« Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 9Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 7 »

18.09.07

  17:08:41, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 5746 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 8

BOÐSKAPUR PRESTKONUNGANNA UM MAA OG HREINLEIKA HJARTANS

Nútímamanninum hættir ávallt til að vanmeta forfeður sína. Þegar veldi kommúnista í Austurþýskalandi leið undir lok gafst fræðimönnum kostur að nýta sér tæki Stasi, leyniþjónustunnar, til vísindarannsókna. Þegar forn egypsk papýrushandrit voru könnuð með innfrárauðrum myndatökum kom í ljós, að þau höfðu verið endurnýtt. Endurvinnsla er því ekki eitthvað sem er nýkomið til sögunnar. Þá kom í ljós að upphaflega var hér um innflutningsskýrslur egypsku tollþjónustunnar að ræða. Erlendar skipakomur voru færðar af mikilli samviskusemi og það sem kom fræðimönnum á óvart var að áætlunarsiglingar að vetrarlagi voru stundaðar með reglubundnum hætti, svo reglubundnum, að nöfn sömu skipstjórnarmannanna mátti sjá sífellt endurtekin. Áður höfðu fræðimenn talið að vetrarsiglingar hefðu verið með öllu útilokaðar á þessum tíma. Sjálfur hef ég siglt í vondum veðrum í Norðuratlantashafi og við Íslandsstrendur, en í eina skiptið sem ég lenti í hafsnauð var á Miðjarðarhafinu. „Sirocco-vindurinn“ skellur á alls óvænt án þess að gera boð á undan sér og ef sæfarendur eru ekki viðbúnir steðjar mikil hætta að höndum. Í okkar tilviki voru lestar skipsins opnar í blíðviðrinu vegna þess að við höfðum verið að kalka þær.

Forn frásögn á papýrus hefur varðveist af för egypsks kaupskips frá 11. öld f. Kr. sem fór til Sídonar til að sækja harðvið. Skortur á harðviði var stöðugur höfuðverkur egypskra skipasmiða. Stórviður er nauðsynlegur í kjöl skipa sem stunda langsiglingar og því treystu þeir fremur á erlendan kaupskipaflota. Sedrusviðurinn í Líbanonfjöllunum var ein höfðuástæðan fyrir útþenslu Fönikíumanna sem sæfarenda og þannig er greint frá siglingu þeirra umhverfis Afríku. Undrunar gætir hjá skrifaranum vegna tjáskiptavandræða við loðna menn á Fílabeinsströndinni sem voru afar ókurteisir í framkomu og viðskotaillur svo að frekari samskipti voru útilokuð. Því er lýst hvernig sólin var fyrst á hægri hönd og síðan á þá vinstri þegar siglt var fyrir Hornhöfða í Suðurafríku.

Sama gildir um landflutninga. Fornleifafræðingum fannst með ólíkindum að Súmerar hefðu átt í viðskiptum allt til þess landsvæðis í vestri þar sem nú er að finna Búlgaríu og Rúmeníu, en minjar um slíkt hafa fundist í jörðu. Á herskyldinum fræga frá Úr sjáum við að uxakerrur súmverska hersins voru harla klunnalegar og fljótt á litið ekki til stórræða fallnar. Þá datt einhverjum í hug að landnám Bandaríkjanna grundvallaðist á notkun uxakerra og hestvagna og þá varð fræðimönnum ljóst að hæpið er að dæma notagildi samgöngutækja af útlitinu einu saman.

Á þeim tíma sem hér er til umræðu teygði súmverska ríkið sig allt til stranda Miðjarðarhafsins í vestri í Sýrlandi, það er að segja um 3300 f. Kr. Vitað er að Súmerar stunduðu reglubundnar kaupskipasiglingar um allan Persaflóa, Rauðahafið og allt til Afríku og til Indlands í austri (Mohenjo Daro í Indusdalnum). (Mynd 8. 1) Athyglisvert að súmerska nafnið yfir Egyptaland og skip er eitt og hið sama: Magan. Af klettaristum má sjá að frumbyggjarnir drógu upp myndir að skipum nýbúanna (Mynd 8. 2). Jörðin hefir skilað fornleifafræðingum í hendur munum og minjum um þessi nánu tengsl. Í reynd er þetta í svo umtalsverðum mæli að í upphafi tuttugustu aldarinnar voru egyptafræðingar sannfærðir um að Súmerar hefðu lagt grunninn að egypskri menningu, eins og sjá má af þessum ummælum Sir Lenonard Woolleys:

