« Nýr Reykjavíkurbiskup skipaðurPrestkonungar Adamskynslóðarinnar – 13 »

30.10.07

  11:01:34, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 4277 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 14

SÚLA ENOKS SPÁMANNS OG VIKNASPÁDÓMUR

Sjá myndir 14. Lesandanum skal bent á að best er að hlaða myndskrá á skjáborð og hafa tiltæka við lestur kaflans.

Árið 1012 f. Kr. barst Akhenaten faraó í Egyptalandi eftirfarandi bréf frá Abimilku konungi í Týros: „Til konungsins, sólar minnar, guðs míns, guða minna. Boð Abimilku, þjóns yðar . . . Höllin í Ugarít varð eldi að bráð eða [fremur] helmingur hennar er horfin. [1] Af einskærri heppni sem er afar fágæt innan fornleifafræðinnar fannst brunasviðin fleygrúnatafla í litlu hliðarherbergi við inngang hallarinnar í Ugarít sem nefnd hefur verið KTU-1.78. Hún er úr svo nefndu „Vestrabókasafni“ og má nú sjá í fornleifasafninu í Damaskus. Mynd 14.1

Á framhlið hennar má lesa eftirfarandi orð:

Á nýju tungli í Hiyyaru var dagurinn hafður að háði er sólar (gyðjan) settist með Rashap að hliðverði sínum.

Á bakhlið töflunnar má lesa varnaðarorð musterisprests sem varar við því að mikil ógæfa muni steðji að Ugarít eftir að lömbum var fórnað og lifrin úr þeim skoðuð:

Tvær lifrar skoðaðar: Hætta!

David Rohl kemst svo að orði í þessu sambandi: „(1.) „Á degi nýs tungls“ þýðir að þetta átti sér stað á fyrsta degi tunglmánaðar. Sólmyrkvi getur einungis átt sér stað á nýju tungli þegar það getur gengið á sporbraut sinni á milli jarðar og sólar. (2.) „Var dagurinn (dagsbirtan) hafður að háði“ er talið merkja fullkomin sólmyrkva þegar dagurinn breyttist í nótt. (3). Athugunin átti sér stað í Hiyyarumánuði (hebr. Hyar, Babýl. Aiaru) sem skírskotar til tímabilsins frá miðjum apríl til miðs maí samkvæmt júlíanska tímatalinu. (4). Sólmyrkvinn átti sér stað við sólarlag sem er í reynd afar sjaldgæft! (5). Ásamt myrkvun sólarinnar (gyðja í úgaríska goðafræðinni) fylgdi annað fyrirbrigði á himnum sem Ugarítar nefndu „Rashap.“ Hér getur málið snúist um reikistjörnu (eða þyrpingu reikistjarna) eða stjörnu eða annað bjart fyrirbrigði á myrkvuðu himinhvolfinu. Stjörnufræðipresturinn leit á Rashap sem hliðvörð eða gæslumann að hliði undirheima sem sólin var að ganga inn í og litið var á þennan „guð“ sem fylgimann sólarinnar þegar hún hvarf til myrkraheima. (6). Þetta var svo óvenjulegur atburður að það krafðist fórnar sem benti eindregið til yfirvofandi ógæfu – ills fyrirboða.“ [2]

Einn samstarfsmanna David Rohls, Wayne Mitchell að nafni, kannaði málið enn frekar árið 1988 og studdist við stjarnrfræðiforrit sem prófessor Peter Hubert sem þá starfaði við „Massachusetts Institute of Technology“ hafði þróað og nefnist „Redshift.“ Niðurstöðurnar komu mönnum í opna skjöldu því að þær leiddu í ljós að sólmyrkvinn sem vikið er að á fleygrúnatöflunni og presturinn fylgdist með frá musteri Baals hefði átt sér stað þann 9. maí árið 1012 f. Kr. á tímum Nikamaddu konungs II. Eldsvoðinn í höllinni í Ugarít og Abimilku konungur í Týros víkur að í bréfi sínu til Akhenatens faraós hefur því átt sér stað skömmu síðar. Það sem er athyglisverðast í þessu sambandi er sú staðreynd að samkvæmt ríkjandi tímatalsfræði frá því á þriðja áratugi s. l. aldar sat Akhenaton faraó að völdum frá 1352 til 1336 f. Kr! Ljóst er að Akhenaten faraó hefur borist bréfið frá Abimilku konungi í hendur skömmu eftir dauða föður hans, Amenhóteps VI, árið 1012 f. Kr. Hér er því um „skekkju“ að ræða sem nemur 300 árum.

