« Pílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 10. kafliPílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 8. kafli »

23.06.07

  08:38:11, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1980 orð  
Flokkur: Pílagrimsferðir, Meðugorje

Pílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 9. kafli

23. júní. Föstudagur.

Lögðum upp um 8.30. Keyrðum eftir ströndinni framhjá Zadar og Split. Síðan var beygt til vinstri inn til landsins. Við þræddum ása og lág fjöll. Milli þeirra voru þorp og bæir. Moskur múhameðstrúarmanna voru áberandi í þorpunum. Við vorum kominn inn á það landssvæði sem tyrkjasoldán réði yfir fram á 20. öldina. Loks síðdegis beygðum við til hægri í norðurátt yfir lítið fjall, eyðilegt, beygðum aftur til vinstri, ókum í gegnum bæinn Citluk, og héldum út úr honum í suðvesturátt, þá búin að taka heilan krók.

Þetta var sveitavegur, mjór en malbikaður. Þegar við höfðum keyrt í 5-10 mínútur komum við að gulum oddmjóum vegvísi, eins og víða tíðkast í sveitum á Íslandi. Hann hallaðist meira að segja eins og allir ekta vegvísar eiga að gera. Á gulu spjaldi stóð orðið „Meðugorje“. Mér fannst mikið til koma að sjá bókstafinn „ð“ þarna inni í miðri Bosníu, og ég sem hélt að þetta „skrýtna d“ eins og það er kallað af mörgum, væri jafn rammíslenskt og skyr og harðfiskur. Þar sem heimspressan og skrifvélar stórþjóðanna eiga ekki þennan bókstaf, hefur þetta litla þorp orðið kunnugt út um allan heim undir nafninu „Medjugorje“, sem hljómar eins þegar það er lesið á ensku og „Meðugorje“ þegar það er sagt á króatísku. Ég spurði konu eina seinna hvernig ætti að segja „ð“ á króatísku, og hún sagði „dsj." Til Meðugorje komum við svo loksins um kl. 16. Eftir að hafa afhent vegabréfin aftur tjölduðum við á nýju tjaldsvæði, sem nýlega var búið að leggja í rjóðri, um það bil þrjá kílómetra frá Jakobskirkjunni. Þetta tjaldsvæði var lagt möl, en það efni þykir næstbest á eftir steinsteypu til að tjalda á í þessu landi. Það skýrist þegar litið er á jörðina sem er hnúskótt með afbrigðum vegna grjóthnullunga og trjáróta. Þetta var opinbert tjaldstæði og sjálfsagt undir vernd lögreglunnar, sem ferðaðist um á bláum Zastövum með orðið Milicija ritað á hliðarnar með hvítum stöfum. Við höfðum heyrt sögusagnir um að nokkrum árum fyrr hefði lögreglan tíðkað það að koma að tjöldum fólks á næturþeli og rífa þau niður. Ekki bar á neinu slíku núna, reyndar var lögreglan þarna svo upptekin að stjórna umferð mannhafsins að ég efast um að þeir hafi verið til stórræðanna á næturnar.

Þar sem saga vitrananna í Meðugorje hefur verið lýst í fjölda bóka, ætla ég ekki að gera það hér, en læt örfá orð nægja.