Forsöguleg menning Egypta og Súmera var alls ólík. Afgerandi munur er á list Egypta á forsögulegum tímum og eins og hún birtist á tímum 1. konungsættarinnar, ekki svo mikill, að unnt sé að tala um rof á hefð, en engu að síður svo mikill að unnt er að tala um sérstakt tímaskeið.Þessi áhrif birtast á tímabilinu sem fór á undan konungsættunum og á tímum Menesar sjáum við það sem við getum í raun og veru nefnt nýja menningu. Því hefur lengi verið veitt athygli, að þessa skyndilegu þróun, sem lagði grunninn að því sem við nefnum egypska menningu, megi rekja til einhverra erlendra áhrifa. Það hefur einnig legið lengi fyrir að á fyrri skeiðum þessarar menningarþróunar birtast ákveðnir þættir sem eru sameiginlegir því sem gerist og gekk á Efratsvæðinu. . . auk þessara ytri einkenna er um ákveðna þætti í trúarafstöðu Egypta að ræða, sem virðist mega rekja til súmerskra áhrifa. . . Egyptar röktu upphaf sögu sinnar til Menesar, en á undan honum var um myrkur að ræða og hálfguðina. Fornleifafræðin hefur staðfest þessa trú þeirra. [1]

Við sem lifum á tímum hnattvæðingarinnar skiljum þetta vafalaust betur þar sem aukin samskipti þjóða leiða til framfara og lýkur upp áður ókunnum möguleikum. Sagan kennir okkur einnig að þegar þjóðir einangrast leiðir slíkt til menningarlegrar hnignunar. Dæmi um slíkt úr nútímanum er Norðurkórea. Við getum einnig séð þetta á okkar eigin sögu og Norðurlandanna. Ísland lág í þjóðbraut fyrir siðaskiptin vegna þess að hafið var þjóðbraut. Akkilesarhæll svo nefndrar meginlandssagnfræði (continental) er að líta á hafið sem hindrun fremur en greiða leið til samskipta. Þegar járntjaldið féll var Ísland að mestu lokað af frá umheiminum og „illo tempore“ eða gullöldin leið undir lok þegar Íslendingum var einungis heimuluð samskipti við Danmörku og ákveðinn hluta Þýskalands. Svo óheppilega vildi til að íbúar þessa landsvæðis urðu seinkristnir og þekktu því lítt til kristinnar arfleifðar og útkoman Stóridómur þegar tekið var að stelka karlmenn og drekkja vanfærum konum á stað sem hafði verið friðhelgur gagnvart manndrápum í heiðnum sem kristnum dómi. Á Norðurlöndunum má sjá þessa þróum með ljósum hætti á hnignun allra myndmennta þegar námsmönnum var meinað að leita sér mennta í þeim „forspillta heimi sem páfavillan var“. Samskiptin við umheiminn rofnuðu og í kjölfarið kom hningnunarskeið uns samband komst á að nýju og stúdentar tóku að leita til Parísar og jafnvel Rómar.

Sú umbylting sem samfélagsgerð Fornegypta gekk í gegnum og endurspeglaðist í arfleifð 1. og 2. konungsættarinnar var slík, að breski fornleifafræðingurinn Cyril Aldred komst svo að orði, þegar hann vék að henni:

Það hljóti einhverjir ókunnir snillingar á borð við Newton og Einstein að hafa verið á ferð á þessum forsögulegu tímum sem stóðu samtíð sinni miklu framar í hugsun og frumleika og umbyltu mannkynssögunni. [2]

Á þessum tíma verður vart greinilegra menningaráhrifa frá Mesópótamíu sem sjá má á hringinnsiglum sem ættuð eru frá Úrúk í Mesópótamíu og fundust í Naqada í efra Egyptalandi. Goðsögulegar verur sem algengar voru í Mesópótamíu taka einnig að birtast í egypskri skreytilist og eitt kunnasta dæmið um þessi nánu menningartengsl er tinnuhnífur sem fannst í Gebel-el-Arak. Á skefti hans má sjá sjálfa þjóðhetju Mesópótamíu – Gilgamesh – berjast við tvö ljón. Sömu áhrifin má greina í byggingarlist þegar Fornegyptar tóku að hlaða hús líkt og tíðkuðust í Mesópótamíu. En áþreifanlegustu ummerki þessarar þróunar birtast í þeirri ritlist sem ryður sér skyndilega til rúms með notkun hljóðtákna sem þegar höfðu þróast í Mesópótamíu um langt skeið. Konungagrafir fyrstu konunganna eru þannig nákvæm eftirmynd konungagrafa í súmerskum borgum á sama tíma. Þetta vekur jafnframt athygli á þeirri staðreynd að þessi erlendu áhrif voru ekki einungis jákvæð sökum þess að í upphafi eru sömu mannfórnirnar tíðkaðar eins og við þekkjum frá Súmer við útför konunga, en skyndilega er með öllu horfið frá þeim og þeirra gætti aldrei framar meðal Fornegypta.

Einn þessara manna var Imhótep sem þegar hefur verið vikið að, sem var vesír Djosers faraóas af 3. konungsættarinnar. Skyndilega og allsendis óvænt taka risavaxinn mannvirki að spretta upp á bökkum Nílar. Kunnast þeirra er svo nefndur Stallapýramídi í Saqqara.Það var einmitt Imhótep sem stóð gerð þessa mannvirkis að baki.Þessi þróun hefur valdið fornleifafræðingum undrun, einkum í ljósi þess, að þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir slíkum „ofurmönnum,“ þá krefjast slíkar framkvæmdir mikils mannafla þjálfaðs hóps handverksmanna og verkkunnáttu. Síðar átti Imhótep eftir að verða „þjóðardýrlingur“ Egypta um aldir og verndari lækningalistarinnar.