Þetta eru ein fjölmargra annarra raka sem David Rohl hefur lagt fram til stuðnings hinni nýju tímatalsfræði sinni (New Chronology) sem hann rekur til skekkju í lengd valdatíma 21. og 22. konungsættarinnr í Egyptalandi.

Sjálfur sannreyndi ég niðurstöður Wayne Mitchells og sjá má niðurstöður mínar á Mynd 14. 2. Íslenskum lesendum til glöggvunar hef ég sett inn nöfn nokkurra stjörnumerkja á íslensku. Til vinstri á myndinni má sjá þyrpingu reikistjarna en talið er að með Rashap eigi úgarítiski presturinn við reikistjörnuna Mars. Allt fram á miðaldir var hún talin illur fyrirboði í Evrópu. Júpiter var hins vegar talinn vera verndari alls réttlætis og þjóðfélagsreglu. Ljóst er að menn hafa talið að hér væri um kosmísk átök milli reginafla reglu og upplausnar að ræða sem hefði í för með sér geigvænlegar afleiðingar á jörðu. Lesendum til glöggvunar birti ég hér annað stjörnukort (Mynd 14. 3) eins og sólmyrkvinn hefur komið mönnum fyrir sjónir frá musteri Baals í Ugarít miðað við sjónbaug um klukkan 6 að kvöldi að staðartíma árið 1012 f. Kr..

Á Mynd 14. 4 má sjá yfirlit yfir hina nýju tímatalsfræði (New Chronology) David Rohls. Það segir sig sjálft að þessi róttæka og gagngera endurskoðun hefur valdið hörðum mótmælum úr hópi eldri fornleifafræðinga, en nýtur stuðnings þeirra yngri. Ef til vill varpa ummæli bókmenntagagnrýnanda Daily Mirrors best ljósi á þetta þegar hann víkur að bók Rohls „Test of Time – The Bible from Myth to History:“ „The Bible, it seems, is back in buisness“ (Svo virðist sem Biblían sé aftur komin í sviðsljósið). Og gagnrýnandi Sunday Times tekur svo til orða: „The New Book of Revelation . . . A scholarly theory that has set the academic world on its ear“ (Hin nýja Opinberunarbók sem hefur hrist upp í hinum akademíska heimi). Það sem er áhugavert í þessu sambandi í ljósi umfjöllunar minnar um arfleifð prestkonunga Adamskynslóðarinnar eins og hún birtist í pýramídanum mikla í Gíza felst í því, að hin nýja tímatalsfræði Rohls virðist renna stoðum undir orð sagnfræðingsins Jósefusar:

Og til að uppgötvanir þeirra glötuðust ekki sökum spádómsorða Adams um að heiminum yrði tortímt í eitt skipti með eldhafi og í annað sinn hamförum vatnsflóðs gerðu þau tvær súlur, aðra úr leirsteinum og hina úr steini. Þau fólu uppgötvanir sínar í þeim báðum þannig að ef súlunni úr leirsteinunum yrði eytt í flóðinu, þá gæti steinsúlan varðveist og leitt mannkyninu þessar uppgötvanir fyrir sjónir og að þau hefðu reist aðra súlu. Hún stendur allt til dagsins í dag í landi Síríusar (Egyptalandi). [3]

Leynast „spádómsorð Adams“ í Viknaspádómi Enoks? Eitt er víst að við vitum að miklar náttúruhamfarir gengu yfir hinn forna menningarheim í Austurlöndum nær í lok bronsaldar eða á 17. öld f. Kr. sem rekja mátti til jarðskjálfta. Borgir eyddust umvörpum í eldi og íbúarnir yfirgáfu rústir þeirra og tóku að nýju að lifa sem hirðingjar. Það var þetta harðindaskeið sem leiddi meðal annars til hruns Miðríkisins egypska og knúði íbúa Kanaanslands til að leita sér lífsbjargar á óshólmasvæði Nílar, þar á meðal afkomenda Abrahams þar sem Jósef hófst til virðingar og valda sem vesír faraós.

Fyrst þetta. Það sama má segja um Enoksbók og Jobsbók. Fjölmargir telja að hér sé um ævaforn rit að ræða. Þetta má sjá á því að hvorugt ritanna er í samhljóðan við þann rétttrúnað sem sá dagsins ljós meðal Gyðinga eftir herleiðinguna til Babýlon. Það handrit af Enoksbók sem við höfum undir höndum í dag var hjúpuð myrkri gleymskunnar þar til það fannst óvænt í Eþíópíu á Geezmállýsku. Það var enski biskupinn Richard Laurence sem þýddi ritið á ensku sem sá dagsins ljós árið 1821. Hann varði mörg hundruð klukkustundum í þýðinguna sem hann bar saman við slitrur úr nokkrum köflum sem varðveist höfðu í skrifum Syncellusar frá því á níundu öld.

