« Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 14Kristsboðinn á austurhimnum »

24.10.07

  10:33:18, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 8157 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 13

UM HEILÖG FJÖLL OG PÝRAMÍDA.

Sjá myndir 13. Lesandanum skal bent á að best er að hlaða myndskrá á skjáborð og hafa tiltæka við lestur kaflans því að hér er um þungar pdf skrár að ræða

Í síðustu grein var fjallað um hinn súmerska Meskiagkashker eða Kús Biblíunnar og son Kams sem „hvarf til sjávar og komst til fjallanna.“ Hér er átt við Súdan og Eþíópíu og allt fram á 5. öld e. Kr. héldu afkomendur hans áfram að reisa pýramída í grafarborgum sínum. Annar sona Kams eða Pút hélt til Líbýu [1], sá þriðji til Kanaanslands og sá fjórði eða Mísraím (1M 10. 6) til Egyptalands. Enn í dag nefnist Egyptaland Al Masr á arabísku. Nafnið er dregið af fornegypsku forsetningunni „m“ eða frá og a-s-r eru aser eða æsirnir, sheptiu eða hinir öldnu. Hér er um viðurnefni að ræða sem þýðir frá eða „tilheyrir aser.“ Á konungslista prestsins Manaþeó í Bók Síríusar er Mísraím talin vera fyrsti faraó Egyptalands sem einnig er nefndur Men.es (bókstaflega hin smurða kóróna á súmersku). Hebreska nafnið er þannig m-isr með fleirtöluendingunni „im“ eða fylgjendur „isr.“ Assýringar sem töluðu einnig semískt mál nefndu Egyptaland Mushri. Þannig sjáum við að Masr (arabíska), Misr (hebreska) og Musri (akkadíska) er viðurnefni fyrsta her-ur konungsins í Egyptalandi, þess sem lét draga sefskipin frá Rauðahafinu til Nílar og vikið var að hér að framan. Í akkadísku er endingin „i“ jafngildi forsetningarinnar „af“ (af Musr).

Í Þepufjallendinu þar sem egypsku konungagrafirnar voru staðsettar er það eitt fjallið sem gnæfir yfir hin. Fornegyptar nefndu það „Ta dehent“ eða Hornið. Það er þrýhyrningslaga eða eins og pýramídi frá náttúrunnar hendi. Ta dehent var arftaki pýramídanna sem reistir voru þúsund árum áður en fyrstu konungagrafirnar voru höggnar þarna út í bergið. (Mynd 13. 1) Einangrun staðarins kom í veg fyrir að grafaró faróanna væri raskað og auðveldaði „medjay“ eða grafarlögreglunni öll störf. Súmerar nefndu slík fjöll „kur-gal“ þar sem himininn og jörðin mætast eða jafngildi mustera. Á myndmáli því sem tók að þróast snemma á fjórðu öld og var forveri fleygrúnaletursins var fjall táknað með þríhyrning.

Fyrsti stallapýramídinn sem Imenhótep vesír reisti fyrir Djoser faraó var þannig eftirgerð súmersku stallamusteranna eða hins heilaga fjalls sem stóð í miðju heimsins (Mynd 13. 2). Í pýramída Djoser faraós má sjá eftirmynd hinna súmersku reirhúsa í steini og á súlunum jurtir sem eru með öllu óþekktar í Egyptalandi en alþektar í Súmer. Stallapýramídinn var ekki einungis grafhýsi heldur má þar einnig sjá forsal Sed-hátíðarhaldanna. Það var þarna sem Djoser hélt „hep Sed“ hátíðina á fimm ára fresti meðan hann lifði. Hér skaut hann hinum fjórum örvum í höfuðáttirnar fjórar sem tákni um að hann hefði að nýju öðlast vald yfir löndunum tveimur. Það var einnig í afhýsi út frá Sedsalnum þar sem hann dvaldi eina nótt umvafinn í múmíulín. Að morgni gekk hann sigrihrósandi út til móts við mannfjöldann sem fagnaði honum ákaft og heyra mátti hversu mjög fólkinu létti þegar hann hljóp hep Sedhlaupið til að sanna styrk sinn. Faraó hafði svo sannarlega öðlast líf að nýju og þannig gat lífið haft sinn gang næstu fimm árin í Masr, landi Her-ur konunganna. Síðar að þessu lífi loknu gat Djoser haldið hina eilífu hep Sedhátíð hér. Þetta sjáum við á eftirlíkingu dyra sem eru í rauninni ekki dyr. Af fjórtán dyrum er einungis einar raunverulegar og ætlaðar dauðlegum mönnum.

Öll heilög fjöll, musteri og pýramídar voru eftirgerð hins heilaga fjalls í Gan Eden –Paradísargarðinum – sem enn er kallað Fjall kaleiksins eða Jam Daghi á azerbaijönsku, það er að segja Sahandfjallið. Enn í dag fara íbúar Tabriz upp á fjallið um helgar eða á frídögum til að ná sér í vatnið úr hinni helgu uppsprettulind sem þeir telja að búi yfir lækningarmætti. Vatnið vellur fram úr iðrum jarðar og streymir niður hlíðar fjallsins og í öllum musterum Súmera var „abzu-gatið,“ sífelld áminning um þessa uppsprettulind. Við sjáum jafnframt að spámönnum Hebrea var alls ekki ókunnugt um þetta fjall, hið heilaga fjall Guðs (Esk 28. 11-19), „þingfjalli guðanna yst í norðri“ (Jes. 14. 13).

Fyrsta musterið í Jerúsalem var reist á Síonfjalli sem endurómar stöðugt í sálmunum: „Ég hefi skipað konung minn á Síon, fjallið mitt helga“ (Sl 2. 6), „Drottinn, hver fær að gista í tjaldi þínu, hver fær að búa á fjallinu þínu helga?“ (Sl 15. 1). Abraham gekk upp á Mórefjall og reisti þar altari (1M 12. 8), Móses meðtók opinberun sína á Sínaifjalli og gekk til fundar við Guð á Nebófjalli á andlátsstundinni. Elíja gekk á Hórebfjall og postularnir þrír sáu Jesú ummyndast á Taborfjalli og sjálfur fór hann til fjallanna til að biðja. Þessi arfleifð lifir áfram í kristindóminum og er nægilegt að minnast á Karmelfjall, Monte Cassino og Aþosfjall í Grikklandi. Sjálfir eigum við Íslendingar okkar Helgafell og í fjallinu Hatti fyrir ofan Krýsuvíkurskóla sem er eins og pýramídi má sjá fornan keltneskan kross í helli einum, líklegast frá tímum papanna. Það er ævaforn kristin arfleifð að munkar dragi hettu kufls síns yfir höfuðið til merkis um að þeir dvelji í þögn og íhugun. Þetta kemur ekki á óvart og fræðimenn hafa undrast hversu náið samband var á milli írsku papanna og abbanna í egypsku eyðimörkinni. Sjálft nafnið Krýsuvík er þannig lílega dregið af hinu skosk-gelíska orði „cryce“ sem þýðir krúnurakað höfðuð og enn má sjá hringlaga grunn keltneskrar kirkju á Húshólmanum í Ögmundarhrauni, eitt höfuðeinkenna keltneskrar kristni. Allir sem gengið hafa á fjöll til að íhuga þekkja áhrifin og þá sérstæðu kyrrð sem það hefur á mannshugann. Þetta er upplifun sem ekki hefur verið mæld með vísindalegum hætti, en ekki er ólíklegt að slíkar mælingar leiddu í ljós dýpkun vitundarsviðsins þar sem alfa og betabylgjur eru ríkjandi. Leyndardóm fjallanna má draga saman með orðum 121 sálmsins í lífi jafnt sem dauða:

