« Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 4 | Um stjarnanna dýrð » |
3. ÚTBREIÐSLA NAFNS GUÐS FRÁ SÚMER OG AKKAD TIL SÝRLANDS
OG KANAANLANDS
Þessi kafli hefur verið aukinn og endurbættur bæði hvað varðar texta og myndræna framsetningu.
Súmerar nefndu hinn hæsta Guð annað hvort „Anú“ eða „Êlû.“ [1] Fyrra heitið skírskotar til hins himneska, þess sem er á himnum eða An: Hins fremsta eða æðsta. Við rekumst auk þess á orðið í ýmsum samsettum orðum líkt og é.an.na (hús Guðs, musteri); gal.an.zu (almáttugur, alvitur); ku.li.an.na (vinur hins himneska); men.an.uras.a (kóróna himins); an.se.il (að lyfta höfði til himins); u.an.na (hið himneska ljós). Orðið „Êlû“ er sömu merkingar og við sjáum jöfnum höndum einnig orðin „el“ (skínandi), el.lû (hreinn) og el.elû (ljúfleiki). Þannig nefndu Súmerar paradísargarð Biblíunnar (1M 2. 15) annað hvort „an.ed.in“ eða „êlû-ed.in,“ hinn himneska garð. Þeir gripu einnig til orðsins din.gir sem myndað er úr „di“ (að vilja eða ætla sér) og „gar“ (að frelsa). Sjá Mynd 3. 1.
Á myndletrinu og forvera fleygrúnanna var orðið din.gir (borið fram dingi) táknað sem geislar sólar eða stjarna. Súmerar töluðu einnig um gu.du eða gú.da (hinn smurða) sem haft var um prest klæddan helgiskrúða. Líklega má rekja orðið goða og Guð til þessa stofns meðal germanskra þjóða (Gud; God; Gott) Súmerar gripu einnig til orðsins „íla“ (háleitur, skína; ba.íla (að bera, frelsa); og bab.íla (hlið guðs) sem við berum síðar kennsl á í borgarheitinu Babýlon. Meðal Súmera skírskotaði nafnið til musterisins í Eridu.
Í Akkad – meðal hinna semísku nágranna Súmera í norðri – var hinn hæsti nefndur Ea (borið fram sem Ejah) eða El. Það var þessi Guð sem kallaði Abram frá borginni Úr í Súmer. (Mynd 3. 2) og opinberaðist Móse í Sínaieyðimörkinni. Hvað segir þessi Guð þegar hann opinberast Móse í eyðimörkinni:
Móse sagði við Guð: „En þegar ég kem til Ísraelsmanna og segi við þá: ,Guð feðra yðar sendi mig til yðar,' og þeir segja við mig: ,Hvert er nafn hans?' hverju skal ég þá svara þeim?“ Þá sagði Guð við Móse:„ Ég er sá, sem ég er." Og hann sagði: „Svo skalt þú segja Ísraelsmönnum: ,Ég er' sendi mig til yðar“ (2M 3. 13-14).
Á hebresku hljómar þetta: „Eyah asher Eyah!“ Þú átt að segja þeim að Ejah, Guð feðra ykkar hefur sent þig, Guð árfeðranna, prestkonunga Adamskynslóðarinnar! Ljóst er af þessum orðum að Hebrearnir fornu þekktu vel til þessa nafns, svo vel að þetta var þeim staðfesting á orðum Móse. Móses boðaði þeim hann jafnframt undir öðru nafni sem var svo heilagt að ekki mátti taka sér það í munn: J - H - V - E sem skírskotar til hinna fjögurra átta fjórverutáknsins (Sjá sálm 91). Í þessu samhengi sjáum við hversu sterkar hinar munnlegu arfsagnir eru. Við sjáum þetta ekki einungis á sjálfu nafni Guðs heldur á frásögnunum af flóðinu mikla. Annars vegar er það hin fábreytta frásögn eingyðistrúar Sköpunarsögunnar og hins vegar frásagnir fjölgyðistrúarinnar þar sem nöfn goðanna setja mark sitt á atburðarásina.
Það var nafn þessa Guðs sem breiddist út frá Súmer og Akkad í krafti þessa sama Guðs þegar Abraham varð við kalli hans um að hverfa frá borginni Úr. Á Mynd 3. 3 sjáum við frumfeður Semíta samkvæmt þjóðalistanum í Sköpunarsögunni (10. 1-32). Allar áttu þessar ættkvíslir eftir að verða fjölgyðistrúnni að bráð að ættkvísl Abrahams undanskilinni, en hún varð að farvegi hins heilaga sæðis. Sumir hafa furðað sig á því hversu sjaldan Biblían víkur að Súmer. Það er hinn víðkunni – og einn virtasti súmarafræðinga tuttugustu aldarinnar – Samuel Noah Kramer, sem varpaði þessari spurningu fram í skrifum sínum:
Ef Súmerar gegndu svona einstæðu hlutverki í sögu siðmenningarinnar í Austurlöndum nær í heild sinni og það svo mjög að þeir höfðu varanleg áhrif á skrif Hebrea, hvers vegna virðast þá vera svona lítil ummerki um þá í Biblíunni? [2]
Kramer kemur síðan með þessa skýringu:
(1) Hebreski sérhljóðin „e“ er iðulega jafngildi fleygrúnasérhljóðans „u“ – líkt og gildir um hebreska orðið yfir „nafn“ – shem – sem er akkadíska orðið shum. Hið súmerska Shumer verður að Shemer hebreskunnar.
