Það er þá sem þessi samfélög nýsteinaldarmanna tóku að stíga risaskref fram á við eins og vikið hefur verið að hér að framan.

Tré lífsins báru prestkonungar Adamskynslóðarinnar með sér úr Gan Eden – Paradísargarðinum. Í egypskum goðsögnum birtist tré lífsins í mynd pálma [1] og í ritmáli með Bennufuglinum – fuglinum Fönix – tákni Her ur og lífsandans og tákni tímans: sphinxinum. Nafn faraós á egypsku er „pa-rao eða hið mikla hús og pa-Hannok (Enok) hljómaði sem „fionok“ í egypskum eyrum og þaðan er nafn Fönixfuglsins komið ásamt því að kalla helgisiðahring Enoks föníska helgihringinn.(Mynd 9.1)

Pálmagreinar urðu að óaðskiljanlegum hluta kristinnar arfleifðar síðarmeir og skírskota til upprisu og ódauðleika. Pálmagreinarnar á pálmasunnudag vísa til upprisu Krists eftir skelfingar krossdauðans og enn í dag leggja Frakkar slíkar greinar á leiði látinna ástvina á pálmasunnudag. Jafn undarlega og það kann að hljóma, þá þýðir orðið „foinok “ jafnframt pálmatré á Fornegypsku og sú hieroroglýfa sem bar mynd pálma þýddi jafnframt tími eða tímatalsútreikningar. Allt fór þetta saman við fuglinn Fönix, fuglsins sem í fyllingu tímans gerði sér hreiður og brenndi sig lifandi. Að þessu loknu reis hann upp úr öskunni, tók hreiður sitt í gogg sér og flaug til Heliopolis (Sólarborgarinnar) og bar hreiðrið fram sem fórn á altari sólarinnar. Heliopolis var örskammt frá Pýramídanum mikla í Gíza, miðju Egyptalands.

Samspil pálmans, fuglsins Fönix og sólarinnar er ekki síður athyglisverð og leiðir okkur fyrir sjónir hinn súmerska uppruna. Hér er hið súmerska kiskanutré á ferð (Mynd 9.2) eða tré lífsins í sköpunarsögunni:

Í Eridu grær skínandi kiskanutré sem gert var á helgum stað. Það ljómar eins og skínandi lapis-lazuli og teygir greinar sínar upp til apsu. Hér er það sem Ea gengur um í hinni auðugu Eridu. Staður sá sem það stendur á er hvíldarstaður Ba’u.

Í umfjöllun sinni um þetta textabrot kemst Mircea Eliade svo að orði: „Kiskanutréð ber öll einkenni alheimstrésins: Það er í Eridu, sem er „heimsmiðja,“ á helgum stað, það er að segja í miðju alls veruleika. Það líkist lapis-lazuli í ljóma sínum sem er umfram allt alheimstákn (stjörnuhiminn). Það teygir sig út yfir hafið sem umlykur heiminn og er grundvöllur hans. Það er bústaður guðs frjósemi og allrar siðmenningar (lista, landbúnaðar, ritlistar og þess háttar) og það er sá staður þar sem Ba’u móðir Ea hvílir, gyðja gnægta, hjarða og ræktunar. [2]

Þessi texti er afar athyglisverður fyrir margra hluta sakir. Eridu er talin elsta borg Súmer og stofnuð um 4000 f. Kr. Samkvæmt súmerskum goðsögnum var það guðinn Enki sem byggði borgina. Fylgigyðja hans var Ninhursag sem þokaði B’au til hliðar. Ba’u var hin hin upprunalega móðurgyðja (Eva) sem hvarf í skuggann fyrir Enlil og gyðjunni Ninhursag sem Súmerar nefndu „frú rifbeinsins“ eða „móður alls lífs.“

Við erum hér komin í beina snertingu við arfleifð afkomenda þeirra Adams og Evu Biblíunnar og Eridu er ætlað að vera eftirmynd Gan Eden, Paradísargarðsins, og það er Enki sem leysir Adam hér af hólmi. Það er með einstæðum hætti sem þessi forni texti skírskotar til skilningstrés góðs og ills Sköpunarsögunnar. Skyldleikinn kemur enn betur í ljós á fornri mynd ættaðri frá Súsa í Súmer þar sem sjá má höggorm sem bragðar á ávöxtum trésins. Menningarfræðingurinn Toscane telur þennan höggorm verða hina babýlonsku fyrirmynd höggorms sköpunarsögu Biblíunnar, [3] með sama hætti og aðrir fræðimenn telja Ósirísdýrkun Fornegypta beina fyrirmynd guðspjalla Nýja testamentisins eins og vikið var að hér að framan. Hér er öllu á „öfugan haus snúið“ vegna þess að menn hafa glatað sjónum á boðskapi Adamskynslóðar prestkonunganna í myndhverfingum sem mesti spámaður hennar, Enok, boðaði fyrir rúmum 6000 árum: „Bölvun sé yfir þeim sem umsnúa orðum réttlætisins og brjóta gegn hinum eilífu lögum (me).“ [4]

