« Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 8Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 6 »

15.09.07

  10:27:04, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 3986 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 7

EINGYÐISTRÚIN MEÐAL FORNEGYPTA

(Sjá Myndir 7).

Eina þeirra fjölmörgu tilvísana um eingyðistrú sem finna má meðal Fornegypta má sá í fornu papýrsushandriti, svo kölluðu Pétursborgarhandriti 1116A sem Dr. Alan H. Gardiner birti eftirfarandi þýðingu á í „The Journal of Egyptian Archeology (Vol. I, bls. 34, 1920):

Guð . . . skapaði himinn og jörð . . . Hann setti ágangi vatnsins mörk og skapaði loftið til að glæða líf sem hann blés þeim í nasir. Þeir eru hans eigin ímynd og gerðir úr hans eigin holdi . . . Hann eyddi óvinum sínum og tortímdi sínum eigin börnum vegna þess að þau hugðust rísa upp gegn honum.

Í athugasemdum við þennan texta kemst Gardiner svo að orði: „Þessi texti sem skírskotar til eingyðistrúar . . . er ótvíræð tilvísun til hinnar kunnu goðsagnar um tortímingu mannsins sem hefur þannig borist okkur í hendur úr gröf Setesar I.“

Textinn skírskotar til sömu atburðarásarinnar og lesa má um í Sköpunarsögu Biblíunnar um sköpun heimsins og flóðið mikla. Hann leiðir okkur fyrir sjónir að Fornegyptum var alls ekki ókunnugt um hinn eina og sanna Guð. Það að textinn skuli finnast í gröf Setesar I faraós (1290-1279 f. Kr.) af nítjándi konungsættinni greinir okkur frá því að arfleifðin um hinn eina Guð lifði meðal Fornegypta frá upphafi vega.

Hinn kunni egyptafræðingur Sir Wallis Budge víkur þannig að hinum eina og sanna Guð sem Fornegyptar tilbáðu á tímum fyrstu konungsættanna. Þetta gerir hann í þekktasta verki sínu „The Book of the Dead (Egypsku dauðrabókinni:

Herra eilífðarinnar, skapari ófallvaltleikans . . . skapari ljóssins . . . Hann heyrir bænir hinna kúguðu og auðsýnir þeim hjartans gæsku sem ákallar hann. Hann frelsar hinn kúgaða úr höndum ofsækjandans . . . Hann er herra þekkingar og spekin streymir af vörum hans. Hann skapar grængresið sem nærir nautgripina og er stoð lífsins sem veitir mönnunum líf. Að hans tilstuðlan lifa fiskarnir í vötnunum og fiðruð uglan í loftinu. Hann veitir því sem hulið er í egginu líf . . . Lof sé þér, ó þú skapari allra hluta, þú HINN EINI.

Í athugasemd við þennan texta kemst Budge svo að orði: „Eftir að hafa lesið þennan útdrátt er óhjákvæmilegt að álykta að hugmyndir Egyptar til forna um Guð voru afar háleitar . . . Hérna sjáum við einn Guð . . . almáttugan og skapara alheimsins.“

Enn annar kunnur egyptafræðingur, Sir Flinders Petrie, var sömu skoðunar. Í verki sínu „The Religion of Ancient Egypt“ sem gefið var út á vegum Constable árið 1908 skrifar hann:

Ef þróun guðshugtaksins væri þróun frá slíkri andatilbeiðslu (animism), þá ættum við að finna ummerki um tilbeiðslu á mörgum guðum sem færi á undan tilbeiðslu hans . . . En það sem við finnum er hið gagnstæða: Eingyðistrúin er það fyrsta sem verður á vegi okkar í guðfræðinni . . . Hvar sem við getum rakið þróun fjölgyðistrúarinnar má rekja hana til eingyðistrúar . . . Sérhver borg virðist hafa haft einn guð sem tilheyrði henni, en síðan komu fleiri guðir til sögunnar með tímanum. Þannig höfðu allar borgir í Babýlon [og Súmer] sinn æðsta guð og þessi þróun og umbreyting guða í hópa kom í kjölfar þess að borgir þeirra tóku að sameinast stjórnarfarslega í eina einingu sem leiðir í ljós að í upphafi var um einn guð að ræða.

