« Kristsboðinn á austurhimnumPrestkonungar Adamskynslóðarinnar – 11 »

13.10.07

  09:54:26, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 7478 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 12

BORG SHEPTIU (HINNA ÖLDNU), EYJA HINNA BLESSUÐU OG GRAFARHAUGAR ÁRFEÐRANNA.

Þegar hinn merki málvísindamaður Max Müller leitaðist við að kanna frumgerð og þróun hins indóevrópska samfélags sem varð til í Zagros og Elbrusfjöllunum og dreifðist þaðan út til til Mesopótamíu, Indlands og um Evrópu, þá gerði hann sér lista yfir margvísleg lykilorð líkt og„plógur;“ „hjól;“ „hús;“ „járn;“ „brons;“ „naut;“ „geit;“ „hestur“ og „vagn“ svo að dæmi sé tekið. Þannig leitaðist hann við að rekja þróun samfélagsgerðarinnar í ljósi málssögunnar. Ef við grípum til sömu aðferðarfræðinnar hvað áhrærir trúarafstöðu Súmera má kynnast ýmsum þáttum hennar.

Orð líkt og „alal“ (tortímandi); „gigim xul“ (illur andi); „idimmu“ (djöfull); „telal“ (trylltur djöfull); „utuk xul“ (ill andavera) og „allal xul“ (illur guð) greina okkur frá því að prestkonungar Adamskynslóðarinnar báru gott skyn á áhrif andavera vonskunnar í himingeimnum (spr Ef 6. 12). Vatnið var tákn lífsins og fól jafnframt í sér verndarmátt. Þegar þeir grófu áveituskurði sína öðlaðist landið líf og þegar slétturnar á milli Efrat og Tígris breyttust smám saman úr „edin“ (eyðimörk) í aldingarð sáu þeir Gan Eden opinberast að nýju fyrir augum sínum. Landið lág stöðugt undir ásókn „gudanna“ (fjandmanna Ans, ilu) og í þessari baráttu veittu prestkonungarnir „tapputu“ (hjálp) í þessari „tahazu“ (styrjöld). Rétt eins og fljótin fjögur í Gan Eden veittu gróðri jarðar lífgefandi kraft urðu áveituskurðirnir landinu og íbúum þess til blessunar. Eftir því sem skurðunum fjölgaði urðu þeir að þétta neti samgangna borganna á milli og í síðendurreisn súmerska ríkisins eftir flóðið mikla fóru bæði menn og guðir um þetta samgöngukerfi til að „heilsa hver upp á annan.“

Þetta má sjá á fjölmörgum innsiglum þar sem guðirnir sigla á sefbátum sínum um landið. Þegar afkomendur eins sona Nóa – Jafet – dreifðust um jörðina til Evrópu og Indlands sjáum við sömu samfélagsgerðina birtast að nýju. Í Indusdalnum er það sama áveitukerfið í landi Meluhha (Móhenjo-Daro menningunni) og í Evrópu í heilagri reitaskiptingu lands þar sem ský himinsins sáu um vökvun landsins. Jafn furðulegt og það lætur í eyru risu kristnar kirkjur síðar meir á þeim stöðum þar sem línur þessa reitakerfis skárust, eins og vikið verður að síðar. Allt er þetta í samhljóðan við boðskap Biblíunnar: „Þá lét Drottinn Guð hann í burt fara úr aldingarðinum Eden til að yrkja jörðina, sem hann var tekinn af“ (1M 3. 23). Í þessum kafla munum við hins vegar víkja að einum sonarsona Nóa, Kús, syni Hams, sem hélt til Magan (lands skipanna) eða Egyptaland til að grafa áveituskurði, reisa hús og umbylta samfélagsgerðinni.

Prestkonungarnir litu á sig sem syni þess Guðs sem þeir nefndu „abum“ (föður), þeir voru synir hans eða „ maru abum,“ rétt eins og Jesú kenndi okkur að nefna hann „abba“ eða Föður í Faðirvorinu. Þegar Súmer varð síðar fjölgyðistrúnni að bráð sjáum við „þrennd“ (triad) guða sem skipuðu svo að segja forsæti yfir hinum guðunum og gyðjunum: Þetta voru An, Enlil (herra loftsins) og Enki (herra jarðarinnar). Í fjölgyðistrúnni nefndu Súmerar guði sína og gyðjur „dingir“ og áhrif þeirra og mátt „ilu.“ Í hugum prestkonunganna birtist þessi „þrennd“ (forgildi Þrenningarinnar?) sem „Abum – Ilu – Maru (sonur)“ eða faðir – lífsandinn – og Adam eða (sonur). Í Biblíunni lesum við að Guð (El) hafi „blásið lífsanda í nasir“ Adams“ (1M 2. 7). Hebrear nefna Sköpunarsöguna „Upphafið“ eða „ber?sîth“ sem dregið er af upphafsorðum Biblíunnar: „Í upphafi skapaði Guð (El) himin og jörð“ (1M 1. 1). Þegar Jesú lífgar hinn fallna Adam sem gefist hafði dauðanum á vald brást hann við með sama hætti:

„Og er hann hafði sagt þetta, andaði hann á þá og sagði: „Meðtakið Heilagan Anda“ (Jh 20. 22).

Hér var um nýtt upphaf að ræða, samfélag hins nýja Adams – kirkjuna – samfélag lífsandans mikla: Heilags Anda. Og rétt eins og hið heilaga sæði (1M 3. 15) Setprestanna samanstóð af tíu húsum konungsætta beið þetta nýja samfélag í tíu daga í bæn og lofgjörð eftir úthellingu Andans í bæn og lofgjörð ásamt hinni nýju Evu – Maríu Guðsmóður: „Allir þessir voru með einum huga stöðugir í bæninni ásamt konunum. María, móðir Jesú, var líka með þeim og bræður hans“ (P 1. 14). Hinn nýi Adam og Eva höfðu birst á jörðinni til að leysa þau gömlu af hólmi. Þessi samlíking hvað áhrærir prestkonunga Adamskynslóðarinnar og afkomendur þeirra náði þó ekki fram að ganga vegna þess að þeir brugðust í trú sinni á Réttlætissólina miklu þar sem þeir biðu lægri hlut í baráttu sinni við höggorminn mikla – „idimmu:“

Þá sagði Drottinn Guð við höggorminn: . . . „Og fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess" (1M 3. 15).

