« Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 15 »

23.11.07

  09:46:30, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 6457 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 16

16. FRÁ ÍRSKAHAFINU TIL GULAHAFSINS

Sjá myndir 16. Lesandanum skal bent á að best er að hlaða myndskrá á skjáborð og hafa tiltæka við lestur kaflans því að hér er um þungar pdf skrár að ræða

Hér að framan hefur verið leitast við að rekja slóð prestkonunga Adamskynslóðarinnar frá frumheimkynnum þeirra í Gan Eden (grein 1). Í grein 2 er vikið að fjórverutákninu sem var samofið „me“ eða endurspeglun hins guðdómlega réttlætis á jörðu í uppljómun erkienglanna. Í grein 3 var fjallað um það hvernig nafn Guðs breiddist út um hið semíska málsvæði og í grein 4 um þá frumtrú sem ríkjandi var á meðal frumbyggjasamfélaga um allan heim til forna. Í grein 5 er athyglinni beint að fráfallinu frá Guði og enn frekar í grein 6 með hinum blóðugu barnafórnum Kanaaníta. Í greinum 7 og 8 er fjallað um þá eingyðistrú sem prestkonungarnir báru með sér til Fornegyptalands og í grein 9 frá helgisiðahring þeim sem kenndur er við Enok spámann og var samofinn konungsvaldinu og velferð hins mennska samfélags í Austurlöndum nær.

Greinar 10 og 11 eru eins konar innskot sem ætlað er að vekja athygli á þeirri staðreynd að sama heimsmyndunarfræðin og opinberast í Sköpunarsögu Biblíunnar og ríkjandi var meðal prestkonunga Adamskynslóðarinnar birtist að nýju meðal hinna heilögu kristninnar
og setur mark sitt sífellt meira á heimsmyndunarfræði nútímans. Síðan er þráðurinn tekinn upp að nýju og greint frá afkomendum Kams í grein 13 og 14, þeirra afkomenda Nóa sem settust að á Arabíuskaganum, Egyptalandi, Súdan, Eþíópíu og í Líbýu. Sérstaklega er vikið að mesta afreki þeirra, það er að segja pýramídanum mikla í Gíza sem umgjörð um Viknaspádóm Enoks.

Í síðustu greininni (grein 15) er síðan vikið að afkomendum Jafets, þriðja sonar Nóa og slóð þeirra rakin með augnlíkneskjum, dysjum og steinhringunum víðsvegar um Evrópu. Á Mynd 16.1 er heildarmyndin lauslega dregin upp og sjá má hvernig hún fylgir hinni hefðbundnu siglingaleið milli Austurlanda nær og Norðurevrópu. [1] Tekið var dæmi af einum slíkum stað – einni slíkri „dur.an.ki“ eða „Brú“ himins og jarðar í Suðurfrakklandi rétt eins og gilti um Newgrange á Írlandi, Stonehenge í Englandi og Eridu í Súmer. Eina slíka má sjá í Sarmizegetusa í hinni fornu Dakíu (núverandi Rúmeníu) sem nefnd hefur verið „Stonehenge Svartahafsins.“ Fyrir um tíu árum síðan fannst svo önnur slík „brú“ í einu úthverfa borgarinnar Varna í Búlgaríu. Allt rennir þetta stoðum undir frásögn Biblíunnar. Í henni lesum við í þjóðalistanum (1M 10. 1-32) að afkomendur Jafets hafi sest að í Vesturasíu, Kákasus og Evrópu. (Mynd 16. 2). Ég hef þegar vikið að tveimur þessara prestkonunga í síðustu grein, það er að segja að Gómer sem samkvæmt frásögn sagnfræðingsins Jósefusar hélt til Cadiz á Spáni og „Grikkir nefna nú Galatía“ (Galla). Brátt verður vikið að Magog „sem Grikkir nefndu Skýþa“ [2]. Í hugum Grikkja voru Skýþar samheiti yfir alla þá Indóevrópumenn sem settust að á sléttum Miðasíu og þar á meðal Kimmerar sem Bretar rekja uppruna sinn til enn í dag. Það voru þeir sem tóku að temja hesta til reiðmennsku sem auðveldaði þeim mjög ferð sína í austurveg til Mongólíu og Kína eins og greint verður frá síðar.

Við skulum nema hér staðar svo að segja til að ná áttum. Á Mynd 16. 3 er dregin upp lausleg heildarmynd af tímatalsfræðinni. Ártöl prestkonunganna eru tekin beint úr Biblíunni (Sjötíumannaþýðingunni grísku og samversku Biblíunni) vegna þess að það er ekki hin minnsta ástæða til að véfengja þau og ártölin falla vel að niðurstöðum fornleifafræðinnar. Það er flóðið mikla sem markar hin miklu þáttaskil nýrrar heimsskipunar. Vikið hefur verið að ummerkjum flóðsins hér að framan, bæði með rannsóknum Sir Leonards Woolleys í Úr og frjókornamælingunum á Írlandi og í Hollandi. Svíinn N.O Bergquist víkur að því í riti sínu „Ymdogat-Atlantis En utmaning till oss och vår tid“ að flóðið hafi komið úr norðaustri með hliðsjón af Kanaríeyjunum. Á ferðum sínum þar um slóðir hafði hann veitt hinum svo nefndu „barrancos“ sérstaka athygli, en þetta eru djúpar jarðvegssprungur eða dalverpi sem virðast hafa myndast af völdum flóðbylgja. Í öðru lagi vöktu sléttur setlaga athygli hans sem nefndar eru „Las Palamas setlögin“ og eru áberandi á austur og suðausturhluta Gran Canaria og Teneriffe. Allt bendir til þess að þessar setlagasléttur og flóðdalir hafi myndast í risastórri sjávarflóðbylgju (tsunami) sem skollið hefur á eyjunum úr norðaustri og verið svo kröftug að hún hafi bókstaflega hrifið jarðveginn með sér og borið með sér allt laust yfirborðsefni á haf út.