Tengsl Fönixfuglsins trésins og sólarinnar eru einnig mikilvægt tákn til leiðsagnar.
Þegar samanburðartrúfræðin var að taka sín fyrstu skref á nítjándu öld gengu menn út frá því sem vísu að sóldýrkun væri útbreidd meðal allra kynkvísla jarðar. En árið 1870 komst Bastian að því að hún var staðbundin. Hálfri öld síðar komst James Frazer að sömu niðurstöðu þegar hann kannaði ítarlega ummerki sóldýrkunar í Afríku, Ástralíu og Eyjaálfu. Í raun og veru finnast hvergi áþreifanleg ummerki um sóldýrkun sem ríkjandi þátt menningar nema í þróuðum samfélögum, eins og Mesópótamíu, Egyptalandi og Kína og og hún er samofin konungsvaldinu. Elstu ummerki um hana virðast einskorðast við Miðasíu og síðar Evrópu og berast þaðan út til staða þar sem hún nær að festa rætur. Fjölmargar kenningar hafa verið lagðar fram til að reyna að varpa ljósi á þessa staðreynd, eða með orðum Mircea Eliade:

Það má taka svo til orða, að þar sem „sagan er í gerjun“ og rekja megi til konunga, kappa eða ríkisvalds, að þar sé sólin ríkjandi þáttur. . . Sumir höfundar hafa jafnvel talað um „Börn sólarinnar“ sem útbreiddu bæði sóldýrkunina og menninguna í mannkynssögunni með sífelldum þjóðflutningum. [5]

Elstu heimildir sem eru frá því um 3000 f. Kr. frá borgríkinu Telloh [6] leiða í ljós að þá er hið eldra sólarár enn við líði í Súmer og því er það haustjafndægur sem markar upphaf nýársins. Nýárið var tengt gyðjunni Ba’u og nefnt Ba’umánuður. Vitað er að Súmerar héldu nýárshátíð á tímum prestkonungsins Gúdea um 2600 f. Kr. Það er einmitt á svipuðum tíma sem vorjafndægur tekur að ryðja sér til rúms sem upphaf nýársins, regla sem Babýloníumenn og Assýringar tóku síðan upp. Elstu heimildir um slíkar nýárshátíðir Babýloníumanna sem varðveist hafa eru frá því á 6. öld f. Kr., en ganga má út frá því að þær hafi haldist óbreyttar að mestu frá fornu fari. Þær hófust með því að prestarnir hreinsuðu hof Mardúks. Athyglisverðasti hluti þeirra fólst í því sem nefna má „niðurlægingu“ konungsins. Æðsti prestur Mardúks svipti konung öllum veldistáknum hans, hringi, veldissprota og kórónu, fyrir framan hofið sem hann bar síðan fram fyrir Mardúk. Þegar hann snéri til baka laust presturinn konunginn á vangann og leiddi hann síðan inn í musterið fram fyrir Mardúk þar sem hann varð að krjúpa niður og játa misgjörðir sínar. Eftir að konungurinn hafði þannig viðurkennt sekt sína, þá afhenti æðsti presturinn honum aftur veldistákn hans og greiddi honum annað högg á vangann. Ef konungur sýndi iðrunarmerki og felldi tár boðaði það að góðir tímar færu í hönd á nýju ári.

