« Frá Meðugorje og KróatíuHl. Jóhanna af Örk »

19.06.05

  17:12:58, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1869 orð  
Flokkur: Pílagrimsferðir

Pílagrímsferðir og suðurgöngur

Grein þessi birtist í Kaþólska kirkjublaðinu í september 1992.

Pílagrímsferð er það kallað þegar kaþólskir eða meðlimir rétttrúnaðarkirkjunnar fara í ferðalag til helgistaðar að gera þar bæn sína í von um andlegar eða líkamlegar náðargjafir, í þakkargjörðarskyni, í yfirbótarskyni, eða einfaldlega vegna mikils trúarlegs eða menningarlegs áhuga. Heimildir eru um pílagrímsferðir kristinna manna til Jórsala (1) þegar á 2. öld og fornleifarannsóknir í Péturskirkjunni í Róm árið 1940 benda til pílagrímsferða að gröf Péturs postula á 2. öld. Á 3. öld er vitað um fólk sem var líflátið fyrir að biðjast fyrir við gröf Péturs postula.

Í kirkjualmanaki frá árinu 354 eru taldir upp 29 staðir þar sem fólk safnaðist saman til að minnast helgra manna. Frá því um lok 4. aldar er til bréf frá tveim dýrlingum, hl. Pálu og hl. Eustochium þar sem segir: „Þeir sem göfugastir vilja vera í Gaul fara þangað [til Palestínu]. Og Brittannía, þó aðskilin sé, hraðar sér frá sólseturslandi sínu til þessara helgistaða sem hún þekkir aðeins vegna ritninganna." Ennfremur eru þjóðirnar nefndar sem þangað fara: Armenar, Persar, Indverjar, Eþíópíumenn og margar aðrar. Í bréfi þessu er ennfremur sagt að frá uppstigningardegi Krists til ritunardags hafi biskupar, píslarvottar, kennifeður og flokkar trúaðra farið til að sjá steinana helgu í Betlehem þar sem Kristur hafi gengið.

Miðaldir

Á 12. öld, blómaskeiði íslenskra miðalda, var kirkjan tekin að eflast á Íslandi og pílagrímsferðir komust í tísku. Fólk streymdi til biskupssetranna á stórhátíðum og fór einnig utan og jafnvel alla leið suður til Rómar eða Jórsala. Á meginlandi Evrópu voru ferðir pílagríma frá ýmsum löndum svo fjölmennar að á pílagrímaleiðum voru gistihús, sem sérstaklega voru reist fyrir þá. Í nokkrum tungumálum eru sagnorð sem lýsa ferðalögum mótuð af nafni Rómaborgar (2). Til er leiðarlýsing handa norrænum pílagrímum til Rómar og Landsins helga rituð af Nikulási ábóta á Munkaþverá (d. 1159), „Leiðarvísir og borgarskipan." Í þeirri lýsingu er Rín fylgt þegar komið er framhjá Meginsoborg (3), farið framhjá Genfarvatni og yfir Alpana á St. Bernharðsskarði. Þetta er eina leiðarlýsing pílagríma sem varðveist hefur í heilu lagi frá miðöldum og auðvelt er að rekja leiðina nokkuð nákvæmlega til Rómar. Leifar af leiðarlýsingu hafa varðveist í einni uppskrift Hauksbókar, en þar liggur leiðin mun austar eða gegnum Brennerskarð. Þá voru nöfn íslenskra pílagríma, líklega í hópferð, skráð i gestabók í klaustrinu á Auðguey í Botnsjó (4), sem er hluti af vatnasvæði Rínar ekki langt frá Boslaraborg(5). Í þeirri bók er að finna vísbendingar um 30 stærri eða minni hópa af norrænum(6) uppruna, alls um 670 nöfn. Fljótt á litið virðast vera ívið fleiri karlanöfn. Vitað er að Páll Jónsson biskup varð að takmarka utanferðir presta svo að ekki skorti kennimenn. Vitað er um fræga Íslendinga sem gengu suður. Sturla Sighvatsson gekk suður fyrir mótgerðir sínar við Guðmund biskup góða, leiddur berfættur milli alla kirkna í Rómaborg og flengdur frammi fyrir höfuðkirkjum, eins og maklegt var talið. Hrafn Sveinbjarnarson á Eyri fór um 1195 til Kantarabyrgis (7) og Kompóstelu (8). Í Grænlendinga sögu er frá því sagt að Guðríður Þorbjarnardóttir kona Þorfinns karlsefnis, sú er fór með honum til Vínlands, gekk suður og gerðist síðan einsetukona (9) þegar heim kom. Í byrjun 15. aldar er svo Björn Jónsson Jórsalafari, sem fór sína ferð 1406, svo tekin séu nokkur dæmi. Allur þorri manna gat ekki lagt í svo langar ferðir sér til sálarheilla og varð að láta sér nægja íslenska helgistaði, en hér var Skálholt með Þorláksskríni í dómkirkju mestur helgistaður eftir 1200. Suðurgöngum fór fækkandi á 13. öld, en þó er vitað um suðurferðir, einnig á 14. öld.