(2) Bókstafurinn „r“ í enda Shumer er hljóður, það er að segja ekki borinn fram.
Þannig yrði hljóðsetning Shumer á hebresku að Shem! Niðurstaðan er samtímis óhjákvæmileg og jafnframt óvænt ef gengið er út frá því að Shem sé eitt og hið sama og Shumer-Súmer:
Við verðum að draga þá ályktun að hinir hebresku höfundar Biblíunnar, eða að minnsta kosti sumir þeirra, hafi talið Súmera árfeður Hebrea. [3]
Kramer var ekki einn um þessa skoðun sem mætt hefur verið með ískaldri þögn af hálfu fjölmargra fræðimanna. Hann var að blása nýju lífi í kenningu annars mikils súmerafræðings – Arno Poebel – og fyrrum prófessors síns:
Áhugavert er að ráðning á þessari fremur flóknu gátu var lögð fram af kennara mínum og vini Arno Poebel fyrir aldarfjórðungi síðan í stuttri grein sem birtist í „The American Journal of Semetic Languages“ (Vol. 58 [1941], bls. 20-26. Tilgáta Poebels hefur ekki fundið neinn hljómgrunn meðal austurlandafræðinga og svo virðist sem hún hafi verið falin þögninni á vald. Sannfæring mín er þó sú að hún muni standast tímans tönn og njóta viðurkenningar síðar meir sem athyglisvert framlag í hebresk-súmerskum samskiptum. [4]
Eingyðistrúin tekur að breiðast út frá Súmer og Akkad þegar í kjölfar flóðsins mikla í lok fjórða árþúsundisins með afkomendum Nóa eins og rakið verður síðar með hliðsjón af þjóðalista Sköpunarsögunnar. Við skulum fyrst fjalla um það hvernig hún breiðist til vesturs með afkomendum Sem (Abrahams) og Kams, það er að segja þeim afkomenda hans sem settust að í Sýrlandi og Palestínu. Fyrstu áþreifanlegu rituðu frásagnirnar um hana eru frá því um 2500-2300 f. Kr. sem fundist hafa í borginni Ebla í Sýrlandi – sjá Mynd 3. 4 – það er að segja ritaðar töluvert áður en Guð kallaði Abram frá Úr. Mikill fjöldi leirtafla koma einnig frá borginni Úgarít í Sýrlandi.
Það er þessi lifandi arfleifð sem veitir Móse innblástur eins og vikið verður að síðar vegna þess að hún var einnig fyrir hendi í Egyptalandi frá því að prestkonungar Adamskynslóðarinnar lögðu grunninn að egypska ríkinu og konungsættunum í Egyptalandi. Hún leiðir okkur fyrir sjónir að hún hafi lifað í munnlegri geymd allt frá tímum árfeðranna tíu sem rekja má til Gan Eden eða Paradísargarðsins. Hversu sterk slík munnlegð arfleifð er sést best á því að fjórverutáknið varð að óaðskiljanlegum hluta persneskrar og síðar arabískrar húsagerðarlistar. Þannig er Taj Mahal á Indlandi reist til samræmis við þessa arfleifð, arfleifð sem Múslimar báru með sér þegar þeir gerðu innrás í Indland. Sjálf meginbyggingin er „hús Guðs,“ hið himneska musteri og garðarnir fyrir framan bygginguna fjórskiptir til samræmis við Gan Eden.
Það er einmitt fornleifafræðin sem rennur stoðum undir trúverðugleika Biblíunnar. Árið 1928 fann sýrlenskur bóndi óvænt mikla neðanjarðarhvelfingu þegar hann var að plægja akur einn. Við uppgröft komust franskir fornleifafræðingar síðan að því að hér var um fyrstu menjarnar að ræða um hina ævafornu borg Úgarit sem á sér ævaforna sögu og var öllum gleymd. Við uppgröftinn sem var undir stjórn Claude Schaeffer frá fornleifasafninu í Strassborg fannst mikið safn leirtaflna (eitt leitaflnasafn úr einkaeigu stjórnarerindreka að nafni Rabanu!). Árið 1958 fundust síðan enn fleiri leirtöflur og enn að nýju 1994 (um 300).
