« Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 5Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 3 »

05.09.07

  07:04:25, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 3418 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 4

FRUMTRÚIN Á HINA ÆÐSTU VERUND UM ALLAN HEIM MEÐAL FRUMBYGGJASAMFÉLAGA (NATÜRVÖLKER)

(Sjá Myndir 4)

Í fjórða og fimmta kafla Sköpunarsögunnar er okkur greint frá því hvernig málin þróuðust meðal mannkynsins á jörðinni á ákveðnum stað og tíma eða í Gan Eden. Biblían kallar hinn fallna kynstofn Adams syni Kains, en syni ljóssins afkomendur Sets. Hér er vikið að árfeðrunum tíu eða „Sarku.“ Biblían er fáorð þegar hún víkur að syni Sets eða Enos: „En Set fæddist og sonur, og nefndi hann Enos. Þá hófu menn að ákalla nafn Drottins“ (1M 4. 26). Þetta eru hinir smurðu prestkonungur sem rísa hæst með Enok (En-me-en-duranna?) sem „gekk með Guði og hvarf, af því að Guð nam hann burt“ (1M 5. 24). Þetta er fyrsta dæmið um uppnumningu í Biblíunni og við sjáum það endurtaka sig þrisvar sinnum síðar. Elía var numinn upp í „eldlegum vagni (2K 2. 11) og síðan var það Jesús. Kirkjan trúir því einnig að Guð hafi numið Maríu Guðsmóður burt. Þetta er mikilvægt vegna þess að þetta bíður allra hinna trúuðu sem virða boðorð Guðs. Biblían er ávallt markviss í boðskap sínum til mannanna barna eins og trúarkenningarnar (dogma).

Við skulum aðeins nema staðar við orðið „smurðu“ og heyra hvað Fástus frá Róm (um 350-400) hafði um þetta að segja:

Frelsari okkar varð Kristur eða Messías í holdtekju sinni og heldur áfram að vera konungur og sannur æðsti prestur . . . Meðal Ísraelsmanna voru prestar og konungar smurðir með olíu . . . Þeir voru nefndir „hinir smurðu“ eða „kristar.“ En Frelsari okkar sem er í raun og veru Kristur var helgaður með smurningu Heilags Anda . . . [1]

Guð hafði fyrirhugað Adam að verða að slíkum kristi: Hinum andlega manni smurðum í Heilögum Anda. Og frá og með þessari stundu hafa allir konungar verið smurðir, rétt eins og átti við um hina smurðu prestkonunga Biblíunnar. En Adam brást köllun sinni og þetta nefnir Biblían syndafallið sem leiddi til brottvísunarinnar úr Gan Eden. Kjarni allrar eingyðistrúar er að lúta vilja Guðs og í þessu brást Adam: Hann hafnaði þeirri fæðu sem átti að verða að næringu hans. Í þessu sáu kirkjufeðurnir skírskotun til Evkaristíunnar (Maxímus játarinn). Hið lifandi Orð og brauðið af himnum kenndi okkur að biðja: „Gef oss í dag vort daglega brauð í Faðirvorinu. Í gríska textanum er bókstaflega sagt hið „yfirskilvitlega brauð“ eða „ton arton hemon ton epi ousian,“ brauðið sem er æðra hinu holdlega eðli. Á arameisku, tungu þeirri sem Drottni var tömust á jörðu, hljóðar þetta: „Hab lan lahmo dsooconan yawmono.“ Bókstaflega þýtt þýðir þetta: „Gef oss í dag brauð það sem við þörfnumst,“ það er að segja þá fæðu sem glæðir hið yfirskilvitlega líf. Það er ljóst af orðum Drottins og því trausti sem ber að hafa til forsjónar Guðs hvað felst að baki þessari nauðsynlegu fæðu: „Ef nú ljósið í þér er myrkur, hvílíkt verður þá myrkrið“ (Mt 6. 23). Síðar sjáum við hvað gerðist þegar Gyðingarnir höfnuðu hinu lifandi brauði af himnum: „Upp úr þessu hurfu margir af lærisveinum hans frá og voru ekki framar með honum“ (sjá Jh 6. 66). Boðskapur Edensgarðsins er því sívarandi sannleikur sem endurtekur sig í lífi okkar allra. Drottinn kallaði þá ekki til baka sem höfnuðu þessari fæðu.

