« Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 11Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 9 »

02.10.07

  09:18:10, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 6578 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 10

MÓTUNARSKEIÐ NÝRRAR HEIMSMYNDUNARFRÆÐI Í SAMHLJÓMAN VIÐ BOÐSKAP PRESTKONUNGA ADAMSKYNSLÓÐARINNAR

Margir minnast þess að hafa séð kort miðaldamanna af heiminum, líkt og kort Þjóðverjans Heinrichs Bünting sem birtist í „Itinerarium Sacrae Scripturae: Die gantze Welt in ein Kleberblatt.“ Hér er það heimsmyndunarfræðin sem ræður ferðinni í stað vísindalegrar hugsunar varpana (projections). Hér er það Jerúsalem sem er heimsmiðjan þar sem krossinn, tré lífsins, skipar öndvegið: „Stat crux, dum volvitur orbis“ (alheimurinn snýst umhverfis hinn stöðuga kross). Í Sköpunarsögu Biblíunnnar er það tré lífsins sem stóð í miðju garðsins. Tréð var miðja alls veruleika og sá heimsás sem tengir himinn og jörð. Súmerar tjáðu þetta þegar þeir sögðu dur-an-ki (himininn á jörðu). Eridu var elst slíkrar heimsmiðja þar sem kiskanutréð stóð, eins og vikið var að í síðustu grein. Mikilvægasti „nafli“ heimsins í Súmer var musterið í Nippur og í hinu allra helgasta musterisins voru töflur örlaganna eða me-töflurnar varðveittar. Súmverskir kortagerðarmenn staðsettu það því af mikilli nákvæmni líkt og starfsbræður þeirra í nútímanum. (Mynd 10. 1).

Öll musteri landsins voru stallamusteri vegna þess að þau gegndu jafnframt því hlutverki að vera stjörnuathugunarstöðvar. Gangur stjarnanna og himintungla var mikilvægur þáttur daglegs helgihalds þar sem stjörnurnar opinberuðu vilja guðanna auk þess sem þær voru grundvöllur hins helga tíma á jörðu sem reiknaður var út af slíkri nákvæmni, að það vekur furðu starðfræðinga nútímans. Tera, faðir Abrahams, var musterisprestur í Úr og þar með einnig stjörnufræðingur og þegar Guð gerði sáttmála sinn við Abraham hafði hann þetta í huga og sagði við hann:

„Lít þú upp til himins og tel þú stjörnurnar, ef þú getur talið þær.“ Og hann sagði við hann: „Svo margir skulu niðjar þínir verða.“ Og Abram trúði Drottni, og hann reiknaði honum það til réttlætis (1M 15. 5-6).

Hér kemur boðskapur eingyðistrúarinnar fram til mótvægis við fjölgyðistrúna sem tilbað þessar stjörnur sem guði. Guð biður Abram um að hafna þessari afstöðu, að snúa við henni í eitt skipti fyrir öll. Þannig kallar hann okkur öll til að virða stjörnur himins fyrir okkur með nýjum hætti. Þegar við horfum til niðurstaðna heimsmyndunarfræði nútímans og sjáum að þær eru hinar sömu og Biblían boðar fyllast fjölmargir vísindamenn þvermóðsku og neita að horfast í augu við þessa staðreynd, eða með orðum bandaríska stjarneðlisfræðingsins Roberts Jastrow:

Nú sjáum við að staðreyndir stjörnufræðinnar falla að afstöðu Biblíunnar til sköpunar heimsins . . . Fjölmargir vísindamenn sætta sig ekki við að heimurinn hafi orðið til með þessum hætti. Guðfræðingar eru í hæsta máta ánægðir með þær sannanir sem leiða í ljós að alheimurinn átti sér upphaf, en stjörnufræðingarnir bregðast undarlega við. Viðbrögð þeirra varpa athyglisverðu ljósi á hina vísindalegu hugsun sem krafist er að sé óhlutbundin, þegar staðreyndir sem vísindin sjálf hafa uppgötvað rekast á grundvallaratriði í trúarjátningu okkar. [1]

Hér á hann að sjálfsögðu við guðsafneitunina sem er trúarjátning svo ótaldra nútímamanna sem telja að trú beri vott um fáfræði. Á öðrum stað í sama verki kemst hann hnyttilega að orði þegar hann víkur að þessari sömu afstöðu:

Fyrir vísindamanninn sem lifað hefur í trú á mátt skynseminnar líkur þessari sögu eins og martröð. Hann hefur klifið fjall vanþekkingarinnar og er í þann veginn að stiga fæti á efsta tindinn. En þar sem hann hefur sig upp yfir síðustu hindrunina, þá er það hópur guðfræðinga sem fagnar honum, hópur sem setið hefur þar árhundruðum saman. [2]

Sú niðurstaða stjarneðlisfræðinnar að alheimurinn hafi verið skapaður fyrir um 14 milljörðum árum síðan úr „ex nihilio“ fer í pirrurnar á fjölmörgum vísindamönnum, en þetta er það sem Guð hefur boðað í Biblíunni frá upphafi. Og kenningin um „totum simul“ eða allan veruleika í einum og sama punkti er ekki ný kenning í kristinni guðfræði og það er út frá þessum punkti sem alheimurinn var þaninn út líkt og voð. Í 104 Davíðssálminum sem ég vék að hér að framan er komist svo að orði:

Þú hylur þig ljósi eins og skikkju,
þenur himininn út eins og tjalddúk (Sl 104. 2).

Þetta er það sem Jesaja spámaður endurtekur líka í sífellu: „Það er hann, sem þenur út himininn eins og þunna voð og slær honum sundur eins og tjaldi til þess að búa í. Það er hann, sem lætur höfðingjana verða að engu og gjörir drottna jarðarinnar að hégóma“ (Jes 40. 22-23).