Í fornum egypskum textum frá tímum fyrstu sex konungsættanna má sjá vikið að þessum eina Guði síendurtekið. Í pýramída Una faraós má lesa: „Un-k ar kes neter“ (Þú ert til við hlið Guðs). Og í Tetipýrmídanum lesum við að hinn framliðni er ávarpaður svo: „Ut'a-f met neter as set'em-nef metu“ (Hann vóg orðin og sjá, Guð lagði við hlustir). „Nas en Teta neter“ (Guð hefur kallað Teti). [1] Aðrar tilvísanir til Guðs á þessum árdögum egypska ríkisins má sjá á svokölluðum Prisse-papýrus. Þrátt fyrir að hann sé frá tímum 11. konungsættarinnar hefur hann að geyma Spakmæli Kaqemma sem rituð voru á tímum Seneferu faraós sem tilheyrði 4. konungsættinni og Spakmæli Ptah-hetep sem skrifuð voru á valdaskeiði Assa faraós af 5. konungsættinni:

„An rex-entu xepert arit neter“ (Verk Guðs eru hulin). „Am-k ari her em reth xesef neter“ (Þú skalt ekki skapa skelfingu meðal karla og kvenna vegna þess að það er Guði vanþóknanlegt). „Au am ta xer sexer nete“ (Að eta brauð er samkvæmt ráðsályktun Guðs). „Ar seka-nek ter em sexet ta set neter“ (Ef þú ert bóndi skaltu vinna á akri þeim sem Guð hefur gefið þér). „Ar un-nek em sa aqer ari-k sa en smam neter“ (Ef þú vilt verða eins og spakur maður, láttu þá son þinn vera Guði velþóknanlegan). „Sehetep aqu-k em xepert nek xepert en“ (Fullnægðu þörfum þeirra sem setja traust sitt á þig ef þú getur). Þetta ber þeim að gera sem njóta velþóknunar Guðs: „Hesesu neter.“ „Mertu neter pu setem an setem en mesetu neter“ (Það sem Guð elskar er hlýðni. Guð hatar óhlýðni). „Mak sa nefer en tata neter“ (Sannarlega er góður sonur gjöf Guðs). „Pa neter aput pa maa“ (Guð mun dæma af réttlæti).

Ég birti þessi tíu ummæli fornegypsku spekiritanna vegna þess að þau gætu allt eins verið komið úr Orðskviðum Biblíunnar. Af ummælunum er ljóst að Fornegyptar nefndu Guð „neter,“ í reynd „neter at“ eða einn Guð. Við rekumst aftur á „b’nei elohim“ eða syni Guðs, englana, meðal Fornegypta sem þeir nefndu „neteru,“ af Guði. Við erum að tala um andlegar verur og áður hef ég talað um áhrif þeirra sem alheimslegrar eða kosmískrar orku, við getum sagt jákvæða eða neikvæða orku eftir því hvaða englar eiga hlut að máli. Annars vegar eru það englar Guðs, þjónsutuenglarnir:

Eru þeir ekki allir þjónustubundnir andar, útsendir í þeirra þarfir, sem hjálpræðið eiga að erfa? (Heb 1. 14).

Og í 91. Davíðssálminum er komist svo að orði:

Þitt hæli er Drottinn,
þú hefir gjört Hinn hæsta að athvarfi þínu.
Engin ógæfa hendir þig,
og engin plága nálgast tjald þitt.
Því að þín vegna býður hann út englum sínum
til þess að gæta þín á öllum vegum þínum.
Þeir munu bera þig á höndum sér,
til þess að þú steytir ekki fót þinn við steini.
Þú skalt stíga ofan á höggorma og nöðrur,
troða fótum ljón og dreka (Sl 91. 9-13).

