« Pílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 8. kafliPílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 6. kafli »

21.06.07

  07:20:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 2255 orð  
Flokkur: Pílagrimsferðir, Meðugorje

Pílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 7. kafli

21. júní. Miðvikudagur.
Á Ítalíu.

Við vöknuðum um fimmleytið í fjalladalnum í Sviss. Smáfuglar kváðust á af svissneskri nákvæmni. Söngur þeirra var silfurtær og samhæfður, líkt og slegið væri taktfast með silfurhömrum á litla silfursteðja. Með sjálfum mér kallaði ég þá smiðjufugla. Lögðum af stað um stundarfjórðung fyrir 6 til Ítalíu. Séra Jakob keyrði okkur yfir Nüfenenpass sem er í um 2400 m. hæð. Mjög fallegt að sjá yfir Alpana í morgunsólinni. Komum til Ítalíu um 10 leytið. Það gekk hægt að keyra framhjá Mílanó því þar var mikil umferð. Stoppuðum í Desenzano á leiðinni til Padúa. Þar hittum við af tilviljun á höfuðstöðvar Úrsúlínanna sem hl. Angela Merici stofnaði.

Þar messaði sr. Jakob. Þaðan héldum við til Padúa og komum þangað kl. 16.40. Skoðuðum dómkirkju hl. Antoníusar og héldum síðan til Feneyja. Komum þangað kl. 18, tókum strætóbát inn í Feneyjar. Feneyjar eru undarlegur staður byggður á miklu votlendi sem slær jafnvel sunnlensku mýrunum við hvað vætu snertir og allt er skelfing óraunverulegt. Ég gat ómögulega séð fyrir mér krakkana koma út úr þessum 16. aldar höllum til að taka gondólann í skólann á morgnana, og það hvarflaði að mér að þetta væri draugabær. Þó er þar kirkja ein merkileg kennd við Markús postula. En því miður var hún læst vegna mikils ágangs skemmtiferðamanna sem þyrpast þangað og eru geysifjölmennir á torginu fyrir framan hana. Við yfirgáfum Feneyjar uppúr kl 8 um kvöldið og reiknuðum með að keyra til Trieste til að tjalda. En örlögin ætluðu okkur annað.

Við höfðum ferðast langt í austur þennan dag, svo að tímamismunur, hæðarmismunur og dumbungurinn um kvöldið gerði það að verkum að myrkrið skall á um það bil klukkustund fyrr en það gerði í svissnesku fjöllunum. Uppúr kl. 9 var skyndilega komið kolniðamyrkur. Við séra Jakob ákváðum því að keyra niður að sjónum, um 20 kílómetra til bæjar sem heitir Jesolo. Það var ekki svo langt, en skyndilega var öllum orðið mál. Lengi vel tókst að sussa á mannskapinn, en þarna, eins og oftar varð mannlegur veikleiki skipulaginu yfirsterkari. Við staðnæmdumst við vegarbrúnina og komumst að því að rétt hjá var afleggjari og sandbakki í vari frá veginum. Fyrir framan lá kyrrt síki. Þar sem allir voru ferðalúnir, tókum við þá áhættu að tjalda þarna í sandinum og vonuðum að landeigendur eða mafían myndi ekki fatta það. Þessi staður er rétt fyrir utan þorpið Eraclea á leiðinni til Jesolo, milli Feneyja og Trieste. Um kvöldið gerði þrumuveður og rigningu. Þá hvarflaði að mér að mafían væri komin, en sem betur fór voru það ekki aðrir en maurarnir sem skriðu inn í tjöldin til að sleppa við rigninguna. Þetta voru mestu sakleysis-jarðpöddur og bitu alls ekki. Margir þeirra slógust í för með okkur og gerðust pílagrímar, að vísu við misjafnar vinsældir kvenþjóðarinnar. Þeir gerðust frekar víðförulir og ég átti eftir að sjá lifandi rammítalska maura í tjöldunum inni í miðri Júgóslavíu.


Úr Sóknarblaði Kristkirkju í janúar 1990:
Hl. Angela Merici, mey og stofnandi Úrsúlínureglunnar.

