« Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 12Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 10 »

04.10.07

  14:49:20, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 8739 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 11

ORKUSNERTINGAR VINDA ELDS OG LOFGJÖRÐAR

Ég hef kosið að nefna prestkonunga Adamskynslóðarinnar Syni réttlætissólarinnar og það ekki að ástæðulausu. Í hugarheimi eingyðistrúarinnar var það sólin sem var hin sýnilega mynd hins ósýnilega Guðs. Á tímum árfeðra Biblíunnar hafði Guð ekki enn opinberað hina endanlegu mynd sína á jörðu eða með orðum hl. Péturs Chrysológusar (406-450):

Elskan getur ekki sætt sig við að sjá ekki takmark elsku sinnar. Er það ekki sannleikanum samkvæmt hvað varðar öll hin heilögu, að þau mátu allt lítils sem þau öðluðust meðan þau gátu ekki séð Guð? . . . Þetta er það sem Móses hafði hugrekki til að segja: „Lát mig þá sjá dýrð þína!“ (2M 33. 18). Og sálmaskáldið segir: „Guð, snú oss til þín aftur og lát ásjónu þína lýsa“ (Sl 80. 4). Er þetta ekki ástæðan sem bjó því að baki að heiðingjarnir gerðu sér skurðgoð? Í villu sinni sáu þeir það með augum sínum sem þeir tilbáðu. Guð þekkti dauðlega menn sem voru sárþjakaðir af þrá eftir að sjá sig. Það sem hann kaus til að gera sig sýnilegan var mikið á jörðu ekki síður en á himnum vegna þess að það sem Guð samlíkti sjálfum sér við á jörðu getur ekki verið án vegsemdar á himnum: „Vér viljum gjöra manninn eftir vorri mynd, líkan oss“ (1M 1. 26) . . . Megi því enginn hugsa sem svo að Guði hafi skjátlast þegar hann kom til mannanna sem maður. Hann holdgaðist meðal okkar svo að við gætum séð hann. [1]

Á tímum árfeðra Adamskynslóðarinnar opinberaði Guð sig á vettvangi mannkynsögunnar með þeim hætti, að sólin var ímynd hins ósýnilega Guðs. En fjölgyðistrúin tók að tilbiðja þessa sömu sól og gerði hana að einu goða sinna og bjó til sýnileg skurðgoð sem hún tilbað og kallaði guði. Boðskapur sá sem þessi sólarímynd felur í sér er djúpstæður. Með skírskotun til myndar 10. 3 hér að framan af sínusboga orkunnar þegar hin „frosna orka“ er leyst úr læðingi, þá blasir þessi mynd við sjónum þegar við útfærum bogann með grafískum hætti (Mynd 11. 1)

Ef við gefum þessu ferli gangs sólarinnar guðfræðilegt inntak, þá blasir þessi mynd við sjónum. (Mynd 11. 2) Nú kynnu einhver eða vill misskilja mig. Á fyrri myndinni er vikið að hinni náttúrlegu sól sem er ímynd þeirrar síðari: Sjödægrasólarinnar miklu eða hins óskapaða ljóss, dýrð náðar Guðs (Ef 1. 6). Það er þetta sem hl. Hyppólýtus frá Róm kallaði „yfirskilvitlegan dans allra árstíða eins og við sjáum á sálmi í tíðagjörðinni sem byggður er á einum sálma hans:

Þetta er hátíð Andans,
yfirskilvitlegur dans allra árstíða.
Allt hið skapaða gleðst og fagnar,
dauðinn að velli lagður.

Þetta er hinn guðdómlegi gleðileikur Sjödægrasólarinnar miklu – Ludes amoris (ástargælur Guðs) – gleðileikur allra herskara himnanna og jarðneskrar sköpunar, allrar alheimsköpunar hins óskapaða ljóss.

Guðfræðingar Austurkirkjunnar taka djarfmannlegra til orða en bræður þeirra í Vesturkirkjunnu þegar þeir kalla áhrif þessa ljóss einfaldlega orku, áhrif orkusviðs. Heil. Símon nýguðfræðingur kemst svo að orði:

Iðulega sá ég Ljósið. Stundum birtist það mér hið innra þegar sál mín dvaldi í friði og þögn. Stundum var það fjarlægt eða hvarf alveg sjónum. Þá varð ég harmi lostinn og taldi að ég mundi aldrei sjá það aftur. En þegar ég tók að úthella tárum og skírskotaði til þess hvernig ég hefði snúið baki við öllu og til fullkominnar auðmýktar minnar og hlýðni, þá birtist ljósið að nýju líkt og sólin sem hrekur skýjabólstrana á brott og birtist þannig smám saman og gagntekur allt ljúfleika. Þannig opinberaðir þú sjálfan þig og huldir á sérhverri stundu, ó, þú Ósegjanlegi, Ósýnilegi og Ósnertanlegi frumhreyfir allra hluta á degi sem nóttu. Smám saman greiddir þú úr þokunni og hraktir skýin sem huldu mig á brott. Þú laukst upp andlegum eyrum mínum og hreinsaðir sálarsýn mína. Og að lokum eftir að þú hafðir fullkomnað verk þitt opinberaðir þú sjálfan þig í hreinleika sálar minnar með því að koma til mín, en með ósýnilegum hætti. En skyndilega birtist þú sem önnur sól, ó, þú ósegjanlega og guðdómlega óræði. [2]

Heil. Boneventúra (1221-1274) komst svo að orði: „Uppruna Ritninganna er ekki unnt að rekja til mennskra hugsmíða heldur guðlegrar opinberunar sem kemur frá „Föður ljósanna,“ hans „sem hvert faðerni fær nafn af á himni og jörðu“ (Ef 3. 15; Jk 1. 17). [3] Og sjálfur segir Kristur: „Því að ekkert er hulið, sem eigi verður opinbert, né leynt, að eigi verði það kunnugt og komi í ljós“ (Lk 8. 17). Tilurð og tilgangur mannkynsins, já öll mannkynssagan, hnígur að þessu marki þegar Guðsríkið – borg Guðs – opinberast endanlega á jörðu og í verundardjúpi einstaklingsins í ljósi:

„Og musteri sá ég ekki í henni, því að Drottinn Guð, hinn alvaldi, er musteri hennar og lambið. Og borgin þarf ekki heldur sólar við eða tungls til að lýsa sér, því að dýrð Guðs skín á hana og lambið er lampi hennar. Og þjóðirnar munu ganga í ljósi hennar og konungar jarðarinnar færa henni dýrð sína“ (Opb 21. 22-23).

