« Um stjarnanna dýrðHátíð Maríu af hinu gullna hjarta »

25.08.07

  10:33:23, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2478 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 2

KYNSTOFN LJÓSSINS OG FJÓRVERUTÁKNIÐ

Sjá myndir 2. Lesandanum skal bent á að best er að hlaða myndskrá á skjáborð og hafa tiltæka við lestur kaflans því að hér er um þungar pdf skrár að ræða

Þessi kafli hefur verið aukinn og endurbættur bæði hvað varðar texta og myndræna framsetningu.

Í fornum kaldeiskum frásögnum af sköpun heimsins er vikið að „Zalmat-qagadi“ eða hinum fallna kynstofni sem nefndur var „Ad-mi“ eða „Ad-ami“ og „Sarku“ eða kynstofni ljóssins. Það eru þessir afkomendur Adams sem Biblían nefnir syni Sets (1M 5. 3) og ég vík að sem sonum Réttlætissólarinnar eða prestkonungum Adamskynslóðarinnar.

Við skulum beina athygli okkar að Set og afkomendum hans eða kynstofni ljóssins vegna þess að þeir skírskotar til hinna tíu prestkonungaætta sem Biblían víkur að og minnst var á hér að framan. Sem afkomendur Adamskynslóðarinnar virtu þeir það réttlæti og fyrirhugun sem Guð hafði opinberað hinum fyrsta andlega manni, Adam. Ljóst er af orðum Biblíunnar að þeir liðu fyrir syndafallið í Edensgarðinum eins og allt dauðlegt hold:

„Andi minn skal ekki ævinlega búa í manninum, með því að hann er einnig hold. Veri dagar hans 120 ár“ (1M 6. 3).

Það er þessi staðreynd sem rekja má í gegnum sögu Mesopótamíu og Fornegyptalands þar sem helgisiðahring presta Adamskynslóðarinnar var skipt í 120 ára tímaskeið. Síðar (í grein 7) verður vikið að því að greinilegra ummerkja um eingyðistrú verður vart meðal fyrstu sex konungsættanna í Egyptalandi sem rekja má til innflytjenda frá Súmer eftir flóðið mikla. Í Egyptalandi var hann nefndur Sep-tep-sed helgisiðahringurinn eða „hep-sed“ og samofinn valdi faraós. Samkvæmt munnmælum var það einmitt prestkonungurinn Enok (En-me-en-duranna) sem innleiddi sólarárið sem grundvöll alls tímatals og helgisiðahalds. Hann er einnig talinn hafa lagt grunninn að borginni Úruk sem einnig var nefnd Unuk á súmersku.

Krosslögun Augnamusterisins í Brak í Haburdalnum (Mynd 2.1) er einnig mikilvægur leiðarvísir í þessu sambandi. Þetta eru áþreifanleg ummerki um tilvist fjórverutáknsins (tetramorph) meðal afkomenda íbúanna frá Aratta gan Eden. Í reynd eru árnar fjórar í Gan Eden (sjá Mynd 1. 3) fyrsta áþreifanlega dæmið um tilvist þess og síðar gengur það líkt og rauður þráður í gegnum hina hebresk/kristnu arfleifð. Paradísargarðurinn var í hugum Súmera „dur.an.ki“ eða „brú“ á milli himins og jarðar, jarðnesk endurspeglun hins himneska: An. Sjálfur grundvallaðist Paradísargarðurinn á fjórskiptingu himinhvolfsins. Það voru þannig konungstjörnurnar fjórar sem mörkuðu sólstöður og jafndægur á vori og hausti. Við skulum þannig víkja örlítið nánar að þessari staðreynd (Mynd 2. 3).

Á myndinni sjáum við hvernig konungstjörnurnar fjórar mörkuðu árstíðirnar á því tímaskeiði þegar menning Súmera stóð með hvað mestum blóma. Þessi fjórskipting himinhvolfsins grundvallaðist á sólarárinu. Fyrir flóðið mikla var það eldra sólarárið sem var í gildi:
Eldra sólarárið (Fyrir 3145 f. Kr):

Haustjafndægur – 22. september.
Vetrarbyrjun – mitt á milli (8. nóv). Áramót.
Vetrarsólstöður – 22. desember.
Vorkoma – mitt á milli (4. febrúar).
Sumar – 22. mars.

Eftir flóðið var það hið yngra sólarár sem var innleitt:

Vorjafndægur – 22. mars. Áramót.
Sumarbyrjun – mitt á milli (6. maí).
Sumarsólstöður – 22. júní.
Haustkoma – mitt á milli (8. ágúst).
Haustjafndægur – 22. september.