Þetta er einmitt það sem virðist hafa gerst í raun og veru.Þegar við virðum fyrir okkur þróun pýramídanna í Fornegyptalandi, þá sjáum við hvernig verkunnátta handverksmannanna vex stig af stigi og nær hápunkti í gerð sjálfs Kúfupýramídans. Fyrst er það stallapýramídinn í Saqqara sem birtist sem sjálf frumgerðin. Síðan kemur pýramídinn í Meidun sem Húni faraó lét reisa, þá Bentpýramídi Snefru faraós og Dashurpýramídinn og loks sjálft meistaraverkið: Kúfupýramídinn. Samkvæmt arfsögnum Egypta var það Hermon, vesír Kúfu faraós (2623-2600 f. Kr), sem annaðist alla yfirumsjón og stjórn þessa verks.

Við komumst svo að segja í lifandi snertingu við söguna, þegar við virðum styttu af honum fyrir okkur sem fannst í grafhýsi hans. (Mynd 8. 3) Við sjáum hann birtast okkur sjónum sem einbeittur og þróttmikill maður og viljafestan leynir sér ekki í svipnum. Hið súmerska yfirbragð er augljóst og það er engu líkara en að við séum að virða fyrir okkur eina af þessum víðfrægu styttum sem fundist hafa í jörðu í Súmer.Það er eins og Hermon horfi óræðu augnaráði til framtíðarinnar og svipurinn lýir rósemd þess sem „veit.“ Þessum manni stendur ekki stuggur af dauðanum.

Við sjáum jafnvel Djoser faraó birtast okkur ljóslifandi fyrir sjónum í fullri líkamsstærð, einhverja elstu konungsstytta sem fundist hefur í Egyptalandi. Sjá má að „nemes“ eða höfuðklútur hans ber sérkennilega lafa og skeggið er ekki síður athyglisvert. Því svipar mjög til þess skeggs sem sjá má á fórnarstyttum frá Tell Asmar í Súmer frá sama tímaskeiði og varð síðar eitt höfuðeinkenni konunga Assýringa.

Það er einmitt á tímum fyrstu konungsættanna sem grundvöllur er lagður að allri síðari þróun konungsdæmis og réttarfars í Egyptalandi. Eitt af því sem vakið hefur furðu manna þegar leirtöflur þær sem hafa að geyma lagafyrirmæli og fundist hafa í jörðu í Súmer eru kannaðar, er hversu mikils réttaröryggis íbúarnir hafa notið. Súmerar rituðu dómsniðurstöður sínar á litlar leirtöflur sem nefndar voru „distillas“ og það er þeim að þakka, hversu góðar heimildir við höfum í höndum hvað þetta áhrærir. Rétturinn fylgdi stífum lagafyrirmælum þar sem vitni urðu að sverja eið, framburður vitna var skráður og lagður fram sem réttargögn og báðum aðilum gefið tækifæri að flytja mál sitt. Einn og sami maðurinn sem nefndur var „mashkim,“ var eins konar réttargæslumaður sem undirbjó málflutning fyrir rétti og gætti þess að allt færi fram samkvæmt lögum. Það vekur athygli hversu mjög mannréttindi voru virt. Eitt dæmi um slíkt „distillas“ leiðir í ljós að kvenréttindi voru jafnvel virt í Súmer. Við verðum að hafa í huga, að þetta gerðist fyrir 4600 árum:

Innashagga, eiginkona Duda. . . keypti hús. . .fyrir sitt eigið fé. Meðan Dudu lifði réði sonur hans Ur-Eninnu fyrir húsi hans. Þar sem Innashagga keypti húsið lét hann [Ur-Eninnu] skrá húsakaupin sem Innashagga hafði arfleitt hann að. Innashagga sór að hún hefði keypt húsið fyrir eigið fé en ekki Dudus. . .Því. . . er staðfest að húsið sé eign Innashagga, eiginkonu Dudus. . . Erfingjarnir sóru við nafn konungs síns, að þeir myndi ekki vanvirða orð móður sinnar. [3]

Skjalið var síðan undirritað af „mashkim“ og þremur dómurum. Það sem þetta leiðir okkur einfaldlega fyrir sjónir er sú staðreynd, að mannkynssagan einkennist ekki ávallt af framförum. Fjölmargar konur í þróunarríkjum nútímans njóta ekki sama réttar og súmerskar konur til forna. Hið guðdómlega réttlæti eða me var Súmerum heilagt með sama hætti og maa Fornegyptum. Í greininni hér að framan þar sem birt voru nokkur ummæli úr egypsku spekiritunum lesum við þessi orð:

„Pa neter aput pa maa“ (Guð mun dæma af réttlæti).