Í hugum Súmera var það kiskannutréð eða tré lífsins sem var heimsmiðjan sem allt snérist um – allur alheimurinn – sem var jafnframt dur-an-ki (himininn á jörðu). Í hugum kristinna manna er þetta hinn heilagi kross sem kemur á sambandi milli himins og jarðar:

En þá er krossinn er upp reistur, þá stendur hann sumur fastur í jörðu, en sumur er hann í lofti, því að Kristur samtengdi himneska hluti og jarðlega, þar er hann sætti jarðlega menn við sig og engla sína. [4]

Þegar maðurinn nálgast þennan „axis mundi“ eða heimsás öðlast hann áþreifanlega reynslu af boðskap hans eða eigum við fremur að segja í opinberun hans? vegna þess að Kristur er: „ímynd hins ósýnilega Guðs, frumburður allrar sköpunar. Eða svo að við grípum til hinnar fornu súmersku: „Ana harrani sa alkatasa la tarat“ (göngum veg þar sem ekki verður snúið til baka). „Enda var allt skapað í honum í himnunum og á jörðinni, hið sýnilega og hið ósýnilega, hásæti og herradómar, tignir og völd. Allt er skapað fyrir hann og til hans“ (Kol 1. 15-16). Þannig lögðu prestkonungar Admskynslóðarinnar áherslu á réttlæti hans eða me. Það birtist meðal annars í reitaskiptingu lands sem er óaðskiljanlegur þáttur í þeirri þjóðfélagsgerð sem prestkonungarnir lögðu grunninn að og breiddist út um öll Austurlönd nær, Evrópu og allt til Kína, eins og vikið verður að síðar. Þegar Henry Lincoln sýndi Dr. Vanessu Hill, en hún er sérfræðingur í úrvinnslu tölfræðilegra gagna í lífeðlisfræði, niðurstöður sínar um reitaskiptingu lands komst hún svo að orði:

Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum vegna ákveðins hóps vísindamanna sem komist hafa svo að orði að fjarlægðin á milli staðanna væri einskær tilviljun . . . Þeir hafa ekki kynnt sér frumgögnin eða beitt nauðsynlegum vísindalegum aðferðum. Slíkt verður að vega og meta með óháðum hætti í hverju tilviki fyrir sig, jafnvel þó að niðurstöðurnar komi ekki heim og saman við kenningar athugandans og afstöðu. Ef vísindamaðurinn getur ekki uppfyllt þessi skilyrði, þá er þögnin æskilegri svo að ekki sé villt um fyrir öðrum sem eru hæfari til að greiða úr málinu. Það ber einnig að hafa í huga að staðhæfingar sem grundvallast á því að hér sé um tilviljanir að ræða verður einnig að rökstyðja með tölfræðilegum niðurstöðum. Í slíkum tilvikum er ekki nægilegt að láta stjórnast af því sem manni finnst. [5]

Í riti sínu „A Test of Time – The Bible: from Myth to History“ þar sem fornleifafræðingurinn David Rohl leggur fram athyglisverða kenningu um skekkju í tímatalsákvörðunum konungsætta Egypta, svonefnda „New Chronology,“ rekur hann sig á vegg meðal eldri starfsbræðra sinna. Sjálfur vitnar hann í hin víðfrægu ummæli Max Plancks:

Ný vísindaleg sannindi ryðja sér ekki til rúms með því að sannfæra andstæðinga þeirra svo að þeir sjái ljósið, heldur fremur í því að andstæðingar þeirra hverfa af sjónarsviðinum og ný kynslóð vex úr grasi sem kynnist þeim. [6]

Fjölmargir fræðimenn á tuttugustu öldinni hafa þannig alist upp við þá afstöðu og tileinkað sér að Biblían sé einungis hreinar goðsagnir og ómarktæk með öllu sem heimildarrit, þrátt fyrir að þeir styðjist við aðrar fornar heimildir sem varðveist hafa. Gott dæmi um þetta er svo kallaður Kaupmannahafnarskóli innan guðfræðinnar undir forystu prófessors Thomas I. Thompson sem hafnar alfarið að unnt sé að staðfesta frásagnir Biblíunnar með fornleifarannsóknum. Þetta er einmitt það sem hópur austurrískra fornleifafræðinga frá Vínarháskóla hefur einmitt gert. Þeir hafa unnið að uppgreftir hinnar fornu borgar Avaris á óshómasvæði Nílar þar sem Hebrear bjuggu fyrir brottförina (exódus) og frásagnir hennar verið staðfestar. Þetta fer í pirrurnar á þeim sem alist hafa upp við guðleysi tuttugustu aldarinnar.

Þegar eldri kynslóð fornleifafræðinga lýsa undrun sinni og hneykslan á því að grípa til tölvutækninnar og stjarnfræðilegra forrita til að reikna út atvik sem sannarlega gerðust og taka mið af þeim við tímatalsútreikninga, segir það okkur ekkert annað en að þeir hafa ekki gætt þess að fylgjast með þróuninni. Það eru þó ekki allir vísindamenn sem bregðast við með þessum hætti. Gott dæmi um þetta er hinn heimskunni erfðafræðingur Dr. Francis S. Collins. Í september 2006 kom út bók eftir hann sem vakið hefur umtalsverða athygli, það er að segja „The Language of God: A Scientist Presents Evidence for Belief“ (Tungumál Guðs: Vísindamaður leggur fram sannanir fyrir trú). Sú hugmynd að raunvísindin „afsanni“ tilvist Guðs er afar útbreidd í heimi nútímans. En samkvæmt því sem Collins segir – sem er í hópi þeirra vísindamanna sem auðnaðist að leysa gátuna um erfðamengi mannsins – þá er þessi hugmynd „afar villandi.“ Í bók sinni sýnir hann fram á að vísindin eru ekki í stakk búin til að afsanna tilvist Guðs vegna þess að þau fjalla um hinn náttúrlega heim. Ef eitthvað er, þá er hið gagnstæða staðreyndin: Vísindin afsanni ekki tilvist Guðs heldur renni fremur stoðum undir hana. Þegar hann víkur að vísindalegum rannsóknum sínum kemst Collins svo að orði:

„Það var mér bæði undraverður vísindalegur árangur, en vakti jafnhliða hjá mér lotningu að ráða fram úr erfðamengi mannsins. Þegar þú hefur fyrir augunum í fyrsta skiptið leiðarvísi með 3. 1 milljörðum bókstafa sem veitir þér fjölþættar upplýsingar og uppfræða um alls kyns leyndardóma hvað áhrærir mannkynið, þá kemstu ekki hjá því að kenna til ótta þegar þú lest eina blaðsíðuna af annarri. Ég get ekki litið á þessar blaðsíður án þess að fá það á tilfinninguna, að hér gefist mér tækifæri til að skyggnast inn í huga Guðs.“

Þessu var ekki ávallt lífsafstaða Collins, eða eins og hann kemst að orði um sjálfan sig: „Þegar ég var 27 ára gamall var ég harðsvíraður guðleysingi. Þá benti einhver mér á litla bók eftir C. S. Lewis sem heitir „Mere Christianity.“ Hún svipti á brott öllum þeim röksemdafærslum sem ég taldi svo „pottþéttar“ um að trúin væri einungis óskynsamleg og leiddi mér fyrir sjónir að þær fengust alls ekki staðist. Í reynd leiddi hún mér hið gagnstæða fyrir sjónir og að trúin væri í raun hin rökrétta niðurstaða þegar staðreyndirnar allt umhverfis okkur væru vegnar og metnar. Ég tel að það stangist á engan hátt á að vera strangvísindalega hugsandi og jafnframt að trúa á Guð sem hefur persónulegan áhuga á hverju okkar og einu. Svið vísindanna felst í því að rannsaka náttúruna. Svið Guðs er hinn andlegi heimur, svið sem ekki er unnt að rannsaka með tækjum og aðferðum vísindanna. Það verður að rannsaka með hjartanu, huganum og sálinni – og hugurinn verður að finna leið til að samþykkja bæði þessi svið.“

Í bók sinni leiðir hann að því rök að þessi tvenns konar afstaða geti ekki einungis farið saman í einum og sama einstaklingnum, heldur með þeim hætti að slíkt auðgi og upplýsi mennska reynslu og kemst svo að orði:

„Raunvísindin eru eina leiðin til að skilja hinn náttúrlega heim. En vísindin standa ráðþrota frammi fyrir spurningum líkt og: „Hvernig varð alheimurinn til?“ eða „Hver er tilgangur mennskrar tilveru“ eða „Hvað gerist eftir að við deyjum?“ Einhver sterkasta hvöt mannkynsins er að leita svara við djúpstæðum spurningum og við verðum bæði að grípa til alls þess sem vísindin hafa fram að færa og hinnar andlegu sýnar til að skilja hið sýnilega og ósýnilega. Tilgangur bókarinnar er að kanna leið til að sameina með heiðarlegum hætti þessa tvenns konar afstöðu.“

Við fyllumst undrun yfir þeirri staðreynd að í fábrotnustu DNA keðjum stöndum við frammi fyrir „afkastagetu“ sem jafnast á við það að allir símar Bandaríkjamanna myndu hringja samtímis í eina og sömu símstöðina – ekki einu sinni heldur átta sinnum samtímis! Enn eigum við langt í land hvað áhrærir tölvuörgjafa í þessu sambandi. Við skulum ný fylgja ábendingum Collins eftir.

Allt frá árinu 1859 var sú staðreynd þekkt að snúningur göngubrautar Merkúr um sólu jafngilti 23.000 árum og árleg tilfærsla reikistjörnunnar næmi sem svaraði 5600 sekúndum á heilli öld. Menn höfðu komist að þessari niðurstöðu með því að gefa himingeimnum gætur. Þetta var einmitt sú leið sem Enok spámaður boðaði forðum:

Gefið öllu því gætur sem gerist á himnum, hvernig allt á sér sinn mörkuðu braut og hvernig stjörnurnar á himnum rísa og setjast í fyllingu tímans.” [7]


Eftir að allar leiðréttingar höfðu verið gerðar með hliðsjón af aðdráttarsviði annarra reikistjarna sólkerfisins til samræmis við lögmál Newtons, þá kom í ljós að mismunurinn var engu að síður 43 sekúndur á einni öld samkvæmt niðurstöðum Leverriers. Sama missamræmið kom fram á braut Jarðar og Venusar, þrátt fyrir að þar væri munurinn minni. Ein þeirra skýringa sem reynt var að grípa til var að gera ráð fyrir annarri reikistjörnu, Vulkan, sem gengi á milli sólar og Merkúr og eins reyndu menn að gera endurbætur á lögmáli Newtons.

Það var einmitt þetta vandamál stjörnufræðinnar sem vakti athygli ungs vísindamanns, Alberts Einsteins, árið 1907 og hann vann markvisst að því að finna þyngdarlögmál sem gæti varpað ljósi á þennan mismun sem kom fram á göngubraut Merkúrs. Árið 1915 kynnti hann svo niðurstöður sínar sem reyndust vera 43,3 sekúndur. Þyngdarlögmál Newtons varpaði ljósi á massa í þrívíðu rúmi, en Einstein bætti fjórðu víddinni við, það er að segja tímanum. Í slíkri fjórvídd birtist þyngd massans sem sveigja rúmsins, líkt og þegar hlutur hvílir á svampdýnu. Albert Einstein uppgötvaði þannig að áhrifum þyngdarkraftsins mætti líkja við dældir í rúminu. Rúmtími reikistjörnu er þannig einfaldlega beinasta braut sömu stjörnu um rúmið. Í slíkum fjórvíddarheimi varpar massinn ljósi á það hvernig rúmið sveigist og rúmið segir til um hreyfingu massans.