Fornegyptar steyttu fót sinn við stein og því tróðu höggormar, nöðrur, ljón og drekar þa´ undir fótum sér. Hér á ég við goð fjölgyðistrúarinnar sem birtast í líkjum alls kyns furðuskepna á veggjum mustera þeirra. Þetta eru andaverur vonskunnar í himingeimnum“ (Ef 6. 12), hinir föllnu svartenglar illskunnar sem hnepptu Egypta undir ánauðarok sitt í 3000 ár. Hl. Serafim frá Sarov komst svo að orði um þá:

Þeir eru skelfilegir. Meðvituð afneitun þeirra á náð Guðs hefur umbreytt þeim í svartengla myrkursins, hrylling sem við getum ekki sett okkur fyrir sjónir. Þar sem þeir eru englar búa þeir yfir ógnarmætti. Sá minnsti á meðal þeirra gæti tortímt jörðinni ef náð Guðs gerði ekki hatur þeirra á sköpun Guðs vanmegna. [2]

Heilagur Serafim vitnar í skrif abba Antonísuar [3] þegar hann víkur að þrenns konar vilja sem er að starfi í manninum. Í fyrsta lagi er það vilji Guðs, fullkominn og endurleysandi. Í öðru lagi vilji sjálfs mannsins sem þarf ekki að vera illur, en felur alls ekki í sér hjálpræði. Og í þriðja lagi er það svo djöfullegur vilji sem leitast við að villa um fyrir manninum með tælingum sínum og leiða til eilífrar glötunar, hið kósmíska áhrifavald andavera vonskunnar eða hinna föllnu engla. Í Faðirvorinu kennir Drottinn okkur að biðja:

Verði þinn vilji á jörðu sem á himni.

Jakob postuli Drottins veitir okkur einnig góða leiðsögn í þessum efnum:

Gefið yður því Guði á vald, standið gegn djöflinum, og þá mun hann flýja yður. Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður. Hreinsið hendur yðar, þér syndarar, og gjörið hjörtun flekklaus, þér tvílyndu. Berið yður illa, syrgið og grátið. Breytið hlátri yðar í sorg og gleðinni í hryggð. Auðmýkið yður fyrir Drottni og hann mun upphefja yður ( sjá Jk 4. 1-10).

Fornegyptar fjarlægðust hinn eina sanna Guð og tóku að tilbiðja hina illskeyttu „neteru“ undirheima sem guði. Helst þessara goða var Set. Þegar Hyksosmenn lögðu Egyptaland undir sig hikuðu þeir ekki við að kenna Set við Baal, höfuðgoð sitt, þar sem þeir voru Kanaanítar og Amorítar. Set samsvara þannig súmerska goðinu Enki, goði svartagaldurs og særinga.

Unnt er að rekja þessa sögu í grófum dráttum af Fornegypskum heimildum. Þetta var harmsaga Fornegypta líkt og Súmera og Kanaaníta eins og segja má um dauðamenningu nútímans. Mynstrið er ávallt hið sama. Galdrar eru skilgreindir sem svo að þeir séu viðleitni mannsins til að styrkja eiginn vilja til að þrýsta honum fram í sköpunarverkinu með öllum tiltækum ráðum: Sjálfsstyrking eða hópefli samfélagsins, eða í einu orði sagt höfuðvígi hinnar kærleikssnauðu þekkingar. Ummæli líkt og „þú ert það sem þú hugsar“ lýsa þessari hugmyndafræði sem best. Á okkar tímum má sjá rit um slíkt efni flæða um í bókaverslunum sem ætluð eru frammámönnum í viðskiptalífinu sem njóta mikilla vinsælda og jafnvel flokkuð sem „andleg speki.“