Annað þáttur Nýárshátíðar Babýloníumanna fólst í því að lesa upphátt „Enuma Elis,“ sköpunarsöguna. Þetta var óaðskiljanlegur hluti endursköpunar þar sem allt snérist um „leirtöflu örlaganna.” Það er þessi tafla sem hetjan Mardúk hrifsar úr höndum Kingu, sonar Tiamat, ófreskju upplausnar og eyðingar. Sjálft lífstréð var óaðskiljanlegur þáttur þessa helgileiks. Á babýlonsku innsigli frá því um 2200 f. Kr., svo nefndu Addainnsigli, má sjá í hnotskurn hvað felst að baki þessara helgisiða. Þar má sjá sólguðinn Shamash rísa upp á meðal fjalla á miðri myndinni. Honum til vinstri handar má sjá tré lífsins og gyðjuna Isthar, en til hægri Ea (Enki) og lengst til hægri gyðjuna Ba’u. Fjöllin sem eru þríhyrningslaga eru vafalaust arfur frá Súmer. Súmerska myndtáknið fyrir jörð (ki) var þríhyrningur og innan hans dregin þrjú strik.

Á enn öðru innsigli má sjá konunginn standa frammi fyrir tré sem skreytt er böndum og að því er virðist eggjum. Hér er bersýnilega ekki um lifandi tré að ræða heldur tákn lífstrésins – heimsöxulsins. Þegar helgileikur sköpunarinnar er endurtekinn gengur samfélagið inn í helgitíma nýrrar sköpunar og við sjáum að fjórar goðverur með vængi taka þátt í einhverri athöfn ásamt konunginum. Þetta eru goðverurnar fjórar sem vaka yfir velferð hinna fjögurra heimsfjórðunga. Þær eru einnig arfur frá Súmerum og tákn sköpunarmáttar höfuðguðanna fjögurra: An, Enlil, Enki og Ninhursag eða hinna fjögurra erkiengla Enoks spámanns.

Það er þessi arfleifð sem prestkonungar Adamskynslóðarinnar báru með sér til Fornegyptalands ásamt helgisiðahring sínum. Í grein 7 var vikið að því að fyglggjendur Hórusar hafi verið nefndir „shemsu-Heru.“ Á ævafornu innsigli frá Súmer sjáum við að guðinn Enki heldur einmitt á fálka. (Mynd 9. 3).

Síðar munum við sjá að Heliopolis (Sólarborgin) var miðja Egyptalands, tákn sjálfrar heimsmiðjunnar með sama hætti og Eridu í Súmer. Við sjáum bókstaflega hvernig prestkonungar Adamskynslóðarinnar afnema hinar blóðugu fórnarathafnir Ósirísdýrkunarinnar og innleiðir í stað þeirra „vorhátíð trés lífsins,” siðvenju sem átti eftir að varðveitast um ókomnar aldir í Evrópu allt fram á daginn í dag. Þetta er hátíð maístangarinnar og maískrúðgangnanna. Þannig er vorkomu enn í dag fagnað víða með því að bera maístöngina í skrúðgöngu sem endar venjulega í dans og gleði umhverfis stöngina. Á sumum stöðum tíðkast það enn að brenna maístöng fyrra árs. Rétt eins og fuglinn Fönix rís hið nýja ár upp úr öskunni í mætti endurnýjunar.

Pálminn, tákn helgihrings tímans, var þannig borinn í skrúðgöngum í þorpum Fornegyptalands að lokinni uppskeru og hið liðna ár brennt upp í mynd trés hins liðna árs. Það er hið nýja tré lífsins sem veitir jörðinni nýtt líf til endurnýjunar alls jarðargróða. En jafnframt þessu er tréð og fuglinn Fönix órjúfanlega samofin sjálfu konungsvaldinu. Fuglinn Fönix – tákn lífsandans – blæs þannig nýjum lífsanda í allt samfélag manna. Við rekumst á þennan leyndardóm lífsandans löngu síðar í frásögn Gamla testamentisins af Esekíel spámanni þegar hann sér dal fullan dauðra manna beinum:

Svo segir Drottinn Guð: Kom þú, lífsandi, úr áttunum fjórum og anda á þennan val, að þeir megi lifna við“ (Esk 37. 9).

Samfélagið fær ekki þrifist nema það nærist og styrkist á lífsanda Guðs og því verður að leiða faraó með reglubundnum hætti fram fyrir tákn nærveru Guðs í musterinu – ben-ben steininn – og endurnýja vald hans. Þetta má sjá berlega á Fornegypskri mynd þar sem faraó stendur frammi fyrir Bennufuglinum sem ber veldistákn hinna sameinuðu egypsku ríkja. Hér er greinilega um hluta Sep-ted-sed-hátíðarinnar að ræða. Ummerki um þessa siðvenju finnast þegar hjá fyrstu konungsættum Fornegypta. Sá siður tíðkaðist að ríkjandi faraó tilnefndi eftirmann sinn og meðstjórnanda á þessari hátíð en tilgangur hennar var fyrst og fremst sá að viðhalda konungsvaldinu bæði í veraldlegri og andlegri merkingu. Faraó var staðgengill Guðs á jörðu og öðlaðist þannig hlutdeild í hinum guðdómlega mætti. Þannig var þessi hátíð einnig nefnd Hátíð endurnýjunarinnar.

