« Pílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 9. kafliPílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 7. kafli »

22.06.07

  06:39:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1085 orð  
Flokkur: Pílagrimsferðir, Meðugorje

Pílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 8. kafli

22. júní. Fimmtudagur.
Í Júgóslavíu — Gull og grjót.

Við lögðum af stað um 7 leytið til Trieste. Sólin fór strax að skína. Leituðum lengi að sundlaug en þegar hún loks fannst þá var hún lokuð. Versluðum í stórmarkaði. Fórum inn í Júgóslavíu milli kl. 12 og 13. Þetta var í fyrsta skipti sem við urðum að fara í gegnum stranga vegabréfaskoðun. Í varðstöð vöppuðu íbyggnir júgóslavneskir landamæraverðir með byssur í hulstrum og hendur krosslagðar á brjósti í hitanum.

Foringi þeirra var kona með sítt ljóst hár snyrtilega hnýtt upp. Hún skoðaði vegabréfin vandlega hjá hverju og einu okkar og bar okkur saman við myndina á þeim. Hrafn þurfti að fara í sérrannsókn því hann var með bandarískt vegabréf. Það var farið með hann inn í hús þar til hliðar. Þegar kom að mér spurði konan mig hvers vegna vegabréfið mitt væri ekki eins og vegabréf Guðnýjar þar sem við bæði værum Íslendingar. Hún var einnig með skambyssu í hulstri. Ég sagði henni eins og var að þetta væri eldri útgáfa. Hún var með grá augu, talaði lýtalausa ensku, og ég ímyndaði mér að hún hefði tekið sig vel út í villta vestrinu. Ég hafði á tilfinningunni að landamæraverðirnir sem vöppuðu niðurlútir í kringum hana væru jafn órólegir og ég. Ég varpaði öndinni léttara þegar hún stimplaði vegabréfið. Við skiptum peningum á landamærunum. Einn dollari var jafn 16170 dinurum. Skyndilega átti ég 16 milljónir. Þetta var sæludraumur, sem entist þangað til við keyptum díselolíu á bílinn næst. Hún kostaði 800 þúsund og við urðum að reiða greiðsluna fram í 50 og 10 þúsund dínara seðlum. Þá var mikið mál að telja peningana rétt, og stundum varð að tvítelja. Á einum seðlinum var mynd af bylgjandi kornakri og kornskurðarvél að verki. Til hliðar þar sem venjulega er mynd af frægu fólki var mynd af ungri konu með dreymandi augu og sítt ljóst hár sem bylgjaðist í ósýnilegri golu. Ég minnist þess ekki að nafnið hennar væri ritað á seðilinn, og ósjálfrátt tengdi ég hana ljóshærðu konunni á landamærunum. Seinna þegar við notuðum þessa seðla til að kaupa líters kók á 75000 dínara á vesturströndinni og sama magn á 7500 dínara inni í miðju landi, þá fór mér að þykja meira en lítið bogið þessa seðla. Kannski var akurinn bara plat, og draumurinn í seðlagrænum augunum ekkert annað en prentblek?

Fyrir utan pósthúsið þar sem við stöðvuðum til að hringja og senda póstkort, talaði séra Jakob við mann á dvergbíl af Zastava gerð, en þeir bílar voru margir þarna. Þessi maður talaði lítið annað en mál heimamanna, en séra Jakob gat talað við hann á blöndu af ítölsku, og þýsku. Maðurinn lokaði öðru auganu, hallaði undir flatt og hugsaði sig vel um, sagði okkur til vegar og veifaði annarri hendinni út um gluggann á Zastövunni til útskýringar. Á kortinu er veganetið yfir Istraskagann, sem er stór skagi sem gengur út í Adríahafið þéttriðið, og auðvelt að villast. Leiðsögn mannsins dugði samt svo vel, að við hittum í fyrstu tilraun á borgina Rijeka, þangað sem ferðinni var heitið. Þetta var útitekinn stórbeinóttur maður með sinaberar hendur og eiginlega allt of stór fyrir Zastövuna. Hjálpsemi hans var okkur ómetanleg.