Ég hef augu mín til fjallanna:?Hvaðan kemur mér hjálp??Hjálp mín kemur frá Drottni,?skapara himins og jarðar.

Allt frá unglingsárunum undraðist ég sjálfur þá fullyrðingu fjölmargrar fornleifafræðinga að pýramídinn mikli í Gíza sem kenndur er við Kufú faraó af fjórðu konungsættinni væri grafhýsi hans. Nafn hans sjálfs er hulið í þröngu loftskoti fyrir ofan konungsherbergið og ekkert í gerð pýramídans bendir til þess að um grafhýsi sé að ræða. Þannig fullyrti gríski sagnfræðingurinn Díodórus Siculus að Kufú faraó hafi ekki verið lagður til hvíldar í pýramídanum og Al-Ma'mun kalífi greindi frá því að þegar brotist var inn í Konungsherbergið á níundu öld hafi komið í ljós að gröfin var tóm. Sjálfur tel ég að pýramídinn mikli í Gíza hafi bókstaflega gegnt sama hlutverki eins og síðar meðal hinna miklu húsameistara og hugleikssmiða hinna gotnesku kirkja á miðöldum þar sem þeir huldu heimsmyndunarfræði sína í margflóknu táknmáli steins, mála og steindra glugga. Í reynd ber pýramídinn snilli og hugviti þeirra Kufús og Hermons vesírs gott vitni: Enn í dag hefur raunveruleg gröf Kufús ekki fundist vegna þess að fornleifafræðingar hafa ekki leitað að henni! Gröf Hermons fannst hins vegar vestan pýramídans sem hann reisti. Þannig gat hann horft til fjallsins rísa í austri: Til hins lífgefandi austurs.

Eitt blasir þó við sjónum allra enn í dag, það er að segja allur sá fjöldi grafa sem sjá má í kringum pýramídana á Gízasléttunni. Það var talið fela í sér blessun að hvíla í skjóli þeirra rétt eins og gegndi um konungagrafirnar við Ta dehent í Konungadalnum og sama má segja um grafreiti kristinna manna í gegnum aldirnar sem ávallt voru staðsettar við kirkjur þar sem unnt var að koma því við og er gert enn í dag. Þetta eru ummerki upprisutrúar: Að lífið haldi áfram að þessu lífi loknu. Hið sama gilti um grafarhaugana á Eyju hinna blessuðu (Bahrein) sem vikið var að í síðustu grein. Fjöldi þeirra er talin vera um 250.000! Það sem kemur á óvart er að um 17% þeirra standa auðir, hafa aldrei verið notaðar. Allt bendir til að auðugir Súmerar hafi keypt sér legstað á Eyju hinna blessuðu og greitt út í hönd og eigendurnir hafi svo af einhverjum ástæðum ekki notið grafhýsa sinna.

Ég tel að pýramídasvæðið við Gíza hafi verið eins konar „fræðslumiðstöð“ eða eigum við fremur að segja „háskóli?“ þar sem nemendurnir voru uppfræddir í stærðfræði, stjörnufræði, heimsmyndunarfræði og um innstu rök tilverunnar. Sami hátturinn var hafður á í Súmer þar sem menn leituðu sér uppfræðslu. Þúsundir fleygrúnataflna hafa fundist sem skipt var í tvennt þar sem kennarinn gaf nemendunum forskrift og þeir látnir æfa sig í skrift. Einnig hafa fundist töflur sem gegndu því hlutverki að vera eins konar „reiknistokkar“ með mikilvægum stærðfræðiformúlum til notkunar við úrlausn daglegra vandamála. Margir hafa undrast kröfur samfélagsins á þessum tíma til nákvæms tímatals þar sem landbúnaðarsamfélög hefðu komist ágætlega af með hið forna tunglár. Þegar hefur verið bent á mikilvægi sólarárs helgisiðahringsins. En einnig hefur verið bent á að hið borgaralega sólarár 360 daga og fimm aukadaga hafi beinlínis miðast við birgðaútreikninga á því korni sem til var í birgðageymslum, en þær voru í öllum „wadet“ eða stjórnsýsluumdæmum Egyptalands. Þannig hafi embættismenn auðveldlega getað metið stöðuna ef illa áraði og getað hagað skattlagningu á bændur til samræmis við ástandið.

Þetta varpar einnig ljósi á mikilvægi reitaskiptingar landsins þar sem ekran miðaðist við það land sem plægt var á ákveðnum tíma bæði í Súmer og Egyptalandi. Æðstu sannindin að baki pýramídans mikla var þó í hugum eingyðistrúarinnar þau, að hann benti á skapara allrar tilurðar í ímynd sólarinnar sem allt snýst um. Hann opinberar speki hinna öldnu eða sheptiu þar sem „iry-pat“ eða afkomendur prestkonunga Adamskynslóðarinnar hafi verið innvígðir í speki þeirra sem endurómar í orðum Enoks spámanns:

Og þá sá ég Einn sem var Höfuð daganna. Og höfuð hans var hvítt sem ull og með honum var önnur vera og ásýnd hennar var sem manns. Og ásjóna hans var náðarrík, eins og hinna heilögu engla. Og ég spurði engilinn sem var með mér og opinberaði mér allt það sem hulið er um þennan Mannsson, hver hann væri, og hvaðan hann kæmi og hvers vegna hann gengi með Höfði daganna? Og hann svaraði og sagði við mig: „Þetta er Mannssonurinn sem boðar réttlætið og er uppspretta alls réttlætis og opinberaði alla auðlegð hins hulda. Þar sem Faðir herskaranna hefur útvalið hann og þar sem hann er útvalinn að eilífu af Föður herskaranna, þá er hann réttlátur að eilífu. Og Mannssonurinn sem þú hefur séð, mun velta konungunum og hinum voldugu af hásætum . . . og brjóta tennur syndaranna og velta konungunum af veldisstóli þeirra vegna þess að þeir tilbiðja hann hvorki né vegsama. [2]