Önnur merkileg niðurstaða fékkst svo árið 1960 þegar þeim Pound og Rebke auðnaðist að sýna fram á svo kölluð Doppler-áhrif, bókstaflega hvernig ljósið glatar hluta orku sinnar þegar það „rís“ upp úr sigdældum rúmsins. Einstein hafði sagt þetta fyrir þegar árið 1911 og menn höfðu þegar veitt því athygli árið 1929 með því að fylgjast með litrófi hvítrar fylgistjörnu Síríusar, að litróf ljóssins yrði rauðleitara við slíkar aðstæður. Bandarísku vísindamennirnir sýndu fram á þetta með því að beina ljóseindum af þriðju hæð Jefferson-rannsóknarstofunnar við Harwardháskólann, alls 22, 6 metra fjarlægð. Þetta var í fyrsta skiptið í sögunni sem afstæðiskenningin var þannig sannreynd á tilraunastofu.

En þetta er einungis önnur hlið málsins. Þegar þeir Einstein og Niels Bohr komu saman árið 1927 til að bera saman bækur sínar, þá voru þeir á öndverðu máli í einu veigamiklu atriði: Um grundvallargerð sjálfs efnisheimsins og þeim var heitt í hamsi. Niels Bhor hélt því fram til samræmis við niðurstöður skammtafræðinnar – og þar var Heisenberg honum sammála – að sumt gerðist án staðbundinna orsaka. Albert Einstein hristi höfuðið og sagði: „Guð kastar ekki teningum!” Þá bætti Niels Bohr við að menn ættu að fara varlega í fullyrðingum sínum um hina guðdómlegu forsjón. Skoðun Nielsar Bohr ollu Einstein þungum áhyggjum vegna þess að hún snerti sjálfan grundvöll afstæðiskenningar hans og jafnframt lífsskoðunar.

Einstein vann að því í átta ár ásamt tveimur öðrum vísindamönnum að búa hugmyndum sínum þann búning, að unnt væri að sýna fram á haldleysi kenninga Bohrs. Gallinn var einungis sá, að ekki var unnt að láta reyna á kenningar hans sökum tæknilegrar vangetu. Það var ekki fyrr en árið 1982 sem slík tækni var fyrir hendi og þetta var einmitt það sem svo nefndur Aspecthópur lét reyna á, en hann kom saman árið 1982 á Solvay-ráðstefnunni í Brüssel og afsannaði svo nefnda Einstein-Podolsky-Rosen kenningu og sýndi þar með fram á að grundvallareiginleikar hins efnislega veruleika eru allt aðrir en menn hugðu og urðu til í upphafi úr geislun eða árekstri ljóseinda (photein) í atburði sem er ekki unnt að nefna annað en sköpun og þar sem sjálf undirstaða efnisins – atómið – var ekki fyrirfinnanlegt fyrstu 700.000 árin. Aspecthópurinn sýndi fram á með endurteknum tilraunum að sjálfur grundvöllur efnisins er ekki sá sem hann sýnist:

Tilraun Aspectshópsins byggðist á því að þegar rafeind rekst á andefni sitt, positron, geta myndast tvær ljóseindir. Í tilraun er tveimur ljóseindum skotið samtímis í gangstæðar áttir frá sama stað. Skammtakenningin kallar slíkar ljóseindir „andhverfa tvíbura.“ Það virðist háð tilviljun hvert þær fara og hver braut þeirra verður. Þær eru nánast óráðnir möguleikar þangað til önnur lendir í árekstri og kemst í höfn. . . Og nú er komið að því athyglisverðasta í þessari tilraun. Á nákvæmlega sama tíma og breytingin varð hjá fyrri ljóseindinni fékk hin „tvíburaljóseindin“ líka sína ákveðnu eiginleika, fasta braut og ákveðinn stað í tilverunni. Ljósmyndirnar tvær mynda ævinlega 90 gráðu horn á milli sín . . . Breytingar á annarri ljóseindinni verka líka á hina, þó að ekkert hafi hreyft við henni og engin merki borist á milli þeirra. [8]

Önnur athyglisverð staðreynd sem tilraunir Aspectshópsins staðfestu felst í því að þessar skammtaverkanir gerast samstundis, rétt eins og þegar elektrónur skipta um braut um kjarna sinn. Þetta leiðir einfaldlega í ljós að til er hröðunarferli í alheiminum sem er mun meira en ljóshraðinn sem er grundvöllur hinnar náttúrulegu skynjunar mannsins.