Síðla dags hinn 23. júní 1981 héldu sex börn í þessu þorpi fram að þau hefðu séð hvítklædda konu. Foreldrar þeirra reyndu að þagga málið niður en allt kom fyrir ekki. Þau staðhæfðu að konan birtist þeim á hverjum degi. Fljótlega kom málið til yfirvalda kaþólsku kirkjunnar á staðnum, sem þegar í stað hóf rannsókn. Borgaraleg yfirvöld staðarins sem þá voru kommúnísk reyndu allt hvað af tók að koma í veg fyrir áframhaldandi samkomur barnanna sem og að þetta spyrðist út en allt kom fyrir ekki. Zanic kaþólski biskupinn í Mostar taldi að um blekkingar væri að ræða og hann mun hafa reynt að leggja hömlur á kirkjulegar samkomur vegna þessa. En fljótt kom í ljós að ekkert varð við mannfjöldann ráðið. Málið var seinna tekið úr höndum biskupsins og fært í hendurnar á sérstöku rannsóknarráði. Þetta ráð hefur þegar þetta er skrifað (1992) ekki bannað kirkjulegar samkomur á svæðinu en mun halda rannsókn meintra fyrirbæra áfram meðan þau vara. Þannig stóðu málin þegar við tjölduðum þennan sama dag, 8 árum síðar og keyrðum til kirkjunnar, í suðausturátt, fannst mér. Þá þegar var mikill fjöldi farartækja kominn á staðinn, og fólkinu fjölgaði stöðugt. Mér fannst með ólíkindum að öll þessi farartæki hefðu komið þennan mjóa veg heim að þorpinu. (Hann var svo mjór, að ég efast um að tvær rútur af venjulegri breidd hafi getað mæst á honum.) Við lögðum um kílómetra frá Jakobskirkjunni frægu og gengum það sem eftir var. Veður var þannig að það var eins og dumbungur eða rakamistur í lofti, en þó sást til sólar og frekar var bjart.

Við gengum inn í kirkjuna. Séra Jakob fór inn skrúðhússmegin til að samþjóna við messuna. Á veggjunum að utan voru merki þar sem fólk var beðið að vera sómasamlega klætt í skyrtu en ekki í nærskyrtu. Kirkjan var næstum troðfull þegar við gengum inn. Setið var í öllum sætum, og staðið í gangveginum. Ég gæti trúað að gólfplássið þarna hafi verið svipað og í Skálholtsdómkirkju. Ég stóð aftarlega í miðjum gangveginum umkringdur af fólki á alla kanta. Sennilega hafa einhverjir ekki komist inn, sem komu seinna. Í kirkjunni var afbragðsgott hljóðkerfi og hátalarar tengdir út. Hljóðið var mjög skýrt og laust við bergmál. Kirkjan var hvítmáluð og látlaus að innan. Fyrir miðju var að sjálfsögðu altari, eins og í öllum kaþólskum kirkjum. Til hægri frá fólkinu séð var stór stytta af heilögum Jakobi. Alveg til hægri og fyrir utan kórinn var svo hefðbundin stytta af Maríu mey í mynd hins flekklausa getnaðar.

Þegar ég kom inn var fransiskanapresturinn Slavko Barbaric að biðja rósakransbænina krjúpandi handan við altarið. Hann sneri til fólksins. Hann var vel á veg kominn með fyrstu fimm tugina þegar ég kom inn, en rósakransinn var beðinn allur, alls fimmtán tugir. Það er ein trúarjátning, fimmtán faðirvor og hundrað og fimmtíu maríubænir.

Þegar klukkuna vantaði tuttugu mínútur í sjö þagnaði hann skyndilega, kraup og leit upp á loft nokkurt á gafli kirkjunnar. Þangað litu einnig kirkjugestir. Ég vissi ekki þá af hverju þetta var, ég leit líka þangað en sá bara loftið. Seinna frétti ég að á þessari stundu átti birtingin að eiga sér stað, sennilega í turnherbergi kirkjunnar.

Klukkan sjö átti að vera messa á króatísku. Sökum mannfjöldans varð að halda hana utandyra. Til vinstri við kirkjuna hafði gróf steinsteypa verið borin á jörðina og lauslega sléttuð. Fransiskanarnir höfðu byggt látlausan pall, sem sýndist gerður úr nýju mótatimbri og á honum var altari. Það var allt mjög hreinlegt og bar með sér þennan fransiskanska anda fátæktar og einfaldleika sem mörgum finnst svo upplífgandi. Fólkið gekk út og ég var svo heppinn að geta staðið minna en hálfa kirkjulengd frá pallinum. Hjá mér stóð Gunnar Lund.