Hið andlega auga Adams myrkvaðist og líkami hans varð að dauðlegu holdi og hann og Eva glötuðu hæfileikanum til að „heyra til Drottins Guðs, sem var á gangi í aldingarðinum í kveldsvalanum“ (1M 3. 8). Til að skilja fyllilega hvað býr þessum orðum að baki skulum við aftur leit til Biblíunnar og nú til Páls postula:

Mennirnir eru því án afsökunar. Þeir þekktu Guð, en hafa samt ekki vegsamað hann eins og Guð né þakkað honum, heldur hafa þeir gjörst hégómlegir í hugsunum sínum, og hið skynlausa hjarta þeirra hefur hjúpast myrkri . . . Þar eð þeir hirtu ekki um að varðveita þekkinguna á Guði, ofurseldi Guð þá ósæmilegu hugarfari, svo að þeir gjörðu það sem ekki er tilhlýðilegt, fylltir alls konar rangsleitni, vonsku, ágirnd, illsku, fullir öfundar, manndrápa, deilu, sviksemi, illmennsku. Þeir eru rógberar, bakmálugir, guðshatarar, smánarar, hrokafullir, gortarar, hrekkvísir, foreldrum óhlýðnir, óskynsamir, óáreiðanlegir, kærleikslausir, miskunnarlausir, þeir eru menn, sem þekkja réttdæmi Guðs og vita að þeir er slíkt fremja eru dauðasekir. Samt fremja þeir þetta og gjöra að auki góðan róm að slíkri breytni hjá öðrum“ (Rm 2. 21-32).

Páll segir að mennirnir hafi „þekktu Guð, en hafa samt ekki vegsamað hann eins og Guð né þakkað honum.“ Við skulum íhuga þessi orð nánar. Árið 1859 birtist verk Charles Darwins „The Origin of Species by Natural Selection“ á prenti. Verkið hafði þegar í stað víðtæk áhrif á skoðanir manna og þrátt fyrir að það einskorðaðist við líffræði tóku fræðimenn að draga af því víðtækar ályktanir. Samtímis þessu fóru að finnast menjar um fornar mannvistarleyfar í Frakklandi. Það var því einungis tímaspursmál þegar þessi nýja hugmyndafræði yrði yfirfærð á samanburðartrúfræðina. Þetta gerðist 1871 þegar enski mannfræðingurinn Edward Burnett Tylor birti verk sitt „Primitive Cultures.“

Að mati Tylors hafði trúarvitund mannsins þróast úr andatrú (animism) eða trú á andlegar verur. Hann taldi að þessi trú hefði hafist með viðleitni mannsins til að útskýra grundvallarþarfir líkama og sálar líkt og svefn, drauma, breytileg vitundarstig, sjúkdóma og dauða. Tylor taldi að frummaðurinn hefði velt þessum fyrirbrigðum fyrir sér og þróað með sér hugmyndir um sál eða anda sem væri aðskilinn líkamanum og sem hann hefði síðan yfirfært á dýr, jurtir, dauða hluti, stjörnurnar og látna ættingja. Það hefði einungis verið tímaspursmál hvenær hann fór síðan að trúa á og tilbiðja þessa dauðu hluti sem gæddir væru anda og að þessi afstaða hefði leitt til þess að hann tók að líta á slíkt sem guði. Síðar þegar samfélagið fór að verða flóknara með tilkomu landbúnaðar, borgarmyndunar og valdastétta ásamt konungi, hefði verið skammt í það að maðurinn hefði þróað með sér hugmyndir um einhverja æðri veru sem ríkti yfir öllu líkt og konungurinn.