Það kom sem sé í ljós að Einstein hafði haft á röngu að standa. Skammtafræðin leiðir okkur einfaldlega fyrir sjónir að það er ekki sjálfgefið að alheimurinn sé í eðli sínu efnisheimur. Hann er orkusvið útgeislunar. Skammtafræðin leiðir okkur jafnframt fyrir sjónir að alheimurinn sé alls ekki samsettur úr efniseindum sem háðar eru tíma og rúmi. Hvers vegna er þetta svona mikilvægt? Jú, sú staðreynd að við getum að nýju leitt englana til vegs og virðingar í heimsmyndunarfræði nútímans vegna þess að niðurstöður skammtafræðinnar sameina að nýju vísindi og trú. Samkvæmt hinni fjórvíðu rúmfræði Einsteins sem grundvallast á ljóshraðanum er skynjun mannsins á alheiminum afar skert, eins og sjá má á mynd 10. 1. Hún sýnir okkur svo nefndan rúmtíma (spacetime) sem grundvallast á ljóshraðanum eins og hann er skilgreindur samkvæmt afstæðiskenningu Einsteins. Í raun og veru víkur hún að grundvallarþætti allrar mennskrar skynjunar á umhverfinu. Sama lögmálið liggur allri skynrænni reynslu okkar að baki. Þannig má segja að skynræn skynjun grundvallist á fortíðinni. Jafnvel hlutur sem stendur okkur næst í tíma og rúmi – líkt og önnur mannvera – er þannig fortíðarskynjun, þrátt fyrir að tímamunurinn sé allt annar en sá sem sjá má á myndinni eða 1/400.000, 000 úr sekúndu. Engu að síður er þessi tímamunur til staðar! Það er þessi skynjun sem kirkjufeðurnir til forna röktu til afleiðinga syndafallsins, að maðurinn hefði beðið svo mikið tjón að jafnvel skynsvið hans hefði skaddast stórlega: Að honum væri um megn að lifa í „núinu“ og það er einmitt á andartaki líðandi stundar þar sem við „heyrum til Drottins Guðs sem er á gangi í aldingarðinum í kveldsvalanum“ (spr. 1M 3. 8). (Mynd 10. 2).

Ef við gerum hins vegar ráð fyrir hraða ljóseinda utan rúms og tíma, þá er um allt aðra heildarmynd að ræða. Tilraunir Aspecthópsins í Belgíu árið 1982 leiddu í ljós það sem eðlisfræðingurinn Henri Stapp nefndi „þá uppgötvun vísindanna sem mest hefur breytt grundvallarskilningi manna.” Þegar heimspekingurinn Mortimer Adler útskýrði kenningar Tómasar frá Akvínó um tilfærslu engla í rúmi (þeir stökkva frá einum stað til annars) fyrir Niels Bohr, þá varð honum að orði: „Þetta er einmitt kjarninn í skammtafræði nútímans. Það var þá þrettándu aldar guðfræðingur sem uppgötvaði eitt af grundvallarlögmálum kjarneðlisfræði nútímans fyrir 700 árum!“ Tómas vék einmitt að því hvernig englarnir fara á milli staða í verki sínu „Summa Theologiae,“ en hér greinir hann frá því sem á máli eðlisfræði nútímans er nefnt skammtahlaup:

Ef hreyfing engils á sér stað samstundis, þá fer hann ekki um alla þá staði sem liggja á milli brottfarstaðarins og takmarksins. Þessi tegund hreyfingar – frá einni óravídd til annarrar í rúmi samstundis – er gerleg fyrir engil, en ekki líkama vegna þess að líkami ber ákveðna mynd og er staðbundinn og verður því að hlíta lögmáli staðarins í hreyfingum sínum . . . Engill getur hins vegar farið til ákveðins staðar að vild, annað hvort með því að fara um aðra staði eða ekki. [10]

Á skífu skammtaklukkunnar er ekki um neitt bil að ræða milli talnanna x og y. Það er þessi leyndardómur heims óræðra skammtahlaupa sem gerir jafnvel guðdómlegar opinberanir að möguleika og hið óvænta útilokar aldrei hið mögulega. Raunvísindi nútímans grundvalla heimsmyndunarfræði sína á þessari staðreynd, að alheimurinn hafi orðið til við Miklahvell og þenjist út frá einum upphafspunkti utan tíma og rúms. Veruleiki utan tíma og rúms gerir þannig guðdómlegar opinberanir að áþreifanlegum veruleika í lífi þeirra sem hrærast á því vitundarstigi sem nauðsynlegt er til þess að nálgast þennan sama veruleika sem er uppspretta allarar tilurðar og við nefnum Guð.

Maxímos játarinn (580-622) nefndi þannig eilífð Guðs „aïdiotis“ til aðgreiningar frá „aeon,“ því „totum simul“ sem hið skapaða, menn og englar upplifa, þegar þeir hrærast á hinni „komandi öld,” eilífð sem er eilífð með öðrum hætti en eilífð Guðs sem er án upphafs og enda, eilífð sem er ekki óendanleiki tímans í skynjun hins fallna eðlis, heldur inntak yfirskilvitlegrar tilvistar hinnar andlegu sköpunar. Það er að þessum sannleika sem hinir fornu kirkjufeður viku að þegar þeir ræddu um „ta mellonta,“ þá fyllingu sem væri í vændum á hinni komandi öld, öld aldanna (aiona aionoas). Fjölmargir þeirra sem halda dauðahaldi í nauðhyggju efnishyggjunnar eru afar fráhverfir slíkum skilningi á inntaki tímans sem endurspeglast í eftirfarandi orðum Gunnars Dals:

Með öðrum orðum. Efnið er skapað. Efnið kemur og fer. Tíminn er skapaður og hann líður undir lok. Hann kemur og fer. Og rúmið hefur ekki merkingu án tíma og efnis. Allt er þetta skapað. Allt þetta kemur og fer. [10]

Það var árið 1913 sem hollenski stjörnufræðingurinn Vesto Melvin Slipher veitti því athygli að nokkrar stjörnuþokur fjarlægðust jörðu á miklum hraða sem nam allt að 3, 6 milljónum kílómetrum á klukkustund. Hann greindi frá niðurstöðum sínum á fundi Bandaríska stjarnfræðifélagsins árið 1914 og meðal áheyranda hans var ungur maður, Edwin Powell Hubble að nafni, sem átti eftir að verja stærstum hluta starfsævi sinnar í að rannsaka þetta fyrirbrigði nánar. Smám saman komu sífellt meiri sannanir í ljós sem renndu stoðum undir þá skoðun, að athuganir Sliphers hefðu við rök að styðjast. Stærð alheimsvíðáttunnar tók að ljúkast upp fyrir mönnum þar sem fjarlægðir sem nema milljónum ljósára blöstu við sjónum, alheimur þyrpinga stjörnuþoka sem þenst út með margra milljóna kílómetra hraða á klukkustund eftir því sem fjær dregur jörðu.