Það voru þannig konungsstjörnurnar fjórar sem urðu tákn prestkonunganna um himneskan verndarmátt. Við getum þannig dregið upp mynd af fyrsta fjórverutákninu með hliðsjón af framansögðu til samræmis við Sköpunarsögu Biblíunnar af ánum fjórum sem lítur þá þannig út. (Mynd 2. 4). Það var einmitt prestkonungurinn Enok sem vék fyrstur manna að konungsstjörnunum sem tákni verndar erkienglanna fjögurra:

Og síðan litu þeir Mikael, Úríel, Rafael og Gabríel niður af himnum og sáu mikið blóð úthellt á jörðinni og allt það óréttlæti sem ríkti á jörðinni. Og þeir sögðu hver við annan: „Jörðin hrópar með grátraust grátandans til hliðs himnanna. . . [1]

Dýrahringurinn opinberaði jafnframt verndarhjúp Guðs alla tólf mánuði ársins í krafti „me“ eða hins guðdómlega réttlætis. Innan guðfræðinnar er fjórverutáknið iðulega nefnt El-Shaddai táknið eins og það birtist í upphafi 91. Davíðssálminum:

Sæll er sá, er situr í skjóli hins Hæsta (Elyon),?sá er gistir í skugga hins Almáttka (Shaddai),?sá er segir við Drottin (Jahve): "Hæli mitt og háborg,?Guð (Elohim) minn, er ég trúi á!"

Sálmurinn er lofgjörð um sívarandi vernd Guðs í leyndardómi hinna fjögurra guðlegu nafna í fjórverutákninu. Þetta var hinn sívarandi arfleifð hinna heilögu Gamla sáttmálans (Esk 1. 1-26), hinir fjórir vindar himins (Sk 6. 5) eða erkienglarnir fjórir. Sama arfleifðin lifir meðal Íslam þar sem fjórir bókstafir nafns Alla skírskota til þessarar heimsmyndar. Tólf stjörnur dýrahringsins birtast þannig með áþreifanlegum hætti í fjórverutákni og herbúðarskipun hinna fornu Hebrea (Mynd 12. 5). Í herbúðarskipun Hebrea gengu ættkvíslirnar í þessari guðdómlegu herbúðarskipun í eyðimörkinni „eftir aldri þeirra“ (2M 28.10) undir leiðsögn sáttmálsarkarinnar [2] sem staðsett var í miðju herbúðarskipunarinnar. Sjálfir eðalsteinarnir ættkvíslanna voru þannig tákn andlegs vaxtar í geislum Sjödægrasólarinnar miklu, það er að segja hins óskapaða ljóss Guðs.

Sami skilningurinn kemur fram í kristni þar sem undirstöðusteinar hinnar helgu borgar Jerúsalem í opinberun Jóhannesar eru tákn helgunar (Opb 21.19-21), eins og sjá má á Mynd 12. 6 sem opinberast í orðum Páls postula: „Hann er orðinn oss vísdómur frá Guði, bæði réttlæti, helgun og endurlausn“ (1Kor 1. 30). [3] Fjórverutáknið birtist þegar í frumkirkjunni sem tákn helgunar á annarri öld. [4] Við sjáum þessa sömu arfleifð birtast meðal Fornegypta, arfleifð sem þeir þáðu af prestkonungum Adamskynslóðarinnar með komu þeirra til landsins. Það kemur hvergi eins vel fram og í Fornegyptalandi að sálmarnir sjálfir voru samofnir sólarárinu. Fornegyptar nefndu þá „usheptis“ (hina heilögu) og sérhverjum degi ársins var ætlaður einn sálmur. [5] Mánuðurnir tólf í Egyptalandi til forna átti sér sinn eðalstein hvers sem lifir enn í alþýðutrú sem „heillasteinar“ mánaðarins þó að fæstir geri sér grein fyrir því að hér sé um arfleifð prestkonunga Adamskynslóðarinnar að ræða. Ljóst er að rekja má sálmana til ævafornrar arfleifðar í Súmer.