Þegar Bergquist varð þetta samhengi ljóst beindist athygli hans fyrir tilviljun að svæðinu fyrir ofan Las Palamas sem nefnist San Cristobal de la Laguna og Llanuras de las Mercedes eða „Slétta náðarinnar.“ Hér má sjá greinileg ummerki um það hvernig flóðbylgjan hefur skollið á þessu svæði og borist yfir fjallaskarð í 600 metra hæð. Áhrif þessa flóðs voru svo geigvænlega að þegar Spánverjar komu fyrst til eyjanna greindu íbúarnir þeim frá því að þeir væru furðu lostnir yfir því að nokkrir aðrir menn hefðu lifað „hamfarirnar miklu“ af. Í riti sínu „Voyage to Atlantis“ hefur J. W. Mavor gert góða grein fyrir afleiðingum þeim sem slíkar náttúruhamfari hafa í för með sér. Þar víkur hann að rannsóknum ungverks vísindamanns, P. Hedervaris, sem áætlar að hitinn frá sprengigosinu í Þera á grísku Hringeyjunum sem lagði Mínóanmenninguna á Krít í rúst hafi verið 4, 5 sinnum meiri heldur en í gosinu á Krakatá í Indónesíu, en hann er talinn hafa verið 430 sinnum meiri heldur en þegar orka vetnissprengju er leyst úr læðingi. Einnig er talið að flóðbylgja sú sem reis þegar gígurinn á Þera sprakk í loft upp hafi verið fjórfaldur á við flóðbylgju þá sem reis eftir jarðskjálftana miklu í Chíle í maí árið 1960 og gætti allt til Japans. Mesta flóðhæð slíkra bylgna á sögulegum tímum sem þekkt er má rekja til jarðskjálfta á Lopatkahöfðanum á Kamtsjatkaskaganum í Rússlandi árið 1737 sem talin er hafa verið allt að 70 metrar að hæð. Við vitum ekki hvað gerðist á þessum fornu tímum en minnast má á að þegar loftsteinninn féll í Síberíu árið 1906 eyddi hann skóglendi á 100.000 ferkílómetra svæði.

Hér gæti hafa verið um loftstein að ræða, mikið sprengigos – ef til vill á Aleutaeyjunum við Alaska – en líklegast má rekja það til hinna miklu umbrota á Norðuratlantshafshryggnum sem sænski jarðfræðingurinn René Malaisse víkur að í riti sínu „Atlantis, en geologisk verklighet.“ Hann víkur að setlagarannsóknum og botnlagasýnum Dr. Piggots sem tekin voru árið 1936. (Mynd 16. 4) og beindust að svo nefndu Faraday Hills svæði á Norðuratlantshafshryggnum sem virðist hafa verið ofansjávar löngu eftir lok ísaldar. Ef Miðatlantshafshryggurinn hefði aldrei verið fyrir ofan yfirborð sjávar lægi í hlutarins eðli að samsetning setlaganna væri með svipuðum hætti yfir mestan hluta Atlantshafsins þar sem áhrifa Golfstraumsins gætir. Með hefðbundnum aðferðum við botnsýnatökur hefði þó einungis verið unnt að taka sýnatökur úr efstu botnlögunum sem svarar hálfum metri að þykkleika.

Þannig hannaði Dr. Piggot nýtt afbrigði botnlóða sem gerði leiðangursmönnum kleift að taka sýni niður á allt að 3 metra dýpi. Þetta var eins konar „skotlóð“ sem útbúið var röri sem skotið var niður í setlögin þegar lóðið snerti botn. Þannig var unnt að taka þversnið af setlögunum allt að 3 metrum að þykkt, alls 13 sýni. Fjögur þessara sýna sem tekin voru vestan Miðatlantshafshryggjarins voru auðug af leifum svo nefndra globigerinaþörunga sem lifa í köldum sjó. Á milli þessara laga mátti hins vegar finna menjar um það afbrigði globigerinaþörunga sem lifa í heitari sjó og svipaðra þeim sem nú má finna í Golfstraumnum. Í sýni 3 sem tekið var út af strönd Nýfundnalands þar sem Labradorstraumurinn kemur frá strönd Grænlands var eins og búast mátti við svo mikið magn ólífrænna efna að ekki var unnt að aðskilja þau að frá lífrænum sýnum og þykkt sandsins sem rekísinn bar með sér svo mikil að sýnið náði ekki einu sinni niður á efstu lögin frá ísöld.

Í sýni 9 sem tekið var rétt austan hryggjarins mátti einnig finna ummerki örrar setlagamyndunar og í miklu ríkara mæli en nær strönd Evrópu og vestan hans nær Ameríku, en engu að síður var setlagamyndunin mun minni 60 kílómetrum vestan hryggjarins en austan hans. Þetta túlkar Malaise sem greinileg ummerki þess að áður hafi hafstraumur sem auðugur var af setlögum farið hér um, en síðan hafi hinn setlagasnauði Golfstraumur komið í kjölfar hans. Hafstraumar breyta ekki um stefnu nema einhver hindrun standi í vegi fyrir þeim.