Þegar ég komst svo að orði hér að framan að heimsmyndunarfræði nútímans nálgaðist stöðugt meira sannleika þann sem prestkonungar Adamskynslóðarinnar – Synir réttlætissólarinnar – boðuðu á jörðu, þá er það sökum þess að þessir konungar jarðarinnar fyrir flóðið miklu færðu Guði dýrð hans í helgisiðahring Enoks spámanns. Við skulum enn að nýju hlíta ráðum Dr. Francis S. Collins hér að framan og íhuga þetta nánar í ljósi þeirrar þekkingar sem við höfum þegar tileinkað okkur (eða hefur verið opinberuð okkur). Enn að orkusviðinum og ummælum Tómasar frá Akvínó:

Engill birtist á ákveðnum stað með orkusnertingu. Ef þið kjósið að nefna þessa snertingu virkni (operatio) vegna þess að virknin er hin raunverulegu áhrif orku, þá getið þið sagt, að engill sé á ákveðnum stað með því að vera virkur – svo framarlega sem „virknin“ sé skilin í þeim skilningi að hún feli ekki einungis í sér hreyfingu, heldur einnig hvers konar samstillingu þar sem engillinn yfirfærir orku sína í beinni snertingu við hlutinn, hvort sem það er svo með því að stjórna honum eða að vera í honum með einhverjum öðrum hætti [4]

Þegar Tómas lýsir orkusviði englanna grípur hann til hugtaka sem svipar svo mjög til þeirrar sem stjarneðlisfræðingar nútímans nota í umfjöllun sinni um skammtafræðina svo að slíkt vekur undrun. Rétt eins og við getum ekki sagt að ákveðið orkusvið sé staður, þá er það staðbundið, án þess að hafa ákveðin og skírt afmörkuð takmörk. Þannig er áhrifasvið seguls ekki skírt afmarkað en virkar langt út frá sér líkt og þyngdarsvið jarðarinnar sem hefur áhrif á tunglið og reikistjörnur sólkerfisins og sjálfa sólina og næstu sólir, þó að það sé í afar óljósum mæli. Tómas nálgast í rauninni þau hugtök og skilgreiningar sem skjóta sífellt upp kollinum í umfjöllunum um sjálfa skammtafræðina.

Hvernig auðnaðist þrettándu aldar manni að bera skyn á þann sannleika sem hér blasir við sjónum? Ósjálfrátt kemur upp í hugann atvik sem Albert Einstein greindi ævisagnarritara sínum frá. Hann sagði honum að sér hefði „dottið“ afstæðiskenningin í hug einn morguninn í Vínarborg í júní árið 1905 þegar hann var að fá sér morgunkaffið og það hefði einungis tekið sig sex vikur að ganga frá henni til útgáfu. Allt minnir þetta einkennilega mikið á „innblástur,“ eitthvað sem hlýtur að koma upp í hugann þegar okkur verður hugsað til þekkingar og speki prestkonunga Adamskynslóðarinnar. Sú heimsmynd sem vikið var að hér að framan af alheiminum sem ölduhreyfingu var einkar hugleikin heimspekingnum Dr. Helga Pjeturss:

Vjer getum hugsað oss tilveruna sem öldu af öldu, út frá því sem öllu kemur af stað, því sem hinn mikli vitringur og vísindamaður Aristoteles nefndi to próton kínún: hið frumhreyfandi. Hver alda eða tilveruhringur, skapar nýja öldu út frá sjer. Vjer hjer á jörðu erum mjög utarlega í þessu sköpunarverki, og vjer megum ekki ímynda oss, að það sjeum vjer einir, sem erum í þessum tilveruhring. [5]

Kenningar dr. Helga Pjeturss um lífgeislun voru að mörgu leiti afar athyglisverðar og það ber að harma hversu ókunnur hann var heimsmyndunarfræði hinna þriggja miklu englafræðinga kirkjunnar, þeirra Dionysíusar Aeropagíta, Hildigard frá Bingen og Tómasar frá Akvínó, jafnt og sjálfri dulúðarguðfræðinni. Eitt höfuðatriði boðskapar þeirra var lífgeislun. Kenning Dr. Helga um lífgeislun – Lebenstrahlung – [6] sem berst til okkar úr djúpi himingeimsins er í fyllsta samræmi við kenningar djúphyggjumanna kristindómsins, það er að segja sem alheimsleg eða kósmísk útgeislun. Dr. Helgi vitnaði í rit Hippólytusar kirkjuföður (170-236), Fílósofúmena, VI, 25: „apo tón astrón tas psychas tón zóón feresþai“ (sálirnar meðtaka lífsmátt sinn frá stjörnunum). [7]

Stjarneðlisfræði nútímans grundvallar allar niðurstöður sínar þannig á útgeislun frá stjörnuþokum í margra milljóna ljósára fjarlægð – geislum sem lögðu á stað til jarðar fyrir tíu milljörðum ára. Allt grundvallast þetta á næmleika móttökutækjanna, geysistórum loftnetum sem nema þessi daufu boðmerki sem berast úr óravíddum himindjúpsins. Slík útgeislun er ekki einungis bundin við stjörnur heldur senda allar lífverur frá sér útgeislun og slík geislun gegnir mikilvægu hlutverki í heimi nútímans við úrlausnir aðkallandi vandamála daglegs lífs á jafn fjarskyldum sviðum eins og innan læknisfræðinnar og í flutningi blóma á milli landa! Ef blómunum líður illa meðan á flutningnum stendur geta vísindamenn þannig látið þau „tala“ til að greina frá ástæðu vanlíðunar sinnar.

Ef hin ósýnilega og andlega sköpun er jafn áþreifanlegur veruleiki og hin sýnilega sköpun – og þetta er það sem Biblían boðar [8] að hún sé – er þá til einhver sú leið þar sem unnt er að nema þann kraft eða lífgeisla sem berst frá henni með aðferðum raunvísindanna? Já, vissulega, jafnskjótt og manninum hugkvæmist að beita þeirri sömu tækni og viðhöfð er í kjarneðlisfræði nútímans við geislamælingar. Þetta er einmitt það sem hefur verið gert. Það var prófessor Boguslav Lipinski [9] frá Háskólanum í Boston í Bandaríkjunum sem mældi svið ofurorku í opinberunarkapellunni í Jakobskirkjunni í Medjugorje frá 15. til 19. mars 1985. Hér er okkur leitt fyrir sjónir með vísindalegum hætti að kenningar Meistarans frá Nasaret standast í ljósi tilraunavísinda nútímans, að þær eigi sér ytri samsvörun í reynslu raunheimsins, rétt eins og í lífi hinna heilögu.

Tæki það sem Lipinski notaði til að mæla þetta orkusvið sem hann nefnir „andlega orku“ (spiritual energy) er notað innan kjarnorkuvísinda til að mæla geislamagn jónasviðsins, svo nefnt „electroscope.“ Hann notaði tæki sem framleitt er í Kanada undir vöruheitinu Model BT 400 Biotech. Mælieiningin er mR/Hr. eða millirad á klukkustund og hin logariþmiska mælieining nær frá 0 upp í 1 milljón mR/Hr. Þegar prófessor Lipinski framkvæmdi mælingar sínar (opinberanirnar áttu sér stað klukkan sex sídegis) kom í ljós að orkusviðið í opinberunarkapellunni reyndist allt að 100. 000 mR/Hr., orkusvið sem einungis mældist 20 mR/Hr. klukkan ellefu að morgni.