Þetta er það sem vakti athygli tveggja bandarískra vísindamanna á sjöunda áratug s.l. aldar. Þeir Arno Penzias og Robert Wilson voru alls ekki að leita að sönnunum fyrir tilurð alheimsins þegar þeir voru að prófa nýtt loftnet til að nema x- og y-útvarpsbylgjur frá fjarlægum stjörnuþokum. En það sem kom þeim á óvart var undarlegt suð sem mátti greina í sífellu. Kunningi Penzias sagði honum af tilviljun frá fyrirlestri sem hann hafði hlustað á þar sem vikið var að þeim möguleika, að ef til vill væri unnt að greina þá geislun sem myndast hafði í upphafi tilurðar alheimsins út frá eldhnetti þeim sem var þar til staðar í öndverðu. Þetta var einmitt það sem þeir höfðu gert.

Það var svo árið 1937 sem Rússinn Alexander Friedmann og Belginn Georges Lemaitre lögðu fram kenningar sínar um Miklahvell og sjálfur Einstein neyddist til að viðurkenna útþenslu alheimsins, þrátt fyrir að hafa verið slíku mjög andvígur í upphafi. En engu að síður var það fyrst og fremst Niels Bohr sem umbylti öllum hugmyndum manna um grundvallargerð alheimsins. Þegar árið 1922 hafði hann fengið Nóbelsverðlaunin fyrir kenningar sínar um gerð og útgeislun atóma. Enn í dag er mönnum minnisstæðir fyrirlestrar hans við Berkelyháskólann miðsumars árið 1937. Þar talaði hann um byltingu, ekki byltingu kommúnista í Rússlandi tuttugu árum áður, heldur byltingu sem átti eftir að umbylta öllum hugmyndum manna fram til þessa í heimsmyndunarfræðinni. Bohr talaði um skammtafræðibyltinguna miklu sem grundvöll allra framfara í eðlisfræði.

Menn sátu agndofa undir fyrirlestrum hans og flykktust að honum að þeim loknum og lögðu fyrir hann spurningar um hin fjölþættustu efni. Eitt vakti undrun og það var sú staðreynd að Bohr minntist hvorki á stjarneðlisfræði né stjörnufræði. Þegar hann var inntur eftir því hvað byggi þessu að baki, þá svarði hann á hinni illskiljanlegu ensku sinni: „Svo lengi sem stjarneðlisfræðin og eindafræðin (particle physics) fallast ekki í faðma, þá er ekki mikilla framfara að vænta í heimsmyndunarfræði.“

Í afstæðiskenningu Einsteins gegnir massi efnisins veigamiklu hlutverki. Ljóseindin er hins vegar virkur skammtur efnis, án þess þó að vera efnisleg í hefðbundinni merkingu orðsins: Hún er án massa og það er einungis unnt að staðsetja hana sökum virkni hennar. Í raun og veru getum við einnig fullyrt þetta hvað varðar þann hluta raunheims okkar sem við nefnum skynheim. Það er einungis eftir að ljóseindin verður virk með því að erta sjónhimnu augans sem við getum farið að tala um sjónskynjun. Sama má segja um alla aðra skynjun okkar á veruleikanum: allt snýst hér um tíðni skammtasveiflna.

Hitaaflsfræðin (thermodynamics) leiðir okkur þannig þá staðreynd fyrir sjónir, að þegar orka er leyst úr læðingi, þá er áhrifum þessa lýst sem sínussveiflu ölduhreyfinga. (Mynd 10. 3). Þetta er dæmi sem við þekkjum vel frá því að við sátum á skólabekk. Þannig er sínusbogin eða sveiflan hin stærðfræðilega samsvörun við hringhreyfinguna, eins og sjá má á mynd 10. 3. Punkturinn P færist um hringferil sem táknaður er með tímahorninu. Hreyfing A er sett út með hliðsjón af tímalengd sem nefnd er sínusbogi hornsins (a) vegna þess að jafnan sem lýsir hreyfingunni felur í sér sínusinn af horninu (a). Það er með þessum hætti sem hitaaflsfræðin skilgreinir orku sem sínussveiflu. Sjálft efnið er í raun og veru það sem skammtaeðlisfræðin nefnir „frosið ljós.” Orka ljóssins er bundin í skammtasveiflum atóma og öreinda sem aftur er unnt að umbreyta í ljós.

Sjálfar frumefnisagnirnar umbreytast í ljóseindir (photons), rafsegulsvið geislunar eða bylgjusveiflna ljóss og orku. Hitaaflsfræðin greinir okkur einnig frá því að unnt sé að umbreyta einu afbrigði orku yfir í aðrar og að áþreifanlegasta mynd orkunnar birtist í eldi. Hún greinir okkur frá því að bylgjutíðni hitaorkunnar sem falin er í hinu „frosna ljósi“ efnisins nemi einungis staðar í hinu algilda núlli, hinni fræðilegu skilgreiningu á þeim takmörkum þar sem bylgjutíðni hitaorkunnar hættir að vera virk. En þrátt fyrir það er orkan engu að síður til staðar í efnasamböndum, í atómum efnisins og öreindum. Sjálf ljóseindin er skilgreind sem „eind eða ljóseining, skammtur rafsviðssveiflu sem býr yfir orku sem svarar til samtölu tíðnisveiflnanna eða svonefnds Planckstuðulsins.