Malaise telur að þannig sé ekki unnt að útskýra hina miklu setlagamyndun austan hryggjarins með öðrum hætti en þeim, að hryggurinn hafi fyrr á tímum verið ofansjávar og þannig hafi snúningur jarðar komið í veg fyrir að yfirborðstaumurinn að norðan hafi getað leitað að suðurströnd Grænlands og sameinast Labradorstraumnum úr Baffinsflóanum og þannig farið niður með austurströnd þurrlendisins. Þannig hindraði hryggurinn einnig streymi Golfstraumsins til norðausturs, hryggur sem við getum ekki nefnt annað en þurrlendi. Vestan þurrlendisins hafi setlagamyndunin þannig verið miklu minni en austan megin þess og þetta leiða botnsýnin í ljós beggja vegna hins 60 kílómetra breiðu spildu þurrlendisins á Faraday Hills svæðinu.

Eftir að þetta þurrlendi sökk í sæ stóð hins vegar ekkert í vegi fyrir Golfstraumnum og þannig vék hinn kaldi straumur fyrir honum norður á bóginn og þetta er það sem sjá má með áþreifanlegum hætti í botnsýnum 7- 9. Sýnishorn 8 var tekið eins nærri miðju hins sokkna þurrlendis og unnt var og var mun minni að þykkt en önnur botnsýni eða einungis 1. 24 metrar og undir hinu fíngerða botnlagi lífrænna efna komu mun grófari efni af mun meiri þéttleika í ljós. Þetta er unnt að skýra í ljósi þess að meðan hér var enn um grunnsævi að ræða hefur fíngerðari efnunum skolað í burt. Þetta felur jafnframt í sér að hryggurinn hefur ekki getað legið mikið vestar vegna þess að grófleiki sýnanna leiðir í ljós að þau hafi borist hingað með hafís í fyrndinni.

Malaise telur með öllu útilokað að botnstraumurinn sem liggur eins og neðansjávarfljót á milli Íslands og Bretlands hafi getað borðið slík setlög með sér frá Norðuríshafinu vegna þess að til þess sé hann of veikur. Þetta voru fyrstu rannsóknirnar sem staðfestu með áþreifanlegum hætti að hér hafi í raun og veru verið um þurrlendi að ræða út í miðju Atlantshafinu. Allt bendir því til þess að þessi hluti Atlantshafsins hafi enn verið ofan sjávar nokkrum árþúsundum fyrir fæðingu Krists og samhliða menningu Súmera. Flóðbylgjur sem hafa getað myndast við þessar jarðfræðilegu breytingar á flekaskilunum hefðu getað haft áhrif um allan heim og staðfesta þannig frásagnir Biblíunnar af flóðinu mikla.

Fjölmargt rennir stoðum undir þá tilgátu, að það flóð sem Biblían nefnir syndaflóðið og hófst í nóvember árið 3145 f. Kr. hafi ekki verið staðbundið flóð sem einskorðast hafi við Austurlönd nær og Evrópu. Það er ekki einungis að endurminningin um þetta flóð lifir í arfsögnum víða um heim, heldur finnum við því bókstaflega stað í tímatali fjölmargra þjóða auk Súmera. Þannig minntust Egyptar hátíðar hinna dauðu og þess tíma er gyðjan Hathor gekk um akrana til að gæta að ummerkjum flóðsins í upphafi nóvembermánaðar. Í drúídamenningunni á Írlandi var haldið upp á hátíð endursköpunar heimsins 1. nóvember, nótt hinna miklu leyndardóma þegar allur eldur var slökktur. Þannig má sjá að Persar helguðu 1. nóvember engli dauðans og enn í dag heldur kristin kirkja Allra sálna messu þann 1. nóvember, það er að segja hátíð hinna framliðnu. David Rohl (Mynd 16. 9) kemst svo að orði um sjálfa örkina og fjallið Ararat í bók sinni „From Eden to Exile:“

Hinir fornu Babýloníumenn nefndu þennan stað Nimushfjall en í dag er það nefnf Judi Dagh – „fjall hæðanna“ – sem rís til himins skammt frá Mósúl við Tígrisfljótið. Arabar (og Kóraninn) nefna það Gebel Judi (Judifjall). Staður sá sem afkomendur Nóa hurfu frá til láglendisins til að endurreisa siðmenninguna var hafður í heiðri árþúsundum saman allt til þrettándu aldar þegar evrópskir ferðalangar báru Agri Dagh í norðaustur Tyrklandi augum og ákváðu að þetta eldfjall sem gnæfir yfir umhverfið væri Araratfjallið. En hinir kristnu Nestoríanar á fyrsta árþúsundinu eftir Krist og fylgjendur Íslam vissu betur. Þeir héldu áfram að virða hina fornu arfleifð sem leit á Judi Dagh sem þann stað þar sem örkin hafnaði meðal „fjallanna í Ararat“ (þetta er það svæði í Zagrosfjöllunum sem almennt séð er kennt við Urartu og Kúrdistan). Þarna í hlíðum Judifjallsins má finna leyfar biksins sem eitt sinn huldi örk Nóa sem ættflokkar á svæðinu safna saman enn í dag þegar þeir klífa Fjall hæðanna til að bera fram þakkargjörðarfórn vegna þess að mannkyninu var forðað frá tortímingu. [3]