Sjálfur kunni hann enga skýringu á þessari orku aðra en þá, að rekja mætti hana til áhrifa bæna og föstu. Hann fullyrti jafnframt, að hér gæti ekki verið um kjarnorku að ræða þar sem allir viðstaddra hefðu látið lífið samstundist vegna geislavirkni sem hún hefði haft í för með sér. Þess vegna nefndi hann þessa orku einfaldlega SE (spiritual energy) eða andlega orku. Þetta andlega orkusvið var einfaldlega margfalt meira en nokkur mannlegur máttur gæti staðist ef um kjarnorku væri að ræða! Sú mikla andlega orka sem prófessor Lipinski mældi í opinberunarkapellunni og hann rakti til máttar bænarinnar og föstunnar kallar ósjálfrátt fram í hugann ummæli sjálfs Krists:

„Ef þér hafið trú eins og mustarðskorn, getið þér sagt við fjall þetta: Flyt þig héðan og þangað, og það mun flytja sig“ (Mt 17. 20).

Eða með öðrum orðum: Sönn kristin bæn – hin hreina bæn hjartans – ásamt föstu, gerir manninum kleift að komast í snertingu við orkusvið sem virðist sömu ættar og sá máttur sem reisti sjálfan Endurlausnarann upp frá dauðum. Allt er þetta óaðskiljanlegur hluti þeirrar miklu vitundarvakningar sem fram undan eru á næstu þúsöld. Vikið verður nánar að þessu síðar

Fyrst að hinni náttúrlegu útgeislun sem kallar þróunarkenningu Darwins óhjákvæmilega fram í hugann og ég legg áherslu á orðið „kenningu“ í þessu sambandi vegna þess að hér er ekki um staðreyndir heldur tilgátur að ræða. [10] Augu manna hafa smám saman verið að ljúkast upp andspænis þeirri staðreynd að orkuútgeislun getur haft óvænt áhrif á lífræna starfsemi manna og dýra. Þannig veittu menn því athygli að nýtt afbrigði blóma varð til í sprengigígum í Englandi í Annarri heimstyrjöldinni sem aldrei höfðu sést áður á Englandi, eins og lesa má um í árbók Brittannica fyrir árið 1944 (bls. 117). Segja má að athygli manna hafi beinst að þessu sviði þegar hollenski grasafræðingurinn Hugo De Vries uppgötvaði stökkbreytingar (spontaneous mutuation) í vorrósum í upphafi tuttugustu aldarinnar. Þrátt fyrir að De Vries fullyrti, að hér væri um ný tegundarafbrigði eða undirflokka að ræða, þá leiddi þetta ekki til þess að vorrósin umbreyttist í nýja tegund blóma.

Þetta leiddi einfaldlega í ljós að líffræðilegar stökkbreytingar á lífverum eiga sér stað með óvæntum og snöggum hætti, en ekki með hægfara þróun á milljónum ára, eins og Darwin hafði haldið fram sem hafnaði alfarið stökkbreytingum. [11] Það sem skiptir hér höfuðmáli er sú staðreynd, að það sem getur valdið stökkbreytingum er til staðar í umhverfinu sjálfu. Það var síðan H. J. Müller sem sýndi fram á það að unnt væri að auka getu ávaxtaflugna til stökkbreytinga um allt að 150 sinnum með því beina röngtengeislun að þeim. Og enn í dag höfum við ekki minnstu hugmynd um áhrif gammageisla sem berast úr heimingeimnum á erfðamengi manna og dýra, en engu að síður hafa vísindamenn gert sér ljóst að á ákveðnum tímaskeiðum í jarðsögunni hefur jörðin gengið í gegnum tímaskeið þegar tíðni þeirra var miklu meiri en við þekkjum í dag: Að jörðin gangi á ákveðnum skeiðum í gegnum tímaskeið þegar áhrif þeirra vaxa til muna.

Það er einmitt slíkar staðreyndir sem grafa undan kenningu Darwins um framþróun hinna hæfustu (survival of the fittest), svo framarlega sem nægilegur tími sé fyrir hendi til að einstakar tegundir þrói með sér eiginleika í innbyrðis samkeppni á milljónum ára ef engin umhverfisvaldandi áhrif hefti ekki þróun þeirra. Þannig lagði Darwin höfuðáherslu á kenningar Charles Lyells um jafna og sífellda þróun (uniformisma). Í setlagarannsóknirnar á Faraday Hills svæðinu á Miðatlantshafshryggnum kom í ljós að ákveðið þörungaafbrigði – globegerina (foraminifera) – hafi ekki þróast um milljónir ára. Þetta er eitthvað kunnasta dæmið úr líffræðinni um tegund sem valdið hefur Darwinsinnum miklum heilabrotum vegna þess að hún hefur ekkert breyst frá örófi alda! Beinast liggur við að ætla að þetta þörungaafbrigði lifi á svo miklu sjávárdýpi að áhrifa geislunar gætir ekki. -Steingervingafræðin leiðir einfaldlega í ljós það lögmál, að stærri dýrategundum var einkum hætt við útrýmingu, eins og hin risastóru spendýrum í lok tertíertímabilsins og að nýju í lok ísaldar, rétt eins og sjálfar risaeðlurnar eru gott dæmi um. Allt er þetta skiljanlegt í ljósi þess, að lítil dýr eiga betri lífsmöguleika í náttúruhamförum en þau sem stærri eru sem orða má sem „survival of the unfittest“!

Þannig hafa Darwinistar ekki getað komið fram með nein haldbær rök hvað varðar útrýmingu fíla í lok ísaldanna, þrátt fyrir að bæði frumfíllinn – elephas antigua – og mammútinn – elephas primigenisus – væru mjög þróaðar skepnur, ekki fremur en að fjölmargar þeirra fiskitegunda sem uppi voru á krítartímabilinu væru mun þróaðri en þær tegundir sem komu löngu síðar fram á sjónarsviðið. Við kunnum enn enga skýringu á því hvers vegna fílar og kameldýr hverfa óvænt af sjónarsviðinu í Suðurameríku um 12000 f. Kr. Allt bendir þetta til ytri áhrifavalda eins og mikils eldgoss eða skyndilegra breytinga í veðurhvolfinu.

En hvernig sem svo á þetta er litið er sjálft lífið eitt af máttarverkum Guðs og í reynd sjáum við dautt efni öðlast líf í okkur sjálfum daglega, já, í hvert sinn sem við drögum að okkur andann sem í reynd ætti að styrkja trú okkar á Evkaristíuna, brauð lífsins. Þannig rekur lífvana atóm um andrúmsloftið og ef við fylgjum þessu súrefnisatómi eftir á ferð þess um mannslíkamann, þá tekur það einungis einn þúsundasta hluta úr sekúnda fyrir það að fara í gegnum slímhúð lungnanna þegar það sameinast frymi rauðu blóðkornanna. Þá breytist litur þeirra frá því að vera blásvartur yfir í það að verða ljósrauður litur súrefnisauðugra blóðkorna.

