« Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 6Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 4 »

06.09.07

  13:28:51, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2954 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 5

FJÖLGYÐISTRÚIN SIGRAR Í SÚMER

(Sjá einnig myndir 5)

Þegar við virðum fyrir okkur það trúarmynstur sem ríkjandi var í borginni Ebla á úttmörkum súmerska ríkisins, þá sjáum við þar greinileg ummerki bæði um svo kallaðan „henotheism“ og fjölgyðistrú. Orðið „henotheism“ er myndað úr grísku orðunum „eis“ eða frá og „enos“ eða einn. Orðið felur í sér að játa einn guð sem yfirguð auk annarra guða. Það er þetta mynstur sem við sjáum með áþreifanlegum hætti í Súmer og Akkad þegar þessi samfélög taka að þróast í átt til fjölgyðistrúar. Hér er það Anu (Súmer) og Ea (Akkad) sem eru yfirguðirnir eða höfuðguðirnir. Í upphafi var það Anu, karlguðinn, og gyðjan Ki eða jörðin sem gátu guðinn Enlil samkvæmt súmerskri goðafræði. Þeirrar þróunar gætir ávallt í landbúnaðarsamfélögum að kvenfrjósemisgyðjan komi til sögunnar. Eftir því sem samfélagið þróaðist fjölgaði goðunum sem tilheyrðu fjölskyldu guðanna og nefndir voru „anunaki (anu=himinn; na= og; ki= jörð). Það er alþekkt fyrirbrigði innan trúarbragðafræðinnar að meðal fjölgyðistrúarbragða er hinni æðstu Verund þokað smám saman til hliðar og í Súmer var hætt að líta á Anu sem Guð og hann gerður að sjálfu himinhvolfinu (og ljóst er að það gerir engar siðrænar kröfur til manna).

Eftir því sem musterisvaldinu óx fiskur um hrygg jókst vald musterisprestanna (sanga á súmersku) og áþreifanlegt valdakerfi varð til undir stjórn æðstaprestsins eða „en.“ Þannig varð höfuðpresturinn í Ekurmusterinu í Nippur að „Enlil“ og guðirnir tóku á sig sífellt mennskari mynd. Helstu guðir Súmera auk Anu, guðs himinhvolfsins, sem tilbeðin var í E’anna musterinu í Uruk (Erek) voru þessir:

Enlil (goð lofts og storma [lil=loft]) sem tilbeðinn var í E’kurmusterinu í Nippur. Hann var bæði sýndur í mennskri mynd og sem snákur); Enki (goð vatns og frjósemi, tilbeðinn í E’abuzumusterinu í Eridu, goð svartagaldurs, visku og uppfræðslu); gyðjan Ki eða Ninhursag (móðurgyðjan, tilbeðinn í E’saggilamusterinu í Eridu og einnig í Kish); Ninlil eða Nillina, gyðja sunnanvindsins og eiginkona Enlil, tilbeðinn í E’kurmusterinu í Nippur); Inanna (gyðja ástar og styrjalda, tilbeðin í E’annamusterinu í Úruk); Nanna eða Sin á akkadísku (gyðja tunglsins og tilbeðin í E’hursagmusterinu í Úr og í Harran); Utu eða Tutu á akkadísku (goð sólarinnar og tilbeðinn í E’barbaramusterinu í Sipparand) og Ninurtu (herra plógsins á súmersku og tilbeðinn í E’girsumusterinu í Lagash). [1]

Eftir því sem borgarlífið varð margbrotnara tóku goðin sífellt meira að líkjast mennskum einvöldum (lugal, lu=maður, gal=stór) eða æðstu prestunum (ensi, en=herra, si=land) og eignuðust fjölskyldur ásamt hirð og þjónustufólki. Litið var á minni goð og gyðjur sem fjölskyldumeðlimi guðanna og gyðjanna. Fjöldi goðanna jókst í sífellu í aldanna rás og þannig var tannpínugoð og gigtargoð til, gyðjur grænmetis og Leonard Woolley fann jafnvel ummerki um sjö jarðlagagoð sem komu heim og saman við ríkjandi jarðlög í Súmer.