Það er í Enoksbók þar sem við sjáum Viknaspádóminn sem víkur að komu Mannssonarins til jarðar í sjöttu vikunni sem gengur þvert á afstöðu Gyðingdómsins, en er í fyllstu samhljóðan við opinberaðan sannleika kristindómsins. Samkvæmt þessu hafa Gyðingar unnið að því allt frá því um 130 e. Kr. að breyta ártölum í Biblíunni til að sanna að Messías hefði ekki getað komið til jarðar í sjöttu vikunni: Hinn masóríski texti er því fölsun hvað áhrærir tímatalsfræði Biblíunnar í samhljóðan við rétttrúnað Gyðingdómsins. Það er í Sjötíumannaþýðingunni (Septuagintunni) og samversku Biblíunni þar sem við sjáum ártölin í samhljóðan. Í reynd er Septuagintan elsti heildartextinn sem við eigum af Biblíunni frá því um 270 f. Kr og jafnframt Ritning kaþólsku kirknanna. Hinn samverski texti var heldur ekki endurskoðaður og þannig traustur samanburðartexti hvað áhrærir ártölin.

Víkjum í beinu áframhaldi af þessu lauslega að opinberunum sem slíkum á tímum dómaranna (frá um 1400 til 1000 f. Kr) [4] og tökum Samúel spámann sem dæmi. Samúel spámaður var einstakur þjónn Guðs. Hann var sonur Elkana og Hönnu sem ættuð var frá fjallaþorpi í Efraím. Í reynd var hann guðsgjöf og svar við bænum Hönnu sem hafði verið óbyrja. Hann var síðastur í röð dómaranna, því tímaskeiði í sögu Ísraels meðan ríkið var enn guðsstjórnarríki (theocracy) og Guð sjálfur var konungur og stjórnandi þjóðarinnar. Samúel var helgaður þjónustunni við Drottin frá blautu barnsbeini og sá Elí æðstiprestur í Síló um trúarlegt uppeldi hans. Síðar á ævinni smurði hann tvo konunga Ísraels, þá Salómon og Davíð. Auk þess kom hann á fót spádómssveinaskóla til að þjálfa hópa (hevel) andlegra sjáenda þjóðinni til leiðsagnar. Einn nemenda hans var spámaðurinn Natan.

Samúel var meira en spámaður eða „nábî“ eins og þeir voru nefndir á hebresku. Hann var „ró´eh“ (1 Sam 9) eða „hózeh,“ sá sem skyggnst getur inn í huga Guðs, sjáandi eins og slíkir menn voru nefndir í Ísrael til forna. Í dag nefnum við slíkt fólk ásæisfólk (contemplatives) eða einfaldlega hin heilögu – fólk sem ver tímanum á jörðinni til að íhuga leyndardóma Guðs í tjaldbúð hjartans. Þetta gerði Samúel í bókstaflegri merkingu vegna þess að á hans dögum var helgidómur tjaldbúðarinnar enn miðstöð alls helgihalds í Ísrael. Af þessu sjáum við að gríska orðið „þeamata“ eða það sem Kappadókíufeðurnir nefndu „hagia“ (hið heilaga) eða „makaria þeamata“ (blessaða ásæi) á sér djúpar rætur í sjálfri Biblíunni og hefur ekkert að gera með hugsæi Platónismans. Hér er á ferðinni andlegt innsæi sem Adam glataði með óhlýðni sinni. Síðar veitti Guð „ró´eh“ eða sjáendum Gamla sáttmálans þennan hæfileika sem náðargjöf. Sem sannur sjáandi talaði Samúel við Guð augliti til auglitis og þekkti því vilja Guðs og fyrirhugun og laut að fullu og öllu. Ég tel að Enok hafi verðið slíkur „n?bî“ og „r?´eh“ Guðs hins Hæsta, hins Aldna daganna af náð. Nú að Viknaspádómi hans:

VIKNASPÁDÓMUR ENOKS SPÁMANNS:

1. Og eftir þetta hóf Enok að greina frá efni bókanna. 2. Og Enok sagði: „Hvað varðar börn réttlætisins og hina útvöldu í heiminum og hvað varðar jurt réttlætisins, þá vil ég segja það sem hér kemur: Já, ég Enok, mun greina ykkur sonum mínum frá því til samræmis við það sem opinberaðist mér í hinni guðlegu sýn og ég hef komist að raun um fyrir orð hinna heilögu engla og numið af hinum himnesku leirtöflum.”