Þannig var pýramídinn mikli upprisutákn. Hið forna egypska nafn á Konungsherberginu varpar ljósi á þetta: Herbergi hinnar opnu grafar. Þegar Marsham Adams hafði lýst pýramídanum sem „Húsi hinnar opnu grafar,” þá komst hann svo að orði:

Í sannleika sagt er Pýramídinn mikli hús grafarinnar, en þetta er ekki lokuð gröf, heldur opin. Þetta er ekki gröf manns heldur guðs, ekki hinna dauðu, heldur hinna upprisnu. [3]

Ef við gerumst djörf getum við látið eftir okkur að fullyrða, að pýramídinn mikli hafi verið forgildi sjálfs Páskaleyndardómsins 2500 árum síðar, „mannsins sem kemur af himni ofan í sjöttu vikunni“ í Viknaspádóm Enoks spámanns eins og vikið verður að síðar. Ítalski menningarsögufræðingurinn og stærðfræðingurinn Livio Catullo Stecchini (1913-1979) sem var einhver mesti sérfræðingurinn á tuttugustu öldinni um fornar mælieiningar, stjörnufræði og heimsmyndunarfræði Súmera og Fornegypta varði stórum hlutum ævi sinnar til að kanna hina víðtæku þekkingu þeirra. Miðbaugur jarðar var sú viðmiðun sem lág öllum mælingum Fornegypta að baki og nákvæmni þeirra var slík, að ekki verður á betra kosið, og það þrátt fyrir alla nútímatækni í æðri landmælingum (geodesy). Öll þessi þekking grundvallaðist á sólbaugi jarðar sem deilt var niður af slíkri nákvæmni, að ekki verður betur leyst af hendi í dag!

Þeir gerðu jafnvel ráð fyrir að jörðin flettist út við pólana og skiptu miðbauginum þá þegar í þær einingar sem gengið er út frá enn í dag eða nákvæmlega samkvæmt sólartíma eða í 365. 242 daga sólarársins þar sem hver dagur mældist 24 klukkustundir, 1440 mínútur og 86. 400 sekúndur. Og hvernig tókst þeim til við þessa iðju sína. L. C. Stecchini gefur mælingu Fornegypta vægið 116/34.538 = 1/297.74. Að hans mati jafnast þetta á við nákvæmustu mælingar í dag. Stecchini bar mælingar Fornegypta saman við niðurstöður Heyfords og komst að raun um að tólfföld lengd Egyptalands að pól mældist 10.002, 301 metrar í samanburði við 10.0002, 286 metra samkvæmt niðurstöðum Heyfords og draga má í efa hvor þeirra er nákvæmari. Þeir deildu sólarárinu niður í 365.242 daga sem sjá má í grunnfleti pýramídans. Þar má einnig sjá stjönuárið (sideral year) sem 365.256 daga og til að kóróna allt, hið óreglulega sólarár (anomalistic) sem 365.259 daga. Samkvæmt staðli International Standards of Linear Units and Measurments frá árinu 1924 er pólradíus jarðar 6.356, 912 metrar og þegar þessi fjarlægð er umreiknuð í tommur (1 metri = 39·370113) og deilt með 10.000.000 er útkoman 25·027 álnir (cubits). Hin heilaga alin Fornegypta var þannig tíu milljónustu (1: 10.000.000) úr geisla (radíusi) jarðarmiðjunnar og tomman (1:25) einn fimm hundruð milljónasti (1: 500.000,000) af þvermáli jarðar.

Ég ætla ekki að endurtaka allt það sem þessi margfróði maður hafði að segja um þessi fræði, heldur vísa einungis á minningarsíðuna um hann sem vinir hans komu upp á Internetinu að honum látnum [4]. Sjálfur var hann ekki í nokkrum vafa um að hin egypska konungsalin sem liggur pýramídanum til grundvallar sé hin súmerska „lugal“ eða konungsalin. Sjálfur lýsti Stecchini yfir undrun sinni eftir að hafa kynnt sér ítarlega talnaleikni og þekkingu hinna fornu hönnuða pýramídanna þriggja á Gízasléttunni sem hann sagði að jafnaðist á við þekkingu manna um miðbik tuttugustu aldarinnar, orð sem hann átti eftir að leiðrétta með tilkomu mælinga úr himingeimnum með aðstoð gervitungla:

Að lokum þetta. Niðurstöður Egypta um stærð jarðar og þeir grundvölluðu mælieiningar sínar á voru eins nákvæmar eins og þær sem fengist hafa með nýjustu tækni og framförum í stærðfræði í geimrannsóknum. [5]

Ég bendi einungis á eftirfarandi staðreyndir:
(1) Pýramídinn í Gíza snýr nákvæmlega í norður, suður, austur og vestur. Hnitstefna hans (true azimuth) miðast við hnitkerfi þar sem hann er staðsettur með sekúndunákvæmni (0° 03‘ 43‘‘).(2) Hann er reistur á þeim stað sem er landfræðileg miðja þurrlendis jarðar, eins og sjá má ef heimskort með jafngildismælikvarða (equal area map) er haft til hliðsjónar. (3) Hann stendur á þeirri breiddargráðu jarðar sem liggur um mesta þurrlendi hennar. (4) Hann sýnir hnattlögun jarðar og jafnframt frávik hennar frá þessari hnattlögun með flatningu við pólana. (5) Hann sýnir snúning jarðar um öxul sinn miðað við jafndægra. (6) Hann sýnir nákvæma lengd öxuls jarðar. (7) Hann sýnir lengd meðalsólarárs jarðar, það er að segja, þann tíma sem það tekur sólina að ganga á milli hágöngu og lággöngu á jafndægrum. (8) Hann sýnir lengd stjörnuársins eða þann tíma sem það tekur jörðina að ganga umhverfis sólu og grundvallast á nákvæmum stjörnuathugunum.(9) Hann sýnir hið óreglulega jarðarár eða þann tíma sem það tekur jörðina að snúast á braut sinni. (10) Hann sýnir lengd brautar jarðar. (11) Hann sýnir meðalfjarlægð jarðar frá sólu. (12) Hann sýnir þyngd jarðar. (13) Hann sýnir halla sólbrautarinnar. (14) Hann stendur nákvæmlega í miðju þyngdarsviðs jarðar. Þyngdarsvið jarðar er breytilegt eftir breiddarbaugum og í örlitlum mæli eftir lengdarbaugum og er sett fram sem stærðfræðilegur stuðull jarðbogans. Þyngdarstuðull pýramídans (constant of gravity) miðast við 29? 11‘ 25” austur og hraðaaukningin (accelaration) mælist vera 981.00463 sekúndur á sekúndu. Þetta er hinn fasti stuðull fyrir allar þyngdarmælingar. Ef velja ætti eitthvern stað á jörðu sem miðju þyngdarsviðsins er ekki unnt að velja ákjósanlegri stað. (15) Hann sýnir magngildi jarðskorpunnar yfir sjávarmáli.?(16) Hann sýnir nákvæmt hlutfall þurrlendis og votlendis á okkar tímum, staðreynd sem bendir til þess að boðskapur Pýramídans sé einmitt ætlaður nútímamönnum.