Í raun og veru dregur skammtafræðin upp fyrir okkur mynd af alheimi sem er samsettur úr ótalmörgum sviðum orku í ýmsum myndum, annað hvort sem ljós, efnismassi eða sveiflutíðni rafbylgna og útvarpsbylgna og ef okkur gæfist tækifæri til þess eitt andartak að sjá allar þær orkusveiflur sem eru í nánasta umhverfi okkar, þá myndu þær skipta þúsundum, bylgjur sem væru annað hvort komnar frá nálægum útvarpstöðvum eða frá fjarlægum stjörnuþokum í víðáttu geimsins. En þrátt fyrir að allar þessar orkusveiflur séu okkur ósýnilegar með öllu, þá eru þær engu að síður til staðar og greina okkur einfaldlega frá því að skyngetu mannsins eru takmörk sett.

Eitt af því sem kemur mörgum á óvart er sú staðreynd að það sem við teljum vera fullkomið tóm og myrkur, það er að segja sjálft svartnætti himinhvolfsins, býr yfir orku sem er svo mikil að hver rúmsentímetri þessa „tóms“ nægði til að skapa heilt sólkerfi á borð við okkar eigið. Það er þannig skammtafræðin sem leiðir okkur að nýju til heimsmyndar sem greindi frá alheiminum sem ölduhreyfingu út frá einum frumgeranda, heimsmyndar þeirrar sem skipaði veglegan sess í hugum manna eins og Tómasar frá Akvínó á þrettándu öld – öld trúarinnar – heimsýnar sem greindi bæði frá alheiminum sem efnislegum og andlegum og ósýnilegum veruleika, kenningu sem hreyf Niels Bohr svo mjög þegar honum var greint frá kenningum Tómasar, að hann hikaði ekki við að nefna hann „föður skammtafræðinnar.“ (Mynd 10. 4).

Stig af stigi nálgumst við þannig þá sömu heimsmyndunarfræði sem prestkonungar Adamskynslóðarinnar boðuðu á jörðu og var grundvöllur allrar samfélagsgerðar manna allt frá Írlandi til Kína til forna! Þetta er heimsmynd þar sem sjálf samfélagsgerðin er ávöxtur lífgeislunar sem glædd er með lofgjörð eins og sjá má í á Mynd 9.5 í lok greinar 8 hér að framan. Við skulum íhuga þetta orð „lífgeislun“ nánar vegna þess að það er mikilvægt í þessu sambandi. Það skulum við gera í næstu grein. Hvað boðar kirkjan okkur í Trúfræðsluritinu hvað lýtur að englunum:

Tilvera andlegra vera, án líkama, sem Heilög Ritning kallar venjulega “engla” er trúarsannleikur. Vitnisburður Ritningarinnar er jafn skýr og erfikenningin er samhljóma. Hverjir eru þeir? Þetta segir heilagur Ágústínus: „Englar“ er nafnið á stöðu þeirra en ekki eðli. Ef þú leitar að nafni á eðli þeirra þá er það „andi“, ef þú leitar að nafni á stöðu þeirra þá er það „engill“: eftir því sem þeir eru, er það „andi“, eftir því sem þeir gera, er það “engill.“ Í allri sinni verund eru englarnir þjónar og boðberar Guðs. Vegna þess að þeir “sjá jafnan auglit míns himneska Föður” (Mt 18. 10) eru þeir “voldugar hetjur er framkvæma boð hans er þeir heyra óminn af orði hans” (Sl 103. 20). Sem hreinar andlegar skapanir hafa englarnir vitsmuni og vilja: Þeir eru persónulegar og ódauðlegar skapanir, og standa framar öllum sýnilegum sköpunum í fullkomnun eins og ljómi dýrðar þeirra ber vott um (Dn 10. 9)

Kristur er í miðju englaheimsins. Þeir eru englar hans: „Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum….“ (Mt 25. 31). Þeir tilheyra honum því að þeir voru skapaðir fyrir hann og til hans: „Enda var allt skapað í honum í himnunum og á jörðinni, hið sýnilega og hið ósýnilega, hásæti og herradómar, tignir og völd. Allt er skapað fyrir hann og til hans“ (Kol 1. 16). Þeir tilheyra honum enn nánar vegna þess að hann hefur gert þá að boðberum fyrirætlunar sinnar um hjálpræðið: „Eru þeir ekki allir þjónustubundnir andar, útsendir í þeirra þarfir sem hjálpræðið eiga að erfa?” (Heb 1. 14).

Frá sköpuninni og allt í gegnum hjálpræðissöguna hafa englar verið nærtækir til að kunngera, úr nálægð eða fjarlægð, þetta hjálpræði og aðstoða við fullnustu hinnar guðdómlegu fyrirætlunar. [9]

Á fyrri hluta tuttugustu aldar (Mynd 10. 5) uppgötvuðu fornleifafræðingar menjar samkunduhúsa í Gallíleu frá því tímaskeiði sem kom í kjölfar eyðingar annars musterisins (70 e. Kr.). Þau áttu það sameiginlegt að í gólfum þeirra, líkt og í samkunduhúsinu í Bet-Alpha mátti sjá mósaíkmyndir af 12 merkjum dýrahringsins ásamt vindum himins (Sk 2. kafli) eða hinum fjórum verndarenglum jarðarinnar nákvæmlega eins og þau eru í dag. Akkadar í Súmer nefndu slíka hringi „mazulla“ sem lifði áfram í hebreskunni sem „mazlot“ eða vernd, gæfa. Í reynd þekktu Súmerar vel til dýrahringsins og elstu heimildirnar sem fundist hafa um tilvist hans eru frá því um 3800 f. Kr. frá Nippur. Hin súmersku nöfn voru:

Gu. anna (hið himneska naut) – Nautið.
Mash.tab.ba (tvíburarnir) – Tvíburarnir.
Dub (klemman) – Krabbinn.
Ur.gula (ljónið) – Ljónið.
Ab.sin (faðir Sins) – Meyjan.
Zi.ba.an.na (himnesk lög) – Vogin.
Gir.tab (níðhöggurinn) – Krabbinn.
Pa.bil (verjandinn) – Bogamaðurinn.
Suhur.mash (fiskarnir) – Fiskarnir.
Gu (herra vatnsins) – Vatnsberinn.
Sim.mah – (fiskarnir) – Fiskarnir.
Ku.mal (akurbúinn) – Hrúturinn.