Fræðimenn hafa bent á þá staðreynd að marga Davíðssálmanna má rekja til akkadískunnar sem var töluð í Akkad, semískra nágranna Súmera í norðri. Borgin Akkad var líklega staðsett á vestri bakka Efrat á milli Sippar og Kish, um 50 km. suðvestur af Bagdad nútímans. Akkadískan varð að ríkjandi milliríkjamáli sem ávallt er nefnd „akkadú“ í fornum babylonskum skrifum þar sem vikið er að hinu semíska afbrigði súmerskunnar. Fremstur í flokki þeirra fræðimanna sem fjallað hafa um akkadískan uppruna Davíðssálmanna er Samuel L. Terrien sem í verki sínu „The Psalms: Strophic and Theological Comentary“ rekur fjölmörg hebresku orðanna til akkadísks uppruna þeirra. [6] Sama sálmaarfleifðin hefur verið höfð um hönd í musterum Súmer eins og vikið verður að síðar (í grein 9) en þegar fjölgyðistrúin náði undirtökunum var henni snúið yfir á hin heiðnu goð.

Ég sagði hér að framan að eðalsteinarnir tólf væru tákn andlegs vaxtar í geislum Sjödægrasólarinnar miklu og rétt eins og sjálfur Paradísargarðurinn var „dur.an.ki“ eða brú milli himins og jarðar, gegndi hið sama um musterin meðan eingyðistrúin var ríkjandi í Súmer. Þetta kemur fram með áþreifanlegum hætti í stefnuás musteranna sem var hagað með þeim hætti að sólin sem tákn hins Hæsta lýsti upp altarið við vetrarsólstöður. Musterið í Eridu – það elsta sem finna má á láglendi fljótasléttunnar – var komið þannig fyrir að eitt horna þess snéri til norðurs – líkt og bendill til fjallsins helga í norðri – en sjálfur megininngangurinn snéri til austsuðausturs þannig að miðja musterisins upplýsist við sumarsólstöður. Annar inngangurinn snéri til norðusturs og þannig lýsti sólin upp altarið við vetrarsólstöður.

Þannig var það Fomalhaut sem markaði vorjafndægur og Antares vetrarsólstöður þegar geislar sólarinnar skinu inn í musterið og upplýstu altarið. Í siggúratanum Úr – musteri sem reist var eftir flóðið mikla – snýr meginninngangurinn til norðaustur þar sem Regúlus markaði haustjafndægur og Sjöstjarnan í Nautsmerkinu sumarsólstöður. Mikill meirihluti musteranna í Fornegyptalandi voru reist til samræmis við eldri hefðina og sama má segja um steinhringana í Evrópu þar sem vetrarsólsstöðurnar vógu þyngst, arfleifð sem prestkonungar Adamskynslóðarinnar lögðu grundvöllinn að eftir flóðið mikla eins og vikið verður að síðar (í grein 16).

Í menningarsögu fornþjóðanna var fjórverutáknið órjúfanlega tengt hinu guðdómlega réttlæti, helgum málum og reitaskiptingar lands, hvort sem við drepum niður í Mesopótamíu, Egyptalandi, Kína eða meðal þeirra kynþátta sem reistu steinmannvirkin í Evrópu í upphafi bronsaldar, hvort sem það er svo á Spáni eða á Írlandi. Þetta ætti ekki að koma okkur Íslendingum á óvart. Okkar eigið fjórverutákn og skjaldarmerki var samofið helgum málum og lögum á hinu forna Alþingi.Fjallað verður sérstaklega um íslenska fjórverutáknið í Viðauka A hér að aftan. Unnt er að skipta hinni helgu landskiptingu í tvö afbrigði. Annars vegar er það nákvæm reitaskipting lands líkt og í Mesopótamíu, Fornegyptalandi, í Evrópu og í Kína á sléttlendi, og hins vegar tölulega skiptingu sem grundvallast á tölunni fjórum á hálendissvæðum. Þetta sjáum við ljóslega í Ísrael og á Íslandi. Ísrael var skipt til samræmis við ættflokkana 12 (3 x 4) og á Íslandi grundvallaðist skiptingin á 4 fjórðungum og 24 goðorðum (4 x 6). Írlandi var einnig skipt upp í fjóra fjórðunga líkt og Íslandi allt frá því á síðsteinöld. Í reynd finnast ein fyrstu ummerki um fjórverutáknið á Írlandi í steinhring í Carrowmore í Sligohéraði á Írlandi frá því um 3050 f. Kr. Mynd 2. 9.