Höggormurinn – „telal“ eða hinn tryllti djöfull marði hæl hins heilaga sæðis Sets. Þetta er það sem Biblían greinir okkur frá, en það lifði áfram í prestkonunginum Nóa sem lifði af flóðið mikla. Þetta er það sama sem sagnfræðingurinn Jósefus greinir okkur frá í „Sögu Gyðinganna:

Hann [Adam] eignaðist sannarlega mörg börn, en þar ber Set hæst. Það yrði allt of langt mál að telja upp öll hin [samkvæmt fornum munnmælum 33 synir og 23 dætur]. Þegar þessi Set ólst upp og náði þeim aldri að geta borið skyn á hið góða, varð hann að dyggðum prýddum manni. Og þar sem siðgæði hans var til fyrirmyndar eignaðist hann börn sem tóku dyggðir hans sér til fyrirmyndar. Öll reyndust þau mannkostafólk. Þau bjuggu í sama landinu (Súmer) . . . Þau voru einnig upphafsmenn þeirrar sérstöku speki sem fjallar um stjörnur himins og tilhögun þeirra. Og til að uppgötvanir þeirra glötuðust ekki sökum spádómsorða Adams um að heiminum yrði tortímt í eitt skipti með eldhafi og í annað sinn hamförum vatnsflóðs gerðu þau tvær súlur, aðra úr leirsteinum og hina úr steini. Þau fólu uppgötvanir sínar í þeim báðum þannig að ef súlunni úr leirsteinunum yrði eytt í flóðinu, þá gæti steinsúlan varðveist og leitt mannkyninu þessar uppgötvanir fyrir sjónir og að þau hefðu reist aðra súlu. Hún stendur allt til dagsins í dag í landi Síríusar (Egyptalandi). [1]

Ekki er ljóst hvar leirsteinasúlan var staðsett í Súmer, en ekki er óvarlegt að ætla að það hafi einmitt verði í Eridu, elstu borg landsins og fræðasetri sem vikið var að í ath. [12] í síðustu grein, bókstaflega hliði landsins með beinan aðgang að Neðra hafinu eða Persaflóanum. (Mynd 12. 1) Þaðan sigldu súmerskir sjómenn og kaupmenn til Meluhha í Indusdalnum og til Dilmun (Barhein), Kush (Eþíópíu) og Magan (Egyptalands). Hinn víðfrægi konungalisti sem vikið var að í grein 1 var einmitt varðveittur á slíkri leirsúlu. (Mynd 12. 2). Eridu var reist á hringlaga eyju á fenjasvæðunum syðst í Súmer. (Mynd 12. 3). Í lýsing Platóns af Atlantis er það Poseidon – sjávarguðinn – sem reisti borgina, en í goðafræði Súmera var það Enki, guð „absu“ eða vatnsdjúpsins. Í lýsingu Platóns sem Sólon hafði eftir egypsku prestunum var súla einmitt varðveitt í musteri miðborgarinnar. Afar líklegt er að hinar upprunalegu me-töflurnar ásamt visku hinna súmersku „adapa“ eða spekinga – en Enok var talinn í hópi þeirra – hafi verið varðveittar í musterinu. Í reynd eru þau mál sem skírskota til stærðar sléttunnar í Atlantis og prestarnir greindu Sólon frá mál sjálfs Egyptalands eins og sjá má á Mynd 12. 8. [2]

Í fornleifarannsóknum íraskra fornleifafræðinga undir stjórn Fuad Safar á fimmta áratugi síðust aldar sem annaðist uppgröftin í Tell Abu Shaharain (Eridu) kom í ljós grunnar 17 mustera sem reist voru á grunni hvers annars. Það fyrsta var einungis 3 x 3 metrar að stærð (Mynd 12. 4) en síðan fóru þau sífellt stækkandi í aldanna rás. Samkvæmt orðum Safars var Eridu í upphafi lítil og hringlaga eyja umlukin vatni. Borgin var reist um 4800 f. Kr. og var samofin nafni Enoks spámanns og hann talinn í hópi hinna sjö „adapa“ eða spekinga sem lögðu grunninn að súmerskri menningu, tímatalsútreikningum og stjörnufræði. Í hugum Súmera urðu þessir spekingar að „annuaki“ eða goðverum, rétt eins og súmersku landnemarnir urðu að goðverum í augum Fornegypta vegna þekkingar sinnar og stjórnvisku. Þeir voru kallaðir „iry-pat“ (afkomendur Pat) en aðrir íbúar landsins hins vegar „henemmet“ og „rekhyt.“ „Iry-pat“ voru yfirstéttin og menn eins og Imenhotep og Hermon, arkitekar pýramídanna í Sakkara og Gíza voru í hópi þeirra. „Henemmet“ voru frumbyggjar Efraegyptalands en „rekhyt“ óshólmasvæðisins. Fornleifafræðingar hafa fundið ótal minjar um að höfuð ungbarna hafi verið sett í sérstakar fjalir til að gera þau að langhöfðum í uppvextinum sem var einkenni „iry-pat.“ Í þá tíð þótti það afar fínt að tilheyra iry-pat og varð fólki til framdráttar í lífinu, eins konar „tískubylgja.“

Í frásögn sinni af Atlantis segir Platón að hringurinn umhverfis borgina hafi verið 5 stadíur grískar að breidd. Hvað varðar stærð Eridu má áætla að borgarbúar hafi verið um 20.000 í lok fjórðu aldar. Ekki er óvarlegt að ætla að hér hafi því verið um 3000 fjölskyldur að ræða. Talið var að hver fjölskylda þarfnaðist 18 súmerskra „ikua“ (eins bur) sér til framfærslu eða sem svarar 2000 ferálna (um 6, 5 hektara). Þannig hefur landþörfin verið alls um 5000 „ikuur“ (um 280 bur). En einnig má leggja heimsmyndunarfræði Súmera til grundvallar tölunni 5. Eridu var eftirmynd Gan Eden – illo tempore – eða gullöldinni og ímynd réttlætisríkis (me). Súmerar studdust mikið við „fimmfingra“ aðferðina (hamestu) í heimsmyndunarfræði sinni. Þannig var útkoma margfeldis 5 x 72 = 360, en talan 72 er bakgangur (precessional shift) stjörnumerkjanna um 1° á 72 árum. Þúsundir leirtaflna hafa fundist í jörðu í Mesopótamíu þar sem sjá má töluna 12.960.000 sem grundvöll deilingartaflna sem enda á tölunni 60 sem 216.000 hluta af 12.960.000. Þetta var hið gullna hlufall 6:10 og grundvöllur talnakerfis Súmera með margfeldi 6 og 10. Í kaflanum hér að framan sáum við heiti þau sem Súmerar gáfu stjörnumerkjunum 12. Hinir spöku eða „adapa“ í Eridu skiptu þannig himinhvolfinu þar sem bakgangurinn í hverju stjörnumerki eða „hliði“ eins og þeir nefndu það var 30° þar sem bakgangurinn var 30 x 72 = 2160 ár og stórhringurinn þannig 2160 x 12 eða 25. 920 ár. Joseph Campell sem er höfundur bókarinnar „The Mask of God: Oriental Mythology“ sem kom út 1962 komst svo að orði:

„Með kraftaverki sem ég hef ekki séð neinn leitast við að útskýra var sú stærðfræði sem þróuð var í Súmer . . . hvort sem það var af tilviljun eða af innsæi í slíkri samhljóðan við tilhögun himinhvelfingarinnar að hún jafnast á við opinberun.“

Þjóðverjinn Hugo Winckel – einhver virtasti assýríufræðingur Þjóðverja á tuttugustu öldinni – er einn þeirra fáu sem sameinað hefur súmersk fræði og stjörnufræðina (sem er afar fágætt meðal fornleifafræðinga) með miklum ágætum. Hann gerði sér þannig mikilvægi tölunnar 72 ljósa og því lykilhlutverki sem hún gengdi með hliðsjón af himinhvolfinu, tímatalsútreikingum og goðsögnum í Mesopótamíu. Sama þekking blasir við sjónum meðal þess sona Nóa sem varð faðir Evrópu og Indlands samkvæmt Biblíunni. Í Rig Veda má sjá sömu undraverðu stjarnfræðiþekkinguna ekki síður en meðal Fornegypta. Brátt verður vikið að sonarsyni Nóa – Meskiagkashker – (Kús Biblíunnar og syni Hams) sem bar sóldýrkunina til Fornegyptalands ásamt stjarnfræðiþekkingu prestkonunga Adamskynslóðarinnar. Á súmerska konungslistanum er komist svo að orði um hann:

Meskiagkashker hvarf til sjávar og komst til fjallanna (dálkur 3, línur 4-6).

Við getum umorðað þetta og sagt: „Hann ferðaðist yfir hafið og kom að landi við fjöllótta strönd.“ Það er einmitt í þessu hlutverki sem við sjáum hann síðar sem súmerskan „ugula“ eða flotastjórnanda. Þannig getum við verið Móse þakklát þegar hann réði í fleygrúnatöflurnar hjá Jetró Mídanníta og tengdaföður sínum og stytti hin löngu og framandi nöfn þessara framámanna hins súmerska samfélags. Hvernig hefðu Hebrearnir getað munuð þessi undarlegu nöfn fremur en við í dag, ég tala ekki um börnin þegar þau læra Biblíusögurnar. Þannig er nafnið Kús stytting á hinu súmerska heiti Meskiag – kash – er. Annað dæmi úr Biblíunni má sjá á nafni assýríska konungsins Tiglath-pilser sem var „tungubrjótur“ jafnt fyrir Hebrea sem okkur í dag. Í Biblíunni er hann einungis nefndur Púl: Tiglath - pil - eser (1K 15.19; 1Kron 5. 26) Fræðimenn telja þannig að nafnið Nói sé dregið af „na“ í hinu akkadíska heiti hans Ut-na-pishtim sem þýðir„hann sem fann eilíft líf.“ Í annarri akkadískri frásögn er hann nefndur Athra-hasis, sá sem er einstaklega guðrækinn. Á súmersku var nafn hans Ziu-sudra, „líf langra daga“ sem augljóslega skírskotar til ódauðleika hans. Í þessu sambandi er vert að vekja athygli á því að heimaborg Nóa, Sihappur, var miðstöð sóldýrkunar í Súmer.

Eitt áttu öll musteri afkomenda Sets sameiginlegt allt frá musteris í Brak til Eridu. Þau voru staðsett af ítrustu nákvæmni eftir ás sem lág frá vestri til austurs með hliðsjón af jafndægri á vori og hausti. Það var engin tilviljun sem bjó þessu að baki. Sökum halla jarðmöndulsins um 23° er það einungis og einmitt á jafndægrunum sem miðbaugur jarðar og sólbrautarinnar skerast ávallt í sömu punktum. Þannig var hvert musterið eftir annað reist á grunni þess fyrra án þess að nauðsynlegt væri að huga að nýju að staðsetningu þess. (Mynd 12. 5)

Þetta var gert með það í huga að sólin uppljómaði altarið í hinu allra helgasta við sólstöður. Þetta var sama reglan og viðhöfð var í tjaldbúð Móse, en þar snéri inngangurinn í austur. Sama reglan er viðhöfð í kristni og sú kirkjan sem Konstantínus mikli keisari lét reisa í Róm og var forveri Péturskirkjunnar var þannig reist á vestur/austurás og hið sama gildir um sjálfa Péturskirkjuna. Boðskapurinn er augljós vegna þess að hin ytri og sýnilega sól var ímynd Guðs hins lifandi og skírskotaði jafnframt til innri sannleika: Að sjálf mannssálin sé musteri Guðs og hjartað (altarið) [3] verði að laugast í geislum Sjödægrasólarinnar miklu, hins Óskapaða ljóss. Þetta er það sem hin heilögu kristindómsins leggja sífellt áherslu á rétt eins og Páll postuli:

Vitið þér eigi, að þér eruð musteri Guðs og að andi Guðs býr í yður? Ef nokkur eyðir musteri Guðs, mun Guð eyða honum, því að musteri Guðs er heilagt, og þér eruð það musteri“ (1Kor 3. 16-17).

