« Pílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 3. kafliPílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 1. kafli »

15.06.07

  19:01:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 660 orð  
Flokkur: Pílagrimsferðir, Meðugorje

Pílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 2. kafli

15. júní. Fimmtudagur.

Um morguninn var sólskin, hlýtt og gott veður. Fuglakórinn í trjánum söng þýsk úrvalslög af miklu fjöri. Heldur voru þetta kraftmeiri fuglar en þrestirnir heima. Söngur þeirra var ein samfelld hljómkviða kveðin af ótrúlegum þrótti og mikilli sönggleði. Ég hafði á tilfinningunni að þeir þendu sig af ofurkappi og voru því ekki eins lýrískir og íslensku fuglarnir, meira lagt upp úr kraftinum. Ég þóttist sjá að þaðan hefðu þrautþjálfaðir stórsöngvarar í óperum fyrirmyndir sínar að sprengiaríunum.

Við tókum saman tjöldin og keyrðum að dómkirkjunni þar sem við hittum Ólaf Patrick. Síðan héldum við sem leið lá að Matthíasar- dómkirkjunni. Við lentum í rétt passlegum villum, ókum í nokkra stóra hringi áður en við föttuðum að skyndilega vorum við fyrir framan kirkjuna. Það var rétt fyrir átta. Þegar við gengum inn í portið sló klukkan átta. Séra Jakob hafði mælt sér mót á þeim tíma við munkinn sem sá um skrúðhúsið. Hann tók á móti okkur með hógværu fasi. Hann hrósaði okkur ekki fyrir stundvísi en hefði mátt gera það, hefur sennilega tekið það sem sjálfsagðan hlut að við kæmum á slaginu. Þar messaði sr. Jakob fyrir okkur. Við sátum í hálfhring fyrir framan gröf postulans.

Í Matthíasarkirkjunni var sérstök kapella helguð guðsmóður Maríu. Þar var á vegg glæsilegt listaverk frá því um 1700 sem sýnir þungaða meymóðurina íhugandi guðdóm Jesú sem hún ber innra með sér. Myndin hefur fengið nafn sitt úr Maríulitaníu kirkjunnar en það er „móðir viskunnar.“ En eitt af mörgum kaþólskum nöfnum Jesú er „hin eilífa viska". Upp við veggi kirkjunnar stóðu stórir og veglegir skriftastólar í röðum. Þar var klefi fyrir prestinn, aflokaður, og tvö knéföll til beggja handa, svo að meðan einn skriftaði gat annar undirbúið sig og beðið eftir að presturinn drægi frá sín megin. Innarlega í kirkjunni gat að líta krossfaramyndir höggnar í steinvegginn. Þetta voru riddarar í hringabrynjum og búnir vel til bardaga.

Ekki er hægt að skiljast við Trýji án þess að minnast á kyrtilinn helga. Einhverstaðar þar í kirkju, ég veit ekki hverri, er varðveittur kyrtill sem helgisögur segja að sé kyrtillinn sem Kristur var klæddur í daginn sem hann var krossfestur. Sögur þessar segja að hann hafi síðar komist í eigu Helenu móður Konstantínusar keisara, en það er sama kona og fann kross þann sem talinn er kross Krists árið 320. Lengi var siður að sýna kyrtilinn við hátíðlega athöfn á 25 ára fresti, en nú mun hann vera orðinn svo fúinn að það er ekki þorandi. Trýjamenn hafa minnst hátíðar kyrtilsins með veglegum hætti svo sem að gefa út frímerki í minningu hennar. Um þetta má lesa í helgarblaði Tímans 9.-10. feb. 1991.

Það skal tekið fram að helgisögur á borð við þessa voru algengar á miðöldum. Staðurinn sem geymdi dóminn helga varð fljótt að pílagrímastað og þangað streymdi fólk og þar með blómguðust viðskipti. Það var því metnaður staða að eiga helga dóma til að draga að ferðamenn. Slíkur kyrtill var til dæmis líka til í París og ef til vill víðar. Pílagrímar miðalda og þaðan í frá höfðu því tvær gildar ástæður til að fara til Trýja. Gröf postulans og kyrtilinn helga.

Eftir messuna fórum við út í litla verslun sem munkarnir sjá um og keyptum póstkort og kirkjumuni. Síðan var haldið aftur til Luxemborgar að ná í Perlu, Jackie og Kristínu. Þangað komum við kl. 13.00, en fengum að vita á flugvellinum að fluginu þeirra, FI 614 hefði verið seinkað til 22.30! Við höfðum ætlað að skoða fallega staði í Þýskalandi, en nú varð að sleppa þeim. Við ákváðum að finna tjaldstæði í Luxemburg. Fundum tjaldstæði á frábærum stað fyrir utan borgina á stað sem heitir Godbrange, og tjaldstæðið hét „High-Chapparal- camping.“ Við fórum eftir matinn aftur á flugvöllinn en fengum þá að vita að fluginu hefði aftur verið seinkað til 02.00 um morguninn! Þetta var vegna þess að allar nýjar Boeing þotur voru skyndilega kallaðar í skoðun vegna hreyflanna. Við sr. Jakob fóru svo um nóttina og náðum í þær, en þær lentu kl. 2.30. Til tjaldanna kom hópurinn svo kl. 4.

Framhald...

No feedback yet