Fjölmargt bendir til þess að Súmerar hafi þekkt til bakgangs stjörnumerkjanna sem er 2160 ár og að hann hafi legið til grundvallar helgisiðahring Enoks prestkonungs þar sem tími bakgangs stjörnumerkjanna er 18 x 120 ár. Það var stöðugur gangur himintunglanna sem fylgdu eilífum hringferli sínum sem opinberaði „Sonum réttlætissólarinnar“ hring alheimslögmálsins mikla: Me. Það voru merki dýrahringsins (zodiac) og bakgangur þeirra sem varð prestkonungum Adamskynslóðinni að tákni afturhvarfs mannsálarinnar til sinnar sönnu verundar og guðdómlegs uppruna, en sjálf sólin varð að hinu mikla Messíasartákni, Sjödægrasól (Jes 31. 2) allrar sköpunar. Það var með sólmiðjuninni (perihelion) sem Adamskynslóðin lagði áherslu á að hinn Eini og sanni Guð – Ilu (El) væri þungamiðja allrar sköpunar og boðaði jafnframt, að þessi sól ætti eftir að birtast á jörðu í mennskri mynd rúmum fjögur þúsund árum áður en Kristur birtist í holdtekju sinni á jörðu.

Prestkonungurinn Enok deildi dýrahringnum í fjóra fjórðunga (90°) hvarfskila árstíðanna sem mörkuðust af stjörnumerkjunum Ljóninu, Nautinu, Vatnsberanum og Sporðdrekanum. Höfuðstjörnur þessara stjörnumerkja urðu þannig að táknum hinnar heilögu fjórðungsskiptingar eða að konungstjörnum himinhvolfsins og Messíasartáknum, það er að segja, Regulus, Aldebaran, Fomalhaut og Antares. Það var sólbrautin sem endurspeglaði djúpstæðustu þætti trúarafstöðu þessarar liðnu kynslóðar, en jafnframt varð sólin henni að tákni sjálfs lífshrynjanda náttúrunnar. Hringurinn í samkunduhúsinu í Bet-Alpha boðar okkur hið sama og Hippólýtus kirkjufaður (170-236): „Apo tón astrón tas psychas tón zóón feresþai“ (sálirnar meðtaka lífsmátt sinn frá stjörnunum) [10] eða hið sama og Enok: EN.ME.DUR.AN.KI (Æðstiprestur „me“ sem vilja Guðs á jörðu). Við skulum íhuga þetta enn frekar í næsta kafla.

[1]. R. Jastrow, God and the Astronomy, bls. 14-16.
[2]. Sama verk, bls. 116.
[3]. Síðar mun ég víkja athygli á því að þegar prestkonungarnir komu til Fornegyptalands í lok fjórðu aldar fyrir Krist gerðu þeir þær þrjár stjörnur sem sjá má í „belti“ stjörnumerkisins að leiðarstjörnum til þessa opinberaða sannleika.
[4]. Hómalíubók, Um Sancte Cruce (Um heilagan kross).
[5]. Key to Secret Patterns, bls. 192.
[6]. From Eden to Exile, bls. 6.
[7]. The Book of Enoch, II. 1.
[8]. Gunnar Dal, Lögmálið um velgengni, bls. xvii.
[9]. 328-332.
[10]. Fílósofúmena, VI, 25.

2 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Þarna er mikill fróðleikur saman kominn. Ekki vissi ég að það var anómalían á braut Merkúrs sem ásamt öðru trúlega rak Einstein áfram í rannsóknum sínum.

Við fyllumst undrun yfir þeirri staðreynd að í fábrotnustu DNA keðjum stöndum við frammi fyrir „afkastagetu“ sem jafnast á við það að allir símar Bandaríkjamanna myndu hringja samtímis í eina og sömu símstöðina

Já, þetta er athyglisvert. Við vitum að lífið þróast en um uppruna þess er flest á huldu, þ.e. hvað það er í náttúrunni sem fær lífrænt efni til að raðast upp í dna keðjur sem geta svo afritað sig sjálfar í æxlun lífvera. Þó það virðist óralangt frá forfeðrum mannanna til nútímans þá er gapið þarna á milli kannski allt eins stórt eða stærra.

07.10.07 @ 20:26
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Já, slíkar staðreyndir vekja alltént lotningu hjá mér gagnvart himnasmiðnum mikla. En líklega telja Hjálmar Sveinsson þáttagerðarstjórnandi og Vantrúarmenn slíkan hugsanahátt stórvarasaman, ef ekki fordæmanlegan. Í reynd voru það orð sjálfs Krists sem urðu mér tilefni til þessarar og næstu greinar:

„Auga þitt er lampi líkamans. Þegar auga þitt er heilt, þá er og allur líkami þinn bjartur, en sé það spillt, þá er og líkami þinn dimmur. Gæt því þess, að ljósið í þér sé ekki myrkur. Sé því líkami þinn allur bjartur og hvergi myrkur í honum, verður hann allur í birtu, eins og þegar lampi lýsir á þig með loga sínum.“ (Lk 11. 34)

Eða hvað sá Motovilov gerast í samtalinu við heil. Serafim frá Sarov: Líkama í ljósi. Er þetta ekki endanlegt takmark sköpunarverksins: Að uppljómast?

Ég vil vekja enn einu sinni athygli á reglunum sem gilda á þessu vefsetri: Nafnlausar athugasemdir er ekki hirt um hér hjá okkur.

07.10.07 @ 21:21