Heil. Silúan starets á Aþosfjalli komst svo að orði: „Drottinn er vegsamaður í heilagri kirkju . . . saungurinn er öllum hollur ef auðmýktin býr honum að baki. En það er okkur enn hollara að hjarta okkar verði að musteri Drottins og andinn að hásæti hans vegna þess að Drottinn elskar að gera sér bústað í hjarta og anda mannsins.” [4] Þannig verður sjálft hjartað að stiga til Guðs eins og Ísak hinn sýrlenski komst að orði: „Leitast við að ganga inn í fjárhirsluna hið innra og þannig verður hún að himneskri fjárhirslu. Báðar eru þær eitt og hið sama og einn og sami inngangurinn opinberar þær báðar. Stiginn sem liggur til konungsríkisins er hulinn hið innra með þér, það er að segja í sálinni. Hreinsaðu þig af syndinni og þú munt koma auga á rimar stigans sem leiða þig þangað.“ [5] Þegar Sjödægrasól réttlætisins tók þannig að skína í hjarta Akhenatons faraós leiddi það óhjákvæmilega til byltingar í trúarafstöðu hans sjálfs og afstöðu til musterisvaldsins sem hann hafnaði. Ef til vill hafa honum borist fréttir af þeim máttarverkum sem Skapari þessarar sólar hafði unnið í hjarta annars manns sem kom úr hinu mikla húsi faraós: Móse?
Austur/vesturás musteranna í Súmer var ætlað að gegna þessu hlutverki: Að beina mannsandanum til ljóma Sjödægrasólarinnar miklu og ímyndar Guðs og meðan prestkonungar Adamskynslóðarinnar virtu lög og opinberanir hins eina Guðs var helgisiðahringur Enoks prestkonungs „barag“ eða helgur og opinberaði hinn heilaga tíma á jörðu og þannig voru mánuðurnir upphaflega nefndir „ezen“ á súmersku sem þýðir hátíðarhöld. Með hliðsjón af niðurstöðum mælinganna í Medjugorje sem vikið var að í síðasta kafla sáum við að bænin, tilbeiðslan og lofgjörðin glæddi alfa og betabylgjur allt að 65 cps. Til að skilja til fulls hvað hér er á ferðinni verðum við að leita á náðir taugalífsfræði nútímans.

Við fæðingu er barni áskapaðar um það bil 100 milljarðar heilafruma. Tengslanet heilafrumanna sem myndar brautir eða net tengsla er afar gisið við fæðingu, en þeim fjölgar skjótt og ná hámarki í þéttleika í sex ára barni. Síðar fækkar þeim aftur í umtalsverðum mæli þegar óþörfum tengslum er eytt. Síðan tekur þeim aftur að fjölga með aldrinum þegar heilastarfsemi einstaklingsins fer að nema eitthvað nýtt og framandi. Þannig myndast nýjar taugatengingar milli heilafrumanna. Þegar lögð er rækt við bæn, lofgjörð og íhugun með reglubundnum hætti myndast slíkt „ljósleiðaranet“ taugatenginga í mannsheilanum sem eykur næmni hans gagnvart hinu yfirskilvitlega. Þeir einstaklingar sem leggja ekki rækt við slíkt eru því ónæmir og loka sig af gagnvart öllum yfirskilvitlegum áhrifum og innblæstri og verða myrkrinu að bráð. Í allri sögu mannkynsins lýsir þetta sér sem illar hugsanir sem stríða gegn lífinu.

Í frásögn Platós voru það tíu réttlátir konungar sem ríktu í Atlantis, landi allra gæða sem urðu myrkrinu að bráð þegar þeir tóku að afneita guðdómlegum uppruna sínum og þegar þeir tóku að stjórnast af mennskum veikleikum kölluðu þeir yfir sig tortímingu. Þetta er kjarni og boðskapur frásagnarinnar, rétt eins og í sjálfri Biblíunni:

Með slíkri afstöðu og meðan guðómseðlið hélt áfram að dafna í þeim, þá þreifst allt það og óx eins og við höfum lýst, en þegar þessi hlutdeild í guðdómseðlinu tók að dvína og saurgast hvað eftir annað og hin dauðlega afstaða náði yfirhendinni og þar með mennskur veikleiki og þeir voru þess ekki lengur megnugir að standa undir gæfu sinni urðu þeir aðgæslulausir. Og í augum þess sem sér allt urðu þeir lítilsigldir og glötuðu fegurð þeirra dýrmætu gjafa sem þeir höfðu orðið aðnjótandi. En í augum þeirra sem geta ekki komið auga á hina sönnu hamingju voru þeir enn dýrlegir og blessaðir einmitt á þeim sama tíma sem þeir fylltust óréttmætri ágirnd og valdafíkn. [6]

Það var þetta sem gerði þegar kynslóð Setprestkonunganna og afkomenda þeirra missti sjónar af Guði og tóku að tilbiðja þá sól sem var einungis ímynd hans og fórust í flóðinu mikla: Allir nema Nói og niðjar hans. Og hún er fögur sú mynd sem dregin er upp af Nóa í Enoksbók:

„Og líkami hans var hvítur sem snjór og rauður eins og blómstrandi rós. Hár hans og lokkar voru hvítir sem mjöll og augu hans fögur. Og þegar hann lauk upp augum sínum, þá lýsti hann upp allt húsið eins og sólin og allt var húsið uppljómað. Síðan reis hann á fætur úr faðmi ljósmóðurinnar og lauk upp munninum og hóf að tala við Drottinn alls réttlætis. Og faðir hans Lamek varð óttasleginn og lagði á flótta og fór til Metúsala. Og hann sagði: „Ég hef eignast undarlegan son sem er ólíkur öllum öðrum mönnum sem líkist sonum Guðs á himnum. Hann er ólíkur okkur að eðli til og augu hans eru eins og sólargeislar og ásýnd hans dýrleg. Mér virðist eins og hann sé ekki frá mér komin heldur frá englunum og ég óttast að á hans dögum muni eiga sér stað stórmerki á jörðu. [7]

Hér erum við komin að afar mikilvægu atriði með hliðsjón af merkingu þeirri sem fólgin er í nafni Nóa sem David Rohl hefur vakið athygli á eða hebreska orðinu „har“ sem undantekningarlaust er þýtt sem fjöll, en þýðir jafnframt hæð eða hóll sem getur skírskotað til stalla musteranna í Súmer sem öll voru eftirmynd Eridu. Flóðbylgjan (tsunami) sem gekk yfir Súmötru í Indónesíu eftir jarðskjálftana miklu fyrir tveimur árum er okkur í fersku minni. Borgirnar Eridu og Úr stóðu við sjávarmál á þeim tíma sem um ræðir en síðan hefur framburður Efrat og Tígris myndað mikið óshólamsvæði í Persaflóanum. Í fornum frásögnum er talað um að flóðið hafi komið af hafi. Það var í þessum borgum þar sem afkomendur Adams bjuggu, þeir sem misst höfðu sjónar af lífinu eilífa og snúist til fjölgyðistrúar. Það voru þeir sem fórust í flóðinu mikla. Eitt er víst og það er að borgin Eridu lagðist skyndilega í auðn um 3000 f. Kr. og tók ekki að byggjast aftur fyrr en þremur öldum síðar á tímum nýju konungsættanna í Súmer. Hvað gerðist þarna um einni og hálfri öld eftir flóðið mikla?