Ég læt þetta nægja en vísa að öðru leiti til niðurstaðna Stecchinis eins og vikið var að hér að framan. Við lesum þessi orð af vörum Jesaja spámanns:

Á þeim degi mun vera altari handa Drottni í miðju Egyptalandi og steinsúla (matsebah á hebr.) handa Drottni við landamærin. Það skal vera til merkis og vitnisburðar um Drottinn allsherjar í Egyptalandi. Þegar þeir hrópa til Drottins undan kúgurunum, mun hann senda þeim endurlausnara og forvígismann, er frelsar þá (Js 19. 19 - 21).

Á hebresku gilda bókstafirnir jafnframt því hlutverki að vera tölustafir og þegar talnagildi bókstafa þessara ritningarversa er ritaður, þá blasir eftirfarandi niðurstaða við:

58, 17, 30, 57, 56, 428, 291, 380, 143, 121, 46, 56, 26, 437, 110, 56, 499, 293, 380, 30, 276, 31, 26, 180, 178, 354, 75, 426, 208 og 181.10

Samanlagt gerir þetta 5, 499 og þetta er einmitt sama talan og hæð sú sem hinir fornu byggingarmeistarar gáfu Pýramídanum í Gíza eða 5.499 pýramídatommur án hornsteinsins! Spádómsorð Jesaja víkja að endurlausn Egyptalands, Assýríu og Ísrael: „Á þeim degi munu þessir þrír taka saman, Ísrael, Egyptaland og Assýría, og vera blessun á jörðinni miðri. Drottinn allsherjar blessar þá og segir:?Blessuð sé þjóð mín Egyptar, verkið handa minna Assýría og arfleifð mín Ísrael!“ (vers 24-25). Egyptar skírskota til lögmálsdýrkendanna, Assýría til heiðnu þjóðanna og arfleifð Ísraels til kristinnar kirkju: Allir munu sameinast í eitt í ríki Mannssonarins eða með orðum Enoks hér að framan: „Og Mannssonurinn sem þú hefur séð, mun velta konungunum og hinum voldugu af hásætum . . . og brjóta tennur syndaranna og velta konungunum af veldisstóli þeirra vegna þess að þeir tilbiðja hann hvorki né vegsama.“ Það er hér í pýramídanum sem Guð býður hinum vitsmunalega sinnaða nútímamanni til glímu: „Vér skulum eigast lög við“ (Jes 41. 1). Pýramídinn stendur bæði í grennd Annu (Sólarborgarinnar og On Biblíunnar) sem var höfuðborg Neðraríkisins egypska og Memfis, höfuðborgar Efraríkisins, og hin fornu landamæri lágu í sjónmáli frá báðum borgunum. Þannig var pýramídinn hvort tveggja í senn: Í miðju Egyptalandi og á landamærum þess. Hann er bókstaflega í miðju landinu og á jöðrum þess við mörk Saharaeyðimerkurinnar og sjálft nafnið Gíza þýðir á arabísku jaðar, endimörk eða brún. Við skulum nú íhuga þetta örlítið nánar.

Egyptinn Robert Bauval [6] hefur rannsakað sérstaklega innbyrðis afstöðu pýramídans mikla – Kufrúpíramídans – til hinna tveggja pýramídanna sem kenndir eru við faraóana Kafre og Menkári annars vegar, og sfinxins hins vegar. Hann komst að þeirri niðurstöðu, að allir virðast pýramídarnir vera staðsettir með hliðsjón af þremur skærum stjörnum sem mynda belti stjörnumerkisins Oríon (Zeta, Epsilon og Delta). Það sem virðist blasa við sjónum okkar þegar við horfum úr lofti niður til pýramídanna þriggja mætti ætla að sé nákvæmt stjörnukort af þremur stjörnum Oríons. Það er ekki nóg með að pýramídarnir virðist sýna innbyrðis afstöðu þessara þriggja stjarna í belti Oríons, heldur sjáum við einnig sjálfan miðbaug himinhvolfsins sem snertir langhlið Kufúpýramídans sem er leiðréttur að miðbauginum frá 29° 03´ 33´´ norðlægðrar breiddar frá Kafrepýramídanum (Mynd 13. 4).

Gagnrýnendur hans hafa hins vegar bent á að þessi skoðun hans fái ekki staðist þar sem Kafrepýramídinn sé ranglega staðsettur. (Mynd 13. 5). En ljóst er að hönnuðir pýramídanna þriggja gerðu ráð fyrir mislægi stjarnanna í upphafi. Á Myndum 13. 4 og 13. 6 sjáum við að athyglinni er beint að sfinxinum og musterinu sem kennt er við hann og í hugum Fornegypta hafi sfinxinn skírskotað til Her-ur (Hórusar) sjóndeildarhringsins. Þannig horfir sfinxinn til hinnar rísandi sólar í austri. Það kemur mörgum á óvart að sfinxinn er í reynd hluti arfleifðar prestkonunga Adamskynslóðarinnar. Slík ljón með mannshöfuð voru nefnd „lamu“ á súmersku og af orðinu „lamu“ er dregin súmerska sögnin „lama.du“ sem þýðir að uppfræða eða nema. Sfinxinn er þannig eins konar bendill sem hönnuðir pýramídanna hafa staðsett nákvæmlega með þessum hætti eins og sjá má á myndunum sem skírskotun til einhvers enn meira! Í Súmer rétt eins og síðar í Babýlon og Assyríu var „lamu“ tákn styrks konunga. Hann skírskotar til þess sem „Faðir herskaranna hefur útvalið að eilífu af Föður herskaranna, sá sem er réttlátur að eilífu“ með orðum Enoks spámanns hér að framan: Sfinxinn er tákn hins komandi Mannssonar!

Sjálft Sjöstyrnið í Nautsmerkinu var nefnt „temen“ á súmersku sem þýðir grundvöllur eða mynd gerð á jörðu með því að strengja reipi á milli tveggja stólpa eða merkja. Orðið „temen.es“ þýddi helgidómurinn í upphæðum eða „te.ab.“ Það var nákvæmlega þannig sem markað var fyrir legu pýramídanna með því að staðsetja merkistólpa og sjálft „Sjöstyrnið“ var jafnframt helgidómur spekinganna sjö eða „adapanna“ í Eridu sem vikið var að í síðustu grein og Enok spámaður var talinn í hópi þeirra. Við stöndum þannig enn að nýju frammi fyrir hinni súmersku arfleifð „pat-yri“ eða sheptiu (hinna öldnu).