Nestoríanar reistu þannig nokkur klaustur í hlíðum fjallsins og Klaustur arkarinnar stóð á tindi þess. Þannig er sagt að Sanheríb Assýríukonungur sem efndi til herfararinnar gegn Jerúsalem og Júdeu (2K 18) og tortímandi Babýlon hafi tekið bjálka úr örkinni þegar hann kom til Judi Dagh. Við vitum að þarna var hann vegna þess að hann skildi þar eftir sig klettaristur sem sjá má þar enn í dag. Í riti sínu „Legends of the Jews“ greinir Louis Ginsberg frá eftirfarandi munnmælasögn:

Á bakaleiðinni til Assýríu fann Sanheríb borðvið sem hann tilbað líkt og skurðgoð vegna þess að hann var úr örk þeirri sem bjargað hafði Nóa í flóðinu. Hann hét þessu skurðgoði því að hann myndi fórna sonum sínum ef næstu ætlunarverk hans næðu fram að ganga. En sonum hans bárust spurnir af þessu heiti og drápu föður sinn og flúðu síðan til Kurd (Kúrdistan) og gáfu þeim mikla fjölda Gyðinga sem þar voru í ánauð frelsi. [4]

Við finnum staðfestingu á þessum munnmælum að hluta í Biblíunni:

Þá tók Sanheríb Assýríukonungur sig upp, hélt af stað og sneri heim aftur og sat um kyrrt í Níníve. En er hann eitt sinn baðst fyrir í hofi Nísroks, guðs síns, unnu synir hans, Adrammelek og Sareser, á honum með sverði. Þeir komust undan á flótta til Araratlands, en Asarhaddon sonur hans tók ríki eftir hann (2K 19. 36-37).

Fjölmargir leiðangrar hafa verið gerðir út til að leita að ummerkjum um örkina á Araratfjalli án árangur, á þeim stað þar sem Vincent de Beauvais taldi að örkin hefði strandað þvert á ríkjandi arfsagnir meðal íbúanna og Marco Poló hafði síðan eftir honum. Enn sem komið er hefur enginn leiðangur verið gerður út til að leita arkarinnar á Judi Daghfjallinu í Kúrdistan. Menn hafa leitað hennar á röngum stað líkt og fornleifafræðingar á tuttugustu öldinni hafa leitast við að afsanna áreiðanleika Biblíunnar með því að leita staðfestinga á trú sinni á röngum tíma sem skeikar þrjú hundruð árum.

Sjálft tímatal Fornegypta er þannig mjög á reiki þó að fræðimenn hafi komist að samkomulagi um ákveðinn „rétttrúnað“ í þessum efnum. Þannig geta þeir einfaldlega ekki gengið fram hjá sólmyrkvanum í Úgarit þann 9. maí 1012 f. Kr. vegna þess að hér er um staðreynd að ræða. Sannast sagna stendur hin hefðbundna egypska tímatalsfræði á brauðfótum! Ástæðan er einföld: Þrátt fyrir að við vitum um tugir sólmyrkva í Egyptalandi frá upphafi ríkir algjör þögn um þá í samtímaheimildum. Hvers vegna? Ástæðan er sú að hið mikla bókasafn í Alexandríu brann á tímum Kleópötru og Júlíusar Caesars. Í síðari brunum árið 390 e. Kr. og 640 e. Kr. er talið að um 400.000 forn rit um bókmenntir, stærðfræði, læknisfræði og stjörnufræði hafi glatast að fullu og öllu. Með vafasömum ályktunum með hliðsjón af ófullkomnum fornum konungalistum þar sem getið er í eyðurnar hafa guðsafneitarar vestrænnar efahyggju unnið markvisst að því að grafa undan trúverðugleika Biblíunnar – ekki síst guðfræðingarnir úr þeirra hópi!

Hér getur stjörnufornleifafræðin (astro-archeology) komið okkur til hjálpar. Allt frá því er Sir Norman Lockyear birti rannsóknir sínar um stefnuása (azimuth) fornra mannvirkja og mustera í riti sínu „The Dawn of Astronomy“ [5] og í áframhaldi af því rannsóknir sínar á Stonehenge hafa umræður um aðferðarfræði hans legið í láginni. Það var ekki fyrr en á síðari hluta tuttugustu aldarinnar sem rit Gerald Hawkins [6] vakti nýjan áhuga á málinu auk verka E. C. Krupp [7], og einkum þó tímamótaverk M. Clagett [8]. Fram að þessu stóð það málinu fyrir þrifum að stjörnufornleifafræðin krafðist flókinna útreikna og landmælinga sem óx mönnum í augum. Þetta breyttist með tilkomu hinna öflugu heimatölva og stjörnufræðiforrita auk GPS tækninnar. Sem tímatalsfræði grundvallast forsendur hennar á öxulhalla jarðarinnar. Sjá Mynd 16. 5. Á myndinni má sjá hvernig staða sólarinnar breytist í aldanna rás. Dæmið lítur þannig út:

3000 f. Kr. um 24°02’
2500 f. Kr. " 23°97’
2000 f. Kr. " 23°92’
1500 f. Kr. " 23°87’
1000 f. Kr. " 23°81’
500 f. Kr. " 23°75’