Í raun og veru sjáum við að atómið gengur í gegnum gjörbreytingu. Súrefnisatóm sem rak um stefnulaust í andrúmsloftinu umbreytist óvænt í lífrænan vef í líkamanum og verður að óaðskiljanlegum hluta hans. Súrefnisatómið verður að hluta lífrænnar heildar og sameinast sameindum hans! Þessar sameindir geta nært vefi líkamans, geta borið taugaboð um taugakerfið eða orðið að hluta hvítu blóðkornanna sem ráðast á skaðlega og óvelkomna sýkla og veirur til að uppræta þær. Áætlað er að sérhvert rautt blóðkorn sé myndað úr um 300 milljónum frymissameinda og að hver sameind sé mynduð úr átta súrefnisatómum. Þegar við drögum að okkur andann er talið að um 5 billjón blóðfryma fái til sín súrefni. Af þessu getum við auðveldlega skilið hversu mikilvægu hlutverki öndunarfærin gegna hvað varðar alla líkamsstarfsemi okkar. En þessar súrefnissameindir eru einnig mikilvægar í sambandi við vöxt og endurnýjun vefjanna: Þær eru „múrsteinar“ sem líkaminn notar sér til viðhalds og vaxtar og allt gerist þetta þegar súrefnisatóminn umbreytast í líf.

Hér erum við svo að segja komin að kjarna allrar þessarar umfjöllunar sem opinberar okkur hinn dýrmæta boðskap prestkonunga Adamskynslóðarinnar. Rétt eins og kom í ljós í mælingum Lipinskis hér að framan þá er efling eða styrking þeirrar andlegu orku sem hann mældi háð tilbeiðslu. Þetta varpar jafnframt einstæðu ljósi á hin 120 ár helgisiðahrings Enoks: „Veri dagar hans nú 120 ár (1M 6. 3). Þumalputtaregla sú sem bændur styðjast við hvað varðar líftíma einstakra dýra grundvallast á því að líftíminn sé fjórfaldur á við þroskaskeið viðkomandi skepnu. Þannig þroskast kjúklingur á 6 mánuðum og verður 2 og 1/2 árs gamall, hestur á 5 árum og verður þannig 20 ára. Sama gegnir um manninn þegar hann dvelur í þessari lífgeislun alheimssköpunarinnar. Þroskaskeið 30 ár = 120 ár! [12]

Það sem sjáendunum í Medjugorje í Bosníu-Herzegóveníu gafst að sannreyna í opinberunarkapellu Jakobskirkjunnar var snerting við hina andlegu og ósýnlegu sköpun. Það sem gerir opinberanirnar í Medjugorje svo einstæðar í sinni röð er sú staðreynd, að vísindamönnum hefur í fyrsta skipti í mannkynssögunni gefist tækifæri til að rannsaka sjáendurna með strangvísindalegum hætti með síendurteknum mælingum!

Upphafsmaður einna þeirra aðferða sem gripið var til í Medjugorje var Þjóðverjinn Hans Berger sem sýndi fram á að samband væri milli heilabylgna og breytilegra vitundarstiga. Við getum flokkað heilabylgjur í fjóra flokka sem skírskota til þess stigs reynslu sem býr þeim að baki (Mynd 11. 3).

Allt virðist þannig benda til þess að það sé manninum eðlislægt að eiga samband við hina andlegu og ósýnilegu sköpun, hæfileiki sem beið svo mikið tjón í syndafallinu að maðurinn sé lemstraður eða eigum við að orða það svo, að hann sé andlegur öryrki? Ef til vill er það þessi staðreynd sem er hvað dýrmætust í boðskap sjálfrar Adamskynslóðarinnar til mannkynsins: Að það verði að leggja rækt við lofgjörðina til að geta nálgast og hrærst í lífgeislun alheimssköpunarinnar og lofgjörðin er samofin bæn, tilbeiðslu og íhugun. Í reynd er lofgjörðin skilgreind sem æðsta stig bænarinnar innan guðfræðinnar.

Í fljótu bragði mætti halda að það væru einkum alfa- og þetabylgjurnar sem kæmu til álita í sambandi við yfirskilvitlega reynslu. Annað kom þó í ljós í rannsóknum sem framkvæmdar voru á sjáendum í Medjugorje af prófessor Henri Joyeux frá háskólanum í Montpellier í Frakklandi og aðstoðarmönnum hans frá því í mars og til og með desember 1984. Þann 10 júní stóð sjálf opinberun Guðsmóðurinnar yfir í 62 ± 2 sekúndur og mælingin var hafin mínútu fyrir opinberunina og haldið áfram einni mínútu eftir að henni var lokið. Mælingin gaf hvorki til kynna svefnástand eða stjarfa fremur en í öðrum mælingum sem framkvæmdar voru. Fyrir mælingarnar (pre exstase) var um eðlilegar alfabylgjur að ræða á bilinu 10-11 cps og því næst hraðar betabylgjur allt að 65 cps og því næst langan kafla með hægum alfabylgjum. (Mynd 11. 4 og Mynd 11. 5)

Einnig voru framkvæmdar augnmælingar á sjáendunum sem skiluðu athyglisverðum niðurstöðum. (Mynd 11. 6) Þar má sjá hvernig augnhreyfingar sjáendanna námu staðar á nákvæmlega sömu sekúndunni og opinberanirnar hófust. Auk þessa voru tekin hjartalínurit af þeim sem leiddi í ljós að hjartaslátturinn jókst og gerðar heyrnarmælingar og viðbrögð þeirra gagnvar sársauka könnuð. Meðan á opinberununum stóð virtust sjáendurnir vera ónæmir gagnvart hita og snertingum sem bendir til mun dýpra vitundarsviðs. Slíkar rannsóknir eru ávallt umdeilanlegar en í þessu tilviki hafa þær reynst ómetanlegar fyrir trúarsálarfræðina.

Sumir hafa varað við að lagður sé of yfirborðskenndur skilningur í slíkar rannsóknarniðurtsöður, líkt og T. Roszak, [13] en hann kemst svo að orði:

Sjálft eðli rannsóknanna felur í sér að rýra gildi og inntak sjálfs rannsóknarefnisins. Að einu leyti getur sú áhersla sem lögð eru á hina mælanlegu og áþreifanlegu þætti einangrað það sem ef til vill skiptir minnstu máli hvað varðar hina trúarlegu reynslu og látið það trúarlíf sem er uppspretta hennar og ávöxtur liggja á milli hluti. Það sem eftir stendur eru safn mælinga, safnupplýsinga, samdálka, tölvuútskrifta, línurita og kaka. Freistingin verður þá sú að trúa því að atferli það sem hefur verið staðfest sé það sem hin trúarlega reynsla snúist í raun og veru um og að slíkt getir auk þess orðið takmark í sjálfu sér, líkt og blóm sem tínd eru úr þeim jarðvegi sem nærir þau. Árangurinn er ofuráhersla á sérstök áhrif og upplifanir: Á„hápunkta,” „hástig,” „uppljómanir” og annað þess háttar. En jafnvel þó að einhver vilji líta á hrif sem „hástig” trúarlegrar reynslu, þá svífur þessi hápunktur ekki í lausu lofti. Hann grundvallast á venjum og lífsháttum. Maðurinn nær í slíkar hæðir og lærir að vega og meta þýðingu slíkrar reynslu með því að helga sig slíku með þekkingu, skuldbindingum, guðrækni, þjónustu og fórn. Að ætla sér að nálgast slíkt í flýti er líkt og „að ganga” á Evrestfjall með því að lenda á tindi þess í þyrlu.