Ef faraó féll frá í millitíðinni var þannig tryggt að vald hans viðhéldist í eftirmanni hans. Ef um engan eftirmann var að ræða var því trúað að vald hans gengi til næstu konungsættar. Myndin greinir okkur einmitt frá slíku andartaki í lífi faraós og það sem er hvað athyglisverðast við myndina eru þær fórnargjafir sem faraó ber fram fyrir táknmynd nærveru guðs, fuglinn Fönix. Hér að framan sáum við hvernig lífstré Babýloníumanna var skreytt eggjum. Mircea Eliade kemst svo að orði um þetta hlutverk eggsins:

Á fjölmörgum stöðum er eggið tengt táknum og ummerkjum endurnýjunar náttúrunnar og jurtaríkinu. Nýárstrén, maístangirnar og tré hl. Jóhannesar eru skreytt með eggjum eða eggjaskurn. Við vitum að öll þessi tákn jurtaríkisins og hins nýa árs fela svo að segja í sér goðsögn árstíðabundinnar endurnýjunar. Sjálft tréð er tákn náttúrunnar og hinnar sífelldu endurnýjunar hennar, og þegar eggið bætist við, þá staðfestir það enn frekar hina heimsfræðilegu (cosmogonic) merkingu. Af þessum ástæðum gegnir það svo veigamiklu hlutverki í Austurlöndum í öllum nýárshátíðahöldum . . . . Og þau rauðu egg sem enn í dag eru gefin um páska í Balkanlöndunum eru líklegast minjar svipaðra siðvenja sem tengst hafa vorkomunni. [7]

Ekki þarf að fjölyrða þann sið sem tengist páskum í hinum kristna heimi enn í dag, að gefa páskaegg. Þau eru þannig upprisutákn sem skírskota til Konungs alls lífs. Þetta egg átti síðar eftir að gegna stóru hlutverk í hinni prestlegu goðfræði fjölgyðistrúarinnar í Egyptalandi. Hæð spratt þannig upp af líkama gyðjunnar Nut sem var persónugerfingur frumhafsins mikla, „vatnsins í sinni fullkomnu mynd sem varðveitti sæði sköpunarinnar með huldum hætti“ [8] og á þessari sömu hæð var eggi verpt og úr því kom goðið Khnum sem kom skipulagi á upplausn óreiðunnar með því að gefa hinu skapaða líf. Í Heliopolis var sú trú boðuð, að sjálft frumeggið væri ekkert annað en sjálfur Qerehet sem var „verndari lífsorku mannanna,“ og samkvæmt annarri goðsögn birtist eggið sem frumlótusblómið sem laukst upp í óshólmum Nílar og ól af sér sólina.

Við sjáum faraó þannig leggja þessi egg fram fyrir tákn guðdómsnærverunnar. Þetta varpar einnig ljósi á þann sið sem síðar tengdist Ósirísdýrkun Fornegypta og ded-trénu: Að hnoða kúlur og hengja á tréð. En uppruni þessa síðar leynir sér ekki. Hann berst til Egyptalands frá Súmer. Ef að líkum lætur hefur vesír eða æðsti prestur sólguðsins lostið faraó á vangann áður en hann gekk inn í musterið líkt og tíðkaðist meðal Babýloníumanna til að minna hann á þá staðreynd, að hann þægi vald sitt úr hendi guðdómsins og yrði að ganga fullur auðmýktar fram fyrir hinn almáttka.

Það er einmitt skortur á þessari auðmýkt sem endurómar í spádómsorðum Esekíels þegar Drottinn ber ásakanir fram á hendur faraó og líkir honum við tré:

Sedrustrén jöfnuðust ekki á við hann í aldingarði Guðs. . . Ég hafði prýtt hann með fjölda af greinum, og öll Edentré, sem voru í aldingarði Guðs, öfunduðu hann. . . Af því að hann varð hávaxinn og teygði topplimið upp í skýin og ofmetnaðist í hjarta af hæð sinni, þá seldi ég hann í hendur afarmenna meðal þjóðanna“ (Esk 31. 8-12).