Þetta felur í sér að sólarmusteri sem reist var um 2500 f. Kr. er á stefnuás sem er 115°23’ en ef það hefur verið endurbyggt um 1100 f. Kr. er stefnuásinn 116°19.’ Í sólarmusterunum var stefnuásinn miðaður við að sólin lýsti upp hið allra helgasta við vetrarsólstöður á þeim tíma sem þau voru byggð í Egyptalandi rétt eins og í Súmer. Vafalaust hafa Fornegyptar haldið nákvæmar skrár yfir gang fastastjarna og reikistjarna á papýrus rétt eins og hinir fornu sólarprestar á Írlandi hafa varðveitt þær á barkarbókum sem nú eru glataðar vegna þess að hér er ekki um varanlegt efni að ræða. Þetta er einmitt það sem gert var í Súmer þar sem slíkar skrár hafa fundist á fleygrúnatöflum allt frá því um 2600 f. Kr. Þetta gerði hinum fornu stjörnuprestum kleift að segja nákvæmlega fyrir um sólstöður, jafndægra og aðrar mikilvægar hátíðir bæði með hliðsjón af gangi sólar og tungls. Með hliðsjón af pýramídanum mikla í Gíza má sjá að Fornegyptar voru þess umkomnir að reikna út norðurstefnuna með nákvæmni sem er innan 9 bogamínútna þegar um 2600 f. Kr. Tekið skal dæmi af tveimur musterum: Musteri Hatshepsut „drottningarfaraós“ og Montuhoteps í Dar El Bahari. (Sjá Mynd 16. 6). Samkvæmt hinu hefðbundna tímatali sat Hatsheput faraó að völdum frá 1473-1458 f. Kr., en Montuhotep um 2066-2004 f. Kr.

Samkvæmt útreikningum mínum var stefnuhornið (azimuth) 116°19’ árið 1160 f. Kr. í lok valdatíma Hatsheput samkvæmt hinni nýju tímatalsfræði David Rohls, en 116°08’ árið 1460 f. Kr. Samkvæmt mælingum þeirra M. Shaltout og J. A. Belmont [9] sem þeir framkvæmdu með „prismaáttavita“ reyndist stefnuhornið vera 116°45.’ Fræðilega séð eru skekkjumörkin 1/4.° Lægri mörkin eru þannig 116°20’ en þau efri 17°10.’ Í ár mældi David Furlong [10] stefnuhornið með því að styðjast við mynd frá Google Earth mapping Service eins og sjá má á mynd 16. 6. Honum reiknaðist til að það væri 16°53,’ en tekur fram að hér sé um ófullkomna nálgun að ræða og nauðsynlegt sé að framkvæma GPS mælingar á staðnum. Engu að síður virðast þessar niðurstöður útiloka árið 1460 f. Kr. Hvað varðar stefnuhornið frá musteri Montuhoteps er það samkvæmt mínum útreikningum 115°44’ en hjá þeim M. Shaltout og J. A. Belmont 115°30’ +/-1/4°. Dæmið lítur þannig út með hliðsjón af sólinni sem er 32 bogamínútur að þvermáli með hliðsjón af mælinákvæmni Fornegypta sem var innan 9 bogamínútna (Mynd 16. 8). Af þessu má draga þá ályktun að það sé ekki einungis um skekkju að ræða hvað áhrærir 21. og 22. konungsættina egypsku heldur einnig á tímaskeiðinu milli 18. og 11. konungsættarinnar og þetta er einmitt það sem tímatal Biblíunnar leiðir einnig í ljós. Nóg um þetta að sinni.

Við skulum nú snúa okkur aftur að Mynd 16. 1. Þar má sjá að gulu svæðin skírskota til málfarssvæða þar sem súmerskra áhrifa gætir. Til þess að varpa ljósi á þetta verðum við nú að víkja að ráðgátunni um múmíur hvítu mannanna í Norðurkína. Málið er okkur Íslendingum einnig óbeint skylt vegna þess að erfðafræðirannsóknir á DNA sýnum frá Shandonghéraði í Norðurkína nærri Gulafljótinu leiða í ljós skyldleikatengsl við Evrópumenn nútímans, einkum Eystrasaltsþjóðirnar (Finna, Litháa og Eista),Tyrkja og Íslendinga! [11]. Hér erum við enn að nýju komin á slóð prestkonunga Adamskynslóðarinnar og nú Magogs sem héldu í austurveg til að breiða út siðmenninguna eftir flóðið mikla – Veg lífsins eða me – það sem Konfúsíus nefndi tao eða veginn:

Þegar Vegurinn mikli verður ríkjandi mun öll heimsbyggðin verða að einu ríki. Þá munu hinir dyggðum prýddu og hæfu verða skipaðir í embætti, lögð rækt við sanna trú og samræmið mun ríkja. Menn munu ekki einungi líta á foreldra sína sem foreldra og sín eigin börn sem börn. Hinir öldnu munu njóta lífsins í elli sinni, ungmennin rækta hæfileika sína, fullorðnum að þroskast og séð fyrir þörfum ekkja og ekkla, einmana munaðarleysingja, lamaðra og sjúkra. Karlmönnum mun verða tryggð vinna og konum heimili. Auðæfum mun ekki verða kastað á glæ eða litið á þau sem eign einstaklingsins. Vinnan mun ekki vera vanmetin eða notuð til persónulegs ávinnings. Eigingirnin líður undir lok og rán og óöld verða óþekkt með öllu. Allar dyr standa opnar. Þetta er aldurskeið hins mikla ríkis. (Úr Veginum).