Þetta er fyllilega réttmæt viðvörun. En gildi rannsókna eins og þeirra sem framkvæmdar voru í Medjugorje felast einfaldlega í þeirri staðreynd, að þær leiða í ljós að hér er ekki um hópsefjun að ræða heldur eitthvað sem liggur utan hins hefðbundna vitundarsvið mannsins. Þær leiða jafnframt í ljós að þá einstaklinga sem skortir næmleika eða hafna alfarið slíkri reynslu sannreyna áhrif hennar ekki. Þeir eru því ekki dómbærir á hana fremur en blindur maður geti fjallað um litabrigðin í verkum frönsku impressíónistanna!

Rannsóknirnar í Medjugorje gera okkur þannig kleift að varpa nýju og áður óþekktu ljósi á inntak og eðli kristinnar bænar og lofgjörðar. Við skulum íhuga þetta nánar með því að virða fyrir okkur (Mynd 11. 7).
Hér má sjá hvernig líkaminn og skynfærin skírskota til ysta verundarsviðs mannsins. Því næst kemur hið sálræna svið ásamt eigindum sínum: Skilningi, vilja og ímyndunarafli. Það sem markar andlega uppljómun mannsins og andlega upprisu eru þáttaskilin miklu þegar hinn frjálsi vilji gefst Guði algjörlega á vald og sálreigindirnar ummyndast í trú, von og kærleika á innsta og dýpsta verundarsviði mannsins. Það er þetta sem Ritningin opinberar okkur með viðbrögðum Guðsmóðurinnar: „Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum." Og engillinn fór burt frá henni“ (Lk 1. 38). Þetta lýkur upp veginum til hins andlega ásæis eða „hagia þeamata“ Kappadokíufeðranna.

Þetta gerist í óræði bænalífsins og lofgjörðarinnar í stigvaxandi mæli þegar maðurinn nálgast verundarkjarna sinn með virkni alfa og beta heilabylgnanna eins og rannsóknirnar í Medjugorje leiða í ljós. Þannig felst iðkun sjálfrar bænarinnar og lofgjörðarinnar svo að segja í vexti stigvaxandi næmleika – bókstaflega fínstillingu – gagnvart æðra vitundarsviðum eins og sjá má á Mynd 11. 8. Þetta er sú „list allra lista og vísindi allra vísinda“ sem lögð er rækt við í íhugunarklaustrum kirkjunnar þar sem karlar og konur leggja rækt við hina andlegu íhugun.

Auk þess eru listamenn iðulega gæddir þeim eiginleikum að skynja umhverfi sitt með meiri næmni en annað fólk. Ég tel að fáum hafi auðnast að varpa eins skýru ljósi á þennan leyndardóm hinna virku áhrifa þagnar og kyrrðar eins og C. S. Lewis í bók sinni „Out of the Silent Planet,“ þessi sami C. S. Lewis sem sannfærði lífeðlisfræðinginn dr. Francis S. Collins um tilvist Guðs með röksemdum sínum í „Mere Christianity.“ Þar kemst hann svo að orði:

Hraðasta fyrirbrigðið sem snertir við skynhrifum okkar er ljósið. Við sjáum þó í raun og veru ekki ljósið, heldur hægfarari hluti sem það fellur á, þannig að í okkar augum er ljósið á mörkunum – það síðasta sem við greinum áður en atburðarásin verður of hröð fyrir okkur. En líkami eldils [engils] er hreyfing sem er jafn snögg ljósinu. Þú getur sagt að líkami hans sé úr ljósi, en ekki því sem er ljós í augum eldilsins. „Ljós“ hans er hraðari hreyfing sem er marklaus í okkar augum og það sem við köllum „ljós“ er í hans augum eins og hvert annað fyrirbrigði eins og vatn, sýnilegt fyrirbrigði, fyrirbrigði sem hann getur snert og baðað sig í – jafnvel myrkt fyrirbrigði þegar það er ekki upplýst í því sem er enn hraðara. Það sem við nefnum áþreifanleg fyrirbrigði – hold og jörð – virðist honum vera þynnra og erfiðara að festa augu á en okkar eigið ljós og líkara skýjum og því sem næst engu. Í okkar augum er eldillinn þunnur og hálfraunverulegur líkami sem getur farið í gegnum veggi og kletta. Í hans huga fer hann í gegnum þetta vegna þess að hann er áþreifanlegur og snertanlegur en þessi fyrirbrigði eins og ský. Það sem er raunverulegt ljós í hans augum og streymir um himinhvelfinguna, þannig að hann baðar sig í geislum sólarinnar sjálfum sér til hressingar, er í okkar augum ekkert annað hið svarta tómarúm himinhvelfingarinnar um nótt (bls. 94 - 95).

Í reynd auðsýna kaþólsku kirkjurnar þeirri arfleifð vel sem prestkonungar Adamskynslóðarinnar lögðu mikla ræktarsemi við með daglegum lofgjörðarbænum sínum. Sjálf tíðagjörð kirkjunnar og helgisiðaár allt frá aðventunni til hátíðar Krists Konung á 34 sunnudegi kirkjuársins er helgun hins jarðneska tíma: Hinn jarðneski tími verður þannig að helgum tíma undir guðdómlegri forsjá. Það er með þessum hætti sem hið jarðneska samfélag heldur páskaleyndardóminn heilagan á jörðu þar sem fyrirmyndir okkar í helgun, hin heilögu og englarnir, öðlast fastan sess innan hins jarðneska tíma. Þar eiga þeir hinna heilögu sem hafa gengið í gegnum guðsgjörninguna sér sína ákveðnu minningardaga og þann 29 september er hátíð hl. Mikjáls og engla hans og engladagsins er minnst þann 2. október. Reyndar minnist kirkjan hinna himnesku tignarraða í sérhverri messu sem sungin er daglega á jörðu í kaþólsku kirkjunum þegar hinar helgu fórnargjafir eru helgaðar á altarinu og tekur undir lofgjörð serafanna og kerúbanna. Það er jafnframt með þessum hætti sem Heilagur Andi vísar til sjálfrar sólbrautarinnar í 19. Davíðssálminum:

Í hásölum himins reisti hann röðli sínum tjald,
sem gengur út úr höll sinni sem brúðgumi,
hlakkar sem hetja að renna skeið sitt.

Við takmörk himins rennur hann upp,
og hringferð hans nær til enda himins,
og ekkert fær umflúið geislaglóð hans.