Það var þannig auðmýkt sem faraó bar að sýna frammi fyrir tákni lífsandans – Fönixfuglinum – að öðrum kosti stefndi hann öllu samfélaginu í voða. Hér erum við komin að kjarna og grundvelli samfélagsgerðar Adamskynslóðarinnar. Í Babýlon var tré lífsins tákn endurnýjunar konungsdæmisins sem konungur hafði þegið og eftir að vald hans hafði verið endurnýjað lauk nýárshátíðinni með tveggja daga tímabili dans og gleði.

Hið forna hugtak Egypta „ka“ var þannig tákn lífsandans og orku hans sem birtist bæði með persónubundnum og samfélagslegum hætti. André Virel hefur skilgreint „ka“ bæði sem

„þann hluta alheimsorkunnar sem persónuleikinn öðlast hlutdeild í“ og hið samfélagslega ka sem „alheimslegan sköpunarmátt sem er sívirkur.” [9]

Serge Sauneron er sama sinnis:

Ka var í raun og veru birting lífsorkunnar bæði sem skapandi máttar og til viðhalds öllu lífi. Þannig gat ka bæði verið hinn guðdómlegi sköpunarkraftur og máttur til að viðhalda hinu efnisgerða maa, alheimstilhöguninni. Ka fólst í vissum skilningi í viðtöku lífsorkunnar sem var uppspretta alls lífs og viðhélt öllu lífi. [10]

Með fyllri þekkingu á opinberun hins eina og sanna Guðs á vettvangi mannkynssögunnar nefnum við þennan lífskraft náð Heilags Anda og það er auðmýktin sem er sá konungsvegur sem glæðir hana. Í dag nefna kristnir menn áhrif hennar dyggðir sem eru í samhljóðan við þær dyggðir sem vógu til jafns við fjöðrina á lífsvog Her-ur í hinum æðsta dómi meðal Fornegypta eins og vikið var að hér að framan.

Þetta var hlutverk helgisiðahrings Enoks prestkonungs og þannig var líf samfélagsins stöðugt endurnýjað og lífi blásið í maa, hið guðdómlega réttlæti. Þegar himinninn birtist á jörðu – hinn súmerski leyndardómur dur.an.ki (hmininn bynst jörðu) í mætti lofgjörðarinnar lýsti þetta sér í heilagri reitaskiptingu lands til samræmis við hið guðdómlega me eða maa (Mynd 9. 5).

Í grein 2 hér að framan var vikið að „usheptis“ (hinum heilögu), ævafornri sálmaarfleifð Fornegypta þar sem hverjum degi ársins var ætlaður einn sálmur sem grundvallaðist á sólarári helgisiðahringsins. Tónskáldið Jim Berenholtz hefur kynnt sér hana sérstaklega með hliðsjón af fornum heimildum og gefið út tvo geisladiska með slíkum sálmum sem hann hefur útsett og flutt ásamt öðrum hljómlistamönnum. [11] Þetta eru lofgjörðarsálmar til þess Guðs sem skapaði sólina. Við sjáum þessa sömu arfleifð endurspeglast hjá hl. Frans frá Assisí fjölmörgum öldum síðar í lofgjörð hans um sköpunarverkið, lofgjörðarsálminum „Laudes Creaturarum“ sem margir kalla sólarsálminn:

Drottinn, við lofum þig fyrir alla sköpun þína,
einkum fyrir bróðir röðul,
daginn þegar þú gefur okkur ljós.
Hann er fagur og ljómar í mikilli dýrð
þíns hins Hæsta; hann ber ímynd þína.

Og í Divina Commedia (hinum guðdómlega gleðileik) kemst Dante svo að orði:

Og líkt og mæta allir punktar einum,
við öxul geisla hjóls á vegi förnum,
svo lukti um mig sú ást, er böndum hreinum
heldur á sól og jörð og öllum stjörnum. [12]

Í sólarsálmi Athenatons faraós sem hlíða má á í flutningi Jim Berenholtz sem fluttur er á fornegypsku má sjá sömu afstöðuna til sólarinnar sem ber ímynd hins Hæsta:

Þegar þú sest á vestra
hveli himinhvolfsins,
er heimurinn hulinn myrki eins og dánarheimar . . .
Öll ljónin koma úr bælum sínum,
sporðdrekarnir stinga. Myrkrið ríkir.
Bjartur er dagurinn þegar þú ríst við sjóndeildarhring.
Löndin tvö halda daglega hátíð,
vakna og rísa á fætur,
og allir íbúar jarðar taka til starfa.