Hugmyndir Tylors voru því sem næst einráðar um 30 ára skeið og höfðu áhrif á aðra fræðimenn líkt og Herbert Spencers sem lagði fram kenningar sínar um tilbeiðslu á forfeðrum og öndum. [2] VV. Robert Smith taldi að það væri tótemisminn – tilbeiðsla á dýrum og plöntum – sem hefði markað upphaf trúarlífs mannsins [3], en J. G. Frazer og fleiri héldu því hins vegar fram, að það hefði verið galdratrúin sem glæddist vegna margvíslegra og óútskýranlegra fyrirbrigða í náttúrunni og óttanum andspænis þeim. [4] Í upphafi tuttugustu aldar voru það svo einkum tveir menn sem lögðu sitt af mörkum til að renna enn frekari skoðunum undir þessa afstöðu. Annar þeirra var Emile Durkheim, upphafsmaður félagsfræði nútímans, sem taldi tótemismann vera upphaf trúarbragðanna, og hins vegar sálfræðingurinn Sigmund Freud. Hann greip til hinnar nýuppgötvuðu kenninga sinna um undirmeðvitundina og lagði fram kenningu um allsráðandi karlmann sem ríkti yfir nokkrum konum og börnum sem alvaldur sem vekti óttakennd sem leitt hefði af sér samsvarandi guðshugtaks um karllægan guð.

Hugmyndir þeirra Tylors, Frazers, Freuds og Durkheims höfðu víðtæk áhrif, ekki einungis á hinn menntaða heim, heldur á almenning yfirleitt. Trúarvitund mannsins var þannig gerð að leiksoppi „vísindalegrar“ rökhyggju án tilgangs eða inntaks. Hér væri einungis um frumstæðar tilfinningar vanþróaðs manns að ræða og helbera hjátrú og fáfræði og það hefði ekki verið Guð sem hefði skapað manninn, heldur hefði maðurinn skapað Guð. Ef til vill hefðu rannsóknir um uppruna trúarbragðanna látið hér staðar numið, ef einn maður, Wilhelm Schmidt (1868-1954) hefði ekki gjörbreytt myndinni. Hann var kaþólskur prestur og prófessor í þjóðfræði og tungumálum við Vínarháskóla.

Schmidt varði öllu sínu lífi til að berjast gegn þessum hugsmíðum þróunarsinnanna. Hann samdi mikið verk, alls 13. bindi, sem kom út ári eftir andlát hans (alls um 11.000 bls). Þetta er „Der Ursprung der Gottesidee“ (Uppruni Guðshugmyndarinnar). Til marks um áhrif þau sem verk hans hafði er vart nokkurn ábyrgan fræðimann að finna á síðari hluta tuttugustu aldar sem styður hugmyndir þeirra Tylors, Spencers og Freuds lengur. Schmidt grundvallaði kenningar sínar á verkum nokkurra kunnra menningarsögufræðinga, einkum F. Ratzels, Frobeniusar og F. Grabners og jók við hugmyndir þeirra um menningarheildir (Kulturkreise). Með þessum hætti gat hann leitt sönnur á haldleysi hugmynda þróunarsinnana þar sem þær stönguðust á við sögulegar staðreyndir. Schmidt gat þannig fært að því rök að frumbyggjasamfélög (Naturvölker) hefðu iðkað einkvæni og fjölver Freuds þannig út í hött.