Hér erum við enn að nýju komin á slóðir prestkonunga Adamskynslóðarinnar, Sona réttlætissólarinnar. Það var þessi arfleifð sem „Synir sólarinnar“ báru með sér til Egyptalands rétt eins og trú á upprisu holdsins og eilíft líf og réttlæti. Þannig lifði fyrirheit Adamskynslóðarinnar um „sæði konunnar“ (1M 1. 3. 15) í hjörtum prestkonunganna og þrátt fyrir að musterisvald fjölgyðistrúarinnar í Hieropolis gerð allt til að kæfa þennan neista eftir bestu getu, auðnaðist því það aldrei til fulls. Þannig breyttu þeir orðinu „maa“ í gyðjuna Maat, gyðju réttlætisins. Það er afar athyglisvert að kynna sér ákvæði dómsorðanna í Egypsku dauðrabókinni sem í reynd heitir „Að líða fram af degi,“ degi hins hverfula lífs til hins eilífa dags. Það er í 125 kafla þessa rits sem lagt var í grafir Fornegypta þar sem sálin (ba) gengur fyrir hinn æðsta dóm vegna synda sinna eða „ifet.“ Þau varpa ljósi á inntak maa prestkonunganna og fjölmargt ef ekki allt er í samhljóðan við ákvæði Móselaganna og síðar kirkjuréttarins þar sem sumar syndanna eru dauðasyndir svo sem mannsmorð, eða þá fyrirgefanlegar yfirsjónir sem kalla þó refsingu yfir viðkomandi. Listinn lítur þannig út eftir efnisflokkum:

(1). Glæpir gegn einstaklingum: Þjófnaður og mannsmorð.
(2). Afbrot gegn trúnni: Guðlast, að stela musterisfórnum eða fórnum til hinna látnu og saurgun helgistaða.
(3). Glæpir efnahagslegs eðlis: Að breyta kornmælinum, landamerkjum akurlendis eða að falsa lóðin á vogarskálinni, að arðræna hina snauðu og skaða þá, að svipta munaðarleysingja viðurværi sínu, að valda sorg eða hneykslan eða að stuðla að hungri (eigingjörn eignasöfnun).
(4). Siðrænir glæpir eða ágallar: Lygar, hórdómur, framhjáhald, kynvilla, að hafna maa, rógburður, að að gera lítið úr þjónum í áheyrn húsbónda þeirra, ágirnd, árásargirni, að standa á hleri, geðillska og óyfirveguð og særandi orð.

Hugmyndafræðin að baki maa tjáir réttlæti, sanngirni, miskunn, góðmennsku og örlæti sem eru þóknaleg þeim Guði sem stóð því að baki og færði íbúum jarðarinnar. Elstu ummælin um að „gera maa“ koma frá tímum 5. konungsættarinnar úr gröf prestsins Hur-hawa í Giza:

Ég kem frá bæ mínum
og frá héraði mínu,
þar talaði ég maa,
þar gerði ég maa.
Ég særði aldrei neina manneskju.
Ég lét aldrei nokkra manneskju eyða heilli nótt í reyði
vegna einhvers frá því ég fæddist. [4[

Allt varpar þetta ljósi á þá afstöðu sem var svo ríkjandi meðal Fornegypta, að Guð dæmi af réttlæti og einstaklingurinn verði dæmdur í ljósi verka sinna á jörðu að þessu lífi loknu. Dómurinn eftir dauðan eða þegar hjartað var vegið varpar best ljósi á maa sem átti sér uppsprettu í hjarta mannsins eða ba, sálinni og verundardjúpinu. Það var Her-ur sem vóg hjartað á vogarskálum réttlætisins. Á annarri vogarskálinni var strútsfjöður en hjartað á hinni. Ef sálin var réttlát, gæskurík og elskaði sannleikann vóg hjartað til jafns við strútsfjöðrina, en ef hún hafði gert sig seka um illsku og óréttlæti á jörðinni vóg það þyngra en fjöðurin og eyðandinn mikli kom og át hinn framliðna. En dómsorð voru ekki einungis kveðin upp að þessu lífi loknu heldur einnig á jörðu. Þetta var kallað „ryt d’t maa“ eða hlið maa. Van den Boorn hefur vakið athygli á því [5] að í „Ákvæðum Horemhab“ faraós er sagt að faraó hafi skipað dómara sem hlusti á höllina, lögin í „ryt.“ Orð faraós sem voru lög sem voru þannig tilkynnt í hliðinu (ryt) sem var forhýsi í musterunum. Enn á tímum Grikkja og Rómverja voru þannig haldin réttarhöld í musterunum í Dendera, Edfu, Esna, Karnak og víðar um landið. Faraó var æðsti yfirmaður dómsmála en honum til hjálpar voru síðan tveir vesírar sem voru eins konar réttargæslumenn og ríkisákærendur sem gættu þess að lögunum væri framfylgt í hinum sex höfuðdómstólum landsins.