Á miðöldum hóf pílagrímurinn ferð sína með blessun prests. Hann klæddist flík með ísaumuðum krossi, bar staf og skreppu (10). Á heimleiðinni bar hann svo á hattinum merki helgistaðarins. Til er ljóð á gamalli ensku sem lýsir þessum búnaði, því miður brestur ritara þessara orða þekkingu til að snara þessu svo vel fari en gaman væri ef kunnáttumenn meðal lesenda spreyttu sig á þessu og sendu Kirkjublaðinu þýðinguna til birtingar síðar.

A bolle and a bagge
He bar by his syde
And hundred ampulles;
On his hat seten
Signes of Synay,
And Shelles of Galice,
And many a conche
On his cloke,
And keys of Rome,
And the Vernicle bi-fore
For men sholde knowe
And se bi hise signes
Whom he sought hadde (11)

Á miðöldum var mikill fjöldi helgistaða á meginlandi Evrópu. Þeir þóttu bestir sem gerðu tilkall til að eiga gripi sem tengdust Kristi eða postulunum á einhvern hátt. Oft gekk þetta út í öfgar því að mikið var í húfi að laða að flokka pílagríma til að örva viðskipti og efla staðina. Þannig hefur orðið til aragrúi af meintum helgum dómum sem ekkert eru nema falsanir. Það hefur að sjálfsögðu grafið undan trúverðugleika allra slíkra menja. Þessar öfgar, ásamt fleirum, svo sem hneykslanlegu framferði pílagríma (12), ollu deilum og gagnrýni meðal kirkjunnar manna á pílagrímsferðir löngu fyrir daga mótmælenda og urðu þess valdandi að það dró úr ferðalögunum, amk. langferðum. Meðal almennings hafa pílagrímsferðir samt verið vinsælar því að ekki mæltist vel fyrir þegar róðukrossinn í Kaldaðarnesi í Flóa, sem menn höfðu fest mikla helgi á, var tekinn niður af Gissuri siðskiptabiskupi Einarssyni veturinn 1548.

Viðhorf mótmælendafrömuða 16. aldar til pílagrímaferða kemur skýrt fram í Ágsborgarjátningunni (1530) þar sem pílagrímsferðir eru sagðar „einskisnýtur barnaskapur". Þó að mótmælendur heimsæki staði eins og t.d. gröf Lúters er ekki litið á það sem kristna skyldu, né trúarlega athöfn sem hafi andlegar náðargjafir í för með sér. Ekki er heldur litið á slíka staði sem helgistaði þar sem kraftaverk verði. Kalvín lét grafa sig á óþekktum stað til að koma í veg fyrir pílagrímsferðir. Það dugði þó ekki til, því að veglegt minnismerki var reist á þeim stað sem talið er að hann sé grafinn.