Við verðum að leita til Edfúmusterisins skammt frá Abydos í Efrinílardalnum til að varpa ljósi á þennan leyndardóm. (Mynd 12. 6). Þar er borginni Eridu, eyjunni sem reis úr frumhafinu mikla lýst sem stað hinna „öldnu,“ „börnum Tjenen“ (hins upprisna), „afkomendum Skaparans, hinum „dýrlegu öndum frumaldarinnar,“ hinum blessuðu sheptiu (öldungum),“ „bræðrum spekinganna.“ Það er einnig vikið að þeim sem „aser.“ Þetta er athyglisvert í ljósi skrifa Snorra Sturlusonar í Heimskringlu og með hliðsjón af kenningum Thor Heyerdals. Snorri sagði að æsirnir hafi komið frá Tyrklandi. Heyerdal bendir hins vegar á að nafnið Azaerbaidjan þýði enn í dag „bústaður eða heimkynni ásanna,“ það er að segja Gan Eden, Paradísargarðurinn. Á veggjum musterisins í Edfú er jafnframt talað um heimkynni hinna blessuðu sheptiu, „guða grundvallarins“ sem „eyju átaka“ (iu titi) og „eyju styrjalda“ (iu aha). Ég tel sjálfur að hér hafi verið um sömu ástæðurnar að ræða og gerðust í Fornegyptalandi um 2800 f. Kr., átök milli sóldýrkenda eingyðistrúarinnar og fjölgyðistrúarinnar, eins og vikið var að hér að framan.

Í ljósi þess sem gerðist í súmerska nýríkinu sem varð til í kjölfar flóðsins mikla á þriðju öld er ljóst að fjölgyðistrúin hófst til vegs og valda. Hér komum við aftur að þeim konungi sem vikið var að í fyrstu greininni, það er að segja Enmerkur konungi í Úruk eða Erek Biblíunnar. Það er hann sem gerði út leiðangurinn til Aratta til að krefjast gulls og eðalsteina (lapis lazuli) til að fegra hið nýja musteri sem hann var að reisa til dýrðar gyðjunni Inanna. Hann var uppi um 2900 f. Kr. eða um 250 árum eftir flóðið mikla og var annar konungurinn í röðinni í Úruk í súmerska nýríkinu samkvæmt súmerska konungalistanum. Í textum sem eru nokkru yngri er nafn hans stafsett En-me-er-kar sem er til samræmis við þróun súmerskunnar þegar lögð er rík áhersla á að fella ekki niður sérhljóð. En í enn öðrum lista sem fannst í Nippur og Arno Poebel gaf út 1914 er nafnið stafsett En-me-er-ru-kar. [8] Eða með orðum David Rohls:

„Við getum allt eins stafsett nafnið sem Enmerukar. Því næst komum við að mikilvægu atriðið. Hin fjögur atkvæði En-me-ru-kar má skilja sem sérnafn ásamt viðurnefni og þegar við gerum okkur ljóst að „kar“ er súmerska orðið yfir veiðimann (Akk. habilu), þá sjáum við nafn konungsins „En-me-ru, veiðimaðurinn. [9] Setjið ykkur nú í spor skrifara/höfundar Sköpunarsögu Biblíunnar. Hvort sem hann hefur skrifað með hliðsjón af fleygrúnatöflum eða samkvæmt munnmælasögnum er einungis tilgáta, þrátt fyrir eins og tekið hefur verið fram, að fyllsta ástæða er til að gera ráð fyrir hinu fyrra. Ef við gerum engu að síður ráð fyrir að hann hafði séð nafnið „En-me-ru veiðimaðurinn, hvernig hefði hann þá orðað það á frumhebreskunni? Þegar við höfum í huga að sérhljóðin í hebresku voru einungis gefin til kynna í masóríska textanum frá og með 5. öld e. Kr., þá hefur höfundurinn á þessum tíma einungis skrifað n-m-r án þess að gefa til kynna hvernig nafnið hljómaði. Afleiðingin hefði orðið sú að hinn rétti framburður hefur glatast með tímanum. Tökum hina þrjá samhljóða og viðurnefnið „veiðimaðurinn“ og þá má augljóslega sjá „Nimru veiðimaðurinn.“ Er þetta ekki Nimrod, hinn „mikli veiðimaður“ – hinn mikli borgarstofnandi Sköpunarsögunnar, sonur Kús og sonarsonur Nóa? [10]

Í Biblíunni lesum við: „Kús gat Nimrod. Hann tók að gjörast voldugur á jörðinni. Hann var mikill veiðimaður fyrir Drottni. Því er máltækið: „Mikill veiðimaður fyrir Drottni eins og Nimrod.“ Og upphaf ríkis hans var Babel, Erek, Akkad og Kalne í Sínearlandi. Frá þessu landi hélt hann til Assýríu og byggði Níníve, Rehóbót-Ír og Kala, og Resen milli Níníve og Kala, það er borgin mikla“ (1M 10. 8-12). Það er nafnið Babel sem valdið hefur miklum misskilningi á síðari tímum. Það var ekki fyrr en um tólfhundruð árum síðar sem borgin Babýlón tók að rísa og fram að því finnast engar heimildir um hana. Nimrod/Enmerkur var að reisa musteri til dýrðar gyðjunni Inanna í Úruk (Erek). Borgarheitið Babel skírskotar til musterisins í Úruk sem var Nun.ki eða Bab-ilu á akkadísku (hlið Guðs) og vitað er að hann endurbyggði einnig musterið í Eridu. Frásögnin um Enmerkur og konunginn í Aratta hefst á þessum orðum:

Fyrr á tímum . . . ríkti enginn ótti né skelfing. Engin togstreita ríkti manna á meðal . . . Allur heimurinn í einingu lofaði Enlil á einni tungu. [11].