Hversu fjölþætt eru ekki verk þín!
Þau eru okkur hulin.
Ó þú Guð sólarinnar,
sem býrð yfir mætti sem enginn annar.
Þú skapaðir jörðina
samkvæmt þrá þinni í einsemd;
manninn, alla nautgripina, stórt og smátt;
allt sem er á jörðinni.

Berið þetta saman við 104 Davíðssálminn:

Þú gjörðir tunglið til þess að ákvarða tíðirnar,
sólin veit, hvar hún á að ganga til viðar.
Þegar þú gjörir myrkur, verður nótt,
og þá fara öll skógardýrin á kreik.
Ljónin öskra eftir bráð
og heimta æti sitt af Guði.
Þegar sól rennur upp, draga þau sig í hlé
og leggjast fyrir í fylgsnum sínum,
en þá fer maðurinn út til starfa sinna,
til vinnu sinnar fram á kveld.
Hversu mörg eru verk þín, Drottinn,
þú gjörðir þau öll með speki,
jörðin er full af því, er þú hefir skapað.
Þar er hafið, mikið og vítt á alla vegu,
þar er óteljandi grúi,
smá dýr og stór (Sl 104. 19-25).

Finnum við einhver ummerki um þessa arfleifð í Súmer. Vissulega. Súmerar áttu nokkur hljóðfæri sem kölluð eru guilim, lilis, ub, mesi og ala og talin voru hluti me. Þau hafa gegnt veigamiklu hlutverki við flutning lofgjöðrarsálmanna meðal prestkonunganna. Á árunum milli 1920 og 1930 rannsakaði sameiginlegur leiðangur háskólanna í Pennsylvaniu og Chicago fjölda leirtaflna sem fundust í Ekur, musteri Enlils í Nippur. (Mynd 9. 4) Þar mátti sjá hvernig hvert musterið eftir annað var reist á grunni fyrri mustera á nákvæmlega sama stað. Þetta var vegna þess að þegar Súmerar staðsettu musteri sín var miðað við sólstöður á vori eða hausti, þannig að hánorður breyttist aldrei í aldanna rás. Prófessor Stephen Lang gaf þessa texta út [13] og þar má sjá að Súmerar fylgdu nákvæmum og ævafornum siðum í flutningi sálmasöngs í musterum sínum eftir ströngum helgisiðum. Sálmarnir voru fluttir af prestum með andsvörum viðstaddra líkt og tíðkast í kirkjum enn í dag. Þar má sjá þennan sálm tileinkuðum Enlil:

1. Ó Arabufugl, arabufugl, þú ert það nafn
sem boðað er í heiminum . . .

[ólæsilegt]

3. Ó Enlil, arabufugl, þú ert það nafn
sem boðað er í heiminum.
4-5. Enlil, hvers hjarta er órannsakalegt,
þú hið trúfasta orð (logos).
6. Þú sem lýtur niður og mælir orð þitt.
7. Þú ert það nafn
sem boðað er í heiminum.
8. Sökum nafns þíns sem boðað er í heiminum,
9. Sökum boðskapar þíns sem boðaður er í heiminum.
10. Sökum hjálpar þeirrar sem þú veitir heiminum.
11. Skelfur himininn í borg minni og jörðin er skekin.
12. Í Nippur skelfur himininn og jörðin er skekin.
13. Meymóðirin, hirðmóðirin, móðir mín tók til máls.
14. Hún hin guðdómlega . . . drottning borganna . . .

Sálmurinn hefst á tólf línum sem kór flutti þar sem Enlil er ávarpaður. Því næst hefst fyrirbæn gyðjunnar Ninlil sem gegnir hlutverki mater dolorosa. Sálmurinn lýsir móðurgyðjunni sem fyrirbiðjanda frammi fyrir guðinum sem setti mark sitt á allt trúarlífið í Súmer og síðan í Babýlon og Assyríu. Allt fram á sjöttu öld komu konungur Babýlon og Assýringa reglulega til Ekur vegna þess að borgin gengdi sama hlutverki og Róm innan kristninnar á síðari tímum.

34. Ég vil segja við Enlil: „Megi móðirin lifa.“
36. Við föður minn, velgjörðarmann minn vil ég segja:
„Megi faðirinn lifa.“
39. Í borg minni megi móðirin virða son sinn
og sonurinn móður sína.
41. Megi móðirin virða son sinn í Nippur.
42. Megi sonurinn virða móður sína í Nippur.
46. Því að Enlil er borg varin múrsteinum.