Kenningar Englendingsins Andrew Lang höfðu djúp áhrif á Schmidt, en fyrrum hafði Lang verið einn helsti lærisveinn og stuðningsmaður Tylors. Í rannsóknum sínum á frumbyggjunum í Suðaustur Ástralíu rakst hann alls staðar á trú á eina æðri Verund eða Guð og þannig varð hann fyrsti fræðimaður nútímans sem kom fram með kenninguna um eingyðistrú meðal frumbyggjasamfélaga. Schmidt lagði mikla áherslu á rannsóknir á trúrafstöðu þeirra frumættbálka sem lifa víðs vegar um jörðina enn í dag. Þetta er fólk sem lifir á afskekktum stöðum án þess að nokkur ummerki um fyrri íbúa séu fyrir hendi og án tengsla við þróaðri menningarheildir. Það er enn á upphafsstigi hagrænnar þróunar, eru safnarar sem halda ekki húsdýr fremur en að yrkja jörðina. Það lifir í frumstæðum húsakynnum og notar fábreytt klæði, áhöld og vopn. Þetta er það fólk af íbúum jarðarinnar sem stendur upprunanum næst og hér má finna þá elstu trúarvitund sem við getum vænst að finna. Þar sem þetta fólk er ólæst og óskrifandi liggur ljóst fyrir að menning þess er eldri en hjá þeim þjóðum sem skilið hafa eftir sig skrifaðar heimildir um trúarbrögð sín líkt og Súmerar og Fornegyptar. Við höfum nægilegar heimildir um þetta fólk bæði í Asíu, Afríku og meðal fjölmargra ættbálka Indíána í Norðurameríku, meðal Inúíta og í Tierro del Fuego. [5]

Schmidt sýndi fram á trú á hina æðstu Verund meðal allra frumbyggjasamfélaga og komst að raun um að þeir væru dreifðir um alla jörðina. Hann taldi ekki fjarri að ætla að þessa sameiginlegu trú á hina æðstu Verund mætti rekja til djúpstæðrar og rótgróinnar trúar og jafnvel til enn eldri menningararfleifðar sem þessir frumbyggjar deildu með sér áður en einstakir hópar skildust að. [6]

Þetta nefndi hann „Urreligion“ (frumtrú). Það er bæði heillandi og upplýsandi að kynna sé eðli, inntak og tilbeiðslu á þessari æðstu Verund meðal frumbyggjasamfélaganna. Trúin á hina æðstu Verund felur í sér að vera háður henni og skyldu til að hlýðnast henni, að játa hana sem skapara og njóta leiðsagnar hans. [7]

Flestir elstu ættbálkar frumbyggjanna telja ekki að hin æðsta Verund eigi konu eða börn og slík spurning lýsir jafnvel vansæmd gagnvart henni eða hljómar fáránlega í eyrum þeirra. Tilbeiðsla á dýrum, vofum eða forfeðrum er með öllu óþekkt meðal þessa fólks, nema hjá þeim þeirra sem hafa orðið fyrir utanaðkomandi menningaráhrifum. [8]

Himininn eða himinhvolfið er bústaður hinnar æðstu Verundar, þrátt fyrir að fullyrt sé að fyrr á tímum hafi hún dvalið á meðal mannanna og uppfrætt þá í trú, siðfræði og í samfélagslegum efnum. Þetta voru sælutímar á jörðinni, en síðan hvarf hún á brott vegna einhverrar syndar sem drýgð var og lifi núna á himnum. Hvað áhrærir útlit hennar þá segja þeir almennt að það viti þeir ekki vegna þess að ekki sé unnt að sjá hana, einungis að skynja nærveru hennar. Iðulega er hún þó sögð bera mennska mynd, venjulega mynd gamals og virðulegs manns. Ljós, dýrð og eldur eru iðulega tengd honum. En hvergi meðal frumbyggjanna er gerð mynd af honum eða hefur nokkru sinni verið gert og aldrei er dregin upp mynd af honum í dönsum manna. [9]

Nafn hinnar æðstu Verundar taka menn sér aldrei í munn að nauðsynjalausu og þá ávallt af mikilli virðingu. Algengasta nafn hennar er „Faðir.“ Önnur heiti eru meðal annars „hann sem er í hæðum,“ „Skaparinn, “hinn aldni, „gjafarinn, „hinn ódauðlegi“ eða hinn eilífi.“ [10]