Hér sjáum við í rauninni undursamlega staðfestingu á orðum Biblíunnar: „Öll jörðin hafði eitt tungumál og ein og sömu orð“ (1M 11. 1). Þetta er jafnframt afar sterk rök fyrir því að Móses hafi haft þennan sama texta til hliðsjónar þegar hann skrifaði Sköpunarsöguna. Höfum einungis í huga að þessi texti er skrifaður af fjölgyðistrúarmanni. Goðið Enlil skírskotar til An eða Ilu (El) eða hins akkadíska Ea (sem borið er fram sem Eja). Hvað segir þessi Guð þegar hann opinberast Móse í Sínaieyðimörkinni:

Móse sagði við Guð: „En þegar ég kem til Ísraelsmanna og segi við þá: ,Guð feðra yðar sendi mig til yðar,' og þeir segja við mig: ,Hvert er nafn hans?' hverju skal ég þá svara þeim?“ Þá sagði Guð við Móse:„ Ég er sá, sem ég er." Og hann sagði: „Svo skalt þú segja Ísraelsmönnum: ,Ég er' sendi mig til yðar“ (2M 3. 13-14).

Á hebresku hljómar þetta: „Eyah asher Eyah! Þú átt að segja þeim að Ea (Eja), Guð feðra ykkar hefur sent þig, Guð árfeðranna, prestkonunga Adamskynslóðarinnar! Biblían staðfestir þannig það sem vikið var að í grein 4 hér að framan um að frumtrúin var ríkjandi manna á meðal. Nú er svo að Súmerar voru fjöltyngdir: Flestir þeirra hafa talað akkadísku auk súmerskunnar. Þeir sem höfðu mikil samskipti við útlönd hafa vafalaust auk þess talað mál Meluhha og Magan (tungumál Mohenjo-Daro menningarinnar og egypsku) þannig að Biblían á ekki við þetta. Hún segir okkur að allur heimurinn (hinn súmerski) hafi „í einingu lofaði An/Ilu eða Eja á einni tungu, það er að segja af einu og heilu hjarta. Eingyðistrúarmennirnir hafa talið það vera storkun við þennan Guð þegar Nimrod/Enmerkur tók að reisa gyðjunni Inanna musteri sem bera átti af öllum öðrum: Babelsturninn í Úruk. Það eru þessi átök milli eingyðsistrúarinnar og fjölgyðistrúarinnar sem ég tel að birtist í Edfútextanum þegar talað er um heimkynni hinna blessuðu sheptiu, „guða grundvallarins“ sem „eyju átaka“ (iu titi) og „eyju styrjalda“ (iu aha) eða Eridu.

Eitt liggur ljóst fyrir. Þessir „Einsteinar eða Newtonar“ forsögunnar – prestkonungar Adamskynslóðarinnar – voru gæddir slíkum hæfileikum og þekkingu að þeir voru gerðir að goðverum í skrifum fjölgyðistrúarinnar, það er að segja að „annuaki“ í Súmer, „neteru“ (guðum) í Egyptalandi og að ásunum í hugum norrænna manna og afkomenda Jafets. Ef Móse hefði ekki skrifað bækur sínar hefðum við aldrei vitað að þeir voru eingyðistrúarmenn sem trúðu á El (ilu), þann Guð sem opinberaðist með sífellt fyllri hætti á vettvangi mannkynssögunnar. Við verðum sífellt að hafa í huga að allar frásagnir og munnmæli sem varðveist hafa um þá á leirtöflum voru samin á tímum súmerska nýríkisins á þriðju öld sem „litaðar“ voru lífsafstöðu heiðindómsins sem hafnað hafði leiðsögn þessa sama Guðs. Babýloníumenn og Assýringar tileinkuðu sér þessa sömu lífsafstöðu og vitnuðu sífellt í þessu fornu ummæli trú sinni til styrktar og því „harðneskjulega“ samfélagi sem varð til þegar súmersk menning leið endanlega undir lok um 1800 f. Kr.

Þau Elena Jelenkova [12] og David Rohl [13] hafa rýnt í lágmyndirnar í Edfúmusterinu og leitast við að túlka þær í ljósi hinni samfléttuðu sögu Súmers og Fornegyptalands.
Í egypskri goðafræði er greint frá eyjunni Nun sem rís upp úr frumhafinu miklu. Rohl kemst svo að orði um lágmyndirnar:

Í upphafi goðsagnarinnar sjáum við árfeðurna nema land á eyju sem er umlukin vötnum Nun (frumhafsins). Hérna reisa þeir fyrsta musterið. Við vitum nú þegar hvar það var staðsett. Jafnskjótt og við gerum okkur ljóst að upphafleg heimkynni fylgjenda Hórusar (Her-ur) var hin forna Mesopótamía er okkur þegar í stað beint til sandeyjarinnar Eridu á fenjasvæðum Suðursúmer. Edfútextinn skírskotar til eyja á fensjavæðinu . . . þannig voru fyrstu borgir Súmer stofnaðar, einkum Úr og Úruk. Það kemur sem sagt í ljós að egypska sköpunarsagan eru einu skriflegu heimildirnar sem greina frá þessu einstæða tímabili í sögu mannkynsins. Heimildir sem varðveist hafa frá Mesopótamíu eru þöglar og færa okkur einungis í hendur fornminjar um graftrarlögin 17 í Eridu og brot úr leirmunum frá Ubaidskeiðinu sem stofnendurnir skildu eftir. Ég segi að Edfútextarnir séu einu heimildirnar, en við eigum einnig Sköpunarsöguna að sjálfsögðu sem greinir okkur frá biblíulegum nöfnum þessara stofnenda. Við höfum sagt að fyrsta byggðin – fyrsta borgin – hafi líklega verið nefnd eftir Írud, syni Henoks og nafn hans þýðir „sá sem kemur niður“ (úr fjöllunum). [14]