Þessi orð gætu sem best verið komin úr Viknaspádómi Enoks spámanns. Yfirleitt töldu fornleifafræðingar og sagnfræðingar að kínversk menning hefði þróast ein og sér án sambands við aðrar menningarheildir. Upphaf hennar má rekja til um það bil 1800 f. Kr. Annað hefur komið í ljós: Að hér hafi verið um áhrif frá Indóverópumönnum að ræða sem færðu Kínverjum ekki einungis vagninn heldur bæði þekkingu á málmvinnslu og vefnaðariðnaði. Einhver merkilegasta uppgötvun mannfræðinnar á tuttugustu öldinni er fundur líkamsleifa Indóverópumanna í Tarímlægðinni í Miðasíu (Mynd 16. 11). Líkamsleifarnar varðveittust svona vel vegna hins þurra og kalda loftslags á svæðinu. Þær hafa fundist Í Sínkíang héraðinu sem einnig er nefnt Uigur sjálfstjórnarsvæðið norðan Tíbets. Fornleifafræðin greinir okkur frá því að hjól með rimum og vagnar sem voru nægilega léttir til að hestar gætu dregið þá hafi þróast í Vesturasíu á þriðja árþúsundinu f. Kr. Allt bendir til þess að þessir Indóverópumenn hafi notað slíka vagna og fært Shanfólkinu í Kína þá í hendur.

Það var hinn kunni málvísindamaður C. J. Ball sem vakti þegar á því athygli árið 1913 hversu skyldleikinn væri mikill á milli súmerskra og kínverskra rittákna og þróunar þeirra í riti sínu Chinese and Sumerian [12]. Við skulum taka hér nokkur dæmi úr riti hans, Mynd 16. 10 (a-k). Hér má sjá dæmi sem Ball tók af myndletri Súmera og eldri gerð (Ku Wen) kínversks leturs. Rannsóknir hans leiddu í ljós að letrinu svipaði ekki einungis saman heldur var framburðurinn sá sami í fjölda tilvika í orðum líkt og „an“ (guð, himinn), „en“ (herra, höfðingi), „ki“ (jörð, land), „itu“ (mánuður), „mul“ (bjartur, skínandi). [13] Þegar letrið fól í sér tvíþætta merkingu kom hún einnig fram í kínverskunni. Sovéskir málvísindamenn sýndu síðar fram á að þetta ætti ekki einungis við um kínversku heldur öll málsvæði mongólsk-tíbeskra mála í Miðasíu og Austurlöndum fjær. Þetta á ekki einungis við um málin sjálf heldur benda ótaldar goðsagnir til hins súmerska uppruna auk hugmynda um þjóðfélagsgerðina þar sem fjórverutáknið og reitaskipting lands birtist:

Sú hugmynd að jörðin væri ferhyrnt er afar forn meðal Kínverja og er óaðskiljanlegur hluti sjálfs tungumálsins. Landið var mælt með hinum fjórum yang höfuðáttum, en þetta sama orð þýðir jafnframt „ferhyrningur.“ Af þessum ástæðum var jarðarguðinn táknaður með ferhyrndri hæð og ástæðan sem bjó því að baki, að höfuðborgin var ferhyrnd. Landinu var deilt niður í röð ferhyrninga sem fastsettir voru innbyrðis (með hliðsjón af miðju heimsins) eða hlið við hlið. [14]

Áframhaldandi rannsóknir hafa leitt í ljós bronsáhöld og verkfæri úr málmi til að vinna tré og með hliðsjón af því að bronsöldin hófst í Austurlöndum nær um 3000 f. Kr. er líklegt að mannvistarleifarnar í Tarímlægðinni séu frá því um 2000 f. Kr. Fundist hafa menjar um vefnað í gröfunum og sjálf mynstrin hafa varðveist meðal Shanfólksins í Kína allt fram á daginn í dag. Fötin hafa varðveist nægilega vel til að sjá að þau bera sömu mynstrin og klæðnaður frá Miðevrópu á sama tíma sem forfeður Kelta ófu.

Hér stöndum við frammi fyrir okkar eigin forfeðrum og múmía „fegurðardrottningarinnar frá Loutan“ (Mynd 16. 12) ber sama svipmót og sjá má í stórborgum Evrópu enn í dag. En er tilvist þessa fólks leyndardómur og fræðimenn hafa ekki enn getað staðfest með vissu hvort hér sé um árfeður Skýþa eða Kelta að ræða. Elstu múmíurnar á Tarímsvæðinu eru frá því um 2000 f. Kr. og því eldri en þegar menning Aría tók að blómstra í Indlandi (um 1600 f. Kr) og meðal Hittíta í Tyrklandi. Fræðimenn telja að tungumál þessa fólks hafi varðveist í svo kallaðri tókarísku sem töluð var á svæðinu og flokkuð er til austurmálstofns arískra mála. [15] Myndtákn á tókarísku benda eindregið til Indóevróskra áhrifa. Safn greina sem prófessor Victor Mair annaðist útgáfu á undir heitinu „The Bronze Age and Early Iron Age People of Eastern Central Asia“ [16] varpar ljósi á uppruna Tarímmúmíanna. Hér má sjá greinasafn sem V. Mair birti í „Journal of Indo-European Studies nr. 23 (haust/vetur 1995) og samband Indóevrópsku múmíanna við tókarískuna. Umfjöllun hans er of sérhæfð fyrir venjulegan lesanda og þeim sem vilja kynna sér málið betur skalt bent á rit Elizabeth Barber [17]. Eitt af því sem hún víkur að er að Uighúrarnir á Tarímsvæðinu geta hugsanlega verið afkomendur Tókaríananna þrátt fyrir að þeir tali nú tyrkneskt mál en Tókaríarnir töluðu Indóevrópskt mál. Sjá má stöðu tókarískunnar innan Indóverópska málstrésins hér [18].