3. Og Enok hóf að greina frá efni bókanna og sagði: „Ég var fæddur þann sjöunda í fyrstu vikunni (5000 til 4000 f. Kr.) [5] meðan dómur og réttlæti var enn við líði.

4. Og að mér liðnum mun rísa upp mikil illska í annarri vikunni (4000 til 3000 f. Kr.) og fláræði blómstra. Og í þessu munu fyrstu endalokin felast. Og maður mun verða hólpinn (Nói) og að þessu loknu mun óréttlætið blómstra að nýju og lög verða sett sökum syndaranna.

5. Og eftir þetta í þriðju vikunni (3000 til 2000 f. Kr.) – við lok hennar – mun maður verða útvalinn sem jurt réttlátra dóma (Abraham). Og ávöxtur hans mun verða að jurt réttlætisins að eilífu.

6. Og eftir þetta í fjórðu vikunni (2000 til 1000 f. Kr.), við lok hennar, munu hinir heilögu og réttlátu birtast og lög fyrir allar kynslóðir og griðastaður (tjaldbúðin og musterið í Jerúsalem) mun þeim fyrirbúinn.

7. Og eftir þetta í fimmtu vikunni (1000 til 0 f. Kr.), í lok hennar, mun hús dýrðar og valds reist að eilífu (Anna, Jóakim og María Guðsmóðir, upphaf kirkjunnar).

8. Og eftir þetta í sjöttu vikunni (0-1000 e. Kr.) munu allir þeir sem þá lifa blindast og hjörtu þeirra munu afneita spekinni í guðsafneitun sinni. Og í henni mun maður koma af himni. Og við lok hennar mun húsi valdsins eytt með eldi (endanlegt fall Rómaveldis á sjöundu og áttundu öld og útbreiðsla Íslam og eyðing kirkjunnar í Austurlöndum nær og Norðurafríku) og öll kynslóð hinnar útvöldu rætur dreifast.

9. Og eftir þetta í sjöundu vikunni (1000 til 2000 e. Kr.) mun guðlaus kynslóð rísa upp og hún mun hafast margt að og öll hennar verk einkennast af guðleysi (framgangur veraldarhyggjunnar: secularism, fjölhyggju og Guðsafneitunar).

10. Og í lok hennar munu valdir hinir útvöldu réttlætisins af hinni eilífu jurt réttlætisins til að meðtaka sjöþætta leiðsögn um alla sköpun hans. [innskoti sleppt] (Hinir trúföstu sem standa á orði Drottins).

12. Og eftir hana mun koma önnur, hin áttunda vika (2000 til 3000 f. Kr.), vika réttlætis. Og henni mun gefið sverð þannig að réttlátir dómar verði kveðnir upp yfir kúgurunum og syndarar verða faldir hinum réttlátu á vald.

13. Og við lok hennar munu þeir öðlast bústað sökum réttlætis síns og hús mun verða reist fyrir hinn mikla Konung í dýrð að eilífu.

14 d. Og allt mannkynið mun horfa til vegar réttlætisins.

14 a. Og eftir þetta, í níundu vikunni (3000 til 4000 e. Kr.), munu hinir réttlátu dómar opinberaðir öllum heiminum.

14 b. Og öll verk hinna guðlausu munu hverfa af jörðinni.

14 c. Og allur heimurinn verða dæmdur til tortímingar.

15. Og eftir þetta, í tíundu vikunni (4000 til 5000 f. Kr.) í sjöunda hlutanum, mun hinn eilífi dómur verða settur þegar hefnd hans kemur yfir englana.

16. Og hin fyrri jörð mun hverfa og líða undir lok og nýr himinn birtast og allir herskarar himnanna lýsa með sjöföldu ljósi.