Fyrir framan okkur taldi ég mig bera kennsl á Ástrala nokkurn sem við höfðum séð í vídeómynd hjá séra Lambert. Þessi maður, sem hafði verið þó nokkuð efnaður, hafði að sögn gefið eigur sínar til að koma á fót stofnun með það að markmiði að kynna boðskapinn frá Meðugorje. Nú sá ég hann standa þarna beint fyrir framan okkur. Hann horfði til sólar og benti og fólk hjá honum leit þangað. Ég leit til sólarinnar sem sást vel á himninum frá okkur að sjá aftan við kirkjuna og um það bil í sömu hæð og hún eða dálítið lægra. Hún sást vel í gegnum dauft rakamistur. En mikið varð ég hissa, því mér sýndist sem innan í henni snerist kringla um miðju, sem var dálítið frá miðju sólkringlunnar. Þetta olli því að miðja sólkringlunnar var dauf, en jaðrarnir blossuðu upp með reglulegu millibili eftir því sem kringlan snerist. Ég fylltist undrun, líkt og lesandi þessara orða myndi sennilega gera ef einn stóllinn í herberginu myndi fara að mismuna sér út á gang eða eitthvað þvíumlíkt. Ekki veit ég hvað olli þessu. Mér datt fyrst í hug að rakinn í loftinu ylli þessum sjónhverfingum. Ég leit af þessu og á, deplaði augum og það hætti ekki. Ég spurði Gunnar hvort hann sæi eitthvað óvenjulegt við sólina og hann játaði því. Ekki hafði þessi viðburður meiri áhrif á fólkið í kring en ef þota hefði flogið yfir himininn. Sumir litu til sólar og horfðu í hana, aðrir ekki, þetta þótti greinilega ekkert merkilegt, messan sem var að byrja virtist eiga hug þeirra allan. Ég horfði á þetta fyrirbæri þangað til ég nennti því ekki lengur, messan var líka að byrja. Ekki var erfitt að horfa í sólina, hún var óvenju dauf þó ekki væri beinlínis skuggsýnt. Það var ekki laust við að mér þætti þetta geigvænlegt og mér duttu í hug vábeiður úr bókmenntum. Eftir þetta leit ég oft til sólar þann tíma sem við vorum í Meðugorje en sá ekkert óvenjulegt. Mér tókst ekki að finna neina skynsamlega skýringu á því sem hafði gerst, hvort þetta var af völdum skýjafars, loftraka eða einhverskonar speglunar í andrúmloftinu vissi ég ekki með vissu.

Á torginu fyrir framan kirkjuna voru nokkrar konur sem færðu sig á hnjánum hringinn í kringum hvíta Maríustyttu um leið og þær báðu rósakransinn. Víða sást fólk vera skrifta undir beru lofti lítið eitt afsíðis, krjúpandi frammi fyrir mönnum í brúnum fransiskanakuflum. Fyrir framan hvern og einn var lítið spjald sem stóð á hvaða tungumál þeir töluðu.

Messan á króatísku var með miklum hátíðleik. Fólk baðst innilega fyrir. Þegar að þeim hluta messunnar kom þar sem viðstaddir eiga að krjúpa þá krupu margir á grófa steinsteypuna en nokkrir þar fyrir utan á jörðina því þarna voru engin sæti nema etv. fyrir fatlaða. Slíkur var áhuginn og trúarhitinn. Orðin „raunverulega nálægur“ öðluðust nýja merkingu.

Mig minnir að það hafi verið þar næst á eftir sem Ivan og Marija sjáendur, komu fram fyrir fólkið og lýstu sýn sinni frá því fyrir messuna. Þau fóru ekki upp á pallinn heldur stóðu fyrir neðan hann á meðal fólksins. Þau sögðust flytja skilaboð frá meyjunni þess efnis að hún bæði fólk að breyta eftir skilaboðum síðastliðinna átta ára. Þau voru ungt og geðslegt fólk, snyrtilega klædd og virtust ekki hafa neina löngun til að láta bera á sér.

Við söfnuðumst fljótlega saman í bílnum þar sem við áttum eftir að borða og koma okkur fyrir. Krakkarnir höfðu frétt af því að til stæði að fara í pílagrímsgöngu upp á Krossfjallið um kvöldið í fylgd eins sjáandans. Þau voru spennt fyrir því að fara en allir voru þreyttir og við áttum líka eftir að koma okkur betur fyrir og borða, svo við héldum í náttstað.

No feedback yet