Við keyrðum til Rijeka og syntum í sjónum. Lögðum af stað í áttina til Zadar meðfram ströndinni. Vegna móðu og rakaskýja sem lögðust yfir síðdegis, seig rökkrið hægt yfir eftir því sem við þokuðumst sunnar. Fjöllin við ströndina voru úr ljósum steini, sem allur virtist vera að molna. Það var líkt og heilu fjöllin væru að molna og þessi hvíti mulningur var mjög áberandi í hæðóttu landslaginu. Við þræddum veginn meðfram sjónum. Þetta var fjallaland og við fórum í gegnum einstaka fiskiþorp en vegurinn var malbikaður og góður. Við fundum fyrir því að við vorum farin að nálgast áfangastað. Nálægðin við Meðugorje, þar sem sagt var að María Guðsmóðir birtist á hverjum degi varð raunverulegri. Það var rétt eins og rökkrið og landið væri að reyna að segja eitthvað og þögnin sem lagðist yfir hópinn í bílnum væti þrungin merkingu. Hvað var að gerast í þessu landi? Hafði Guð sjálfur sent talsmann sinn til þessa fólks? Hvernig tengdust þessir atburðir örlögum þess og lífi? Við vegarbrúnina og niðri í gilskorningum gat víða að líta innan um runnana flök af litlum Zastövum sem ekki höfðu náð að feta sig eftir hlykkjóttum og stundum víðsjárverðum veginum. Var einhver þögull en þó syngjandi ómur sem gerði vart við sig í djúpum sálarinnar? Hópurinn hljóðnaði og hlustaði á Simon og Garfunkel syngja sönginn um óm þagnarinnar og rökkrið seig að þessu sinni hægt yfir, hljóðlaust og róandi. Við fórum að leita að tjaldstað. Á einum staðnum við ströndina var tjaldstæðið ekkert annað en dálítið plan við fjöruborðið. Það var svo ótrúlega hart, að mér datt í hug að yfirborð þess væri illa pússuð steypa úr þessari grófu hvítu möl, en það byggingarefni virðist vera í miklu uppáhaldi landsmanna. Sökum myrkurs gat ég ekki gengið úr skugga um það, en þarna var eitt tjald, og það höfðu verið lagðir steinar á tjalddúkinn í stað hæla, sem voru alveg ónothæfir á þessu tjaldstæði. Ég lagðist gegn því að við tjölduðum þarna og fleiri voru á sama máli, og hefðu þau þó mýkri dýnur en ég. Við ókum lengra og seint um kvöldið tjölduðum við milli vegarins og sjávarins á tjaldstæði sem heitir „Camp Punta Sibuljina.“ Öll vegabréfin voru tekin af okkur, mér var ekki vel við það. Við vorum fangar þarna. Þegar við spurðum hvers vegna okkur væri ekki treystandi fyrir okkar eigin vegabréfum, voru svörin frekar loðin, en eitthvað á þá leið að það væri gert öryggis okkar vegna til að yfirvöldin vissu hvar við værum. Það sama gerðist á öllum tjaldstæðunum í Júgóslavíu, en aldrei annarsstaðar. Kringum tjaldstæðið var há girðing, með rammgerðu hliði. Þegar við renndum þar inn kom ég auga á nokkra háværa skuggalega náunga, sem sátu í hóp innan um trén og virtust ekkert hafa að gera annað en fylgjast með ferðamönnum og drekka léttvín. Við tjölduðum milli hárra furutrjáa á hnúskóttri og harðri jörð, rétt við flæðarmálið. Um kvöldið gerði þrumur og eldingar og rigningu, rétt eins og kvöldið áður. Loftið var heitt og ég lá vakandi dálitla stund meðan ég var að venjast júgóslavnesku jörðinni. Ég fann fyrir reiði yfir því að vera sviptur vegabréfinu, en smám saman varð þetta allt ósköp notalegt. Yfirvöldin urðu að gera þetta til að passa okkur, þau hlutu að vita hvað okkur var fyrir bestu. Ef fyllibytturnar myndu skríða undir girðinguna í nótt til rána þá myndi ljóshærða konan á seðlinum áreiðanlega koma koma og bjarga okkur með byssuna á lofti. Síðan sofnaði ég.

Framhald...

No feedback yet