Því sem næst allir tileinka henni eilíft eðli. Yfirleitt er sagt að hún hafi verið til áður en allar aðrar verur og að húm muni aldrei deyja. Hún sé afar siðvönd og vakir yfir öllu því sem mennirnir gera. [11] „Hún er alls staðar og veit allt.“ Allt gott kemur frá henni. [12] Hún er samúðarríkur og hjálpfús og hvetur menn til að ákalla sig í bænum sínum [13] Máttur hennar á sér engin takmörk og hún getur farið hvert sem hún vill og gert hvað sem er. [14] Flestir viðurkenna hlutverk hennar sem Skapara og enginn afneitar þessu sérstaklega. Winnebago ættflokkurinn í Norðurameríku og einn ættbálkur í Kongó hafa jafnvel tileinkað hinni Æðstu verund æðsta sköpunarmáttinn, það er að segja: Sköpun ex nihilio. [15].

Hin æðsta Verund sjálf er ávallt afar siðvönd og í reynd skapari og uppspretta alls siðgæðis. Boð hennar fela í sér umhyggju fyrir lífi mannsins, aðgát í kynlífinu, sanngirni og fúsleika til að hjálpa öðrum í neyð. [16] Hjá mörgum ættflokkum er lögð áhersla á þessi boð við æskufólk við vígsluathafnir. Almennt séð hlýðnast frumbyggjarnir þessum neikvæðu og jákvæðu boðum og lifa siðprúðu lífi hvernig sem slíkt er vegið og metið. Því einstæðari er þessi hlýðni sökum þess hversu sjálfstæðir einstaklingarnir eru í samfélagslegri hegðun sinni. [17]

Hin persónulega tilbeiðsla felur í sér bænir, fórnir og helgiathafnir. Vart hefur orðið við ummerki huglægrar bænar (innri bænar), iðulega með mikilli einbeitingu hugans hjá fjölmörgum hópum. Munnleg bæn getur verið ósjálfráð og óformleg eða helgisiðabænir. Bænirnar geta annað hvort falist í bónarbænum eða þakkargjörðarbænum. Af öllum þessum ættflokkum hefur einungis verið skráð eitt tilvik þar sem ekki er vikið að bæninni. En jafnvel í þessu tilviki er um leyndar helgisiðaathafnir að ræða sem liggur ekki ljóst fyrir hvað býr að baki. [18]

Eina afbrigði fórna meðal frumbyggjasamfélaga er frumgróðafórnin: Að fórna litlum hluta af ávöxtunum, veiðunum eða jurtum þeim sem safnað er eða af matnum áður en hann er snæddur. Þetta er gert til að játa að fæðan tilheyrir hinni æðstu Verund og sé hennar gjöf. [19] Einn ættflokkur frumbyggja, Semangarnir á Malakka, iðka afbrigði syndafórna sem er einstætt í sinni röð. Þegar þeir heyra þrumur, en þetta er raust hinnar æðstu Verundar – Kari –, þá spretta þeir húðinni í sundur með smásári fyrir neðan hnéð, blanda blóðinu með vatni í lítinn bolla og fleygja honum síðan upp til himins og biðja um fyrirgefningu synda sinna og játa þær af mikilli samviskusemi. [20]

Í enn öðru rita sinna, „Urreligion und Offenbarung“ (Frumtrúin og Opinberun) kemst Schmidt svo að orði að guðdómleg opinberun sé rökréttasta skýringin á uppruna frumtrúar mannsins á hinni æðstu Verund. Hann styður þetta með þeirri athugasemd að þessi frumtrú rakti sjálf inntak sitt til hinnar æðstu Verundar, en ekki til neins konar viðleitni eða leitar af hálfu mannsins. Fólk þetta trúði því sjálft að Guð hefði uppfrætt það um það sem það trúir á hvað lýtur að Verundinni. [21] Schmidt telur að út frá sálfræðilegu sjónarmiði felist eina skynsamlega skýringin á samhljóðan og útbreiðslu á trúnni á hina æðstu Verund í aldanna rás í yfirþyrmandi og áþreifanlegri reynslu. Augljóst sé að eina reynslan sem kemur til móts við þessar staðreyndir sé beint samfélag við Guð sköpunarverksins sjálfan. [22] Schmidt lýkur röksemdafærslum sínum með eftirfarandi orðum:

Í reynd leggur trúarbragðasagan hér fram nýjar sannanir fyrir tilvist Guðs. Elstu trúarbrögð mannkynsins er ekki unnt að skilja í heild sinni, fyllingu og einstæðu inntaki, án þess að gengið sé út frá tilvist og áhrifamætti Guðs sem skapaði hana með því að veita sjálfur fólkinu á þessum tímum persónulega leiðsögn í trú þess, siðaboðum og trúariðkunum. [23]

Nú fyrir skömmu heyrði ég útvarpsviðtal við Kjalnesingagoða nýheiðninnar á Íslandi. Hann komst eitthvað þessu líkt að orði: „Ég stunda afar erfitt starf sem gerir mikla kröfu til starfsþreks míns. Af þessum ástæðum hef ég miklar mætur á Þór sem veitir mér kraft.“

Það býður okkar að svara þeirri spurningu í næstu grein, hvernig maðurinn gat (og getur enn) gleymt hinni hreinu trú eða með orðum Páls postula hér að ofan: „Þeir eru menn, sem þekkja réttdæmi Guðs og vita að þeir er slíkt fremja eru dauðasekir. Samt fremja þeir þetta og gjöra að auki góðan róm að slíkri breytni hjá öðrum.“ Biblían varpar einstæðu ljósi á þetta sem er ofur skiljanlegt vegna þess að Guð hefur fært okkur hana í hendur til leiðsagnar og eins og Páll postuli segir, þá er: „Orð Guðs lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans“ (Heb 4. 12). Og á öðrum stað: „En orðið, sem þeir heyrðu, kom þeim eigi að haldi vegna þess, að þeir tóku ekki við því í trú“ (sama vers 2).

[1]. Umfjöllun um Þrenninguna.
[2]. Schmidt, Der Ursprung der Gottesidee, enska útgáfan, bls. 74.
[3]. Sama verk, bls. 61, 72.
[4]. Sama verk, bls. 104, 108.
[5]. Sama verk, bls. 251, 257.
[6]. Sama verk, bls. 257-261.
[7]. Schmidt, Wilhelm, (Primitive Revelation, Binghamton and New York: Vail Ballou Press, Inc., Copyright 1939, B. Herder Book Co.) bls. 124.
[8]. Sama verk, bls. 124.
[9]. Sama verk, bls. 126.
[10]. Sama verk, bls. 131.
[11]. Sama verk, bls. 132.
[12]. Sama verk, bls. 133.
[13]. Sama verk, bls. 134.
[14]. Sama verk, bls. 135.
[15]. Sama verk, bls. 136.
[16]. Sama verk, bls. 137.
[17]. Sama verk, bls. 138.
[18]. Sama verk, bls. 141-143.
[19]. Sama verk, bls. 145.
[20]. Sama verk, bls. 146.
[21]. Urreligion und Offenbarung, bls. 178, 181.
[22]. Sama verk, bls. 182, 183.
[23]. Sama verk, bls. 185-186.

6 athugasemdir

Athugasemd from: Sigurgeir Jónsson  
Sigurgeir Jónsson

Guð er mikill

05.09.07 @ 21:03
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Já, mikill svo að fjöllin í Basan skjálfa.