Gagnrýnendur kenningar Bauvals hafa jafnframt bent á að staðsetning pýramídanna þirggja gæti allt eins átt við fjölmargar aðrar stjörnur á himinhvolfinu. Engu er líkara enn að hönnuðir þeirra hafi einnig gert ráð fyrir þessum andmælum og taka því af öll tvímæli: Rásirnar tvær úr Konungsherbergi Kufupýramídans beindust að tveimur stjörnumerkjum um miðbik þriðju aldar f. Kr. þegar pýramídarnir voru byggðir: Að norðanverðu til stjörnunnar Túban (Al) í Drekamerkinu sem var pólstjarna eða miðja himinhvolfsins á þessum tíma og að sunnanverðu til stjarnanna þriggja í belti Oríóns. Boðskapurinn er augljós: Þegar þið horfið til miðju himinhvolfsins sem ímyndar Guðs sem alheimurinn snýst um munið þið koma auga á „Abum – Ilu – Maru (soninn)“ eða Föðurinn – Lífsandann – og Adam.“ Allur var þessi sannleikur síðan afskræmdur í furðuheimi goðsagnaskrýmsla afvegaleidds musterisvalds heiðindómsins.

Sjálfur Kúfupýramídinn var nákvæm eftirmynd norðurhvels jarðar eða með orðum Livio C. Stecchini:

Grundvallarhugmynd Pýramídans mikla var sú, að hann skyldi vera líkan af norðurhveli jarðar, hveli sem myndvarpað væri á flata fleti, eins og gert er við kortagerð. Þetta var sú meginregla (principle) sem beitt var við gerð tröppuhofsins í Babýlon, Babelsturns Biblíunnar, svo og eldri pýramídanna. Pýramídinn mikli var myndvörpun (projection) á fjóra þríhyrnda fleti. Toppurinn merkti pólinn og ummálið stendur í hlutfallinu 2 PÍ gagnvart hæðinni. Pýramídinn mikli sýnir norðurhvel heims í mælikvarðanum 1: 43.200. Þessi mælikvarði var valinn vegna þess að í 24 stundum eru 86.400 sekúndur. En að auki gerðu byggjendurnir sér grein fyrir því, að þeir þurftu að leysa það vandamál hvernig jörðin flest út við pól, sýna hlutfall þess, svo og lengd þeirrar breiddargráða sem byggjast á þeirri flatningu. Þá felldu þeir hlutfallið PHI (hins gullna sniðs, örheimsins) inn í Pýramídann sem lykil að byggingu alheimsins. [6]

Pýramídinn leiðir okkur þannig fyrir sjónir að hönnuður hans – Hermon vesír – hafði þegar leyst flóknustu viðfangsefni varpana og loftþríhyrninga, þekking sem Evrópumenn öðluðust ekki fyrr en á sautjándu öld! Á Mynd 13. 3 má sjá að þriðji pýramídinn sker sig úr hvað varðar hina pýramídana tvo. Lægri hluti hans var hulinn með rauðleitum marmara sem var innfluttur frá Eþíópíu, en sá efri með hvítum granít sem kom úr námunum við efstu stífluna í Níl. Þessar andstæður voru svo miklar að Grikkinn Díodórus Siculus greindi frá því að hann væri svartur að neðan. Sagnfræðingurinn Heródótus sagði að þriðji pýramídinn sé hulinn „eþíópískum steini um það bil til hálfs (eis to hemisu). Það sem skiptir máli í þessu sambandi er ekki hæð pýramídans heldur yfirborð hans og hvíti granítinn hylur um 7/16 yfirborðs hans.

Klæðning Kafrepýramídans (enn má sjá leyfar hennar efst í pýramídanum) var gerð úr hinum hvíta granít úr Nílarnámunum, en hins vegar var klæðning Kufúpýramídans úr granít sem hogginn var úr námum á sjálfu byggingarsvæðinu: Hann var sem sagt jarðlitaður. Það var þessi staðreynd sem vakti athygli Kanadamannsins Clive Ross meðan hann var enn við nám við háskólann í Toronto. Sjálfur kemst hann svo að orði:

Gamall málsháttur hljóðar . . . „Við getum ekki séð skóginn fyrir trjánum.“ Pýramídarnir beina athygli okkar að Oríon, en fornmennirnir hafa látið okkur í té fjölmarga „bendla“ til að íhuga. Í fyrsta lagi einbeittu þeir sér að fyrirbrigði sem stendur okkur enn nær en Oríon stjörnumerkið . . . að hinum innri reikistjörnum í sólkerfi okkar: Merkúrí, Venus, Jörðinni og Mars! . . . Spurningin sem ber að svara hér er: Hvernig gátu menn til forna vitað um stærð reikistjarnanna og hvernig gátu þeir sýnt fjórar reikistjörnur af misjafnri stærð með því að nota einungis þrjá pýramída? Stjörnufræðingar hefðu átt að gera sér ljóst að fyrsti bendillinn er hlutfallsleg stærð P1, P2 og P3 þegar þeir eru bókstaflega bornir saman við Jörðina, Venus, Mars og Merkúrí.“ [7]

Sjá (Mynd 13. 7).
Á Mynd 13. 8 má sjá hlutfallslega stærð Mars og Merkúrí í samanburði við grunnmál Kafrepýramídans og klæðningu hans. Liggur þá ekki beinast við að ætla að hin hvíta granítklæðning Menkáripýramídans skírskoti til Venusar, skærustu reikistjörnunnar? Nú er ljóst að hönnuðirnir gerðu sér fyllilega ljóst að stjörnurnar þrjár í belti Oríons lágu ekki í beinni línu. Við vitum að Mars gengur um Sólu á 686, 98 dögum og Jörðin á 365, 25 dögum. Þannig ferðast Mars um Sólina á 191, 4 jarðardögum á einu jarðarári. Hvað gerist ef við setjum Sólina í stað P2? (Mynd 13. 9).

Við skulum nú snúa okkur að fjarlægðinni milli reikistjarnanna með hliðsjón af pýramídunum þremur. Á Mynd 13. 10 má sjá meðalfjarlægð Venusar, Jarðar og Mars frá Sólu. Með því að breyta röð reikistjarnanna má sjá hversu vel hönnuðir pýramídanna skildu gang reikistjarnanna. Yfirleitt ganga stjörnufræðingar út frá fjarlægðinni frá sólu, en hinir fornu stjörnufræðingar kusu innbyrðis fjarlægðina á milli reikistjarnanna. Með hliðsjón af fjarlægðunum á Mynd 13. 10 er hlutfallið?78.34/41. 39 = 1.89. Fjarlægðin milli pýramídanna er því sem næst sú sama. W. F. Petrie mældi fjarlægðina milli pýramídanna í þumlungum þar sem hlutfallið er 1. 92. Þannig hefur hinum fornu stjörnufræðingum einungis skeikað um 1. 5%. Mynd 13. 11.

