« Pílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 7. kafliPílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 5. kafli »

19.06.07

  07:53:12, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 510 orð  
Flokkur: Pílagrimsferðir, Meðugorje

Pílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 6. kafli

19. júní. Mánudagur.

Fórum snemma til Flüeli og byrjuðum á að skoða hús hl. Nikulásar, þar sem hann bjó með konu sinni og 10 börnum áður en hann gerðist einsetumaður. Húsið er fallegt timburhús og vel við haldið. Síðan skoðuðum við einsetumannskofa hans rétt þar hjá sem er áfastur kapellu. Þar messaði sr. Jakob. Næst var haldið til kirkju hl. Nikulásar í Flüeli þar sem leifar dýrlingsins eru varðveittar og kufl hans.

Páfi kom á þessa staði árið 1984. Greinilegt er að hl. Nikulás er mikill þjóðardýrlingur í Sviss. Hann vann sér það til frægðar að nærast ekki á öðru en heilögu altarissakramenti í 20 ár, og að vera óformlegur faðir svissneska ríkjasambandsins. Næst var ekið sem leið lá til Friburg til að hitta systur Lúsíu, sem hafði verið á Íslandi. Ekið var framjá fallegum og voldugum fjöllum, himinbláum og lygnum stöðuvötnum milli þeirra og snyrtilegum og afar fallegum húsum. Þetta land slær póstkortafegurð sinni auðveldlega við. Komum til Friburg kl. 17. Systir Lúsía sem fór til Sviss árið 1985 eftir 7 ára dvöl á Íslandi gaf öllum kók, súkkulaði og brauð eins og hver vildi. Einnig fengum við leyfi til að tjalda í garðinum við systraheimilið í Friburg sem stendur við Avenue de Beauregard og er nr. 5. Sr. Jakob keyrði Kristínu, Perlu, Hrafn og Jackie í sund. Eftir sundið borðuðum við kvöldmat í húsi systranna ásamt móðursystur sr. Jakobs, manni hennar og dóttur. Fórum að sofa um 11.30 eftir að hafa farið í kvöldgöngur um Fribourg.

20. júní. Þriðjudagur.

Sr. Jakob messaði kl. 8.30 í kapellu systranna. Kristín las ritningarlesturinn, en Guðný sálminn. Borðuðum morgunverð hjá systur Lúsíu, hún leysti okkur út með gjöfum, súkkulaðibirgðum fyrir næstu þúsund kílómetrana. Í Interlaken tóku öll nema sr. Jakob og ég sér ferð með vatnabáti til Giessbach. Síðan var haldið í átt að Grimselskarði. Á leiðinni var skoðað árgljúfur. Grimselskarð er 2165 m. hátt og í kringum það eru um 4000 m. há fjöll. Uppi á skarðinu var farið í snjókast, og síðan beðist fyrir í lítilli kapellu sem þar er. Keyrðum niður af fjallinu og tjölduðum í fjalladalnum Obenwald við straumharða litla jökulá í þorpi sem heitir Ulriken í næstum 1400 m. hæð. Séra Jakob tók eftir að kona nokkur sem hafði tjaldað nálægt okkur á tjaldstæðinu horfði mikið á hópinn okkar og hann. Hann fór og spjallaði við hana og þá kom í ljós að hún þekkti hann frá því 25 árum áður er hann var á ferð með foreldrum sínum í þessum dal. Þá hafði hann verið aðeins 8 ára gamall, en hún þekkti hann samt, hafði verið málkunnug foreldrum hans.

No feedback yet