Borgina Ebla uppgötvuðu ítalskir fornleifafræðingar árið 1964, en hún var kunn úr fornum akkadískun og egypskum heimildum. Þar fundust meira en 15.000 leirtöflur, 80% þeirra skrifaðar á akkadísku en 20% á áður ókunnu semitísku máli sem nefnt er eblíska. Ebla var á útmörkum Súmerska ríkisins en Úgarít undir yfirráðum Egypta eða Hittiíta á víxl. Hvað segja þessar fornu heimildir okkur? Fjölmörg nöfn má sjá þar sem einnig má finna í Biblíunni. Dæmi: A-dam-u/Adam; h’á-wa/Eva, Abrama/Abraham; Jabal; Bilah; Ishma-el; Esau; Mikaya/Mikael. Þar má einnig sjá velþekkt staðarnöfn sem lesendum Biblíunnar eru vel kunn eins og Astaroth; Sínai; Jerúsalem/Ye-ru-sa-lu-ma; Hazor, Lakis, Gezer; Dor, Meggídó; Joppa og svo mætti halda áfram. Umsjónarmaðurinn yfir fornleifagreftrinu, Dr. Giovanni Pettinato hefur jafnvel fundið nöfnin Sódómu og Gómorru í Ebla. Í eblísku útgáfunni af Sköpunarsögunni má meðal annars lesa þessi orð:
Drottinn himins og jarðar,jörðin var ekki, þú skapaðir hana.
Ljós dagsins var ekki, þú skapaðir það,
morgunljósið sem enn var ekki skapaðir þú.
Hér erum við komin á slóð Guðs Biblíunnar sem nefndur er annað hvort „El“ eða „Yah“ sem fræðimenn telja að sé frumgerð hebreska heitisins Jahve. Hið akkadíska afbrigði „Eyjah“ má einnig sjá. Í textunum frá Úgarít er hann nefndur „El“ eða „Ilu,“ faðir alls mannkynsins. Vikið er að hirð „El“ sem „Elohim“ sem Biblían nefnir á öðrum stað „b’nei elohim“ eða syni Guðs. Guðfræðingar eru ekki einhuga um það hvað felst í nafninu. Mín aðferð er einföld og hefur ætíð reynst mér farsælust: Að leita til Biblíunnar sjálfrar og hún segir okkur að þessir synir Guðs skírskoti til englanna (sjá: (1M 6. 1; Jb 1. 6; 2. 1; 38. 7; Sl 89. 6; Dan 3. 25). Ein ummerki þessarar lifandi arfleifðar koma úr sjálfri Sköpunarsögunni, það er að segja eftir að Abraham hafði sigrað konunginn í Elam og stuðningsmenn hans – „Kedorlaómer konungi og þeim konungum, sem með honum voru – Og Melkísedek konungur í Salem (Jerúsalem) kom með brauð og vín, en hann var prestur hins Hæsta Guðs. Og hann blessaði Abram og sagði: „Blessaður sé Abram af hinum Hæsta Guði, skapara himins og jarðar!“ (1M 14. 18-19).
Annað dæmi um eingyðistrú er Migdol Pella musterið – sjá Mynd 3. 4 – sem jórdanskir og ástralskir fornleifafræðingar tóku að rannsaka árið 1997 í Jórdandalnum. Musterið greinir frá þeirri staðreynd að það varð að miðstöð eingyðistrúar. Fornleifafræðingar hafa bent á að hér sé ekki um einskorðað fyrirbrigði að ræða heldur hafi gerst í ýmsum öðrum smáríkjum á sama tíma í Austurlöndum nær í Hadad í Damaskus, Milkom í Ammam, Kemos í Móab og Qos í Edom. [5] Hinn lifandi Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs var byrjaður að starfa samkvæmt ráðsályktun sinni og við getum sagt að mannkynssagan hafi tekið að krauma líkt og suðupottur. Hún gerði meira en að krauma í Egyptalandi þar sem Móse tók að boða þjóð sinni endurlausn hans. Í næstu greinum mun ég fjalla um fráfallið mikla sem gætti alls staðar í Austurlöndum nær frá Akkad og Súmer til sólbakaðra sanda egypsku eyðimerkurinnar.
Heildarþróunin einkenndist af fráfall frá hinum eina og sanna Guði. Þetta kemur hvergi betur í ljós en meðal þeirra afkomenda Kams sem settust að í Palestínu: Kanaanítum. En fyrst skulum við beina athyglinni að frumtrú mannkynsins, þeirri sömu og Biblían víkur að í frásögninni af Paradísargarðinum.
[1]. C. J. Ball, „Chinese and Sumerian,“ Oxford University Press, 1913, bls. 39.
[2]. S. N. Kramer, „The Bable of Tongues,“ 1968, bls. 297.
[3]. Sama verk.
[4]. Sama verk.
[5]. Sjá http://jmm.aaa.net.au/articles/1229.htm