Það var ekki fyrr en um 1600 e. Kr. sem stjörnufræðingar gerðu sér ljóst að reikistjörnurnar gengju eftir sporbaugsmyndaðri (elleptical) braut en ekki hring. Það var Jóhannes Kepler sem var fyrstur til að benda á þetta. Hin raunverulega braut Merkúrí, Venusar og Jarðar um Sólu er sýnd á Mynd. 13. 12. Braut Merkúrí eru óreglulegust. Hjámiðja Merkúrí er 0.206, Venusar 0.007 og Jarðar 0.016. Meðaltal Merkúrí í samanburði við meðaltal Venusar og Jarðar frá Sólu má sjá á Mynd 13. 13.
Þegar stærð reikistjarnanna var borin saman við pýramídana þrjá var þeirri tilgátu varpað fram að Menkáripýramídinn (P3) táknaði rauðu reikistjörnurnar tvær, Merkúrí og Mars sem gefið væri til kynna með hinni rauðu marmaraklæðingu pýramídans (sjá Mynd 13. 7). Á Mynd 13. 11 mátti sjá fjarlægðina til Mars og sumir kynnu að halda því fram að hér væri um tilviljun að ræða. Vandamálið sem blasti við hönnuðum pýramídanna var að sýna hámarks og lágmarksfjarlægð reikistjörnu frá Sólu. Þeim stóð einungis eitt til boða hvað áhrærði Merkúrí og Mars: Að sýna sem jafnasta fjarlægð. Af Mynd 13. 13 má sjá að þegar Merkúrí er fjærst frá sólu er hlutfallið (79.76/41. 39) = 1. 927. Samkvæmt mælingum Petries var hlutfallið 1.92 eða hið sama og pýramídarnir sýna!

Með hliðsjón af Mynd 13. 14 er fjarlægðin á milli Jarðar, Venusar og Merkúrí innan 0, 22% í samanburði við nútímamælingar. En hvað með afstöðu pýramídanna sjálfra til Sólarinnar ef þeir á annað borð skírskota til hennar og göngubrauta reikistjarnanna um Sólina? Þetta sjáum við á Mynd 13. 15. Þar myndar rauða línan sem dregin er frá P1 til P3 fullkominn tangent við sporbaug Venusar sem lýsir undraverði þekkingu í stjörnufræði. Nákvæmnin er furðuleg eða innan við 0. 01% með hliðsjón af niðurstöðum stjörnufræðinga nútímans. Ef hér er um tilviljanir að ræða er sjálf samlagningarregla algebrunnar (regula communativum) einskær tilviljun!

Ég setti svo grafhýsi Hermons vesírs inn á myndina til gamans, rétt eins og hann sé með þessu að benda okkur á að hann sé hugmyndasmiðurinn sem standi þessu öllu að baki og áminni okkur um sporbaug Merkúrí enn í dag: „Sagði ég ykkur þetta ekki!“. Hvað leynist í eyðimerkursandinum í sólarmiðjunni væri fróðlegt að vita: Er þar hugsanlega að finna hin raunverulega gröf sjálfs Kufús? Eða með orðum Clive Ross: „Það eru tvö hundruð steinhleðslur upp til hornsteins Kufúpýramídans og við höfum einungis lagt örfá þeirra að baki.“ Ég mun víkja frekar að reikistjörnunum fjórum í lok greinarinnar.

Hvað varðar nákvæmni Fornegypta í landmælingum þá er gott að hafa eftirfarandi staðreyndir í huga og hér styðst ég við Livio Stecchini enn að nýju. Leyndardómur allra mælinga Fornegypta fólst í hinni fullkomnu samræmingu tíma og rúms. Þannig var snúningur jarðar á mínútu 10 skeið = 1.8520 metrar eða ein sjómíla. Og við getum ekki annað en fyllst undrun og aðdáun þegar við sjáum þá arfleifð sem prestkonungur Adamskynslóðarinnar – pat-yri – báru með sér frá Súmer.

Bæði Egyptaland og Súmer voru fast bundin himinhvolfinu og svo að segja endurspeglun þess á jörðu. Þannig var Egyptaland bókstaflega „kortlagt” af mikilli nákvæmni. Þungamiðjan – Pýramídinn í Gíza – varð að Greenwich-viðmiðunarlínu allra frekari mælinga. Í upphafi voru það landmælingamenn Napóleons sem gerðu mælingar á pýramídanum í Gíza í herförinni árið 1798, mælingar sem bandarískir landmælingamenn staðfestu svo við gerð Súesskurðarins. Þeir komust að þeirri athyglisverðu niðurstöðu að hornalínur pýramídans náðu yfir allt óshólmasvæði Nílar. Nákvæm staðsetning Pýramídans er 31° 07‘ 59‘‘ A og 29° 58‘ 47‘‘N. Pýramídinn varð þannig að risastóru sólúri sem haft var til viðmiðunar við alla jarðrækt í landinu.

Miðbaugur Egyptalands lág þannig um lengdarbaug sem markaðist af Bhedet í norðri og Níl í suðri og lá mitt á milli lengdarbauga frá vestri viðmiðunarpunkti óshólmasvæðisins til þess eystri. Þannig var Egyptaland 4500 skeið að lengd frá norðri til suðurs eða rúmlega 7 breiddarbaugar. Stecchini hefur jafnframt bent á að Egyptar hafi beinlínis lagt undir sig ákveðið landssvæði í suðri til að fullkomna stærð landsins. Neðra ríkið var þannig 900 skeið og það Efra 3600 skeið að lengd. (Sem egypskur prins stjórnaði sjálfur Móses herför til að tryggja þessi suðurlandamæri!).

En þar með var ekki öll sagan sögð. Sjálf höfuðborgin Þeba, var staðsett með mikilli nákvæmni. Hin forna höfuðborg Annu (Heliopolis og On Biblíunnar) var þannig nákvæmlega staðsett á miðbaugi Neðra ríkisins við pýramídann mikla. Eftir sameiningu ríkjanna tveggja varð Memfis hin nýja höfuðborg ríkisins, en vegna mikilvægis Nílar fyrir allt efnahagslíf landsins, var hún reist á bökkum hennar, þannig að hún var ekki nákvæmlega í hinni landfræðilegu miðju. Það varð því hofið í Sokar á 31° 14‘ sem gegndi því hlutverki. Á tímum 12. konungsættarinnar var höfuðborg ríkisins enn að nýju færð til Þebu sem lág á þeim lengdarbaug sem markaði austari mörk ríkisins. Staðurinn var valinn af mikilli kostgæfni vegna þess að hann markaði nákvæmlega tvo sjöundu af fjarlægðinni frá miðbaug til norðurpólsins. L. C. Stecchini vekur jafnframt athygli á þeirri staðreynd, að þegar Akhenaton faraó (Amenofis IV) gerði hina miklu stjórnarfarsbyltingu sína hafi hann fært höfuðborgina til Akhenaton (Tell el Amarna) sem varð þar með að miðpunkti og þungamiðju ríkisins. Fornleifafræðingar hafa fundið greinileg ummerki þess að sjálfur faraó hafi bókstaflega komið þangað ásamt embættismönnum sínum og landmælingamönnum og markað staðinn nákvæmlega út með landamerkjasúlum og níu þeirra hafa þegar fundist. Líklega hafa þær verið 12 alls líkt og í Gilgal í Ísrael þar sem Jósúa skipaði helgidómi tjaldbúðarinnar stað.

