« Pílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 6. kafliPílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 4. kafli »

18.06.07

  05:15:44, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 270 orð  
Flokkur: Pílagrimsferðir, Meðugorje

Pílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 5. kafli

18. júní. Sunnudagur.

Samhæfða súkkulaðilandið Sviss.

Við vöknuðum um stundarfjórðung fyrir sjö. Tókum upp tjöldin og ókum til Freiburg þar sem við vorum við hámessu í dómkirkjunni sem séra Jakob var vígður til prests í. Fengum okkur ís, keyptum póstkort og keyrðum síðan til Sviss. Ókum framhjá Basel og Luzern til Sachseln, sem er í hjarta Sviss, fallegum dal í fjallasal. Í hugann komu sögur tengdar Sviss og Alpalandinu, svo sem sagan af Heiðu, lög eins og „Það búa litlir dvergar“ og „Söngur dýranna í Týról“.

Við tjölduðum þar á tjaldstæðinu, nokkrum metrum frá járnbrautarteinunum, þar sem lest fór framhjá á 10 mínútna fresti af svissneskri nákvæmni, nema milli 00.00 og 05.30. Í dalnum, hinu megin við járnbrautarteinana var fallegt og hreint vatn, og sr. Jakob fékk sér sundsprett. Þrátt fyrir hátæknivæðinguna og hávaðann sem lestin flutti með sér í dalinn var eins og hún félli fullkomlega að umhverfinu þarna, hún kom svo reglulega og leið svo hratt í gegn. Umhverfi teinanna var líka svo snyrtilegt að það hefði verið hægt að setja það eitt á póstkort. Gaman var að ímynda sér dverga sem sátu í steinum og smíðuðu meðan þeir sungu við raust. Þegar lestin fór framhjá litu þeir upp og dáðust að smíði lestarinnar eitt augnablik áður en þeir hófust handa af hjartans vinnugleði. Mannfólk og náttúra í sátt.

No feedback yet