« Pílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 2. kafliHimnaför heilagra mæðgina »

14.06.07

  17:12:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 781 orð  
Flokkur: Pílagrimsferðir, Meðugorje

Pílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 1. kafli

Ferðasaga þessi í dagbókarformi greinir frá pílagrímsferð hóps Íslendinga sem farin var árið 1989 til Meðugorje í Bosníu Herzegovinu. Söguna samdi ég að mestu sumarið 1992. Ég studdist við handskrifaða punkta auk minnis. Drög að þessari ferðasögu hafa verið á netinu síðan frá því fyrir aldamót og hér kemur hún í lítillega breyttri mynd

Kvöld eitt í janúarmánuði 1989 vorum við séra Jakob í bíl í leiðinni frá séra Lambert í Garðabæ til Landakots. Hann hafði sýnt okkur myndband frá Meðugorje í Júgóslavíu þar sem greint er frá þeim viðburðum sem þar hafa átt sér stað. Þá sagði ég honum sögu af pennavini sem hafði farið til Meðugorje í hópferð og talið sig verða fyrir djúpum áhrifum. Það stóð heima að þegar sagan var búin vorum við komnir í Landakot. Séra Jakob sat þögull smástund en sagði svo: „Ég ætla að fara þangað.“ Um það voru ekki höfð fleiri orð, við byrjuðum undirbúninginn strax daginn eftir.

Svo þegar Jóhannes Páll II páfi kom til Íslands hafði séra Jakob orð á því við hann í kvöldverðinum þann 3. júní í Landakoti að hann ætlaði í pílagrímsferð á einkavegum til Meðugorje með hóp. Páfi sagði: „Margir fara til Meðugorje og finna þar trúna, farðu bara, það er ekki bannað."

Lagt af stað til Lúxemborgar

14. júní 1989. Miðvikudagur.
Sr. Jakob, Guðný, Gunnar, Hrafn og ég Ragnar flugum út með flugi FI 614 til Luxemburgar. Veður þar var gott, hlýtt og sólskin, en þunnt mistur. Við tókum hvítan Fort Transit á leigu, keyrðum inn í miðbæinn og versluðum í CACTUS stórmarkaðnum. Þar var verðlag lágt og það var ekki laust við að okkur hlýnaði dálítið til Evrópubandalagsins. Við fylltum bílinn af mat, og keyptum eldunartæki fyrir lítið. Þarna voru sandalar svo ódýrir að allir keyptu sér par. Ekki sakaði að mínir voru í fánalitum Vatíkansins.

Í Trýjum
Síðan keyrðum við til Trýja (Trier) í Þýskalandi og drukkum súrmjólk af stút á leiðinni. Heyskapur var vel á veg kominn hjá lúxemburgískum bændum. Mér sýndist sem svo að þeir væru langt komnir með fyrri sláttinn. Þarna er landið allt ræktað og fellur í ávölum hæðardrögum ekki ósvipað og í Villingaholtshreppnum ef þar væri meira af trjám. Ekki sást þarna til neinna fjalla. Í Trýjum er fallegur staður. Þar er gömul borg og forn borgarvirki. Sumir segja að hún sé elsta borg Þýskalands. Áin Mósel, sem á upptök sín í Vosgesfjöllum, þar sem heimabær séra Jakobs er, rennur þar í gegn. Um aldir var borgin útvörður rómverskrar menningar, virki sem myndaði nyrstu brjóstvörn heimsveldisins. Þar stendur enn Porta Nigra, Svartahlið frá tímum Rómverja, og fleira er af rómverskum minjum þar svo sem hringleikahús frá því um 100 e.kr. en við skoðuðum það ekki. Við höfðum um annað að hugsa. Í Trýjum fæddist Karl Marx. En aðrir kunna að betur að segja frá því en ég.

Í þessum gamla, vinalega og menningarlega bæ hittum við Ólaf Patrick fyrir framan aðaljárnbrautarstöðina eins og ráðgert hafði verið. Hann ætlaði að slást í för með okkur. Þar með vorum við orðin sex. Við gengum um götur og virtum fyrir okkur skreytingar á húsum. Því næst fundum við Matthíasar-dómkirkjuna og skoðuðum hana lauslega í þetta sinn. Sagt er að þar sé hl. Matthías postuli grafinn, eini postulinn sem á legstað norðan Alpafjalla. Fyrir lesendur er rétt að minna á að Matthías tók autt sæti Júdasar. Hann var valinn af postulunum með hlutkesti. Þar frammi fyrir kór kirkjunnar er grafhvelfing postulans úr marmara. Ofan á henni er stytta af honum talin vera frá árinu 1468.

Hjá kirkjunni er Benediktína-munkaklaustur og er innangengt úr klaustrinu í kirkjuna. Bræðurnir stóðu í kór og voru að ljúka við tíðagjörð þegar við komum inn. Úti í portinu eru þeir með góða helgigripaverslun. Í Trýjum er einnig dómkirkja en sökum tímaskorts máttum við ekki vera að því að skoða hana. Við hefðum þó betur gefið okkur tíma til þess, eins og síðar kom í ljós.

Því næst héldum við á tjaldstæðið í Trýjum sem er á vesturbakka Mósel og því yfir brú að fara aftur. Ólafur Patrick fór á hótelið. Við séra Jakob tjölduðum. Ég hafði þá aldrei á ævinni séð eins harðan jarðveg. Þessi óværa var líkari hnúskóttu timbri en jörð. Mér fannst sem þýska kjörlendið hefði verið rómað af heldur mikilli mærð. Á Íslandi er jarðvegur ávallt mjúkur nema hann sé blandaður möl eða grjóti. Og það verður að segjast eins og er að þýska jörðin á vestari bakka Móselár þar sem hún rennur í gegnum Trýji er heldur hörð, en það kemur ekki verulega að sök fyrr en sofið er á henni. Við vorum í vandræðum með að reka hárbeitta tjaldhælana niður, þeir vildu bogna. Þó áttum við eftir að sjá harðari jörð ennþá, en því hefði ég ekki trúað þá. Guðný eldaði.

Framhald...

No feedback yet