Þetta veitir okkur innsýn inn í helgihald prestkonunga Adamskynslóðarinnar. Með svipuðum hætti hafa þeir vegsamað hinn eina og sanna Guð. Höfum í huga að Enlil var milligöngumaður milli An og manna og það var í Ekur, musteri hans, þar sem hinar helgu töflur „me“ eða réttlætisins voru varðveittar. Takið eftir arabufuglinum. Hann er hinn yfirskilvitlegi örn – fugl lísins – enda var Enlil hliðstæða Her-ur meðal Fornegypta, eins konar forsætisráðherra An og í súmerskri goðafræði var honum falin gæsla jarðarinnar – rétt eins og Adam!

Prestkonungarnir hafa borið Sep-ted-sed hátíðahöldin með sér frá Súmer. (Mynd 9. 5) Þeim var skipt í 120 ára tímaskeið stórhátíða með minni hátíðum á 30 ára fresti og enn öðrum á 5 eða 6 ára fresti með hliðsjón af gangi sólarinnar. 12 slík 120 ára tímaskeið mynduðu stórhring 1440 ára. Þessi tala kemur okkur ekki ókunnuglega fyrir sjónir:

Eftir þetta sá ég fjóra engla, er stóðu á fjórum skautum jarðarinnar. Þeir héldu fjórum vindum jarðarinnar, til þess að eigi skyldi vindur blása yfir jörðina né hafið né yfir nokkurt tré. Og ég sá annan engil stíga upp í austri. Hann hélt á innsigli lifanda Guðs og hrópaði hárri röddu til englanna fjögurra, sem gefið var vald til að granda jörðinni og hafinu, og sagði:
„Vinnið ekki jörðinni grand og ekki heldur hafinu né trjánum, þar til er vér höfum sett innsigli á enni þjóna Guðs vors.“ Og ég heyrði tölu þeirra, sem merktir voru innsigli, hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir af öllum ættkvíslum Ísraelssona voru merktar innsigli.

Af Júda ættkvísl voru tólf þúsund merkt innsigli,
af Rúbens ættkvísl tólf þúsund,
af Gaðs ættkvísl tólf þúsund,
af Assers ættkvísl tólf þúsund,
af Naftalí ættkvísl tólf þúsund,
af Manasse ættkvísl tólf þúsund,
af Símeons ættkvísl tólf þúsund,
af Leví ættkvísl tólf þúsund,
af Íssakars ættkvísl tólf þúsund,
af Sebúlons ættkvísl tólf þúsund,
af Jósefs ættkvísl tólf þúsund,
af Benjamíns ættkvísl tólf þúsund menn merktir innsigli (Opb 7. 1-8)

Og við lesum ennfremur:

Nú kom einn af englunum sjö, sem héldu á skálunum sjö, sem fullar voru af síðustu plágunum sjö, og talaði við mig og sagði: „Kom hingað, og ég mun sýna þér brúðina, eiginkonu lambsins." Og hann flutti mig í anda upp á mikið og hátt fjall og sýndi mér borgina helgu, Jerúsalem, sem niður steig af himni frá Guði. Hún hafði dýrð Guðs. Ljómi hennar var líkur dýrasta steini, sem jaspissteinn kristalskær. Hún hafði mikinn og háan múr og tólf hlið og við hliðin stóðu tólf englar og nöfn þeirra tólf kynkvísla Ísraelssona voru rituð á hliðin tólf. Móti austri voru þrjú hlið, móti norðri þrjú hlið, móti suðri þrjú hlið og móti vestri þrjú hlið. Og múr borgarinnar hafði tólf undirstöðusteina og á þeim nöfn hinna tólf postula lambsins. Og sá, sem við mig talaði, hélt á kvarða, gullstaf, til að mæla borgina og hlið hennar og múr hennar. Borgin liggur í ferhyrning, jöfn á lengd og breidd. Og hann mældi borgina með stafnum, tólf þúsund skeið. Lengd hennar og breidd og hæð eru jafnar. Og hann mældi múr hennar, hundrað fjörutíu og fjórar álnir, eftir kvarða manns, sem er einnig mál engils“ (Opb 21. 9-17)