Í riti sínu „A History of the Pharaos“ kemst A. Weigel svo að orði: „Á vegg Edefúmusterisins má sjá mynd af þeim víðfræga manni Imhótep [4] þar sem hann er sýndur lesa papýrusvafning um sögu borgarastyrjaldar sem geisaði milli fylgjenda Hórusar og Sets . . . Þar er tekið fram að þessi styrjöld hafi geisað á 363. ári.“ Í Edefúáletruninni er bókstaflega sagt á 363 ári Ra-Heru-Khuti, það er að segja 363 ári Hórusar. Árið eitt á valdaskeiði Hórusar (húss Hórusar) var í hugum Egypta upphaf tímatalsins. Á svonefndri „Kaírósúlu“ þar sem fornir konungsannálar eru skráðir má lesa eftirfarandi texta sem skírskotar til þrettánda stjórnarárs Nynetjer faraós:

129. Borgarmúrar Shem-Re jafnaðir við jörðu.
Borgarmúrar „Húss norðursins“ jafnaðir við jörðu.

Nynetjer faraó var þriðji faró 2. konungsættarinnar (2890-2686 f. Kr.). Upphaf tímatals Egypta eins og hins nýja tímatals Súmera miðaðist við flóðið mikla 3145 f. Kr. Þrettánda valdaár hans hefur því verið árið 2769 og Nynetjer sest að völdum 2782. Því virðist ljúka með síðasta faraó 2. konungsættarinnar – Khasekhemwy – sem andaðist 2686 f. Kr. Í fornum áletrunum má sjá að 47.000 manns hafi fallið í átökunum. Á tveimur styttum sem varðveist hafa af honum má sjá hvernig norðanmenn lúta honum og bera hina hvítu kórónu suðursins. Margir egyptalandsfræðingar telja að nafn hans þýði „ríkin tvö eru krýnd“ til að minnst sameiningar Neðra- og Efraegyptalands eða suður og norðurríkisins. Fjórði faróinn Peribsen (Sekhemib) varpar enn frekara ljósi á þessi átök milli eingyðistrúarinnar og fjölgyðistrúarinnar. Á hans tímum hverfur nafn Hórus úr nafnskyldi (serek) faraós og keppinautur hans, Set, verður að verndarguði hans. Þetta má sjá á „serek“ Peribsen þar sem nafn Sets kemur í stað Hórusar. Í „serek“ Khasekhemwy faraós birtast síðan bæði nöfn Sets og Hórusar við sameiningu ríkjanna. Síðar þegar musterisvald fjölgyðistrúarinnar hafði treyst sig í sessi má aftur sjá nafn Hórusar í „serek“ faraóanna, siður sem þaðan í frá varð að reglu, svo ástfólgin var Hórus Egyptum að ekki var unnt að afmá nafn hans úr þjóðarvitundinni. Munurinn er sá að musterisvald fjölgyðistrúarinnar hefur nú gert Hórus að syni gyðjunnar Isisar.

Það var Neðraríkið og óshólmar Nílar sem var kornforðabúr Egyptalands og miðstöð Ósirísdýrkunarinnar og Set var ávallt tengdur óshólmasvæðinu. Á tímum síðustu þriggja faróa annarrar konungsættarinnar geisar stríð á milli Het-Her-ur (Húss Hórusar) og Het-Set (Húss Sets) þar sem fjölgyðistrúin hafði skotið djúpum rótum. Í riti sínu „Die Götter vom Memphis“ (Guðirnir frá Memfis) leitast H. Junker við að rekja sögu guðshugtaksins Her-ur en þetta var annað þeirra heita sem Fornegyptar gáfu hinum eina og sanna Guði auk heitisins „neter at.“ Sjá má hvernig hann glatar smám saman stöðu sinni „sem hinn æðsti“ í hugum Fornegypta sem rekja mátti til musterisvaldsins í Heliopolis. Grikkir kölluðu síðar Her-ur Hórus sem þeir samkenndu við Appalló.