Smám saman tekur sagan að öðlast hold og blóð þegar við lesum frásögn Sköpunarsögunnar í ljósi Edfútextanna. En taka ber fram að frásögnin af Gan Eden, hinum upphaflegu heimkynnum árfeðranna – asers eða sheptiu – er hjúpuð hulu gleymskunnar hjá egypskum höfundum textanna. Þar er greint frá komu þeirra til fyrstu borgarinnar eða Eridu. Í Edfútextanum er einnig vikið að henni sem „eyju átaka“ (iu titi) og „eyju styrjalda“ (iu aha) sem sheptiu (hinir öldnu) yfirgefa fyrir fullt og allt. En í áframhaldi af þessari frásögn greina Edfútextarnir okkur frá annarri eyju þar sem annar helgidómur er byggður á stað sem nefndur er Djeba. [15] Hún er einnig nefnd „eyja hinna blessuðu“ en einnig „staðurinn þar sem flokkurinn safnast saman“ (bu sema djasu). Engu er líkara en að eyja hinna blessuðu verði að stökkpalli fyrir eitthvað enn meira. Eyjan er Dilmun (Bahrein) þangað sem súmersk kaupskip höfðu komið til allt frá því að verslunarsiglingar hófust frá Eridu.

Eyjan er einnig nefndur staður hinna dauðu, staður anda hinna framliðnu sem lifðu í grafarhaugunum sem enn má sjá þar. Við getum reynt að ráða í atburðarásina. Sjálfir forfeður okkar Íslendinga gengu í fjöll og lifðu í haugum. Við sjáum fyrir okkur að áður en sheptiu yfirgefa upphaflegt heimaland sitt og borg – Eridu – taka þeir bein árfeðranna upp og taka með sér til eyjar hinna blessuðu og grafa þar að nýju. Samkvæmt súmerska konungalistanum var Meskiagkasher (Kús Biblíunnar og sonur Hams) sonur sólarinnar. Og eftir flóðið mikla var það sólin sem hellti geislum sínum yfir landið að nýju og það var fyrir þessari ímynd Guðs sem Nói laut. Í Edfútextanum er Meskiagkasher nefndur fyrsti Hóruskonungurinn. Samkvæmt Biblíunni var Jafet faðir Indóevrópumanna, Hittíta, Grikkja og Indverja og á sanskrít er guðdómlegur faðir hans nefndur Pra-Japati (faðir Jafets), sólin og skapari alheimsins. Ef til vill – ég segi ef til vill – eru bein sjálfs Nóa hulin í jörðu í einhverjum grafarhaugnum á Eyju hinna blessuðu! Fornegyptar trúðu því jafnvel að guð þeirra væri grafin á Eyju hinna blessuðu. Þetta vekur upp spurningu um það hvaða guð þetta hafi verið. Í súmersku frásögninni af flóðinu mikla dvaldi Ziusudra (Nói) að eilífu á stað sólarupprisunnar sem kenndur er við Dilmun. Síðasti liðurinn í nafni hans þýðir sá sem dvelur í fjarlægð (sudra). Í annarri frásögn af Nóa – Athrasis – fylgir titillinn „ruku“ (hinn fjarlægi) ávallt nafni hans. Ef til vill hvíla bein fyrsta prestkonungsins – Alulim (Adams) þar einnig? Þannig sjáum við að síðar var það Jakob sem tók upp bein Jósefs og flutti til Palestínu samkvæmt ósk hans. Að þessu verður vikið nánar í lok greinarinnar.

Eitt er víst. Um 3000 f. Kr. lagði mikill floti súmerskra skipa af stað til Magan (Egyptalands). Hér var ekki lengur um verslunarskip að ræða heldur herskip. Í stafni þeirra var Hórusfálkinn og fræðimenn hafa bent á hversu mikilla vinsælda hann naut og nýtur enn á Arabíuskaganum. Hið arabíska nafn hans er „huru.“ Þessi skip tóku land á strönd Rauðahafsins og voru í orðsins fyllstu merkingu dregin 260 kílómetra leið allt til Nílar. Hvernig vitum við þetta? Af fjölmörgum hellnaristum frumbyggjanna í Wadi Hammamat, Wadi Abbad og Wadi Barramiya skammt frá Edfúmusterinu í Efrinílardalnum. (Myndir 12. 7 og 12. 8) Nýr tími gekk í garð í Magan (Egyptalandi, landi skipanna) sem líkja má við skammtastökk í mannkynssögunni. Þessi atburður setti mark sitt á allt trúarlíf og heimsmyndunarfræði Egypta allt til þess að ríkið leið undir lok við komu Réttlætissólarinnar til jarðar í holdi.

Í gröf Tutankamons faraós sjáum við þannig hirðmenn hans draga sleða sem kista hans lág á. Í reynd var skip faraós sjálfs dregið þannig á skipi um dánarheima vestursins til austurs og upprisu sólarinnar. Skip hans var á leið heim og rétt eins og sheptiu komu úr austri stefndi hans eigið lífsfar til austurs til grafar árfeðranna á Eyju hinna lifandi þar sem Nói, hinn upprisni (tjenen) var grafinn til að rísa upp til eilífs lífs. Þannig reistu iry-pat einnig musteri sólinni til dýrðar í Annu sem Biblían nefnir On: Sólarborgina. Hún var staðsett nákvæmlega á miðlínunni sem aðskilur Efra- og Neðraríkið. Samkvæmt fornum munnmælum var það einmitt í On þar sem hin heilaga fjölskylda dvaldi (Jesús, María og Jósef). Þegar ég tók að velta þessu fyrir mér kom upp í hugann að Jesús hafi ekki einungis talað hebresku, arameisku og latínu, heldur einnig egypsku (við vitum öll hversu auðveldlega börn læra ný tungumál). Ef til vill varpar þessi staðreynd ljósi á tilvitnun í Lúkasarguðspjalli af ókunnum uppruna: „Frá Egyptalandi kallaði ég son minn“ (Mt 2. 8). Ég hóf þessa grein á Adam og þá er vel við hæfi að enda hana einnig á honum og fyrsta guðinum sem Fornegyptar tilbáðu í Annu eða sólguðinn Atum. David Rohl bendir á athyglisverða hugmynd í þessu sambandi vegna þess að sama reglan gilti í egypsku eins og hebresku að gefa sérhljóðin ekki til kynna:

Nafn Atum er skrifað A-t-m þar sem áherslan er á áblásturshljóðið „t.“ Hins vegar viðurkenna málvísindamenn að bókstafirnir „t“ og „d“ víxlast stundum innbyrðis í tungumálum í Austurlöndum nær. Þannig hefur Kenneth Kitchen sýnt fram á að egypska orðið Twtw er hið semíska Dadu – „hinn elskaði“ (það er að segja nafnið Davíð). Þannig getum við að mínu áliti með fullum rétti skipt hinu egypska „t“ í A-t-m út með „d“ – sem verður þá Adam! [16]

Er lögð áhersla á þetta í pýramídunum þremur á Gízasléttunni þegar þeir voru látnir endurspegla stjörnurnar þrjár í belti stjörnumerkisins Oríóns? Skírskota þeir í reynd til hins súmerska Abu – Ilu – Adams (föður – áhrifa hans eða El Shaddai – og sonarins? Sá mesti á meðal þeirra eða Kufupýramídinn var einnig nefndur Súla Enoks. Við skulum íhuga þetta nánar í næstu grein.

[1]. Frá Adam til dauða Ísaks: 2, 3.
[2]. Hvað varðar annað landsvæði sem sökk í sæ á bronsöld „utan súlna Herkúlesar“ (Gíbraltar) kemur Norðursjórinn óhjákvæmilega upp í hugann. Ljóst er af frásögn Platóns af Atlantis, að hér er vikið að landsvæði sem liggur á breiddargráðum þar sem loftslagið er breytilegt, eða allt frá því að vera milt Miðjarðarhafsloftslag til þess að samsvara því sem gerist á mun norðlægari slóðum. Í þessu sambandi verðum við að hafa hugfast að loftslagið í kjölfar hlýindaskeiðsins um 5500 f. Kr. var nokkrum stigum hærra en nú gerist og mun lífvænlegra var að litast um á norðlægum slóðum á bronsöld, heldur en á kuldaskeiði járnaldar.

Það er fjölmargt sem rennir stoðum undir þá skoðun að óshólmasvæði Norðursjávarins hafi verið ákjósanlegt til mannvistar á þessum tímum. Menjar um dvöl manna á þessu svæði hafa komið í ljós. Þær má rekja allt til steinaldar en það er heldur ekki svo fátítt að munir frá bronsöld komi upp með botnvörpum togskipa í Norðursjónum. Jarðfræðingum ber saman um að Norðursjórinn hafi verið hafsvæði áður fyrr, en á ísöld hafi framburður fljóta Englands, Skotlands, Skandinavíu og Þýskalands umbreytt svæðinu í þurrlendi. Þannig streymdi bæði Thamesá og Rín um þetta svæði og óshólmarnir lágu til móts við Aberdeen í Skotlandi.

Jarðfræðingar telja að þetta óshólmasvæði hafi ekki tekið að sökkva í sæ fyrr en um 2500 árum f. Kr. og ekki horfið endanlega undir yfirborð sjávar fyrr en um 800 f. Kr. Þetta má meðal annars sjá á trjárótum sem komið hafa upp í botnvörpum skipa á Doggersbank. Breskir vísindamenn hafa þannig rannsakað svo nefnt Fens svæði sem liggur utan við strönd Lincolnshire, Cambridge og Norfolk og nær yfir tæplega 4000 ferkílómetra svæði. H. Godwin við Cambridgeháskólann rannsakað þetta svæði mikið hvað gróðurfar áhrærir og komst svo að orði: „Á tímabili því sem markast af nýsteinöld og búsetu Rómverja, en heimildir okkar frá þessum tíma eru hvað bestar, verður vart sífelldra menja sjávarrofs.“ (Studies of the post-glacial history of the British Vegetation, Transaction of the Royal Society of London, Ser. B, Vol. 230, February, 1940). Sólon deyr 559 f. Kr. og vafalaust hefur egypsku prestunum borist spurnir af þessu sokkna landi með fönískum kaupskipum þar sem raf sem finnst í ríkum mæli við strönd Norðursjávar var eftirsótt í Egyptalandi. Árið 1965 gaf Þjóðverjinn Jürgen Spanuth út verk sitt „Atlantis, Heimat, Reich und Schiksal der Germanen,“ en þar staðsetur hann Atlantis út af Slésvík. Í reynd er athyglisvert að lesa Völuspá í þessu ljósi vegna þess að munnmæli um þetta sjávarrof virðast enduróma í orðum völvunnar.
[3]. Við sjáum jafnvel orðin „hið guðlega hjarta“ (egypska: teswy netery-ib) í einni áletruninni í Edfu musterinu í Egyptalandi þegar vikið er að þeim Guði sem forfeðurnir tilbáðu. Mér vitanlega er þetta í fyrsta skiptið í mannkynssögunni sem þetta hugtak kemur fram sem vegur svo þungt í boðskap kirkjunnar á okkar tímum sem skírskotun til dýpsta verundardjúps mannssálarinnar. (Sjá hirðisbréf Písuar páfa XII, Haurietis Aquas: http://vefrit-karmels.kirkju.net/index-kirkjunet/sitefolder/haurietisaquas.html
[4]. Sophronij arkimandríti, Heilagur Silúan, starets á Aþosfjalli, bls. 99.
[5]. Patrologia Greaca, 44. 405 A-D.
[6]. Platón, Úr Krítíasi.
[7]. The Book of Enoch, CV. 1-6.
[8]. A. Poebel, 1914, bls. 73-78.
[9]. Habilu er orðið sem gripið er til í Gilgameskkviðunni yfir veiðimanninn sem finnur Enkindu – hinn villta mann – í skóginum.
[10]. Legend, the Genesis of Civilisation, bls. 206-207.
[11]. S. N. Kramer, 1956, bls. 255.
[12]. The Shebtiw in the Temple of Edfu (Zeitschrift für Ägyptische Sprache und Alterumskunde, 87, 1962, bls. 41-54).
[13]. Legend, the Genesis of Civilsation, Arrows Books Ltd, 1999, bls. 339-361.
[14]. Sama verk, bls. 346.
[15, 11]. Lítið skýli eða kista úr reyr sem var í egypskum musterum: Eins konar hús guðanna.
[16]. Legend, the Genesis of Civilsation, Arrows Books Ltd, 1999, bls. 428.

No feedback yet