Á síðari hluta nítjándu aldar veittu menn því athygli að Pólstjarnan var sjáanleg að hluta til úr þeim göngum sem liggja niður í hið svo kallaða Dauðabyrgi pýramídans. Stjörnufræðingurinn John Herchel fékk áhuga á þessu máli og gekk úr skugga um hvort hugsanlegt væri, að einhver stjarna hefði bókstaflega sést einhvern tíma úr göngunum öllum. Hann komst að þeirri niðurstöðu að það hefði verið Drekastjarnan (alfa Dragonis – Túban) sem var pólstjarna á þessum tíma og hefði verið í nákvæmlega þessari stöðu á himnum. Það var síðan stjörnufræðingurinn C. Piazzi Smyth sem gerði umfangsmiklar mælingar veturinn 1884-85 og uppgötvaði, að samband væri á milli greinilegs merkis sem hönnuður pýramídans lét eftir sig í hallagöngunum ekki fjarri innganginum og Drekastjörnunnar . (Mynd 13. 16).

Á síðari hluta nítjándu aldar reiknaði stjörnufræðingurinn Richard A. Proctor við háskólann í Cambridge út að þetta hefði getað átt sér stað árið 2140 f. Kr. og aðrir stjörnufræðingar staðfestu útreikninga hans og töldu þá „líklega rétta,” en á þessum tíma skorti stjörnufræðingum gögn til að reikna slíkar afstöður út með meiri nákvæmni en sem svaraði ± 2 árum. Öðru máli gegnir í dag og komust stjörnufræðingar að raun um að Proctor hefði einungis skeikað um eitt ár og þetta hafi gerst á haustjafndægri árið 2141 f. Kr. Adam Rutherford greinir frá því að virtir stjörnufræðingar í Bretlandi hafi staðfest þessar niðurstöður og fullvissað sig um að „árið 2141 f. Kr. væri ekki einungis rétt hvað varðaði stjörnuna Túban í Drekamerkinu á þessum tíma, heldur að slíkt hefði verið með öllu óhugsandi árið á undan og eftir, „vel utan leyfilegra skekkjumarka” (well outside the limits of error permissible). [8] Sjálfur gekk ég úr skugga um þetta með hjálp stjörnufræðiforrits míns og þar sá ég að þetta gerðist nákvæmlega klukkan 23:22 á Greenwichtíma (UT) [9] að kvöldi þess 13. september 2141. f. Kr. eða klukkan 1:22 á staðartíma (Sjá Mynd 13. 17). Um 2800 f. Kr. var stjarnan Túban pólstjarnan í rúmlega 29° hæð yfir sjónbaugnum. Síðan lækkaði hæð hennar vegna möndulhalla jarðar þannig að hæðin var komin í 26° árið 2141 f. Kr. (Mynd 13. 18). Hvers vegna er þetta atriði svona mikilvægt, þessi tala 26° 16’ 06’’? Hún færir okkur bókstaflega í hendur lykilinn að táknrænni merkingu pýramídans mikla sem „tímamælis“ auk alls boðskapar hans sem alvarlegrar viðvörunar til nútímamannsins. Það rennir stoðum undir að ummæli sagnfræðingsins Jósefusar í síðustu grein hafi við rök að styðjast:

Og til að uppgötvanir þeirra glötuðust ekki sökum spádómsorða Adams um að heiminum yrði tortímt í eitt skipti með eldhafi og í annað sinn hamförum vatnsflóðs gerðu þau tvær súlur, aðra úr leirsteinum og hina úr steini. Þau fólu uppgötvanir sínar í þeim báðum þannig að ef súlunni úr leirsteinunum yrði eytt í flóðinu, þá gæti steinsúlan varðveist og leitt mannkyninu þessar uppgötvanir fyrir sjónir og að þau hefðu reist aðra súlu. Hún stendur allt til dagsins í dag í landi Síríusar (Egyptalandi).

Síðast en ekki síst staðfestir pýramídinn mikli í Gíza orð Biblíunnar sjálfrar um baráttuna við hin slæga höggorm illskunnar: „Og fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess“ (1M 3. 15). Í Opinberunarbókinni er hann nefndur drekinn mikli: „Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi, sem heitir djöfull og Satan, honum sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina, og englum hans var varpað niður með honum“ (Opb 12. 9). Á máli prestkonunga Adamskynslóðarinnar – súmerskunni – var hann nefndur „usum“ eða „usum.gal“ og fylgisveinar hans, svartenglar illskunnar, „tamma.bukku“ eða drekarnir sem endurómar einnig í orðum Biblíunnar: „Þú skalt . . . troða fótum . . . dreka“ (Sl 91. 13).?Nafn hans er einnig dauðinn og þannig eru hallagöngin niður í hyldýpi pýramídans nefnd Dauðagöngin, það er að segja hið neikvæða Kristshorn: – 26° 16’ 06.’’ Allir sem láta heillast af boðskap þess verða dauðamenningunni að bráð vegna þess að þeir láta heillast af Drekastjörnunni. Á Mynd 13. 19 erum við áminnt um að okkur beri að horfa til ímyndar hins sanna Guðs í mynd sólarinnar í hvirfilpunkti pýramídans á jafndægrinu þann 22. september 2141 f. Kr., að fylgja boðskap hins jákvæða Kristshorns Konungsvegarins:

Hann er sem brúðguminn, er gengur út úr svefnhúsi sínu, hlakkar sem hetja til að renna skeið sitt. Við takmörk himins rennur hann upp, og hringferð hans nær til enda himins, og ekkert dylst fyrir geislaglóð hans . . . (Sl 19. 6-7)

Þetta er boðskapur hins jákvæða Kristshorns: + 26° 16’ 06.’’ Ef við horfum til stjörnunnar Túban í Drekamerkinu í hans ljósi kemur í ljós að ef við framlengjum línu úr henni sem ríkjandi pólstjörnu þess tíma eftir miðbaugi Vetrarbrautarinnar er hún bendill til miðju okkar eigin stjörnuþoku í alheiminum ,það er að segja stjörnumerkisins Bogamannsins (Sagittaríusar). [10] Þetta er til samræmis við boðskap Biblíunnar:

Hann er ímynd hins ósýnilega Guðs, frumburður allrar sköpunar. Enda var allt skapað í honum í himnunum og á jörðinni, hið sýnilega og hið ósýnilega, hásæti og herradómar, tignir og völd. Allt er skapað fyrir hann og til hans. Hann er fyrri en allt, og allt á tilveru sína í honum (Kol 1. 15-17).