Þjóðin hefur verið uppfrætt um að „gera maa“ og lifa til samræmis við það með spakmælaritum og dæmisögum. Ein slík frásögn hefur varðveist frá tímum Miðríkisins (2040-1674 f. Kr.) af bóndanum Khun-Anup. Hann fer frá húsi sínu ekki fjarri Kaíró nútímans og stefnir til Herakleapolis með afurðir sínar á asnalest. Leið hans liggur um land leiguliðans Nemty-Nakt sem er landseti Renki (æðsta þjóns faraós) sem meinar honum að fara um land sitt. Meðan þeir deila taka asnar Khun-Anup að éta hveiti Nemty-Nakt. Honum rennur í skap og ber Khun-Anup og gerir asna hans upptæka. Þeir deila í tíu daga án árangurs. Þá leggur Khun-Anup mál sitt fyrir Rensi sem ámálgar málið við faraó. Faraó býður honum að skrifa atburðarásina á papýrus. Að lokum birtir Rensi bóndanum dómsniðurstöðurnar. Hann afhendir Khun-Anup allar eigur og og hús Nemty-Nakt. Boðskapur frásagnarinnar er augljós: Allir eru jafnir fyrir maa, háir sem lágir og jafnvel faraó verður krafinn skil gerða sinna í næsta lífi.

Í reynd eru hliðstæðurnar við kristindóminn svo fjölmargar meðal Fornegypta að ekki er unnt að draga aðra ályktun en þá að prestkonungar Fornegypta hafi meðtekið afar háleitar opinberanir frá Skapara allrar tilurðar og að þannig birtist hann okkur á vettvangi mannkynssögunnar með áþreifanlegum hætti. Þetta hefur orðið sumum að tilefni furðuskrifa í stíl Dan Browns, meðal annars rithöfundinum og guðfræðingnum Tom Harpur sem í riti sínu „Pagan Christ“ heldur því blákalt fram að allar hugmyndir gyðingdómsins og kristindómsins hafi í upphafi komið frá Forneygyptum og tekur til tvöhundruð dæmi máli sínu til sönnunnar sem hafa verið hrakin af fræðimönnum.

Sú athöfn að vega hjartað í ljósi sannleikans og réttlætisins varpar ljósi á þá háleitu guðfræði sem „Sarku, synir réttlætissólarinnar báru með sér til Fornegyptalands. Í sálmunum lesum við: „Einlægni er ekki til í munni þeirra, hjarta þeirra er glötunardjúp“ (Sl 5. 10); „Guð heldur skildi fyrir mér, hann hjálpar hinum hjartahreinu“ (Sl 7. 11); „Hann segir í hjarta sínu: „Guð gleymir því,
hann hefir hulið auglit sitt, sér það aldrei“ (Sl 10. 11); „Lygi tala þeir hver við annan,
með mjúkfláum vörum og tvískiptu hjarta tala þeir“ (Sl 12. 3).

Það var þetta sem prestar fjölgyðistrúarinnar gerðu, þeir töluðu lygi hver við annan og almenning og af tvískiptu hjarta og jafnskjótt og fjölgyðistrúin hófst til vegs og valda tók egypska ríkinu að hnigna. Budge kemst svo að orði um þessa öfugþróun:

Egyptar urðu að fórnardýrum mikillar afturhaldsstefnu og íhaldsemi að 4. konungsættinni genginni. . . hnignunar sem hefti alla framþróun í myndlist og höggmyndagerð og batt trúarlífið í dróma og verkaði lamandi á hina göfugu hugmyndafræði eingyðistrúarinnar ásamt áherslu hennar á hið óséða og gat ekki keppt við sýnilega og áþreifanlega táknfræði, allt til þess að Ósírís varð viðurkenndur sem hinn eini guð og miðlari eilífs lífs. . . Þrátt fyrir þetta liggur hin almenna trúarlega afstaða þeirra ljóst fyrir og hún sýnir fram á, að þeir lögðu rækt við þróttmikla eingyðistrú og trú á ódauðleika sem var þegar afar forn á þeim tímum sem pýramídarnir voru byggðir. [6]

Hvers eðlis þessi afturhaldsstefna var má best sjá á heimildum frá tímum Ramses II faraós um eignir musterisvaldsins. Þá á musterisvald Amonsvaldsins í Þebu samkvæmt eignaskrá:

433 musteri, 490.386 nautgripi á fæti, 49 verslunarskip í förum, 5164 goðalíkneski, 84.486 myndastyttur og hvorki meira né minna en 340.000 ferkílómetra lands. [7].

Þetta varpar einstæðu ljósi á stjórnarfarsbyltingu Akhenaten faraós sem breytti nafni sínu úr Amonhotep IV þegar hann hafnaði trúnni á goðið Amon. Akhenaten hóf eingyðistrúna til vegs og virðingar að nýju og reyndi að brjóta musterisvaldið á bak aftur. Hérna sjáum við í raun og veru félagslega stjórnarfarsbyltingu sem kom ofan frá, fyrstu byltingu í mannkynssögunni til almenningsheilla til að leysa almenning undan ánauðaroki musterisvaldsins sem sölsað hafði undir sig drjúgan hluta þjóðarauðsins.