06.09.07 @ 07:22
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Schmidt sýndi fram á trú á hina æðstu Verund meðal allra þeirra sem tilheyra vanþróðustu menningarhópunum og komst að raun um að þeir væru dreifðir um alla jörðina. Hann taldi ekki fjarri að ætla að þessa sameiginlegu trú á hina æðstu Verund mætti rekja til djúpstæðrar og rótgróinnar trúar og jafnvel til enn eldri menningararfleifðar sem það deildi með sér áður en einstakir hópar skildust að. [6]

Þetta er athyglisvert og verður varla skýrt með því að fólkið hafi notað Guð sem skýringu á ýmsum náttúrufyrirbærum eins og algengt er að gert sé. Sé þannig litið á málið er hægt að ætla að hann sé ekki annað en hagkvæm mannleg uppfinning sem smám saman verði úrelt og úr sér gengin hugmynd eftir því sem þjóðfélögin þróist. En þessar athuganir Schmidt draga úr sennileika þeirrar tilgátu því ef hún ætti að vera trúleg mætti búast við að mikill munur væri á þeim náttúruguðum sem búnir hefðu verið til og ólíklegt að einhver einkenni æðstrar veru væru þau sömu hvar sem borið væri niður meðal þessara frumstæðu ættbálka.

15.09.07 @ 07:02
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Í fyrsta lagi þetta Ragnar. Ég nota ekki orðið frumstæðir ættbálkar. Sjálfur er ég gegnsósa af þýskri menningarsögu og þýskir fræðimenn hafa vakið á því athygli að þessir ættbálkar eru alls ekki „frumstæðir“ og kjósa orðið „Natürvölker.“

Hvað áhrærir afstöðu þeirra Longs og Schmidt, þá er hún byggð á mannfræðilegum rannsóknum, eru staðreynd, en ekki tilgáta. Ég tek hér tvö skemmtileg dæmi: Idíánahöfðingjann Sitjandi naut (Sitting Bull) og reynslu sem Trappistaprestur í Bandaríkjunum greindi mér frá.

Í dag líta fjölmargir bandarískir fræðimenn á Sitjandi naut sem jafnoka Martin Luthers Kings í mannréttindamálum. Í viðræðum hans við stjórnarherrana í Washington fer ekki á milli mála hvor aðilinn er sá siðmenntaðri. Það er Sitjandi naut sem var svo snortinn af Andanum mikla að það jafnast á við reynslu hinna heilögu kristindómsins. Iðulega eru kristnir menn krossi Krists til vansæmdar, eins og átti við í þessu tilviki þar sem öll heit og loforð voru rofin.

Trappistapresturinn greindi mér frá reynslu gamals skólabróður síns úr prestaskóla sem starfar sem trúboði meðal frumbyggjanna í Ástralíu. Eftir að hafa lært mál þeirra varð honum ljóst í viðræðum v ið þá hversu djúpstæð trú þeirra á hinni æðstu Verund er. Hann greip til þess ráðs að þýða valda kafla úr Ritskýringum hl. Gregoríosar frá Nyssa (335-395) við Ljóðaljóðin og þýða yfir á mál þeirra. Þegar þeir heyrðu þessa kafla lesna upp gerðust þeir kristnir vegna þess að þeir sáu að hér var um sama Guð að ræða og þeir trúa á. Svo er nú það.

15.09.07 @ 09:03
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir ábendinguna Jón. Það er auðvitað rétt hjá þér að betra er að nota ekki orðið ‘frumstæðir’. Frumbyggjaættbálkar er orðið sem ég kysi auðvitað og miklu heldur að nota og leiðrétti mig hér með.

16.09.07 @ 08:14
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þetta orð er góð þýðing að baki hugmyndar þýskra fræðimanna um „Natürvölker“ sem ég tek umleiðis sjálfur upp fremur en náttúrufólk. Þessir frumbyggjar heimsins eru að margvíslegu leyti alltént þroskaðri andlega í afstöðu sinni til lífsins og umhverfisins heldur en afsprengi dauðamenningar nútímans. Frumbyggjasamfélög skal það vera á okkar fögru þjóðtungu!

16.09.07 @ 08:23