Orðið guð á súmersku eða „dingir“ þýðir bókstaflega stjarna og höfuðguðir Súmera voru þannig kenndir við hinar sýnilegu reikistjörnur. Hreyfingar stjarnanna voru taldar tengjast atburðum á jörðinni og hér má finna uppsprettu þeirra „vísinda“ sem á okkar dögum er nefnd stjörnuspeki:

Nanna var gyðja tunglsins.
Utu guð sólarinnar.
Enki guð Merkúrí.
Innanna gyðja Venusar.
Nergal tengdur Mars.
Enlil guð Júpiters.
Ninurta guð Satúrnusar. [2]

Auk þess að vera nefndir „annuaki“ eins og vikið var hér að ofan nefndu Súmerar guði sína „elohim.“ Hér erum við komin að „b’nei elohim“ eða sonum Guðs sem Biblían víkur að í 6. kafla Sköpunarsögunnar:

Er mönnunum tók að fjölga á jörðinni og þeim fæddust dætur, sáu synir Guðs, að dætur mannanna voru fríðar, og tóku sér konur meðal þeirra, allar sem þeim geðjuðust. Þá sagði Drottinn: „Andi minn skal ekki ævinlega búa í manninum, með því að hann einnig er hold. Veri dagar hans nú hundrað og tuttugu ár.“ Á þeim tímum voru risarnir (nefelim) á jörðinni, og einnig síðar, er synir Guðs höfðu samfarir við dætur mannanna og þær fæddu þeim sonu. Það eru kapparnir, sem í fyrndinni voru víðfrægir (1M 6. 1. 4).

Á þessu tímaskeiði voru 120 ár í flóðið mikla. Við vitum nú þegar að Biblían segir okkur að synir Guðs séu englarnir. Hún segir okkur einnig að þeir skiptist í gæskuríka engla og hina föllnu engla eða svartengla illskunnar. Sjálfur segir Drottinn okkur: „Ég sá Satan hrapa af himni sem eldingu“ (Lk 10. 18). Og orð Péturs postula hljóma enn í eyru okkar: „Þér vitið, hvað gjörst hefur um alla Júdeu, en hófst í Galíleu eftir skírnina, sem Jóhannes prédikaði . . . Hann gekk um, gjörði gott og græddi alla, sem af djöflinum voru undirokaðir, því Guð var með honum“ (P 10. 37, 38). Jesús kom til að varpa út illum öndum höfðingja þessa heims, Satans:

Í samkunduhúsinu var maður nokkur, er haldinn var óhreinum, illum anda. Hann æpti hárri röddu: „Æ, hvað vilt þú oss, Jesús frá Nasaret? Ert þú kominn að tortíma oss? Ég veit, hver þú ert, hinn heilagi Guðs“ (4. 33-34).

Og í Opinberunarbókinni segir Jóhannes: „Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi, sem heitir djöfull og Satan, honum sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina, og englum hans var varpað niður með honum“ (Opb 12. 9).

Við erum hér komin að málaflokki sem er afar viðkvæmt eða fáránleiki í hugum fjölmargra – allt of margra – nútímanna. Þessi svartnættisöfl illskunnar láta þá afskiptalausa sem trúa ekki á tilvist þeirra. En ef við skiptum orðinu andi út fyrir illar hugsanir eða alla „isma“ veraldarhyggju nútímans reynist okkur ekki erfitt að sjá ummerki þeirra í verkum dauðamenningarinnar. Slíkt er ekki komið frá Guði, hinni æðstu Verund náttúrufólksins sem ávallt er gæskurík og ber umhyggju fyrir velferð mannanna. Við vitum ekki hvaða myrkraverk voru framin í myrkum afkimum musteranna í Súmer, en við vitum að goðið Enki var guð svartagaldurs og töfra. Ef til vill greinir orðið risar eða „nefelim“ okkur eitthvað frá því: „Synir Guðs höfðu samfarir við dætur mannanna og þær fæddu þeim sonu.“ Biblían greinir okkur frá því að þessir risar hafi verið til á jörðinni: óvenjulega hávaxið fólk.