(Sl 19. 5, 6).14

Það eru lífgeislun þessarar himnesku Réttlætissólar sem leika um okkur í lífi náðarinnar og ekkert fær umflúið geislaglóð hans vegna þess að hann er það ljós sem lýsir heiminum: Ljós heimsins. Við getum þannig í fullri alvöru talað um eðlisfræði bænalífsins rétt eins og um skammtafræðina. Það ofurorkusviði sem prófessor Lipinski mældi í opinberunarkapellunni í Jakobskirkjunni í Medjugorje reyndist vera allt að 100 000 mR/Hr., sem er langt yfir þeim mörkum sem mannslíkaminn þolir ef um kjarnorku væri að ræða. Það er einmitt slíku ofurorkusviði sem Dionysíus Aeropagíti lýsti í riti sínu um „Hinar Himnesku tignarraðir“ og líkti við eld. Ef við höfum einungis í huga, að hann er hér að lýsa hinu andlega orkusviði hinnar ósýnilegu sköpunar, englanna, þá sjáum við hér gefna ágæta lýsingu á skammtaorkusviðinu:

Við verðum að spyrja að því í fyrstu útskýringum okkar á þessum táknum, hvers vegna Orð Guðs kýs öðru fremur hið helga tákn eldsins. Þú munt sjá að það er ekki einungis viðhaft í líkingunni um hin eldlegu hjól, heldur einnig haft um lifandi eldlegar verur og menn sem leiftrar af eins og eldingum og hefja upp glóandi kol í viðurvist hinna himnesku vera og um óstöðvandi fljót eldflauma. Einnig er sagt að hásætin séu úr eldi og það er ljóst af sjálfri nafngiftinni, að hinir háleitu serafar sjálfir eru brennandi eldur og þeim er tileinkað eðli og máttur eldsins, og alls staðar, efst sem neðst, kýs það eldinn um fram allt annað. Þess vegna tel ég að þetta eldlega tákn lýsi hinu fullkomna samræmi milli hinna himnesku vera og Guðs. Þannig líktu hinir heilögu spámenn því sem er yfirskilvitlegt og án lögunar við eld sem (ef ég má svo komast að orði) á margt sameiginlegt með hinum guðdómlega veruleika eins og hinum sýnilega. Hinn skynjanlegi eldur er með ýmsum hætti í öllu og læsir sig í gegnum allt, án þess að vera hluti þess og er óháður öllum hlutum, og þrátt fyrir að vera skær og í eðli sínu hulinn og ókunnur, þegar hann kemst ekki í snertingu við eitthvað sem hann getur beint orku sinni að. Hann er óstöðvandi og ósýnilegur og ríkir yfir öllum hlutum og brýtur allt undir sig þar sem hann er virkur. Hann býr yfir ummyndandi krafti og hefur að einhverju leiti áhrif á allt í umhverfi sínu. Hann endurlífgar alla hluti með glæðandi mætti sínum og uppljómar allt með dýrðarljóma sínum. Hann er ósigrandi og hreinn, býr yfir eyðingarmætti, en er sjálfur óumbreytanlegur, upphefur, gagntekur, er háleitur, lætur ekkert lítilsiglt hefta sig, sívirkur, kvikur og hrærir við öðrum hlutum. Hann skilur, en er óskiljanlegur, er örlátur og styrkir sjálfan sig með leyndardómsfullum hætti og birtir almætti sitt til samræmis við eðli þess sem tekur við honum, máttugur og ósýnilega nærverandi í öllu. Þegar hans er ekki minnst, þá virðist hann ekki til, en glæðir skyndilega ljós sitt til samræmis við eðli sitt sem snerting, rétt eins og hann leitist við það, óhemjanlegur og rís til hæða í fullsælu sjálfsgjafar sinnar (XIV, 62).

Í raun og veru gæti Dionysíus allt eins verið að lýsa ferli ljóseindanna þegar hann segir að eldurinn (orkan) „læsi sig í gegnum alla hluti án þess að vera hluti þeirra.“ Það er einnig athyglisvert að sjá hvernig hl. Teresa frá Avíla komst að orði þegar hún lýsti áhrifamætti altarissakramentisins:

Þetta er eins og að nálgast eld. Jafnvel þó að hér sé um mikið eldhaf að ræða, þá getur hann ekki vermt okkur ef þið snúið í hann bakinu og felið hendur í skauti. . . Ef sálin er reiðubúin (ég á við að hún vilji njóta ylsins) og dvelja þarna um stund, þá mun henni vera heitt í margar klukkustundir. [14]

Þetta eldhaf hins Óskapaða ljóss – elska Guðs – er nefnt er LJÓS DÝRÐARINNAR í guðfræðinni og er dýrmætasti fjársjóður kirkjunnar á jörðu ekki síður en meðal prestkonunga Adamskynslóðarinnar sem horfðu til þess í trú og urðu þannig hólpnir. Við verðum einungis að hafa í huga að orðið trú felur í sér eitt og hið sama og að snúa sér heilshugar til Guðs í kærleiksríkri árvekni með opnum huga og hjarta. Og það er samofið tilbeiðslu og lofgjörð. Þegar Jóhannes af Krossi víkur að því í 20. til 22. kaflanum í „Hinni myrku nótt sálarinnar“ nefnir hann uppljómun þess sem berst um hinar himnesku tignarraðir englanna stiga til Guðs. Á æðsta stiginu rís mannssálin jafnvel upp yfir æðstu röð tignarraðar englanna – serafanna – í guðsgjörningunni. Með hliðsjón af Mynd 10. 4 í síðustu grein þar sem alheimurinn er sýndur sem ölduhreyfing út frá frumhreyfi verður hér dregin upp önnur skýringarmynd Mynd 11. 9 sem sýnir hina alheimslegu sköpun lofgjörðarinnar til að varpa enn frekara ljósi á þennan sannleika. Þannig opinberast Kristur okkur í uppljómun hins Óskapaða ljóss sem hinn nýi Adam!

Það er einkum eitt atriði sem greini svartengla myrkursins og þá menn sem loka sig af gagnvart þessu ljósi frá hinum himnesku tignarröðum og samfélagi lofgjörðarinnar: Þeir lofa ekki Guð, taka ekki þátt í lofgjörð sköpunarverksins vegna þess að þekking þeirra hefur steypti þeim niður í hyldýpi myrkursins eins og Júdasi Ískaríot vegna þess að þekking þeirra var ekki kærleiksrík fremur en Júdasar. Ég ætla að ljúka þessari umfjöllun á tilvísunum úr verkum Hildigard frá Bingen (1098-1179). Hún var einstæða þessi kona sem stofnaði benediktusarklaustrið Rubertberg skammt frá Bingen árið 1147 og var gædd einstökum hæfileikum, bæði sem guðfræðingur, tónskáld, læknir og myndlistamaður ekki síður en djúphyggjumanneskja. Þegar hún víkur að hyldýpi afvegaleiddrar þekkingar svartengla illskunnar – hinni kosmísku illsku – tekur hún svo til orða:

Þar sem Lúsifer ásamt fylgjendum sínum fyrirleit Guð í stærilæti sínu, þá varð sú ljómandi birta sem almætti Guðs hafði íklætt hann að engu. Það var hann sjálfur sem tortímdi hinni innri fegurð sinni, þeirri vegsemd sem átti að beina honum til gæskunnar. Í ágirnd sinni teygði hann sig til illskunnar sem dró hann niður í hyldýpið. Með þessum hætti leið hin eilífa hátign hans undir lok og hann steyptist niður í endanlega saurgun. Þær stjörnur sem eftir voru urðu svartar eins og útbrunnin kol. Með afvegaleiðanda sínum voru þær sviptar ljóma hátignarinnar. Þær kulnuðu í svartnætti myrkursins og voru sviptar allri uppljómun eins og kolamolar án elds. Og samstundis hrakti fellibylur þær á brott frá suðrinu til norðursins að baki þess sem sat í hásætinu. Þær steyptust niður í hyldýpið þar sem þær hurfu sjónum. [15]