Svo að við snúum okkur aftur að Evrópu þá er ekki unnt annað en að líta á Kelta sem erfingja menningararfleifðar prestkonunga Adamskynslóðarinnar. Stjórnskipun ríkja fornaldar grundvallaðist á hugmyndinni um guðsstjórn og reitaskiptingu lands. Þannig öðlaðist prestastéttin ómæld völd og var í bókstaflegri merkingu milliliður eða tengiliður á milli hins himneska valds og þess jarðneska. Á máli nútímans er þetta nefnt almannatengsl (public relationship).

Þetta kemur greinilega fram í valdi því sem prestastéttin öðlaðist í þeim löndum þar sem áhrifanna frá hinni ævafornu menningu prestkonunganna gætti hvað mest, líkt og í Gallíu (Frakklandi) Englandi og Írlandi. Drúídaprestarnir voru hið ráðandi og virka afl í þjóðlífinu. Nafnið drúídi er dregið af keltneska orðinu dru[u]id sem þýðir „afar vitur” eða „þekking.“ Völd þeirra voru slík að í Gallíu og á Írlandi vógu orð þeirra þyngra en sjálfs konungs. Það var þeirra verk að tilnefna konunga og velja og dæmi voru um að drúídar höfnuðu boði um að gerast konungar, líkt og þegar Munsterbúar buðu drúídanum Mog Rutih að gerast konungur þeirra. Um alla Vesturevrópu gegndu þeir því ekki ólíku hlutverki og Bramar meðal Indverja.

Þeir voru valdastétt presta sem önnuðust allt helgihald, fórnir, spádóma, lækningar og útreikninga árstíða auk þess að leggja rækt við stærðfræði og stjarnfræði. En fyrst og fremst fólst hlutverk drúídanna í því að vera milligöngumenn milli manna og goða, eins og sjá má á gallíska orðinu „gutuater“ sem þýðir „ákallari,“ sá sem talar við Guð. Sjálfir þekkjum við Íslendingar þetta heiti sem goðar. Keltar ríktu í Evrópu í tæp þrjú þúsund ár. Ungverjinn dr. Tibor E. Barath komst svo að orði:

Á ungversku táknar orðið Kel „að rísa“ og orðið Kelet þá höfuðátt þar sem sólin rís, það er að segja „austrið.“ Þegar endingunni -i er bætt við í Kelt-i eða Kelet-i þýðir það: „Sá sem er kominn úr átt hinnar rísandi sólar“ og var borið fram sem Khaldi, Kaldean . . . Keltar voru afar siðaðir og öll Evrópa á þeim þökk að gjalda. Það voru þeir sem gáfu öllum hinum miklu fljótum og fjöllum nöfn á þessu meginlandi, þeir sem lögðu grunninn að þeim stöðum þar sem stórborgirnar risu síðar og þróuðu fyrsta samskiptanetið. Þeir voru „fyrstu Evrópumennirnir.“ Ef sagan hefði einungis gefið þeim eitt hundrað ár til viðbótar hefðu þeir myndað eina sameinaða þjóðarheild . . . Eins og kunnugt er voru það Rómverjar sem urðu að fjandmönnum þess kynstofns sem þeir áttu uppruna sinn að rekja til, bókstaflega tortímdu þessari þjóð á þroskaskeiði hennar. Það var Júlíus Ceasar sem stóð fyrir þjóðarmorðinu á Keltum í Gallíu ásamt herfylkjum sínum á fyrstu öld f. Kr. milli 59 og 51. [19]

Bæta má því við að allt var þetta sökum gullsins vegna þess að Keltar ráku um þrjú hundruð gullnámur um Evrópu þvera og endilanga og gjörspilltum stjórnmálamönnum í Róm (ekki síst Ceasar) þyrsti í gull. Sjálfir eru Ungverjar dæmi um hið víðáttumikla „lífsrými“ sem ríkti í Evrópu ekki síður en í Miðasíu. Þegar Magyar komu til Ungverjalands báru þeir með sér tungumál sem varðveitt hefur fjölmörg orð og hugtök af súmerskum uppruna. Sama má segja um Eystrasaltsþjóðirnar.

Nú þegar ég lík þessari umfjöllun minni um hina fornu Súmera vil ég leggja áherslu á að þeir voru sveipaðir ljóma sem engin önnur þjóð þegar þeir leituðu niður á láglendið frá Gan Eden – úr Paradísargarðinum – á fimmta árþúsindinu f. Kr. Þeir birtust á sjónarsviðinu svo að segja fullskapaðir, þjóð með háleitt siðgæði sem laut hinu guðdómlega „me“ sem virti jafnrétti karla og kvenna og laut réttarfari sem enn skortir á víða um heim í upphafi þriðju þúsaldarinnar. Ekki er unnt að segja annað en að Andi Guðs hafi „fyllt þá bæði vísdómi, skilningi, kunnáttu og hvers konar hagleik, til þess að upphugsa listaverk og smíða úr gulli, silfri og eiri og skera steina til greypingar og til tréskurðar, til þess að vinna að hvers konar smíði“ (spr. 2M 31. 3-6). Þannig minntust Súmerar síðar þessara árfeðra sinna: Sem sona Guðs, bné elohim.

