« Fagráð Kaþólsku kirkjunnar innkallar kröfur vegna kynferðisbrotaStofnandi Domino's Pizza stofnaði kaþólskan háskóla »

05.01.13

  10:31:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1020 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi, Jólin

Prédikun séra Jakobs Rollands í útvarpsmessu 30. des. 2012

Útvarpsmessa sunnudaginn 30. desember 2012
Dómkirkja Krists konungs
Séra Jakob Rolland

Kæru bræður og systur í Kristi,
góðir hlustendur nær og fjær.

Á þessum síðasta sunnudegi ársins er okkur ljúft að dveljast um hríð
við jötu Frelsarans í fjárhúsinu í Betlehem. Við höldum jólahátíð ekki
eingöngu á einum degi heldur í tvær vikur. Það er eins og heilög
kirkja sé hugfangin af öllu því sem gerðist kringum fæðingu Drottins
og hún veltir fyrir sér aftur og aftur þeim atburðum sem breyttu rás
sögunnar og færðu mannheimi nýja von. Oss er Frelsari fæddur. Nafn
hans er Immanúel, Guð með oss.

Séra Jakob Rolland

En í dag viljum við beina athygli okkar sérstaklega að heilagri
fjölskyldu, að Jesú, Maríu og Jósef. Jesús hefði getað komið í heiminn
sem fullvaxinn maður, en ekki sem barn. Hann hefði meira að segja
getað endurleyst heiminn með einu bænarorði án þess að þurfa að taka á
sig erfiði og þjáningar. Það hefði nægt að segja við Föðurinn á
himnum: Faðir, fyrirgefðu þeim, þeir vita ekki hvað þeir gera. Með
slíkri bæn hefði Jesús þegar fullnægt öllu réttlæti og komið á sáttum
milli Guðs og manna. En Jesús valdi aðra leið. Hann gerðist lítið
barn, hann fæddist í fjárhúsi, fátækur og umkomulaus, ósjálfbjarga
eins og öll mannanna börn sem fæðast í þennan heim. Hann þurfti á
skjóli fjölskyldunnar að halda, hann upplifði sjálfur allt það sem
færir mannlegum fjölskyldum bæði gleði og sorg, hið blíða og hið
stríða. Með því að lifa meginhluta ævi sinnar innan vébanda
fjölskyldunnar helgaði hann fjölskyldulífið og setti þar með
forgangsröð í endurlausnarverki sínu. Fjölskyldan er vettvangurinn þar
sem Guð er með oss, þar sem Drottinn opinberar nærveru sína og
kærleika, þar sem helgun mannssálarinnar á sér stað, þar sem dyggðir á
borð við réttlæti, hófsemi, miskunn, fyrirgefningu og örlæti mega
njóta sín og blómgast.

Fyrsta verkefni Jesú hér á jörðu felst í því að
helga fjölskyldulífið og það gerir hann ekki með einu orði eða einni
setningu heldur með því að lifa í meira en þrjátíu ár í hljóði í sinni
fjölskyldu. Forgangsröðin liggur þar, svo að ekki verður um villst. Og
forgangsröðin liggur þar hjá okkur. Helgun fjölskyldunnar er allra
fyrsta verkefnið sem kristnir menn taka á sig, umfram öll önnur. Ef
friður jólanna á að færast inn í okkar heim, inn í landið okkar, inn á
heimili okkar, þá verðum við að byrja á því að hlúa að fjölskyldunni
og leggja rækt við það hugarfar og þá siði sem vernda og fóstra
heilbrigt og hamingjusamt fjölskyldulíf. Allt hitt, sem við lesum um
kristindóminn, svo sem bænin, guðræknin, hjálpsemin og
mannkærleikurinn, sprettur af kærleikanum sem við fáum að gjöf í
fjölskyldunni. Jesús færir heiminum frið, varanlegan frið, en þessi
friður verður að veruleika eingöngu á vegum fjölskyldunnar. Þetta er
leiðin sem Frelsarinn valdi.