Ógnir hinnar myrku þekkingar illskunnar eru samofnar leyndardómi fjórverutáknsins og Hildigard dregur upp afar dökka mynd af norðurfjórðungi hrings hinnar guðdómlegu ráðsályktunar:

[Guð sagði]: Ég sem bý við endimörk jarðarinnar opinbera verk mín í austri, suðri og vestri. En fjórðu höfuðáttina, norðrið, lét ég tóma eftir. Þar skín hvorki sól né tungl. Af þessum ástæðum er víti á þessum stað utan hinnar alheimslegu tilhögunar þar sem hvorki er að finna þak né gólf. Það er hér sem ríkir hreint myrkur, en þetta myrkur þjónar einnig hátign ljósa minna. Hvernig væri að öðrum kosti unnt að bera skyn á ljósið, ef ekki væri um myrkur að ræða? Og hvernig gæti nokkur borið skyn á myrkrið, ef það væri ekki fyrir ljómandi dýrð þjóna ljóss míns? Ef þessu væri ekki hagað með þessum hætti, þá væri almætti mitt ekki fullkomið. Þá væri ekki unnt að lýsa öllum hinum undursamlegu máttarverkum mínum. [16]


Sjálf víkur Hildegard að uppljómun hins Óskapaða ljóss með svofelldum orðum:„Árið 1141 eftir holdtekju Guðs Sonarins, Jesú Krists, er ég var fjörutíu og tveggja ára og sjö mánaða gömul, kom eldlegt ljós með leiftrum af himni ofan. Það streymdi í gegnum huga mér og lýsti upp hjarta mitt og brjóst líkt og logandi eldur, sem olli þó engum bruna, heldur vermdi allt líkt og sólin vermir allt með geislaflóði sínu. Skyndilega laukst merking Ritninganna upp fyrir mér, sálmanna, guðspjallanna og annarra rita Gamla- og Nýja testamentisins. Og fáum hefur auðnast að lýsa áhrifum Guðs á mannsálirnar með jafn fögrum orðum og Hildegard:

[Guð segir]: Ég hef skapað spegla til að virða ásjónu mína í, til að virða fyrir mér eilíft undur uppsprettu minnar. Ég hef skapað þessar speglaverur til þess að taka undir lofgjörðarsönginn. Með Orði mínu, sem var og er í mér án upphafs, læt ég máttugt ljós ganga út frá mér til hins takmarkalausa fjölda herskara englanna. [17]

Þannig verða mannssálirnar að speglaverum í lífi náðarinnar eins og hinar himnesku tignarraðir englanna þegar musteri og borg Drottins er risin í okkar eigin hjörtum. Hildigard víkur nánar að eðli lofgjörðarinnar og tilbeiðslunnar í riti sínu „Wisse die Wege Scivias.“ Það er ávallt ilmfórn lofgjörðarinnar sem er vegur okkar til Guðs vegna þess að hún opinberar hina kærleiksríku þekkingu á Syni hans sem er vegsemd dýrðar náðar hans. Það er lofgjörðin og tilbeiðslan sem rífur niður skilin milli okkar og hinnar andlegu og ósýnilegu sköpunar, og það er einmitt þetta sem Hildigard segir:

Þegar presturinn gekk upp að altarinu íklæddur hinum helgu klæðum til að halda hinn guðdómlega leyndardóm hátíðlegan, birtist skyndilega dýrðarljómi af himnum ofan. Englar stigu niður og altarið var umvafið ljósi. Þannig var það þar til fórnargjafirnar höfðu verið undirbúnar og presturinn dró sig í hlé. Eftir að friðarguðspjallið hafði verið flutt og fórnargjafirnar voru lagðar á altarið til helgunar tók presturinn að vegsama almáttugan Guð og söng „Heilagur, heilagur, heilagur, Drottin, Guð Sabaoth og hóf hinn ósegjanlega leyndardóm [gjörbreytinguna]. Á þessu augnabliki lukust himnarnir upp. Ólýsanlega skært eldleiftur féll niðir á fórnargjafirnar og streymdi í gegnum þær í hátign sinni, rétt eins og sólargeislarnir umvefja allt þegar þeir falla á einhvern hlut. . . Englar stigu niður og ljós flóði um altarið. Hinir himnesku andar laðast að helgri þjónustu (II, 6).

Og Hildigard bregst ekki orðsnilldin þegar hún lýsir því þegar eldur kærleikans tekur að skíðloga í okkur eigin hjörtum! Og þessi eldur er óslökkvandi og samofin leyndardómi hinnar hvítu þjóðar eilífrar gleði í hinni himnesku tjaldbúð:

Eðli þeirra [englanna] er funi eldsins. Þeir brenna í Guði sem uppsprettu eldsins. Enginn annar getur kveikt eða slökkt þennan eld. Þessi eldur brennur óslökkvandi í hinum guðdómlega kærleika.” [18]

Það er þessi leyndardómur elds kærleikans sem leiðir okkur inn í hina alheimslegu lofgjörð. Hildigard víkur að því hvernig allur alheimurinn lofi og vegasami Guð og talar um að sjálft tungumál englanna sé lofgjörð. Og við sjáum hversu samofin orð hennar eru ímynd sólarinnar:

Rétt eins og sólskinið opinberar sólina, þannig opinbera englarnir Guð með lofgjörð sinni, og rétt eins og sólin getur ekki verið til án geisla sinna, þannig væri Guðdómurinn ekkert án lofgerðar englanna. . . [19]

Og hún lagði enn frekari áherslu á þennan sannleika í öðru verka sinna þar sem hún nefndi lofgjörðina hið alheimslega tungumál:

Þannig brennur eldurinn og hann er lofgjörð frammi fyrir Guði. Og vindarnir bæra logana til að lofa Guð. Og í röddinni lifir orðið: Það er einnig lofgerð til Guðs. Og raustin heyrist. Og hún er einnig hrein lofgerð frammi fyrir Guði. Þannig er allur alheimurinn lofgjörð frammi fyrir Guði. [20]

Sú mynd sem Hildigard dregur hér upp er mörkuð skýrum dráttum. Það eru englarnir sem ganga út frá Guði eins og sólargeislar. Vindar elds Heilags Anda – hinar himnesku tignarraðir – og vængjablak serafanna glæðir lofgjörðina og Orðið, Sonurinn, er einnig lofgjörð Guðs. Og sjálf upprisa hinnar „litlu hjarðar“ mun felast í upprisu lofgjörðar á almætti og dýrð Guðs. Þannig víkur Hildigard frá Bingen að hinu tvíþætta hlutverki mannkynsins sem „fyllingu verka Guðs:

Mannkynið gegnir tvíþættu hlutverki: Það syngur Guði lofgjörð og það iðkar góð verk. Þannig játar það Guð með lofgjörð sinni og með góðum verkum þess má sjá stórmerki Guðs. Þannig samlíkist mannkynið englunum með lofgjörð sinni, en með heilögum verkum sínum verður það að mennskunni. En sem ein heild er það fylling verka Guðs (plenum opus Dei), vegna þess að í lofgjörð og verkum fullkomnar mannkynið alla tilhögun Guðs. [21]