Pílagrímsferðir nútímans

Meðal kaþólskra nútímamanna njóta pílagrímsferðir bæði vinsælda og virðingar. Fólk úr kaþólsku kirkjunni á Íslandi hefur farið nokkrum sinnum í hópferð til kristinna helgistaða og er skemmst að minnast ferðar Píló nú í haust til Rómaborgar. Innanlands hefur nokkrum sinnum verið farið í krossgöngur að krossinum í Riftúni í Ölfusi og etv. víðar.
Páfi, kardínálar, biskupar, prestar og leikmenn fara í ferðir til helgistaða. Ratzinger kardínáli fór t.d. nýlega til Landsins helga í pílagríms- og hvíldarferð. Af hálfu Páfagarðs þótti sérstök ástæða til að lýsa því yfir að för hans hefði engan pólitískan tilgang. Jóhannes Páll páfi fer iðulega í pílagrímsferðir. Sumarið 1989, þegar hann var nýkominn frá Íslandi og Norðurlöndunum fór hann t.d. til Kompóstelu. Við það tækifæri sagði hann: „ Ég er hingað kominn til að styrkja þá sannfæringu ykkar að kirkjan er pílagrímsþjóð Guðs. Það var ekki að ástæðulausu að hinir frumkristnu voru kallaðir ferðalangar. Á ferðalagi sínu um stígu sögunnar lætur kirkjan ekki af því að játa stöðugt nærveru Jesú frá Nasaret, þar sem pílagrímurinn dularfulli á Emmausleið, er stöðugt nálægur á vegferð sérhvers kristins manns. Hann slæst í för með sínum, upplýsir þá með hinu ljómandi orði og .. nærir þá með brauði eilífs lífs." (13)

Í ágústtölublaði Kaþólska kirkjublaðsins frá í fyrra segir Alfreð biskup Jolson frá því er hann fór með meira en 100 pílagrímum frá Norðurlöndunum til Lourdes í Frakklandi: „Pílagrímarnir úr norðri ... fengu nýja innsýn í kaþólsku þeirra þjóða sem að meirihluta eru kaþólskar. Hinar örsmáu dreifðu kirkjur Norðurlandanna færðu einnig nýjan og dýpri skilning til fjölmargra í Lourdes."

Við hæfi er að enda þennan pistil með sálmi nr. 96 úr sálmabók Þjóðkirkjunnar en í honum kemur fram sama hugmynd og í orðum páfa í Kompóstelu þar sem ævi kristins manns er líkt við vegferð, pílagrímsferð sem endar í paradís.

Fögur er foldin,
heiður er Guðs himinn,
indæl pílgríms ævigöng.
Fram, fram um víða
veröld og gistum
í Paradís með sigursöng.
Kynslóðir koma,
kynslóðir fara,
allar sömu ævigöng.
Gleymist þó aldrei
eilífa lagið
við pílagrímsins gleðisöng.

(1) Jerúsalem, nafngift Leiðarvísis. Nafngiftir Leiðarvísis eru útaf fyrir sig verðugt rannsóknarefni. Ein skemmtilegasta nafngift Leiðarvísis er t.d. á borginni Paderborn í Þýskalandi en hún fær hið góða nafn „Pöddubrunnar."
(2) Í gamalli frönsku romieu, í spænsku romero, í portúgölsku romeiro, í miðaldaensku romen, í nútímaensku to roam.
(3) Mainz í Þýskalandi, nafngift Leiðarvísis.
(4) Reichenau í Bodensee, Þýskalandi. Nafngift RB til að gæta samræmis.
(5) Basel, nafngift Leiðarvísis.
(6) Frá Norðurlöndunum, erfitt að greina þjóðernið nákvæmlega, en þó eru einhver íslensk því yfir einni færslunni stendur „Hislant terra".
(7) Canterbury á Englandi. (Nafngift Leiðarvísis)
(8) Nafngift Halldórs Laxness úr Birtíngi (?) á St. Jago eða Santiago de Compostela á Spáni, samkvæmt helgisögn gröf hl. Jakobs postula hins meiri.
(9) Nunna? Í Grænlendinga sögu, sem og fleiri öðrum er vart hægt að greina milli skáldskapar og staðreynda.
(10) Pokaskjatti.
(11) Piers Plowman, ed. Wright, London, 1856, I, 109. Úr kaþólsku alfræðibókinni frá 1912.
(12) Eins og Kantarabyrgissögur eftir Chaucer sýna.
(13) L´Oss. Rom, ensk útg. 1989, nr 35, 28. ágúst bls. 2

RB tók saman, Helstu heimildir: Brittannica-alfræðibókin, Kaþólska alfræðibókin, Leiðarvísir og borgarskipan útg. með Sturlunga sögu af forlaginu Svart á Hvítu, Íslensk miðaldasaga e. Björn Þorst., Nordiske Pilagrimsnavne i Broderskabsbogen fra Reichenau e. Finn Jónsson og Ellen Jörgensen auk fleiri rita.

No feedback yet