Rót orðsins „nefelim“ er „nefel“ sem þýðir ótímabær fæðing, fósturdeyðing eða fósturlát. Textar sem eru mikilvægir hvað varðar „nefelim“ er sjálf Biblían og Dauðahafshandritin, en þar kemur heitið fyrir nokkrum sinnum og þar eru þeir nefndir nokkrum nöfnum. Það er vikið að þeim sem „emim“ eða „skelfendur“ (1M 14. 5; 5M 2. 10), „refaim“ eða þeir sem draga úr öllum styrk eða deyðendurnir (2S 23. 13; 1Kr 11. 15), „gibborim“ eða risavaxnir kappar (Jb 16. 4), „anakim“ eða þeir sem hafa langan háls (Js 11. 21; 14. 15) og „awwim“ eða eyðendur. Vikið er að fleiri risum í Biblíunni eins og Golíat (2S 21. 19), risa með tólf fingur og tær og taldur er tilheyra „refaim“ (2S 21. 20) og tröllvöxnum Egypta (1K 11. 23). Frásögnin af njósnaför sendimanna Jósúa til hins fyrirheitna lands (4.M 13. 26-33) greinir frá „nefelim“ þeim sem þeir sáu. Samkvæmt hebreskum munnmælasögnum byggði einn „nefelim,“ Arba, borgina Kiriath Arba sem í dag er þekkt undir nafninu Hebron.

Í þessu sambandi er vert að minnast orða sjálfs Drottins:

„Ég segi yður, ef þeir þegja, munu steinarnir hrópa“ (Lk 19. 40).

Hér vék hann að boðun lærisveinanna. Tala ekki ýmsar steintöflur sem fundust hafa í jörðu til okkar, auk fornra borgarrústa og mannvistarleyfa í jörðu. Hafa þá fundist menjar um slíka „nefelim“ eða risavaxna menn í jörðu? Vissulega.

Á sjötta áratugi síðustu aldar þegar unnið var við jarðvegsframkvæmdir í efri Efratsdalnum í suðaustur Tyrklandi fundust grafir sem höfðu að geyma líkamsmenjar risavaxinna manna. Í tveimur tilvikum mældust lærleggirnir 120 sm langir. Joe Taylor sem er forstöðumaður steingervingasafnsins í Crossbyton í Texas var falið að gera líkan af þessum risavöxnu beinum og mannveru. Hún mælist vera tæplega fimm metra há. Handleggirnir einir með hendi mældust um 1. 80 metrar. [3]

Í Biblíunni lesum við að járnlíkista Ógs konungs í Basan hafi verið 9 álna löng og fjögurra álna breið eða um 4. 5 meter að lengd og um 1. 80 að breidd (5M 3. 11). Árið 1456 fannst beinagrind af manni í Valence í Frakklandi sem reyndist vera 7 metrar að lengd.

Árið 1577 fannst önnur beingagrind af manni í Lúsernkantonunni í Sviss sem mældist vera tæplega fimm metra há. Enn önnur fannst nærri Chaumontkastalanum í Frakklandi árið 1613 sem sögð er hafa verið 7 metrar að lengd. Árið 1833 voru hermenn að grafa fyrir púðurgeymslu í Rancho í Kaliforníu þegar þeir komu niður á beinagrind af konu sem var tæplega fjórir metrar að lengd. Í kjálkunum mátti sjá tvöfaldan tanngarð í efri og neðri gómi. Piuteindíánarnir á svæðinu sögðu að beinagrindin tilheyrði risum sem þeir kölluðu Si-Te-Cahs. Karþagómenn fundu líkamsleyfar af risa sem þeir sögðu hafa verið 10 metra langan um 350 f. Kr. [4]