Í þessu felst hin mennska fullkomnun á jörðu. Og hvað er lofgjörð? Lofgjörð er samhljómur og samstilling, bylgjutíðni alheimsköpunarinnar, sjálf ölduhreyfing tilverunnar út frá miðju alls upphafs og tilurðar, út frá „totum simul“ trúfræðinnar, þess Guðs sem þenur alheiminn út eins og tjalddúk í gleði sköpunar sinnar. Þetta er davar Drottins, Orðið, þegar Drottinn „lætur raust sína gjalla, hina voldugu raust“ (Sl 8. 34). Nú erum við í stakk búin til að ganga til fundur við prestkonunginn Enok, hinn súmerska En-me-en-duranna (herra me og herra borgarmúranna), þann sem Hebrear nefndu Hannok. Sjálf segir Biblían okkur að hann hafi verið uppi um 4200 f. Kr. eða um 1100 árum eftir Adam. Í þessu sambandi á ég við Sjötíumannaþýðinguna (Septuagintuna) og samversku Biblíuna. Hvers vegna? Jú, vegna þess að um 130 e. Kr. tóku Gyðingar að „krukka“ í ártölin í hinum masóríska texta. Þetta var vegna þess að Enok sagði fyrir um komu Messíasar í 6. viku Viknaspádóms síns, staðreynd – sem Gyðingar geta alls ekki fallist á vegna þess að musterisvald þeirra krossfesti þennan sama Krist. Þannig gerði Faðir ljósanna Guð sýnilegan manninum, þann Guð sem Enok vék að með svofelldum orðum:

En hann mun boða hinum réttlátu frið
og vernda hina útvöldu [sæðið].
Og miskunnsemin verður hlutskipti þeirra
og þeir munu tilheyra Guði;
og njóta velsældar
og vera blessaðir.
Og hann mun hjálpa hverjum þeirra og einum
og ljós mun lýsa þeim
og hann verður boðberi friðarins. [22]

Þegar Móse dvaldi enn hjá tengdaföður sínum, Jetró, í Sinaíeyðimörkinni las hann um þennan El (ilu) í safni þeirra fleygrúnataflna sem Jetró hafði komið sér upp og bárust til fróleiksþyrstra lesenda í Austurlöndum nær frá iðnum skrifurum Mesopótamíu. Og honum varð ljóst að allt frá upphafi hafði þessi Guð talað til mannsins. Og eftir að hann meðtók opinberun sína á fjallinum var það fyrsta sem hann gerði að reisa hring fjórverutáknsins: „En næsta morgun reis hann árla og reisti altari undir fjallinu og tólf merkissteina eftir tólf kynkvíslum Ísraels“ (2M 24. 4). Sá Guð sem opinberað hafði sig sem El Shaddai opinberaðist nú í því nafni sem ekki var unnt að bera fram: YHVE: Með fjórum bókstöfum herbúðarskipunar Ísraels (spr. Sl 91. 1-2).

[1]. Patrologia latina 52, 594-596.
[2]. Mystical Theology of the Eastern Church, bls. 226.
[3]. Breviloquium, Inngangur 2-5.
[4]. Questiones Quadlibetales, 1, 4.
[5]. Ennýáll, bls. 122.
[6]. Framnýáll, bls. 256.
[7]. Sama verk, bls. 300.
[8]. Í Gamla testamentinu er vikið að englunum 61 sinni og í því Nýja 167 sinnum eða alls 228 sinnum.
[9] Etudes Medicales et Scientifiques sur le Apparitions de Medjugorje, bls. 75-93.
[10]. Sama gilti um kenningar þeirra Nicolasar Koperníkusar og Galileos sem kirkjan fagnaði sem slíkum og þannig naut Galileo stuðnings páfastóls. Í ferð sinni til Rómar 1624 fögnuðu kardínálarnir honum og Úrban páfi VIII veitti honum heiðurspeng fyrir vísindalegt framlag sitt sem kenningu. Það var reyndar páfi sjálfur sem hvatti hann til að skrifa hið mikla verk sitt „Umræður um hið mikla heimskerfi“ sem kom út 1632, en þar vék hann að kenningum sínum sem óvéfengjalegum staðreyndum sem þær voru ekki eins og tíminn átti eftir að leiða í ljós.
[11]. Sjá Life and letters, II, bls. 27: „natura non facit saltum“ (náttúran tekur ekki stökkbreytingum). Það er einmitt þetta sem T. H. Huxley gagnrýndi hann svo ákaft fyrir.
[12]. Þessi staðreynd varpar jafnframt ljósi á tilurð goðsagnarinnar um Atlantis Platóns, sem Sólon greindi langafa Krítíasar frá sem dreng eftir dvöl sína í Egyptalandi og Platón víkur að í verkum sínum: Tímeusi og Krítíasi. Þar verða stærð landsins að 3000 grískum stadíum til suðurs (um 600 km; 375 mílur) og 2000 stadíum í miðju (um 400 km; 250 mílur). Lýsing borgarinnar minnir óhjákvæmilega mikið á skipulag fönískra hafnarborga á tímum Platóns. Í súmerskri goðafræði var talan 60 tala An (ilu). Talan 20 x 30 varpar einfaldlega ljósi á þá staðreynd að það var hinn lífgefandi máttur Guðs sem hafði mótandi áhrif á alla samfélagsgerðina. Hið súmerska dur.an.ki eða sameining himins og jarðar í helgisiðahringnum var 60 + 60 = 120 eða tvöfeldisáhrif. Þegar Súmerar lögðu grundvöllinn að fyrsta borgríki sínu – Eridu – hafa þeir reist borgina á eyju í votlendinu áður en landið var þurrkað upp með áveituframkvæmdum eða reitaskiptingu landsins. Það sem lifði eftir af þessari frásögn í hugum musterisvalds fornegypsku musterisprestanna varð að raunverulegri goðsögn um land sem sökk í sæ og vissulega þurrkaðist borgin Eridu út í flóðinu mikla og varð óbyggileg í nokkrar aldir. Íraskir fornleifafræðinar hafa rakið þróun borgarinnar Eridu frá upphafi þegar menn settust þar að. Talið er að nafn hennar sé kennt við einn sona Enoks, Irdu. Vikið verður nánar að þessu í næstu grein. Eridu var hin fullkomna samfélagsgerð og eftirmynd Gan Eden og prestkonungarnir vissulega tíu rétt eins og höfuðborgir Súmera voru tíu að tölu. Hið heiðna musterisvald var með þessu að beina athygli fólks frá boðskap eingyðistrúar prestkonunganna um samband Gan Edens og Eridu sem eftirmyndar Paradísargarðsins – sléttu hins Eina og sanna Guðs. Sjálft orðið „sep tepi“ á fonegypsku þýðir bókstaflega árdagar hinnar helgu eyjar.
[13]. The making of Counter Culture, bls. 167.
[14]. Vegurinn til fullkomleikans, 35, 1.
[15]. Wisse die Wege Scivias, III. 1.
[16]. Patrologia latina, 91. 197, 812B.
[17]. Sama verk, 91. 197, 239C.
[18]. Sama verk, 91. 197, 262D.
[19]. Sama verk, 91. 197, 746C.
[20]. Liber vitae meritorium, 350.
[21]. Wisse die Wege Scivias, I. 157.
[22]. The Book of Enoch, CIV. 1.

No feedback yet