Heitið Her-ur lifði áfram meðal Fornegypta sem Hórus hinn eldri. Hann var tilbeðin í Efraegyptlandi á síðasta Naqadskeiðinu (III) áður en fyrsta konungsættin komst til valda, en fylgjendur hans voru nefndir „shemsu-Heru“ eða fylgjendur Hórusar. Upphaflega voru egypsku ríkin tvö: Ta Shemau (Efraríkið) og Ta-Mehu (Neðraríkið). Öll nöfn (serek) fyrstu konungsættarinnar bera nafn Her-ur. Við sjáum sömu þróunina eiga sér stað í Egyptalandi og í Súmer í átt til fjölgyðistrúar. Í Súmer var það An sem var höfuðguðinn og síðan kemur móðurgyðjan mikla eða Ki. Í Egyptlandi var það gyðjan Hathor sem var samofin nafni Hórusar í upphafi og tákn lífsmáttarins. Í Biblíunni eru það þau Adam og Evu, en nafnið ha’awa þýðir bókstaflega líf, sú sem veitir líf. Þessi hugmynd lifir enn góðu lífi í kabbalisma Gyðinga þar sem Jahve er táknaður með hring en lífskrafturinn eða hin kvenlæga hlið Guðs með geislanum út frá miðpunktinum eða „elohim.“

En hliðstæðurnar eru enn fleiri. Í Brak í Súmer og alls staðar í frummenningu Súmera eru augnalíkneskin – hin alsjáandi augu Guðs áberandi – og hið sama blasir við í Egyptalandi þar sem Hórus var táknaður með alsjáandi auga. Þetta tákn var svo viðloðandi í egypskri menningu að enn í dag bera allir bátar fiskimannanna á Níl þetta sama auga! Enn annað tákn Her-ur var fálkinn og þannig var hieroglýfa Hórusar ávallt auga eða fálki og í fjölgyðistrúnni birtist hann sem mannvera með fálkahöfuð. Þegar hefur verið vikið að því að nafnið Her-ur skírskotar einnig til ljóssins. [5]

Hjá öðrum menningarheildum birtist fálkinn hins vegar nær undantekningarlaust sem örn, hvort sem um Biblíuna er að ræða, hina hebresk-kristnu arfleifð, eða þá meðal náttúrufólks um allan heim. Í Móselögunum var óheilmilt að leggja sér örn til munns (5M 14. 13) og örninn er tákn reiði Drottins (5M 28. 49) eða brotthvarf náðar hans í bannfæringarorðunum. Í einhverjum mesta lofgjörðarsálmi Davíðs (103) er Guði líkt við örn sem mettar sálina náð sinni (3) og lesa má: „Varðveit mig sem sjáaldur augans, fel mig í skugga vængja þinna“ (Sl. 17. 8) og „Hversu dýrmæt er miskunn þín, ó Guð, mannanna börn leita hælis í skugga vængja þinna“ (Sl 36. 8). Í allri frumarfleifð Indóarískra þjóða er örninn upprisutákn: Tákn flugs mannssálarinnar til hinnar æðstu verundar eða Guðs. Hann er einnig tákn um verndarmátt Guðs og í Nýja testamentinu jafnt og því Gamla skírskotar hann til englanna. Hann er einnig tákn sjálfs stjórnunarvaldsins sem maðurinn þiggur úr höndum þess Guðs sem felur manninum ráðsmennsku yfir jörðinni (1M 3. 23). Allur endurspeglast þessi sannleikur í orðum hins súmerska skrifara hér að framan:

„Konungsstjórn kom af himni ofan.“

Rétt eins og auðkenni konunga innan hinnar indóarísku arfleifðar er táknað með sérstökum höfuðbúnaði – kórónu – ber höfðinginn meðal indíána í Norðurameríku fjaðrakórónu úr arnarfjöðrum. Í táknmálsfræðinni eru slík tákn nefnd frumtákn eins og vikið verður nánar að síðar og hinir heilögu kristindómsins endurtaka í sífellu frá upphafi vega að Guð marki með óútafmánalegum hætti í verundardjúp mannsins í óræði bænalífsins. Ég læt hér einungis eina tilvitnun fylgja til að stytta mál mitt:

Þegar sálin dvelur í þessari upprætingu vill Drottinn leiða henni fyrir sjónir einhverja leyndardóma, himneska hluti og sýnir í ímyndunaraflinu. Hún er þess megnug að greina frá slíku eftir á vegna þess að þetta greypist svo sterkum dráttum í minninu, að henni gleymist slíkt aldrei. En þegar þessar sýnir birtast í skilningnum veit sálin ekki hvernig hún á að greina frá þeim. Á slíkum andartökum hlýtur að vera um einhverjar sýnir að ræða sem eru svo háleitar að þær eru ekki við hæfi þeirra sem lifa hér á jörðinni og skilninginn brestur getu til að varpa ljósi á þær. En þrátt fyrir þetta getur sálin greint frá ýmsu hvað varðar þessar sýnir í skilningnum þegar hún hefur að nýju öðlast vald yfir skynhrifum sýnum. [6]

Í hinu mikla verki sínu „Dictionaire de Symboles“ (Orðasafni táknmálsfræðinnar) komast þeir J. Chevalier og A. Gheerbrants svo að orði:

Örninn er kóróna fuglatáknmálsins sem skírskotar til æðri vitundarstiga og þar með til engla í arfleifð Biblíunnar eins og svo iðulega kemur fram: „Arnarandlit á þeim fjórum aftanvert. Og vængir þeirra voru þandir upp á við. Hver þeirra hafði tvo vængi, sem voru tengdir saman, og tvo vængi, sem huldu líkami þeirra. Og þær gengu hver fyrir sig beint af augum fram, þær gengu þangað, sem andinn vildi fara, þær snerust eigi við í göngunni“ (Esk 1. 10-12). Þessi ímynd tjáir yfirskilvitleikann . . .
Í Opinberunarbókinni (4. 7) má sjá: „Fjórða veran var lík fljúgandi erni.“ Díónysíus Areopgíti varpar ljósi á það hvers vegna örninn skírskotar til englanna: „Ímynd arnarins táknar hið konunglega og skjótleika og hraða flugsins, til snerpu, árvekni og virkni; til hygginda í leit að þeirri næringu sem veitir styrk og til hins stöðuga, beina og sívarandi ásæis á auðlegð dýrðar guðdómlegra geisla sólarinnar í öllum þeim styrk sem hún býr yfir.“ Örninn sem einblínir þannig í sólina er enn að nýju tákn um huglæga uppljómun. „Óttalaust einblínir örninn til sólarinnar,“ skrifaði Angelus Silisius, „rétt eins og unnt er að horfa til hinnar eilífu birtu í hreinleika hjartans.“ Örninn er þannig tákn ásæisins og því varð hann að tákni Jóhannesar guðspjallamanns. Í sumum verkum frá miðöldum er erninum líkt við Krist og þannig tjáir hann himnaför hans og konungstign.“ [7].

Í Davíðssálmum Biblíunnar er þessi upprisutrú tjáð með eftirfarandi orðum: „Hann mettar þig gæðum, þú yngist upp sem örninn“ (Sl 103. 5). Örninn er tákn upprisu mannssálarinnar til hinnar æðstu Verundar og í frumtrúnni hafa steinaldarmennirnir í Nílardalnum þannig horft til sólarinnar til að tilbiðja hina æðstu Verund sem skapaði hana, rétt eins og höfðingi indíánanna í Norðurameríku fagnaði nýjum degi með því að standa á háum kletti og breiða útrétta armanna til móts við Manatóa – Andann mikla í árdegisgeislum sólarinnar. Með sama hætti lét Þorgeir Ljósvetningagoði bera sig út í sólina til að tjá þeim Guði trú sína sem skapaði sólina. Þetta er að fylgja því eðlisboði sem Páll postuli vék að, eðlisboði frummyndarinnar. En öll tákn búa yfir jákvæðum og neikvæðum áhrifamætti:

Ef þetta er yfirfært á hina kristnu arfleifð, þá leiðir þessi afskræming táknsins frá Kristi til Antikrists. Í þessu samhengi verður örninn að tákni hroka og kúgunarvalds, hinn gráðugi ránfugl mannvonsku og græðgi. [8]

Í höndum musterispresta fjölgyðistrúarinnar í Heliopolis er nú tekið að tilbiðja sólina sjálfa sem goðið Ra sem leysir upprunalegan boðskap Her-ur af hólmi í egypskri goðafræði í krafti mannvonskunnar og græðginnar. Dauðamenning nútímans hefur einnig blindast af þeirri afskræmingu frummyndarinnar sem hugmyndafræðingar hennar eða arkitektar hafa boðað síðustu tvær aldirnar í síðkristinni menningu Vesturlanda: Nýheiðninni! Þannig hefur hún misst sjónar af sannleikssól Biblíunnar:

Drottinn skal vera þér eilíft ljós og Guð þinn vera þér geislandi röðull (Jes 60. 19).

[1]. Á veggjum pýramída Teti faraós sem er í Saqqara má sjá elsta safn særingarþula í Egyptalandi, alls 273 sem prestarnir lásu við útför faraós. Í þulu 173-4 má meðal annars sjá: „Sem lifir á verund Guðs,“ bókstaflega etur hann. Í þessu sjá sumir fyrstu ummerki þess að konungar til forna hafi etið sérstaka helgimáltíð sem fólst í sjálfum Guði og þar með forgildi Evkaristíunnar eða tilvísun í epli Adams í Gan Eden. Þar má einnig lesa: „Háheilagasta helgra ímynda hins Hæsta Eina.“ Í þulu 262 ákallar hinn nýlátni faraó Guð um að minnast sín: „Minnstu mín, ó Guð, ef þú þekkir mig þekki ég þig. Minnstu mín, ó Guð.“ Sjá: http://touregypt.net/featurestories/pyramidtext.htm
[2]. Opinberanir hl. Serafim frá Sarov, París, 1932 (á rússnesku). Tilvitnun úr „The Theology of the Eastern Church, Lossky, James Clarke & Sons, London and Camebridge, 1973, bls. 129.
[3]. Textann um viljaafbrigðin þrjú má finna í „Vet. Patrum Bibl.,“ Feneyjar 1788, IV. 699 og áfr. Tilvitnun úr „The Theology of the Eastern Church, Lossky, bls. 129.
[4]. Imenhotep var vesír Djoser faraós af þriðju konungsættinni. Fornegyptar tileinkuðu honum margvíslegar uppfinningar. Hann er talinn hafa annast byggingu Djoserpýramídans og pýramídans í Saqqara sem eru þrepapýramídar. Hann er einnig talinn hafa uppgötvað papýrusinn til skrifta og vera faðir lækningalistarinnar og höfundur skrifa um læknisfræði sem er með öllu laus við áhrif særinga og töfraþula. Hann er einnig sagður hafa fundið upp burðarsúlur í byggingum.
[5]. Þegar hefur verið vikið að því að „úr“ þýðir ljós og ásjóna Her-úr ásjóna ljóssins. Þessi merking lifði áfram og þannig voru pýramídarnir nefndir „Urim-middim“ eða mæliker ljóssins.
[6]. Borgin hið innra, 4. 5.
[7]. „Dictionaire de Symboles,“ Um örninn.
[8]. Sama tilvitnun.

1 athugasemd

Athugasemd from: Ingileif
Ingileif

Gott og gefandi

15.03.09 @ 21:03