Í fornum texta ættuðum frá Gyðingum er vikið að þeim risavöxnu Amorítum sem Ísraelsmenn sigruðu. Í Tanhuma, Devarim 7 (Buber) er greint frá Johanan rabbía ben Zakkai sem hitti Hadríanus keisara. Þetta átti sér stað um 135 e. Kr., skömmu eftir að Rómverjar kæfðu uppreisn Gyðinga í Bar Kocba uppreisninni. Textinn hljóðar svo:

Hinn siðspillti Hadrían keisari sem sigraði Jerúsalem miklaðist mjög og sagði: „Ég hef sigrað Jerúsalem með herstyrk mínum.“ Johanan ben Zakkai rabbíi sagði við hann: „Þú skalt ekki miklast. Ef það hefði ekki verið vilji himinsins, þá hefðir þú ekki sigrað hana.“ Johanan rabbí fór síðan með Hadrían inn í helli og sýndi honum líkamsleyfar Amorítanna sem voru þar grafnir. Einn þeirra mældist vera 18 álnir (rúmlega 9 metrar) að hæð. Hann sagði: „Meðan við nutum velþóknunar sigruðum við slíka menn, en núna sökum synda okkar hafið þið sigrað okkur. [5]

Í dag er rætt mikið um erfðavísindi og kynbætur á mönnum. Maðurinn er kominn á það stig tækniþekkingar að hann getur haft áhrif á erfðavísa með ræktun fósturvísa. Þeir sem halda því fram að Guð sé hugarfóstur mannsheilans telja sig óbundna af öllum æðri siðaboðum: Þeir setja sér sínar eigin leikreglur vegna þess að þeir segja að Guð sé dauður. Útkoman er dauðamenning veraldarhyggjunnar. Á tveimur áratugum hefur einn milljarður ófæddra barna verið deyddur af fullkomnu miskunnarleysi. Biblían segir okkur:

„Þeir þyrma ekki lífsafkvæmum, og líta ekki miskunnaraugum til ungbarna“ (Jes 13. 18).

Í heimstyrjöldinni síðari krafðist Stalín þess að líffræðingar sínir „framleiddu“ hálfmenni í Kasakstan. Draumur hans voru risavaxnir menn með með heilabú mannapa sem áttu að skipa sérstakar liðsveitir í Rauðahernum. Höfuðóvinur hans í vestri var annar siðblindur ríkisleiðtogi – Hitler – sem bar sama draum í brjósti um ofurmenni, nýjan kynstofn. Slík hugmyndafræði – illar hugsanir – koma ekki frá Guð enda sat Hitler iðulega miðilsfundi með kunnustu miðlum Þýskalands.

Að einu leyti höfðu hinir fornu Súmerar rétt fyrir sér. Þeir sögðu að styrjaldir á jörðu endurspegluðu styrjaldir goðanna eða andavera illskunnar. Í myrkviði mustera sinna lögðu þeir rækt við galdra kærleiksnauðrar þekkingar. Þeir opnuðu huga sinn og hjarta fyrir innblæstri þekkingar svartengla myrkravaldsins: Hinna föllnu engla sem risu upp gegn Guði í stærilæti sínu og hroka. Við skulum heyra hvað heil. Tómas frá Akvínó hefur að segja um þessa kærleikssnauðu þekkingu:

Í Esekíel er Satan ávarpaður sem kerúbi . . . Kerúbar eru taldir merkja „fullur þekkingar,“ serafar „þeir sem loga“ eða „glæða eld.“ Fyrra heitið gefur því til kynna þekkingu sem getur farið saman við dauðasynd, hið síðara hinn brennandi kærleika sem gerir það ekki. [6]

Og á öðrum stað segir þessi prins guðfræðinganna:

Í Biblíunni eru heiti serafanna og hásætanna ekki gefin djöflum vegna þess að þau fela í sér það sem getur ekki farið saman með dauðasynd, það er að segja brennandi kærleika og nærveru Guðs. En djöflarnir eru nefndir kerúbar, tignir og máttarvöld vegna þess að þau fela í sér þekkingu og mátt sem bæði er til staðar í hinnum illu sem góðu. [7]