Síðar mun ég víkja að réttlæti því eða „me“ sem ríkti í Súmer til forna og fræðimenn hafa ágætar heimildir um. Það vekur furðu hversu þróað réttarfarið var (og nútímanlegt) þar sem konur nutu fulls jafnréttis á við karla og ríkið skipaði bæði réttargæslumenn og lögfræðinga til að flytja mál fyrir dómstólum. Þannig má segja að afkomendum Sets eða kynstofni ljóssins hafi auðnast að koma á réttarfarslegu öryggi og mannréttindum sem fjölmargar þjóðir njóta ekki enn í dag í upphafi 21. aldarinnar. Sérhvert musteri varð eins og Mircae Eliade hefur bent réttilega á [7] að nýrri heimsmiðju og „Axis mundi“ eða „heimsás.“ Á fornum súmerskum borgarkortum sem fundist hafa á leirtöflum má sjá að musteri borganna voru staðsett af mikilli nákvæmni. Í musterunum voru einnig málsteinarnir og málstangirnar varðveittar. Á hverju ári varð að mæla allt akurlendi út að nýju eftir vorflóðin þar sem flest landamerki sem ekki voru varanleg skoluðust á brott í flóðunum og þá var það musterið sem var grunnpunkturinn í netinu sem mælt var út frá. Vikið verður nánar að þessu síðar, en reglan var sú að allt akurlendi var ferhyrnt. Þetta grundvallaðist á hinu guðdómlega súmerska réttlæti eða „me“ eins og vikið verður að síðar. Þessa arfleifð tóku síðan hinir fornu Hebrear upp í lögmál sitt. Uppskera hringsins innan ferningsins tilheyrði eiganda landsins, en hornin ekkjum, munaðarleysingjum og útlendingunum í landinu. Ef við reiknum flatarmálið út er hringurinn 70% flatarmálins, en hornin 30%. Fornþjóðirnar vörðu þannig 30% uppskeru landsins til framfærslu bágstaddra, eða svipaðri upphæð og velferðarríki nútímans vegna þess að hér var um landbúnaðarsamfélög að ræða.

Andlegur boðskapur aldingarðsins – Gan Edens – sem fjórverutákns er ekki síður mikilvægur nútímamanninum en árfeðrum mannkynsins. Það var í aldingarðinum þar sem þau Adam og Eva heyrðu „til Drottins Guðs, sem var á gangi í aldingarðinum í kveldsvalanum“ (1M 3. 8). Í sinni háleitustu mynd birtist fjórverutáknið í skrifum hl. Teresu frá Avíla í Sögu lífs míns, köflum 11 til 21. [8] Sjá Mynd 2. 10. Hér er það hreinleiki hjartans sem er sjálf uppspretta fljótanna fjögurra eða hinna fjögurra stiga hinnar yfirskilvitlegu bænar. Allir sem leitast við að brjótast inn í garð helgunarinnar á öðrum forsendum sannreyna með áþreifanlegum hætti sannleika orða Sköpunarsögunnar:

„Og hann rak manninn burt og setti kerúbana fyrir austan Edengarð og loga hins sveipanda sverðs til að geyma vegarins að lífsins tré“ (1M 3. 24).

Þetta er sá sannleikur sem Drottinn uppfræddi okkur sjálfur um í holdtekju sinni á jörðu: „Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá“ (Mt 5. 8). Ef við þráum að gera okkar eigin hjörtu að musteri hins lifandi Guðs ber okkur að gera það á hans forsendum og þá birtist „spegilmynd tjaldsins helga sem þú gerðir í árdaga” (SS 9. 8). Þannig er boðskapur prestkonunga Adamskynslóðarinnar mikilvægur enn í dag: Snúið hjörtum ykkar til hins óskapaða ljóss dýrðar hins Hæsta, en áþreifanlegasta tákn hans á jörðu er sjálf sólin. Frásögn Sköpunarsögunnar er þannig sívarandi andlegur veruleiki í dag sem í árdaga í aldingarði mannshjartans.

[1]. The Book of Enoch XL. 1.
[2]. http://tabernacleoftheheart.com/Tabernacle%20Project/icelandic_site/meditation_14.html
[3]. http://tabernacleoftheheart.com/Tabernacle%20Project/icelandic_site/meditation_47.html
[4]. http://tabernacleoftheheart.com/Tabernacle%20Project/icelandic_site/meditation_15.html
[5]. http://www.lexiline.com/lexiline/lexi192.htm
[6]. Sjá einnig: Mankowski; P V. 2000. Akkadian Loanwords in Biblical Hebrew (Harvard Semitic Studies 47).
[7]. Patterns in Comperative Religion.?[8]. Sjá http://www.lulu.com/content/1125028?

No feedback yet