Já, okkar eigið sólkerfi og stjörnuþoka jafnt sem óteljandi aðra í sköpun þeirri sem við nefnum alheim. Jafn ótrúlegt og það kann að hljóma er það lítið og brennt fleygrúnatöflubrot sem varðveittist og fannst eftir bruna hallarinnar í Úgarit í Sýrlandi í lok elleftu aldar f. Kr. sem staðfestir hlutverk pýramídans mikla í Gíza sem „tímamælis“ mennskrar fyrirhugunar á jörðinni! En áður en ég vík að þessu í næstu grein ætla ég mér nú að efna loforð mitt um að víkja nánar að boðskap innri reikistjarnanna fjögurra. Hann er einnig samofin tölunni + 26° 16’ 06.’’ Þær greina frá stigvaxandi nálgun til miðjunnar – sólarinnar – í vexti til ímyndar þess sem skapaði sólina. Það er þetta sem við sjáum opinberað með hinum fjórum hornsteinum og grundvelli pýramída Kufús faraós. (Mynd 13. 20). Á tungutaki prestkonunga Adamskynslóðarinnar sem lifðu í væntingu um komu hans til jarðarinnar sem græða myndi öll mein hljómaði þetta: „Hann mun verða oss vísdómur frá Guði (A), bæði réttlæti (B), helgun (C) og endurlausn (D),“ orð sem hljómuðu síðar af vörum Páls postula. Takið eftir því hversu samræmið er mikið í boðskap „pat-yri“ – prestkonunganna. Eitt horna síðasta hornsteinnsins (D) er með einu ávölu horni: Ríki hans mun fullkomnast endanlega á himnum!

Með hliðsjón af umfjölluninni um reikistjörnurnar og skírskotun þeirra til pýramídanna er ekki annað unnt en að dást að táknmáli prestkonunganna. Allt fram á síðari hluta miðalda var Mars tákn illskunnar í Evrópu, arfleifð frá Mesopótamíu. Það er á jörðinni sem manninum ber að segja skilið við þessa illsku og fylgja me (maa) eða réttlæti Guðs hins eina. Í Súmer var reikistjarnan Venus nefnd „sú sem sýnir veginn til himins eða stjarnanna“ og hún var einnig nefnd „systir sólarinnar.“ Merkúrí var tákn hinnar huldu speki, visku þess sem stendur Guði nærri!

Takið einnig eftir tölunni 286·1 sem gengur eins og rauður þráður í gegnum alla tilhögun pýramídans. Öllu er skotið til hliðar um þessar 286·1 tommur í tilhögun pýramídans: Hann verður ekki fullkominn fyrr en við komu Mannssonarins: Öllu er skotið til hliðar um þessar 286·1 pýramídatommur frá hinni sönnu miðju. Á Mynd 13. 21 sjáum við hvernig stefnan breytist skyndilega um 90° til vesturs – til höfuðáttar dauðans! Steinkistan er forgildi þess sem umbreytti dauðanum í líf, skírskotun til sjálfs páskaleyndardóms kristindómsins og þannig forgildi hans. Þannig var pýramídinn mikli í Gíza aldrei fullkomnaður. Sjálfum hornsteininum var aldrei komið fyrir til að kóróna hann vegna þess að sjálfur hornsteinninn var ókominn til jarðar. Hornsteinn pýramídans varð að vera fullkominn þar sem hann átti að tákna hinn komandi Messías – Drottinn Jesús Krist – og því var ekki unnt að koma honum fyrir til að fullgera pýramídann:

„Sá steinn sem smiðirnir höfnuðu, er orðinn að hyrningarsteini. Þetta er verk Drottins, og undursamlegt er það í augum vorum” (Mk 12. 10, 11).

Sá ágalli sem talan 286 pt leiðir í ljós skírskotar til þess, að pýramídinn er ekki í samræmi við hið fullkomna me eða maa, opinberar það sem er ekki í fullkomnu samræmi við vilja Guðs og varð það ekki fyrr en Drottinn birtist í holdtekju sinni á jörðu. Hver er hann þessi Mannssonur sem prestkonungar Adamskynslóðarinnar boða? Þetta sjáum við á Mynd 13. 22 eins og hún er opinberuð á stuðlamáli steins og helgra mála pýramídans í svokölluðu Miklaþrepi en þaðan liggur leiðin eftir Miklaganginum inn í sjálft Konungsherbergi hinnar tómu grafar upprisunnar.

[1]. Með Líbýu áttu fornmenn við allt það landsvæði sem kallað er Norðurafríka í dag.
[2]. The Book of Enoch, XLVI. 1.
[3]. The Great Pyramids, bls. 567.
[4]. http://www.metrum.org/
[5]. http://www.metrum.org/key/pyramids/estimates.htm
[6]. Í þýðingu Einars Pálssonar, Steinkross, bls. 47.
[7]. http://www.gizapyramid.com/CliveRoss htm?
8]. The Great Pyramide, bls. 553.
[9]. Forritið sem ég nota sjálfur er Voyager III frá Carina sem notað er af háskólum og stjörnufræðingum um allan heim. Í dag er það DT (Terrestrial Dynamic Time) sem mældur er með atómklukkum sem er notaður vegna óreglu á göngu jarðar, en sérstakar leiðréttingartöflur notað til leiðréttingar á UT. Leiðréttingarstuðullinn er 80 sekúndur fyrir árið 2141 f. Kr.
[10]. Sólbaugshnitkerfið (Ecliptic coordinates) er hið „náttúrlega“ hnitkerfi sólkerfisins. Göngubraut jarðar um sólu er grundvöllur sólbaugshnitkerfisins og við það er stuðst til að skilgreina hreyfingar reikistjarnanna, halastjarna og loftsteina. Vetrarbrautarhnitið (galactic coordinates) grundvallast hins vegar á Vetrarbrautinni. Hnitin eru mæld út frá miðju stjörnumerkisins Bogamannsins þar sem Vetrarbrautin er skærust. Lengdin er mæld til austurs eftir miðju stjörnuþokunnar frá 0° til 360.° Breiddin er mæld frá +90° til -90° með hliðsjón af miðbaugi stjörnuþokunnar. Miðbaugur hnitkerfisins er miðbaugsflötur Vetrarbrautarinnar.

No feedback yet