Því er í dag tilvalið að þakka Guði af öllu hjarta fyrir gjöf
fjölskyldunnar. Við megum til með að þakka fyrir allt það sem
fjölskyldur okkar hafa gefið okkur, allt frá fyrstu dögum ævinnar.
Væntumþykja, umönnun og kærleikur eru vöggugjöf, bæði frá eigin
fjölskyldu og einnig frá öðrum fjölskyldum kringum okkur. Ekki verður
nógsamlega þakkað fyrir það sem feður, mæður og systkini gefa af sér
til þess að hvert mannsbarn fái að alast upp í hlýju umhverfi og
upplifi það andrúmsloft kærleikans sem eingöngu fjölskyldan veitir.

En um leið og við þökkum fyrir það liðna verður okkur einnig hugsað
til framtíðarinnar, og þar getum við ekki horft framhjá þeim hættum
sem ógna friðhelgi fjölskyldunnar.

Vantar ekki eitthvað upp á hjá okkur? Er ekki þörf fyrir það að við,
sem myndum þetta þjóðfélag, vökum til meðvitundar og setjum aftur
rétta forgangsröð í lífi okkar? Er ekki kominn tími til að hlúa að
fjölskyldunni og kenna yngri kynslóðinni að bera djúpa virðingu fyrir
öllum þeim dyggðum sem nauðsynlegar eru til þess að byggja upp farsælt
fjölskyldusamfélag? Hvað um hjálpsemi, um fórnfýsi, um örlæti, um
auðmýkt, um hreinlífi, um virðingu fyrir eigin líkama og líkama
annarra? Því miður heyrum við miklu oftar að unga fólkið sé hvatt til
þess að njóta lífsins, jafnvel á kostnað náungans ef þörf krefur, og
það er blekkt með ýmsum fölskum fyrirheitum. Taumlausu lauslæti og
lostafullri girnd er gert hátt undir höfði, oft með samþykki
yfirvalda, án þess að nokkur maður þori að láta til sín heyra og
mótmæla. Háar fjárhæðir eru lagðar í það að blekkja unga fólkið og
spilla saklausum sálum.

En er allt kærleikur sem fær nafnið ást? Lauslæti lítur út eins og
ást, en er alls óskylt ástinni, rétt eins og falsaður dollaraseðill
lítur út eins og dollaraseðill en er það ekki, heldur fölsun sem er
einskis virði. Ást án ábyrgðar, án skuldbindingar, án virðingar
náungans, er ekki ást heldur fölsun. Ást sem kostar ekki neitt er
einskis virði, hún er eins og falsaðir peningar, og sá sem vill byggja
ríkidæmi sitt á fölsuðum peningum er heimskur. Sá sem leitar
hamingjunnar í taumlausri nautn líkama síns er heimskur, hann fær
engan kærleika til baka og endar bláfátækur í einsemd sinni. Á ég að
samþykkja þegjandi þessa fölsun? Nei, takk. Á ég að samþykkja að heil
kynslóð fari vill vegar og sé vísvitandi svipt þeim réttindum að alast
upp við dyggðir og virðingu? Nei, takk. Má ég þegja við unga fólkið um
þau gildi sem mynda grunn fjölskyldunnar? Má ég bannfæra umræðuna um
hreinlífið, um sakleysið, um það sem göfugt er og fallegt og byggir
upp ungar sálir? Nei, takk.

Boðskapur jólanna er skýr, í dag eins og fyrir 2000 árum. Við öll
þráum frið innst í hjörtum okkar, en þessi friður byrjar í fjölskyldu
okkar, alveg eins og Jesús Kristur byrjaði endurlausnarverk sitt í
heilagri fjölskyldu. Móðir Teresa frá Kalkútta sagði oft: Friður í
heiminum, friður í hjörtum yðar, friður í fjölskyldum yðar: elskið
litlu börnin. Biðjum litla barnið í Betlehem að hjálpa okkur að opna
hjörtu okkar fyrir nærveru hans og undrast þetta kraftaverk sem
fjölskyldan er. Biðjum hann um að helga fjölskyldur okkar, að hjálpa
þeim að yfirvinna erfiðleika líðandi stundar og láta ekki hugfallast
þegar sorgin ber að dyrum. Biðjum innilega að nýja árið færi okkur
hamingju og að fjölskyldur okkar megi vaxa í ást og samlyndi og vera
okkur öllum griðastaður kærleikans.
Amen.

No feedback yet