Engu er líkara en að Andi Guðs hafi gefið þessum fornu „hugvitsmönnum vísdóm, að þeir megi gjöra allt það, sem ég hefi fyrir þá lagt“ (2M 31. 7), sérstakar náðargjafir til að leggja grunninn að mennsku þjóðfélagi sem var engum öðrum líkt. Þegar þeir hurfu af sjónarsviði sögunnar um 1800 f. Kr. þegar Babýlóníumenn og síðar Assýringar lögðu undir sig lendur þeirra varð þróun sögunnar öll með harðneskjulegra yfirbragði. Í þessari umfjöllun hef ég haldið mig við hinn gamla heim og forðast að minnast á heiminn handan hafsins mikla: Vesturheim. Það þarf ekki mikið eða frjótt hugmyndaflug til að sjá hversu mjög stallapýramídarnir í Miðameríku minna á siggúrítana í Súmer og stallapýramídana í Egyptalandi, rétt eins og þá kínversku.

Á Kanaríeyjunum sjáum við sömu grafarsiðina meðal frumbyggjana og í Fornegyptalandi og sömu myndirnar af sefskipunum svörtu sem frumbyggjarnir í Egyptalandi drógu upp myndir af með klettaristunum í eyðimörkinni nærri Edfúmusterinu. Og Thor Heyerdal hefur sýnt okkur fram á að það tók einungis um 60 daga að sigla yfir hafið á sefskipinu Ra. Sama þjóðfélagsgerðin birtist í Miðameríku um 2000 f. Kr. og sjá mátti í gamla heiminum.

Það fer vel á því að ljúka þessari umfjöllun á súmersku:

„Ati me peta babka!“ (Hliðvörður, ljúk upp fyrir mér).

Er það ekki þetta sem sú siðmenning þarfnast sem snúið hefur baki við Guði eftir að hafa nærst á frjóum ávöxtunum kristninnar í tvö þúsund ár? Má ekki rekja fráfallið frá Guði á okkar dögum til sömu afstöðunnar og sagnfræðingurinn Jósefus greinir frá að stjórnaði gerðum Enmerkars konungs í Úruk um 2900 f. Kr.: Til reiði og haturs á þeim Guði sem stendur allri tilvist að baki, þeim Guði sem Móses greindi okkur frá að hafi átt svo náið samfélag við manninn að þau Adam og Eva „heyrðu til Drottins Guðs, sem var á gangi í aldingarðinum í kveldsvalanum“ (1M 3. 8)?

[1]. Mun nákvæmari mynd má sjá hér: http://megalithic.servehttp.com/mapserv/index.html
[2]. Saga Gyðinga 6, 1.
[3]. From Eden to Exile bls. 56.
[4]. Legends of the Jews, 5. bók bls. 186; 4. bók bls. 269.
[5]. J. N. Lockyear, The Dawn of Astronomy, Kessinger Co, New York, 1993 (ný útgáfa).
[6]. G. S. Hawkins, Beyond Stonhenge, Harper and Row, New York, 1973) og einnig Astroarcheology: the Unwritten Evidence in Pre- Columbian America, A. Aveni, Austin 1975, bls. 131-162.
[7]. E. C. Krupp, Echoes of the ancient skies, HarperCollins, New York, 1983.
[8]. M. Clagett, Ancient Egyptian science. Volume II: Calenders, clocks and Astronomy, American Philosophical Society, Philadelphia, 1995.
[9]. M. Shaltout and J. A. Belmont, On the Orientation of Ancient Egyptian Temples: http://www.iac.es/folleto/research/preprints/files/PP05003.pdf
[10]. David Furlong, Egyptian Temple Orientation: http://www.kch42.dial.pipex.com/egyptarticle_temple_orient1.html
[11]. Bennett, Casey C. ; Kaestle, Frederika A., Reanalysis of Eurasian Population History: Ancient DNA Evidence of Population Affinities?Human Biology - Volume 78, Number 4, August 2006, pp. 413-440.
[12]. C. J. Ball, Chinese and Sumerian, Oxford University Press, London, 1913.
[13]. Zecharia Sitchin, When Time began, bls. 372.
[14]. P. Grimal, Mythologies des montagne, des foréts et de iles, Larousse, Paris, 1963, bls. 124.
[15]. Dr. Alexander Jacob hefur komist svo að orði í þessu sambandi: „Það sem stundum hefur verið nefnt „vestri“ og „eystri“ flokkur aríönsku málsfjölskyldunnar er gróflega skilgreint með notkun „c“ (borið fram sem „k“) í vestri og „s“ í austri í orðum líkt og „centum“/„satem“ (sem er borðið fram sem „shatem“ (hundrað) í Avestan. Flestir málvísindamenn skipta þessum tveimur málaflokkum ekki lengur í tvo hópa með þessum hætti, einkum vegna þess að þeir vilja forðast að gefa til kynna að Indóevrópskan hafi skipst snemma í tvær greinar, þrátt fyrir að þetta munstur sé enn notað. Þessi einkenni eru einungis tveir þættir í 11 undirflokkum Indóevrópskunnar: http://www.originaldissent.com/forums/showthread.php?t=4095
[16]. The Bronze Age and Early Iron Age Peoples of Eastern Central Asia, two vols., clothbound, 899 pp., ed. V.H. Mair, Institute for the Study of Man, 1133 13th St. NW, Washington, D.C. 20005, 1998.
[17].The Mummies of Ürümchi, Elizabeth W. Barber, W.W. Norton & Co., New York, 1999.
[18]. http://www.danshort.com/ie/iecentum.htm
[19]. http://www.acronet.net/~magyar/english/1997-3/JRNL97B.htm

No feedback yet