Páll postuli segir: Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika,
væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla“ (1Kor 13. 1). Hann segir einnig í Öðru Korintubréfinu að Satan bregði sér „í ljósengilslíki“ (11. 14). Hann segir einnig: „Því að baráttan, sem vér eigum í, er ekki við menn af holdi og blóði, heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum“ (Ef 6. 12). Og á öðrum stað:

Látið þá ekki taka af yður hnossið, sem þykjast af auðmýkt sinni og engladýrkun og státa af sýnum sínum. Þeir hrokast upp af engu í hyggju holds síns og halda sér ekki við hann, sem er höfuðið og styrkir allan líkamann og samantengir taugum og böndum, svo að hann þróast guðlegum þroska (Kól 2. 18-19).

Það var þetta sem súmersku sangarnir (prestarnir) tóku að gera í sífellt ríkari mæli: Að tilbiðja englana í stað hins lifandi Guðs, að dýrka þá. Satan sætti færis og vafalaust hefur hann brugðið sér í ljósengilslíki ásamt árum sínum í upphafi. En síðar og eftir því sem musterisprestarnir urðu „andsetnari“ tók hann að hrinda herbragði sínu í framkvæmd: Að tortíma sæði konunnar svo að ráðsályktun Guðs næði ekki fram að ganga. Hann gerir sér ljóst „að allir þeir, sem leiðast af anda Guðs, þeir eru Guðs börn“ [synir Guðs] (Rm 8. 14).

Fyrstu kynbæturnar á mönnum hófust í skúmaskotum musteranna þar sem prestar og hofskækjur seldu líkami sína illum öndum á vald. Þegar illskan og afvegaleiðslan jókst ákvað Guð að tortíma þessu illsæði. Í dag horfumst við í augu við sömu öflin. Nú eru það illar hugsanir og „ismar“ sem eru skurðgoðin. Því er boðskapur Biblíunnar okkur mikilvægur. Horfið til Krists og aldrei undan eins og Pétur á vatninu þegar hann sökk í mennskum vanmætti sínum. Í dag eru það myrkraöfl dauðamenningarinnar sem sækja hart að lífinu og fótumtroða boðorð Guðs í uppreisn sinni gegn honum. Þrátt fyrir allt gengu Súmerar aldrei eins langt í dauðamenningu sinni og að færa mannfórnir líkt og Kanaanítar. Einu mannfórnir þeirra – jafns skelfilegar og þær voru – var að grafa fólk lifandi með konungum sínum. Þetta sjáum við enn í dag í konungagröfinni í Úr þar sem fjölda manns var fórnað með þessum hætti.

Andsetning – að vera setinn illum öndum – er fjarri því að vera ókunnugt fyrirbrigði í dag og kirkjan kallar til sérþjálfaða presta fólki til hjálpar í slíkum tilvikum. Þeir eru iðulega geðlæknar eða sálfræðingar auk þess að vera prestar. Myrkvaöflin beina atlögum sínum gjarnan að fjölskyldum þar sem allt heimilshald er með ágætum, augljóslega til að sundra fjölskyldunum. Slíkar fjölskyldur eru nefndar pílsarfjölskyldur, en þrátt fyrir að Guð láti aldrei freista neins um megn fram, getur slíkt reynt mjög á fólk meðan freistingarnar standa yfir. Hvað hina varðar, þá sem opna sig fúslega fyrir illum hugsunum hins fallna verndarkerúba, þá er Ilse Stürmer, einn kvalaranna í Auschwitz í Póllandi, gott dæmi um afleiðingar slíks: Skrifborðslampi með skermi úr húð ungabarns (Gyðingabarns). Af verkunum skulum við þekkja þá.

[1]. http://en.wikipedia.org/wiki/Mesopotamian_mythology
[2]. Sama.
[3]. http://www.mtblanco.com/MtBlancoTour.htm
[4]. http://bibleprobe.com/nephilim.htm
[5]. Tilvitnun úr Judaism, Arthur Hertzberg, Braziller, New York, 1962, bls. 155-156.
[6]. Summa theologiae 1, spr. 63, a. 7.
[7]. Sama verk, 1, spr. 63, a. 9.

No feedback yet