I

Hún fæddist í bænum Desenzano, á suðvesturströnd Gardavatns í Lombardy (Langbarðalandi) á Norður-Ítalíu árið 1470. Foreldrar hennar dóu þegar hún var aðeins 10 ára. Auðugur frændi hennar sem bjó í bænum Salo tók hana og systkini hennar, eldri systur og tvo bræður að sér. Eftir andlát systur sinnar helgaði hún líf sitt Guði. Hún fékk inngöngu í þriðjureglu fransiskana. (Þriðjuregla er leikmannaregla, þ.e. fólk getur verið í hjónabandi og unnið almenna vinnu. Það þarf ekki að ganga í munkakuflum, en ber einkenni reglunnar innanklæða. Ekki eru unnin regluheit, heldur gefin loforð. Fleiri reglur en Fransiskanareglan hafa þriðjureglu, til dæmis Karmelreglan.) Þegar Angela var 22 ára dó frændi hennar og hún sneri aftur til Desenzano. Henni rann mjög til rifja fáfræði fátækari barnanna í nágrenninu. Foreldrar þeirra hvorki gátu né vildu kenna þeim, ekki einu sinni einföldustu undirstöðuatriði trúarinnar. Hún ræddi þetta mál við vini sína sem flestir voru annað hvort þriðjureglu-fransiskanar, eða ungar konur úr hennar stétt, snauðar að fé og veraldaráhrifum. Þessir vinir hennar voru samt sem áður reiðubúnir að hjálpa henni ef hún myndi ríða á vaðið. Þó að Angela hafi verið mjög lágvaxin hafði hún alla þá kosti til að bera sem leiðtogi þarf að hafa, svo sem persónutöfra og gott útlit. Hún og félagar hennar hleyptu af stað reglulegum og kerfisbundnum kennslustundum fyrir litlu stúlkurnar í hverfinu. Starfið óx og blómgaðist, og fljótlega var henni boðið til Brescia, nálægrar borgar til að gera það sama þar. Henni var komið í samband við áhrifamestu fjölskyldurnar í Brescia. Hún varð fljótt lífið og sálin í hópi guðelskandi manna og kvenna sem hrifust af hugsjónum hennar. Hún settist að í Brescia og komst þar fljótt til áhrifa. Hún ferðaðist til frægra helgistaða, meðal annars landsins helga. Nálægt árinu 1533 virðist sem hún hafi byrjað að velja nokkra úr kennarahópi sínum til óformlegrar þjálfunar í regluhlýðni. Tólf þeirra settust að ásamt henni í húsi einu nálægt kirkju hl. Afra, en meirihluti þeirra bjó áfram í foreldrahúsum eða hjá ættingjum. Tveim árum síðar helguðu sig Guði 28 ungar konur, ásamt henni. Hún setti þær undir vernd hl. Úrsúlu, verndardýrlings miðaldaháskólanna sem naut einnig hylli og dýrkunar meðal almennings sem leiðtogi kvenna. þessi regla var mjög óformleg fyrst í stað, leit frekar út eins og samtök. Engin regluklæði voru borin, þó að mælt væri með svörtum fötum. Engir eiðar voru teknir og systurnar innilokuðu sig ekki, né lifðu þær sameiginlegu reglulífi. þessi atriði komu ekki fyrr en aldarfjórðungi eftir dauða hl. Angelu. þær hittust til að kenna, og til sameiginlegrar tilbeiðslu. Þær uppfylltu skyldur sínar, eins og hverri og einni féll í skaut og lifðu lífi heilagleika mitt á meðal fjölskyldumeðlima sinna. Hugmyndin um kennslureglu kvenna var svo fjarstæðukennd á þeim tíma að talsverðan tíma þurfti til að það yrði raunveruleiki. Þegar þessi samtök völdu sinn fyrsta leiðtoga var hl. Angela einróma kjörin og gegndi hún þeirri stöðu þau 5 ár sem hún átti eftir ólifuð. Hún dó í janúar 1540. Árið 1544 gaf Páll páfi III út reglugerð þar sem hann löggilti "Félagsskap hl. Úrsúlu". 1807 var hl. Angela tekin í heilagra manna tölu.

II

Ástæða þess að hér er fjallað um hl. Angelu er sú að fyrir tilviljun lá leið þess er þetta ritar til Desenzano síðastliðið sumar. Hópur af Íslendingum var á pílagrímsferð til Meðugorje í Júgóslavíu. Miðvikudaginn 21. júní vöknuðu pílagrímar eldsnemma, svo sem þeirra er siður í svissneskum fjalladal. Klukkan var 5 um morguninn. Litlir rómsterkir fuglar kváðust á af ótrúlegum þrótti. Raust þeirra var líkust því að slegið væri með silfurhömrum á litla silfursteðja. Því er við hæfi að kalla þá smiðjufugla. Þeir samhæfðu söng sinn af svissneskri nákvæmni, og urðu af því hinir eftirminnilegustu hljómleikar. Eftir þvott og snöggan morgunverð í grákaldri morgunskímunni lögðu pílagrímarnir í Nüfenen-fjallaskarðið. Stansað var efst í Nüfenenskarði í um 2400 metra hæð og landið skoðað. Morgunsólin skein björt og fögur í austri og lýsti upp fjöllin að baki. Í vestri og norðvestri blöstu hvarvetna við svissnesk Toblerone-löguð fjöll, með rjómalitum ístoppum. Þetta land var því yfirgefið með nokkrum söknuði.