17. Og eftir þetta munu koma margar vikur sem ekki verður komið tölu á að eilífu. Og allir munu vera gæskuríkir og réttlátir og aldrei mun framar minnst vera á synd. [6]

Sjálfur varð ég furðu lostinn þegar ég uppgötvaði að pýramídinn mikli í Gíza er bókstaflega umgjörð um þessi spádómsorð. Þetta má sjá á Mynd 14. 6. Á Mynd 14. 7 má sjá innri mál pýramídans í pýramídatommum eins og Adam Rutherford hefur birt þau og grundvallast á mælingum C. Piazzi Smyth. Hér gildir ein tomma eitt ár og hver dagur er þannig 1/365 úr tommu. Á Mynd 14. 8 má sjá nöfn einstakra hluta pýramídans. Hér má sjá að Kristshornin tvö – það jákvæða og neikvæða (Mynd 13. 18) eru sýnd sem Vegur lífsins og Vegur dauðans. Þetta eru heiti sem koma þegar fram í Tólfpostulakenningunni (Didache), fyrsta trúfræðslukverið kirkjunnar (60 til 120 e. Kr). Þetta er sá vegur sem Jesaja spámaður vék að með eftirfarandi orðum:

Þar skal verða braut og vegur. Sú braut skal kallast brautin helga. Enginn sem óhreinn er, skal hana ganga. Hún er fyrir þá eina. Enginn sem hana fer, mun villast, jafnvel ekki fáráðlingar. Þar skal ekkert ljón vera, og ekkert glefsandi dýr skal þar um fara, eigi hittast þar. En hinir endurleystu skulu ganga þar (Jes. 35. 8-9).

Vegur lífsins skiptist í tvennt samkvæmt hinum fornu nöfnum sem hönnuðir pýramídans gáfu honum: Hinn tvöfalda sannleiksveg og Veg sannleikans í myrkir, en hér er vikið að Lögmálsganginum. Upphaf Vegar hins tvöfalda sannleika hefst hins vegar við Kristshornið sem vikið var að á Mynd 13. 21, það er að segja á Konungsveginum til Herbergis hinnar opnu grafar eða Konungsherbergisins. Lögmálsganginum er hins vegar lokað með Haftinu til að vekja athygli á því að hann er lokuð leið til hjálpræðis þar til Kristur bar fram friðþægingarfórn sína á krossinum. Lögð er áhersla á þetta með Lífsbrunninum sem sjá má á Mynd 14. 8. Friðþægingarfórn Krists er svo máttug að hún hefur gagnverkandi áhrif í tíma og þannig umbreytist Lögmálsgangurinn í Veg hinnar endurlífguðu sálar sem liggur til Drottningarherbergisins. Vegur dauðans eða hins neikvæða Kristshorns beinst hins vegar niður í Herbergi eldskírnarinnar eða Dauðapyttinn.

Það er einkum tvö ártöl sem eru mikilvæg í þessu sambandi. Í fyrsta lagi er það ártalið 1453 f. Kr. vegna þess að það er í fyllsta samræmi við hið Nýja tímatal (Mynd 14. 5). Við skulum íhuga þetta örlítið nánar á Mynd 14. 9. Þar sjáum við að andlátsár Jósefs markast af árinu 1573. Hann hefur þannig hafist til valda á tímum Amenemhat faraós III. Það er einmitt þetta sem fornleifafræðin hefur staðfest við uppgröft í hinni fornu borg Avaris í óshólmun Nílar þar sem hinir fornu Hebrear settust að. Sjálf brottförin frá Egyptalandi hefur þannig gerst árið 1453 f. Kr., líklegast á valdaskeiði Dudimose faraós.
Hitt ártalið er árið 1521 e. Kr. Þetta er athyglisvert ár eða það sama og Marteinn Lúter var bannfærður af kirkjunni. Eftir þetta liggur Dauðagangurinn beina leið í Herbergi eldskírnarinnar eða Dauðapyttinn um Deigluna (Sjá Mynd 14. 10). Hér sjáum við hvernig guðlaus kynslóð tók að birtast eftir hina miklu öld trúarinnar (13. öldina) sem leiddi smám saman til bræðsluofns Deiglunnar og svo kallaðrar „upplýsingatstefnu“ þar sem höfuðsmiðir eða arkitektar dauðamenningarinnar komu fram á sjónarsviðið. Sjálft Herbergi eldskírnarinnar heft á tveimur heimstyrjöldum og síðan hélt öld fósturmorða og fullkomins guðleysis innreið sína. Djúp eða botn þessarar þróunar markast af árinu 2127 e. Kr. og lýkur árið 2274 e. Kr. Þetta er tímaskeið fráfallsins mikla, öld stofnfrumurannsókna og nýrra „nefelím,“ manngervinga sem eru ávöxtur þessa tímaskeiðs:

Minnist þér ekki þess, að ég sagði yður þetta, meðan ég enn þá var hjá yður? Og þér vitið, hvað aftrar honum nú, til þess að hann opinberist á sínum tíma. Því að lögleysið er þegar farið að starfa í leyndum og stendur ekki á öðru en að þeim verði burt rýmt, sem nú heldur aftur af. Þá mun lögleysinginn opinberast, – og honum mun Drottinn Jesús tortíma með anda munns síns og að engu gjöra þegar hann birtist við endurkomu sína. Lögleysinginn kemur fyrir tilverknað Satans með miklum krafti, lygatáknum og undrum og með alls konar ranglætisvélum, sem blekkja þá, sem glatast, af því að þeir veittu ekki viðtöku og elskuðu ekki sannleikann, svo að þeir mættu verða hólpnir. Þess vegna sendir Guð þeim megna villu, til þess að þeir trúi lyginni. Þannig munu allir þeir verða dæmdir, sem hafa ekki trúað sannleikanum, en haft velþóknun á ranglætinu (2Þ 5-12).

Eða með orðum Enoks spámanns: „Og eftir hana mun koma önnur, hin áttunda vika (2000 til 3000 f. Kr.), vika réttlætis. Og henni mun gefið sverð þannig að réttlátir dómar verði kveðnir upp yfir kúgurunum og syndarar verða faldir hinum réttlátu á vald. Og við lok hennar munu þeir öðlast bústað sökum réttlætis síns og hús mun verða reist fyrir hinn mikla Konung í dýrð að eilífu.“
Á kirkjan einhverja samhljóða spádóma af vörum hinna heilögu. Vissulega! Hlýðum á:

Á fjórðu öld: „Menn munum gefast upp fyrir tíðarandanum. Þeir munu segja að ef þeir hefðu lifað á okkar tímum, þá hefði trúin verið auðskilin og án vandkvæða. En á þessum tímum munu þeir segja að heimurinn sé flóknari og að aðlaga verði kirkjuna að þessum tíma til þess að glíma við vandamál líðandi stundar. Þegar kirkjan og heimurinn verða eitt er þessi tími runninn upp“ (Heilagur Antoníus).

Á sextándu öld: „Refsingin mun ríða yfir þegar vagnar fara um án hesta og fjölmörg slys þjaka heimsbyggðina. Þetta mun gerast þegar hugsanir berast um jörðina á einu andartaki, þegar löng jarðgöng verða gerð fyrir vélar án hesta, þegar menn geta flogið um loftið og ferðast neðansjávar og skip eru smíðuð úr málmi og eldur og vatn framkvæma mikil undur, þegar jafnvel hinir snauðu geta lesið bækur og miklu skattfé verður varið í styrjaldarrekstur“ (Móðir Shipton).

Á sautjándu öld: „Allt má rekja þetta til þess að Antíkristur vill koma í stað Drottins og verða stjórnandi alheimsins og hann mun gera kraftaverk og undur. Hann mun einnig gefa vansælum manni öfugsnúna þekkingu þannig að hann mun uppgötva aðferð til þess að menn geti talað saman úr einu heimshorninu til annars. Á þessum tímum munu menn einnig fljúga um loftin eins og fuglarnir og kafa niður í hafdjúpin líkt og fiskar. Og þegar þeim hefur auðnast þetta allt, þá mun þetta ógæfusama fólk verja tíma sínum í munaði án þess að þessar vesælu sálir geri sér ljóst, að þetta eru blekkingar Antíkrists, lögleysingjans! Algóður Guð mun sjá hvernig mannkynið hrapar niður í djúpið og stytta þessa tíma vegna þeirra fáu sem frelsast vegna þess að óvinurinn vill jafnvel leiða hina útvöldu í freistingu, ef slíkt er unnt . . . Þá mun sverð réttlætisins birtast óvænt og deyða siðvillinginn og þjóna hans“ (Hl. Nilos á Aþosfjalli).
Á sautjándu öld: „Þeir munu hæðast af kristnum einfeldningshætti og munu kalla slíkt heimsku og þvaður. En þeir munu bera mikla virðingu fyrir þekkingu sem hártogar og flækir trúarkenningar með lagakrókum, siðaboðskap, spurningum og flóknum röksemdaleiðslum“ (Bartholomew Holzhauser).

Á átjándu öld: „Guð mun refsa heiminum þegar menn hafa fundið upp furðutæki sem fá þá til að gleyma Guði. Þeir munu eiga hesta án vagna og fljúga eins og fuglar (Blessaður Rembordt)

Á tuttugustu öld: „Verk djöfulsins munu jafnvel gegnsýra kirkjuna. Fjölmargir innan kirkjunnar munu fallast á málamiðlanir og djöflar munu fá fjölmarga presta og helgaðar sálir til að hverfa úr þjónustunni við Drottin“ (Agnes Sasagawa).