Menn hafa undrast þá umbreytingu sem varð á öllu þjóðfélaginu þegar þjóðlífið losnaði úr helgreipum prestastéttarinnar. Skyndilega var eins og allar listir væru leystar úr dróma og fornleifafræðingar hafa fundið fjölda mynda og listaverka frá þessum tíma sem jafnast á við það besta sem gerðist hjá Grikkjum mörgum öldum síðar þegar frjáls hugsun og frumkvæði fann sér farveg að nýju. Akhenaten faraó innleiddi að nýju þá eingyðistrú sem forfeður hans boðuðu og lagði áherslu á persónulegt samband við lifandi Guð. Þessa sögu má rekja í grófum dráttum með hliðsjón af tímatali Biblíunnar eins og vikið verður að síðar.

Nærtækasta dæmið sem við höfum til að varpa ljósi á þessa þróun til fjölgyðistrúarinnar höfum við úr þeim fjölgyðistrúarbrögðum sem enn hafa umtalsverða útbreiðslu í heiminum í dag: Hindúismanum. Eins og önnur indóarísk trúarbrögð á Hindúisminn uppruna sinn að rekja til Gan Eden, Paradísargarðsins. Fjölmargir trúarbragðasérfræðingar hafa bent á þá staðreynd að Hindúsminn á rætur sínar að rekja til hins Eina og algilda Guðs sem kallaður er Brahman. Skírskotað er til hans sem myndlauss Guðs eða „nirakara,“ sem er handan alls þess sem við getum sett okkur fyrir sjónir. Allir hinir fjölmörgu guðir og gyðjur eru einungis birtingarmynd hins Eina Guðs. Í reynd virðast fjölmargir kaflar helgirita Hindúa hvetja til tilbeiðslu hans og hér skal tekið dæmi úr Gayatri Mantra í Yajur Veda:

Við skulum íhuga Guð, dýrlega eiginleika hans, hans sem er grundvöllur alls í alheiminum sem Skapari hans og er verðugur þess að hann sé tilbeðinn sem hinn Alltumverandi, Alvaldi og Yfirskilvitlegi, sú verund sem er í sjálfu sér, hann sem upprætir alla vanþekkingu og óhreinleika úr huganum og hreinsar innsæi hjartans.

Réttlæting þess að tilbiðja guði og gyðjur í Hindúismanum felst í því að það auðveldar manninum að skilja Brahman (Guð) með sýnilegum hætti. Þetta er fjarri öllum sanni vegna þess að þannig er honum þokað til hliðar og tilmæli hans og ákvæði gerð marklaus með öllu. Slíkt leiðir til vanþekkingar á eðli hans og óhreinleika hugarfarsins. Best má sjá þetta á stéttleysingjunum í Indlandi sem eru sviptir öllum mannréttindum og æðsta stétt þjóðfélagsins, Brahmarnir, njóta óhóflegra forréttinda. Hinn helgi maður Hindúismans situr við vegbrúnina í „nirvana“ sínu og hirðir ekkert um hina snauðu sem fram hjá ganga. Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs er ávallt einn og samur:

Því að Drottinn Guð yðar, hann er Guð guðanna og Drottinn drottnanna, hinn mikli, voldugi og óttalegi Guð, sem eigi gjörir sér mannamun og þiggur eigi mútur. Hann rekur réttar munaðarleysingjans og ekkjunnar og elskar útlendinginn, svo að hann gefur honum fæði og klæði“ (5M 10. 17-18).

Það var þetta sem prestum musterisvalds fjölgyðistrúarinnar auðnaðist að gera í Egyptalandi, þeir voru æðsta stétt samfélagsins sem ógnuðu jafnvel valdi faraós, egypsk útgáfa af bröhmum Hindúsimans, en sínu verri þó. Þeir mergsugu egypsku þjóðina og gerðu hana að ánauðugum þrælum hugmyndafræði sinnar. Slíkrar hugmyndafræði varð einnig vart í fornkirkjunni í kenningum Sabelíusar, svo kölluðuð sabellíanisma sem kirkjufeðurnir höfnuðu alfarið. Hann boðaði að hið opinberaða Þrenningareðli Guðs væri einungis þrjár birtingarmynda hans. Ef kenning hans hefði náð fram að ganga hefði hún haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för með sér fyrir þróun kristinnnar guðfræði.

Prestkonungarnir súmversku og afkomendur Sets boðuðu Guð maa og elsku. Í þessu sambandi birti ég hér kafla úr skjölum Annars Vatíkansþingsins, það er að segja úr 16. kafla „Lumen gentium“ eða Ljóss mannanna:

Þeir sem hafa ekki enn meðtekið Fagnaðarerindið tengjast lýð Guðs með margvíslegum hætti. Í fyrsta lagi er það fólkið sem gefið var sáttmálin og fyrirheitin og Kristur kom af sem maður (spr. Rm 9. 4-5). Í ljósi hinnar guðdómlegu útvalningar er það elskað sakir feðranna vegna þess að Guð iðrar ekki náðargjafa sinna  (spr. Rm 11. 29). En ráðsályktun hjálpræðisins nær einnig til þeirra sem játa Skaparann, en meðal þeirra fremstu eru Múslimar: Þeir játa trú Abrahams og ásamt okkur tilbiðja þeir hinn eina, miskunnsama Guð og dómara mannanna á efsta degi.