Til Ítalíu var komið um 10 leytið. Í hita og þunga dagsins seig svefn á yngri hluta hópsins og Ítalía leið framhjá í þunnu mengunarskýi við lágvær svefnhljóð ferðafélaganna. Nálægt miðjum degi náðu pílagrímar til úthverfa Mílanó, beygðu þar í austurátt, og óku sem leið lá eftir A4 hraðbrautinni. Um hálf-tvö leytið, þurftum við að nema staðar. Af tilviljun einni var því valinn næsti afleggjari út af hraðbrautinni. Það reyndist vera afleggjarinn til Desenzano. Þessi borg liggur nokkurn veginn miðja vegu milli Brescia í vestri og Veróna í austri. Staðurinn stendur á suðurbakka Gardavatnsins, sem er eitt af stærstu vötnum Ítalíu, ílangt og liggur í norður-suður stefnu og teygir norðurenda sinn í átt til Alpafjalla. Ekki sáu pílagrímar samt fjöllin þennan dag og var þar mengunin að verki, skyggnið ekki nema um fimm kílómetrar. Á vatninu liðu litlar seglskútur hljóðlaust um, og sumar sáust ógreinilega. Hópurinn okkar hafði það fyrir sið að sækja messu einu sinni á dag ef færi gafst. Því var lagt upp í göngu og leitað að kirkjuhúsi. Fljótlega fannst eitt stórt og mikið. En vonbrigðin voru mikil. Hún var harðlæst. Áfram var haldið eftir göngugötu, sem lá í vesturátt. Leitað var ráða hjá lögregluþjóni sem sagði til vegar. Önnur kirkja fannst, hún var líka harðlæst. Séra Jakob gekk hringinn í kringum hana, og ræddi við menn sem hann hitti í skugganum. Þeir kváðu öll tormerki vera á því að hægt væri að opna húsið, sérstaklega á þessum tíma, þegar sólin var hvað hæst á lofti. Gengu því pílagrímar niðurlútir í vesturátt, framhjá hattabúðum, ísbúðum, og veitingastöðum. Skyndilega komu þeir að húsi sem svipaði til kirkju. Það stóð þröngt klemmt milli húsanna til hliðar. Þeir knúðu dyra og var hleypt inn. Þar sat svarthærð talsímakona við skiptiborð og talaði í taltækið af miklum skörungsskap og þróttmikilli innlifun. Hún kvaddi til svartklædda reglusystur, sem hóf samræður við séra Jakob. Að þeim loknum sneri séra Jakob sér að okkur hinum og sagði: „Við erum komin í höfuðstöðvar Úrsúlínanna, sem hl. Angela Merici stofnaði. Við erum velkomin, og systurnar ætla að leyfa okkur að nota aðra kapelluna sína til messunnar.“ Systirin fylgdi okkur gegnum langt og vítt anddyri og út í bakgarð, sem var umkringdur byggingunni á alla kanta. Mildir sólargeislar umvöfðu garðinn og litfögur blóm, sem greru í snyrtilegum kerjum, ys götunnar heyrðist ekki. Kyrrðin og friður staðarins mynduðu andstæðu við þá veröld sem við höfðum stigið út úr fimm mínútum áður. Í bakgarðinum gengu hvítklæddar reglusystur hljóðlega um. Þær stöfuðu frá sér svalandi friðsæld og hógværð, það var næstum eins og þær svifu hljóðlaust í átt til aðal kapellunnar þar sem þær voru að safnast til sameiginlegrar bænar. Svartklædda systirin staðnæmdist fyrir utan kapelludyrnar þar sem hinar systurnar gengu inn. Hún ætlaði að leyfa okkur að líta inn í aðalkapelluna. Eitt augnablik opnaði hún dyrnar og við sáum innfyrir. Systurnar báðust fyrir í hljóði í rökkvaðri kapellunni. Á gaflinum, beint á móti dyrunum gat að líta málverk af stofnanda reglunnar. Eitt augnablik horfðumst við í augu við málverkið. Það var af ungri konu með ákveðna andlitsdrætti, ljóshærðri og sýndist hárið falla niður á axlirnar. Síðan lokuðust dyrnar. Það var eins og hún hefði tekið á móti okkur sjálf. Séra Jakob messaði í lítilli en fallegri og svalri kapellu. Þar var flestallt gamalt inni og niður aldanna hljómaði á látlausan hátt. Ég fann fyrir góðri tilfinningu eins og ég væri kominn heim og þegar ég settist í sætið í kapellunni fannst mér eins og ég hefði sest í það oft áður. Þannig líður mér gjarnan þegar ég kem á staði kyrrðar og íhugunar.

Að messunni lokinni kvöddum við Úrsúlínurnar með virktum og leituðum uppi veitingastað þar sem snædd var alþjóðleg fæða þeirra sem eru að flýta sér: Pizza, hamborgarar og kók. Að máltíðinni lokinni var stigið upp í Fordinn og haldið í austurátt. Framundan biðu Padúa og Feneyjar í hlýju mistrinu.

No feedback yet