Ég læt hér lokið umfjöllun minni um fjórði son Kams eða Mísraím (1M 10. 6), þann sem varð fyrsti konungur eða faraó „Al Masr“ eða Egyptalands. Næst mun ég fjalla um Jafet, þann sem lagði leið sína til Evrópu og Asíu. En vissulega er boðskapur Súlu Enoks spámanns í senn hryggilegur, en jafnframt fagnaðarerindi endurlausnar: „Og eftir þetta munu koma margar vikur sem ekki verður komið tölu á að eilífu. Og allir munu vera gæskuríkir og réttlátir og aldrei mun framar minnst vera á synd.“ Þannig mun Sól réttlætisins endanlega skína sem hið óskapaða ljós sköpunarinnar yfir pýramídanum mikla í Gíza og í sérhverju mannshjarta!

[1]. Þýtt og gefið út af W. C. Hayers, 1955.
[2]. David Rohl, Test of Time, bls. 279-282.
[3]. Saga Gyðinga, Frá Adam til dauða Ísaks: 2, 3.
[4]. Samkvæmt nýju tímatalsfræðinni.
[5]. Samkvæmt tímatali Biblíunnar fæddist Enok 4285 f. Kr.
[6]. The Book of Enoch, I. XCIII. 1 - 17.

2 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Margt er hér merkilegt í fræðum þínum, nafni, og afar áhugavert. Það er langt mál að lesa þetta, þótt maður geri það á nokkurri hraðferð. Merkilegt er þetta, sem þú hefur áður nefnt við mig, um rangan tímatalsreikning í egypzkri sögu. Þeim mun merkilegra, vitaskuld, ef frá hinum elztu ættfeðrum eru til spádómar. Um Enoksbók er m.a. fjallað á þessari Moggabloggsíðu Jóhanns Helgasonar og jákvæðar umræður þar um hana, lausar við árásar-innlegg trúleysingja.

Þá er þessi texti þinn athyglisverður og um margt í fullu samræmi við það sem ég taldi fyrir:

“Samkvæmt þessu hafa Gyðingar unnið að því allt frá því um 130 e. Kr. að breyta ártölum í Biblíunni til að sanna að Messías hefði ekki getað komið til jarðar í sjöttu vikunni: Hinn masóríski texti [innskot JVJ: Masoretatextinn, skammst. MT] er því fölsun hvað áhrærir tímatalsfræði Biblíunnar í samhljóðan við rétttrúnað Gyðingdómsins. Það er í Sjötíumannaþýðingunni (Septuagintunni) og samversku Biblíunni þar sem við sjáum ártölin í samhljóðan. Í reynd er Septuagintan elsti heildartextinn sem við eigum af Biblíunni frá því um 270 f. Kr og jafnframt Ritning kaþólsku kirknanna. Hinn samverski texti var heldur ekki endurskoðaður og þannig traustur samanburðartexti hvað áhrærir ártölin.”

Það er einmitt merkilegt, að mótmælendur skuli hafa gert síðgyðinglega afstöðu, sem miðaðist við andstöðu gegn kristni og fitlað hafði við GT-textana, að mælistiku réttrar trúar, í stað þess að taka mark á Septuagintu; það sama á við höfnun sömu Gyðinga á devtero-kanónisku ritunum (Síraksbók, Speki Salómóns, Makkabeabókum o.fl.). Þó eru þess merki í 2007-Biblíunni, að Septuaginta sé að komast til meiri virðingar hjá Þjóðkirkju-fræðimönnum, hvað varðar textarýni (fyrir utan hitt auðvitað, að devtero-kanónisku ritin eru þar að mestu tekin með). Hér er margt verk að vinna, m.a. með samanburði við þá samversku texta, sem enn eru til.

Þetta eru efni til hugleiðingar og umræðna, þótt síðar verði.

Gleðilegt nýtt ár, kæri vin.

04.01.08 @ 22:27
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þróunarsinnar (darwinistar) hafa ítrekað leitast við að setja mannkynssöguna í „spennutreyju“ skoðanna sinna með „módeli“ sem er til samræmis við afstöðu Darwins.