Guð er heldur ekki fjarlægur þeim sem með óljósum hætti og ímyndum leita hins ókunna Guðs þar sem hann sjálfur gefur öllum líf og anda og alla hluti (spr. P 17. 25-28) og sökum þess að Frelsarinn vill að allir menn verði hólpnir (spr. 1Tm 2. 4). Þeir sem þekkja ekki Fagnaðarerindi Krists eða kirkju hans án þess að eiga sök á því sjálfir, en leita Guðs engu að síður af einlægu hjarta og í krafti náðarinnar leitast við að gera vilja hans í verkum sínum eins og þeir þekkja þetta í boðum samvisku sinnar – þeir geta einnig öðlast eilíft hjálpræði. Hin guðdómlega forsjón mun heldur ekki neita þeim um nauðsynlega hjálp til hjálpræðis sem án þess að eiga sök á því sjálfir hafa ekki öðlast áþreifanlega þekkingu um Guð og – ekki án náðarinnar – leitast við að lifa góðu lífi. Allt hið góða eða sá sannleikur sem býr með þeim telur kirkjan vera undirbúning fyrir Fagnaðarerindið og sem gjöf þess sem upplýsir alla menn svo að þeir megi öðlast lífið til langframa. En iðulega hafa menn gerst hégómlegir í hugsun, blekktir af hinum illa og hafa hafnað sannleika Guðs fyrir lygar og þjónað heiminum í stað Skaparans (spr. Rm 1. 21 og 25). Til þess að glæða dýrð Guðs og hjálpræði allra slíkra minnist kirkjan boðorð Drottins: „Farið út um allan heim, og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni“ (Mk 16. 16).

Minnumst þess að orðið maa eða réttlæti var rakið til Guðs hins hæsta og eina eða neter at: „Pa neter aput pa maa“ (Guð mun dæma af réttlæti). Prestkonungar réttlætissólarinnar boðuðu sífellt þetta réttlætti og leiddu fólk til hins Eina. Í Súmer benda menningarsögufræðingar á þá staðreynd að grundvallarbreyting varð á stjórnskipun landsins um 3100 f. Kr. Þá leystu konungar prestkonunganna af hólmi. Við sjáum þá birtast að nýju í Fornegyptalandi og þangað virðast þeir hafa komið fyrir flóðið mikla sem samkvæmt Biblíunni varð árið 3145 f. Kr. Önnur ummerki um þá var sólarárið. Í Fornegyptalandi var tvenns konar sólarár við líði. Annars vegar hið almenna sólarár með 365 dögum og hlaupadögum. Hins vegar hið fullkomna sólarár sem grundvallaðist á gangi sólar sem reiknað var út af mikilli nákvæmni, svo mikilli, að það vekur undrun sérfróðra manna í stærðfræði eins og vikið verður að síðar. Í táknmálsfræðinni er himininn ávallt táknaður með hring sem birtist sem ferningur á jörðu sem er grundvöllurinn að baki fjórverutákninu. Í helgisiðahring sólarársins birtist Guð svo að segja á jörðu í mynd prestkonungsins. Þessi staðreynd varpar einstæðu ljósi á orð Biblíunnar:

Þá sagði Drottinn: "Andi minn skal ekki ævinlega búa í manninum, með því að hann einnig er hold. Veri dagar hans nú hundrað og tuttugu ár" (1M 6. 3).

Þessi orð komu í kjölfar þess þegar synir Guðs tóku að þrá konur mannanna. Orð þessi fela í sér tvenns konar merkingu. Að einu leyti skírskotuðu þau til þess að 120 ár voru í flóðið mikla, hins vegar höfðuðu þau til alls samfélags prestkonunganna vegna þess að helgisiðahringur þeirra grundvallaðist á 120 ára tímaskeiðum. Á helgisiðahátíðunum var allt líf samfélagsins endurnýjað í krafti náðar Guðs, þess „neter at“ sem Fornegyptar nefndu „ta-tenen“ eða föður „sem hvert faðerni fær nafn af á himni og jörðu,“ (Gl 3. 15) og allir beygðu kné sín fyrir á svo nefndum sep-ted-set hátíðahöldum þar sem prestkonungurinn var milligöngumaður alls samfélagsins, eins og vikið verður að í næsta kafla sem var „forgildi“ upprisumáttar Krists. Það er með þessum hætti sem Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs opinberast með sífellt fyllri hætti á jörðu, eða með orðum hl. Gregoríosar frá Nanziansen:

Gamla testamentið opinberaði Föðurinn með ljósum hætti, en Soninn einungis óljóst. Nýja testamentið opinberaði Soninn og gaf til kynna Guðdómstign Heilags Anda. Í dag dvelur Andinn meðal okkar og opinberar sig með fyllri hætti. Það var ekki talið tímabært að opinbera Soninn meðan Guðdómur Föðurins var ekki viðurkenndur með beinum hætti, eða að leggja byrðar Andans á herðar okkar (ef ég má tjá mig með svo djörfum hætti) meðan Sonurinn hafði enn ekki verið meðtekinn . . . heldur var þetta gert í stigvaxandi mæli og eins og Páll sagði með vexti og framförum frá dýrð til dýrðar svo að ljós Þrenningarinnar mætti skína á þá sem voru betur upplýstir . . . Frelsari okkar sagði að um ýmislegt annað væri að ræða sem lærisveinar hans gætu ekki borið að sinni (þrátt fyrir að þeir væru margs vísir) . . . Og enn að nýju sagði hann að Andinn myndi uppfræða okkur um allt þegar hann kæmi til að dvelja með okkur. Meðal þessa tel ég að það hafi verið Guðdómur sjálfs Andans sem yrði ljósari þegar frá liði þegar slík þekking væri orðin tímabær og unnt væri að meðtaka slíkt eftir að Sonurinn hefði verið viðurkenndur og þannig yrði Guðdómstign hans kunn. [8]

Með þessum sífellda vexti í guðdómlegri þekkingu hefur sjálf kirkjan aukið kærleiksríka þekkingu sína í aldanna rás á ráðsályktun Guðs undir leiðsögn Heilags Anda. Það var þennan sama Guð sem prestkonungar réttlætissólarinnar boðuðu Fornegyptum. Þegar hefur verið vikið að því að þennan helgisiðahring má rekja til Súmer og hann var kenndur við Enok prestkonung. Grundvöllur alls talnakerfis í Súmer var hin heilaga tala 60 sem kennd var við An. Hann var einnig nefndur föníski helgisiðahringurinn vegna þess að hann skírskotaði til fuglsins Fönix, fugls upprisunnar og þar með til Her-ur eða neter-at.

[1]. The Sumerians, bls. 185-186.
[2]. Egypt to the End of the Old Kingdom, bls. 65.
[3]. The Sumerians, Inventors and Builders, bls. 125.
[4]. The Concept of Law and Justice in Ancient Egypt, IX. Sjá: etd.unisa.ac.za/ETD-db/theses/available/etd-11012006-131516/unrestricted/dissertation.pdf -
[5]. N. J. van Blerk, The Concept of Law and Justice in Ancient Egypt, bls. 15.
[6]. Gods of the Egyptians I, bls. 154-155.
[7]. A History of Egyptian Archeology, bls. 234.
[8]. Patrologia Greaca,“ XXXVI, 161-4.

2 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Þetta er merkileg grein Jón og athyglisvert er að sjá þessi tengsl forn-Egypsku menningarinnar við menningu Súmera. En í öllum þessum rannsóknum og pælingum finnst nokkuð þar um fyrirgefninguna? Nú hefur menning Gyðinga trúlega orðið fyrir miklum áhrifum af menningu Egypta á meðan þeir dvöldu í Egyptalandi eins og sögur Gamla-testamentisins sýna, t.d. frásögnin af gullkálfinum og eins og greinin bendir til einnig um leirtöflur með lagaboðum. Var Jesús Kristur hinn fyrsti höfundur þeirrar hugsunar sem finnst í Faðirvorinu um sakaruppgjöf og sátt við Guð eða þekktist fyrirgefningin í menningu Gyðinga fyrir hans tíð? Ég bið þig að afsaka að þetta tengist efni greinarinnar aðeins lauslega og þá í ljósi tengingarinnar við menningu forn-Egypta.

22.09.07 @ 17:30
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Mér finnnst svarið liggja beint við með einstaklingsbundnum hætt í orðum prestsis Hur-hawa hér í greinni þegar hann „gerði maa“:

Ég særði aldrei neina manneskju. Ég lét aldrei nokkra manneskju eyða heilli nótt í reyði vegna einhvers frá því ég fæddist.

Til er skemmtileg frásögn sama eðlis í Apopthegmata Patrum: Abba Hilaríon snæddi með Epiphaníusi byskupi og vildi ekki borða fuglakjötið sem borið var á borð og sagði: „Síðan ég klæddist kuflinum hef ég aldrei borðað kjötmeti.“ Epiphaníus svaraði: „Frá því að ég klæddist kuflinum hef ég ekki látið neina manneskju ganga til hvílu ef hún bar kala í brjósti til mín og aldrei lagst til hvíldar með beisku í huga til nokkurs manns.“ Abba Hilaríon svaraði þá: „Þín politeia er betri en mín.“

Politeia er „pólitík“ bænalífsins. Þegar Platón skrifaði sína Politiea (Ríkið) skírskotaði hann ekki síður til stjórnar mannsandans á Akrapólis sálarinnar.

Í næstu grein muntu einmitt sjá iðrun, fyrirgefningu og lofgjörð í helgisiðahringi Enoks prestkonungs.

23.09.07 @ 06:01