Það var einmitt þetta sem prestkonungar Adamskynslóðarinnar höfðu í huga með helgisiðahring sínum: Að endurspegla himininn á jörðu: Dag Drottins. Í Sköpunarsögunni lesum við:

Í upphafi skapaði Guð himin og jörð. Jörðin var þá auð og tóm, og myrkur grúfði yfir djúpinu, og andi Guðs sveif yfir vötnunum. Guð sagði: „Verði ljós!“ Og það varð ljós. Guð sá, að ljósið var gott, og Guð greindi ljósið frá myrkrinu. Og Guð kallaði ljósið dag, en myrkrið kallaði hann nótt (1M 1-5)

Talan 144 skírskotar til hinna 1440 mínútna dags Drottins (24 x 60), þeirrar sköpunar ljóssins sem er í vexti og framþróun og börn myrkursins eða næturinnar öðlast ekki hlutdeild í vegna þess að þau hafna sannleika ljóssins: Ljóss réttlætissólarinnar. Hinir tólf þúsund hverrar ættkvíslar Ísraelsmanna eru uppskera hins andlega Ísraels – kirkjunnar – postulanna tólf. Helmingur uppskerunnar eru hin 72 þúsund hins Gamla sáttmála og árfeðranna, prestkonunga Adamskynslóðarinnar og þeirra sem lutu boðum Guðs í frumtrú þeirri sem var mörkuð sem eðlisboða í verundardjúp manna, eins og Páll postuli vék að. Hin 72 þúsundin eru uppskera hins Nýja sáttmála og því sendi Drottinn þá 72 í upphafi að boða trúna (Lk 10.1). Við verðum að hafa í huga að á koinagrísku Nýjatestamentisins var talan þúsund tákn ótakmarkaðs fjölda.

Helgisiðahringur Enoks prestskonungs grundvallast á þeirri staðreynd að börn ljóssins – Synir réttlætissólarinnar – verði að hafa þetta stöðugt í huga og lifa til samræmis við það maa sem þetta ljós opinberar þeim: Með hliðsjón af réttlæti þess og boðskap um lífið. Stundir þessa dags eru 12 og uppskeran fylling ljóssins: Þeir sem merktir verða innsigli Lambsins, „hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir.“

Boðskapur helgisiðahrings Enoks spámanns er samofinn boðskap fjórverutáknsins og forgildi þess sannleika sem síðar opinberaðist á jörðu sem endurspeglast í orðum Páls postula:

Hann er orðinn oss vísdómur frá Guði, bæði réttlæti (me, maa), helgun og endurlausn (1Kor 1. 30).

Hér sjáum við æðstu opinberun boðskapar fjórverutáknsins – arfleifðar prestkonunga Adamskynslóðarinnar – eins og vikið verður að sæiðar. Þannig opinberar hinn eini og sanni Guð sig með stöðugt fullkomnari hætti á vettvangi mannkynssögunnar í sömu sannleiksopinberuninni og í upphafi í Sköpunarsögu Biblíunnar af Paradísargarðinum. Í næstu grein verður vikið að því hvernig heimsmyndunarfræði nútímans nálgast sífellt meira þá afstöðu sem prestkonungarnir boðuðu: Samfélagsgerð Sjödægrasólarinnar miklu!

[1]. Hin norræna goðafræði á einnig uppruna sinn að rekja til uppsprettu indó-arískra menningar í hálendi Zagros- og Elbrusfjallanna. Þannig er heimstréð mikla Yggdrasill og þau Askur og Embla (Adam og Eva?) ávöxtur þess.
[2]. „Patterns in Comperative Religion, bls. 271-272.
[3]. Sama verk, bls. 272.
[4]. „The Book of Enoch,“ XCIX. 2.
[5]. „Patterns in Comperative Religion, bls. 124.
[6]. Hookes, S. H., New Year’s Day, Gerald Howe Ltd, London, 1927, bls. 10.
[7]. „Patterns in Comperative Religion, bls. 414.
[8]. „Dictionary of Symbols,“ bls. 388.
[9]. André Virel , „Histoire de notre image,“ Genf, 1965, bls. 134.
[10]. Serge Sauneron, „A Dictionary of Egyptian Civilization, London 1962, bls, 142.
[11]. Sjá http://cdbaby.com/cd/berenholtz
[12]. 33. kviða Paradísarljóðanna í þýðingu Guðmundar Böðvarssonar.
[13]. Stephen Langdon, Sumerian Liturgies and Psalms, Philadelphia 1919, bls. 265-267.

No feedback yet