En fornleifafræðin leiðir allt annað í ljós. Þetta sjáum við á uppgreftrarstöðum eins og í Tell Halaf frá því um 5400 f. Kr. Siðmenningin svo að segja sprettur fram nánast fullsköpuð bæði í tæknilegu og siðrænu tilliti. Í Tell Halaf sjáum við meðal annars leirker sem eru sem svarar tveimur spilum á þykkt og eru brennd í ofnum þar sem hitanum er stjórnað. Þannig verður áferð þeirra gljándi (líkt og postulín) og allir litir afar skýrir.

Hér er því um framleiðslu að ræða sem ber af leirkerum sem framleidd voru 1500 árum síðar!
Samkvæmt Septuagintunni (og samversku Biblíunni) varð siðmenningin til um þetta leiti. Hins vegar hafa Gyðingar klippt rúm 1000 ár af þessari sögu.

Er það ekki þetta sem Biblían segir okkur að gerðist um 5400 f. Kr. Þeir voru meðal annars byrjaðir að bræða málma í Tell Halaf og rækta einkorn. Samfélög sem leituðu inn á hásléttur Írans (Kain?) koðnuðu hins vegar niður og ekki varð um neinar frekari framfarir að ræða hjá þeim (neistinn var ekki fyrir hendi), heldur stöðnuðu þau eða bókstaflega urðu hrörnuninni að bráð eins og í Sialk í Íran.

Siðmenningin verður til skyndilega og óvænt þar sem vaxtarskilyrðin voru fyrir hendi: Það er að segja frumkvæði og þrá til framfara í borgarsamfélögum, það er að segja í Súmer. Það sem vekur furðu í þessu sambandi er að á því landsvæði þar sem David Rohl staðsetur hinn súmerska „ilu.gan.eden” (Paradísargarð Biblíunnar) finnast engar menjar í jörðu um mannvistarleifar frá ísöld eða steinöld hinni eldri. Ef til vill komu íbúarnir frá því landsvæði sem fór undir sjó þegar Miðjarðarhafið streymdi inn í Svartahafið (um 6500 f. Kr.), við vitum það einfaldlega ekki, en þar var um borgarsamfélög að ræða.

En ég tel að Lífsandi Guðs hafi verið „motus vivendi“ í þessari þróun líkt og við sjáum síðar í Biblíunni.
Upphafið er samfélag Adams Biblíunnar, samfélag sem við virðumst nú geta staðsett með nokkurri vissu í Adji Chaydalnum í Íran þar sem borgina Tabriz er að finna í dag, eins og vikið er að í fyrsta kaflanum (greininni). Biblían greinir okkur frá því að Guð hafi blásið „lífsanda“ í þetta samfélag með sérstökum hætti, líkt og við sjáum síðar hvernig lífsandinn blæs lífi í dauðramannabeinin í opinberun Esekíels spámanns löngu síðar (Esk 37. 1-11). Við sjáum einnig hvernig Lífsandinn snertir með sérstökum hætti við því samfélagi sem Móse leggur grunninn að í Sínaieyðimörkinni í frásögninni af gerð tjaldbúðarinnar:

Drottinn talaði við Móse og sagði: „Sjá, ég hefi kvatt til Besalel Úríson, Húrssonar, af Júda ættkvísl. Ég hefi fyllt hann Guðs Anda, bæði vísdómi, skilningi, kunnáttu og hvers konar hagleik, til þess að upphugsa listaverk og smíða úr gulli, silfri og eiri og skera steina til greypingar og til tréskurðar, til þess að vinna að hvers konar smíði. Og sjá, ég hefi fengið honum til aðstoðar Oholíab Akísamaksson af Dans ættkvísl. Og öllum hugvitsmönnum hefi ég gefið vísdóm, að þeir megi gjöra allt það, sem ég hefi fyrir þig lagt: samfundatjaldið, sáttmálsörkina, lokið, sem er yfir henni, og öll áhöld tjaldsins, borðið og áhöld þess, gull-ljósastikuna og öll áhöld hennar og reykelsisaltarið, brennifórnaraltarið og öll áhöld þess, kerið og stétt þess, glitklæðin, hin helgu klæði Arons prests og prestsþjónustuklæði sona hans, smurningarolíuna og ilmreykelsið til helgidómsins. Allt skulu þeir gjöra eins og ég hefi fyrir þig lagt“ (2M 37. 1-11).

Guð blés samfélagi Adams í brjóst „bæði vísdómi, skilningi, kunnáttu og hvers konar hagleik“ til að reisa hið mennska samfélag siðmenningarinnar.

Enn á ég eftir að ljúka við inngangorðin að þessari samantekt sem ég geri væntanlega innan skamms tíma.

05.01.08 @ 09:00