« Blessun vinnunnar - margföldun tímansPílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 15. kafli »

30.06.07

  09:35:22, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 977 orð  
Flokkur: Pílagrimsferðir, Meðugorje

Pílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 16. kafli

30. júní. Föstudagur.

Sr. Jakob messaði í sóknarkirkjunni í Montrot. Þar er annars messað einu sinni á ári. Sóknarpresturinn þar var á níræðisaldri og þjónaði mörgum fjölmennum sóknum sem töldu þúsundir manna. Við þáðum morgunverð hjá hjónunum, kvöddum þau með þökkum og lögðum síðan af stað eftir morgunverð til Reims. Komum þangað um hálf tvö leytið. Skoðuðum Reimadómkirkju. Þar í kirkjunni tók heilög Jóhanna af Örk á móti okkur í fullum herklæðum, en stytta hennar stendur til hægri við kórinn.

Þetta er stórt og mikið guðshús og á við Antoníusarkirkjuna í Padúa að stærð, en ekki eins mikið skreytt. Byggingarstíllinn er gotneskur og tilkomumikið var að koma inn undir háar hvelfingarnar. Því næst ókum við til Juniville og leituðum að gröf séra Baudoin hins kunna prests í Landakoti á 19. öld. Við fórum í ráðhús bæjarins, töluðum við gamalt fólk, en allt kom fyrir ekki, enginn vissi neitt um séra Baudoin, né heldur um fólkið hans. Við fundum samt grafhýsi í kirkjugarðinum með þremur ómerktum gröfum, sem okkur fannst að gæti verið grafhýsi séra Baudoins. En greinilegt er að það kostar miklu meiri leit að finna legstað hans svo að öruggt sé, ef það er þá hægt. Svona er heimurinn fljótur að gleyma.

Í Verdun

Þaðan fórum við til Verdun og skoðuðum orrustuvellina, kirkjugarðana og minnismerkin í höfuðborg friðarins. Tjölduðum þar. Um kvöldið skoðuðum við Verdunhæðir þar sem ein mestu átök fyrri heimsstyrjaldarinnar áttu sér stað. Landið þar á hæðunum var allt þakið gömlum sprengjugígum, en nú höfðu vaxið tré þarna svo að ekki sáust mikil missmíði á. Á einum stað fann ég kolryðgaðar leifar af gaddavírstægjum á járnstaur. Uppi á aðlalhæðinni var gamalt og rammgert virki. Upp úr því gengu tveir eða þrír miklir skotturnar. Á toppi þeirra voru hlífðarkúlur úr afarþykku járni sem greinilega höfðu fengið vænan skammt af sprengikúlum. Ofan af Verdunhæðum sá vítt um nærliggjandi héruð. Það var sérstakt að sjá byggt land svo langt sem augað eygði í allar áttir. Þetta var um kvöldið og það var farið að skyggja. Þunnt rakamistur lagðist yfir landið. Þaðan fórum við að skoða „byssustingjaskotgröfina“ en það er nafn á bandarísku minnismerki sem byggt er yfir samnefnda skotgröf. Hún hafði verið full af dátum í viðbragðsstöðu sem höfðu beint byssum sínum með byssustingjum á upp í loftið. Þá hafði orðið mikil sprenging nálægt og skotgröfin fylltist af möl og jarðvegi. Ekkert nema byssustingirnir stóðu uppúr. Það gerðu þeir enn þetta júníkvöld árið 1989.

Þegar við komum að gröfinni heyrði ég eins og silfurtæran óm af söng berast þaðan. Það var eins og ung kona eða jafnvel barn færi með ómþýtt sálmalag og hljómurinn barst með golunni. Ég hugsaði, að við værum þá ekki ein hér í kvöld. Þegar við komum upp að gröfinni var þar ekki sálu að sjá, ekkert heyrðist og allt í kring var þéttur og dimmur skógurinn og það var erfitt að ímynda sér að nokkur mannvera væri þar á ferli um kvöld syngjandi sálma.

Við keyrðum framhjá stríðsminjasafni. Það var lokað svo við sáum bara það sem úti var. Það sem eftirminnilegast var þar voru þó ekki fallbyssur eða önnur vopn heldur bandarísku hestvagnarnir. Það er skrýtin tilhugsun að þetta nútímastríð hafi að hluta til verið háð með hestum og hestvögnum. Þarna mættist tækni 19. og 20. aldarinnar. Við keyrðum framhjá kirkjugörðum þar sem krossarnir mynduðu reglulegar og allt að því óendanlegar raðir. Öðrum jarðneskum leifum hafði verið komið fyrir í einu risastóru grafhýsi, grafhýsi óþekkta hermannsins. Ég kann ekki að nefna hve margar milljónir manna féllu við Verdun í þessu tilgangslausa stríði. En fjöldinn er óhugnanlegur og ótrúlegur. Það er líka erfitt að gera sér í hugarlund til hvers þetta stríð var háð. Var það vegna auðlinda, eða deilna um jarðargróða? Ef til vill að einhverju leyti. En þó er ekki hægt að útiloka þætti eins og þjóðrembu, persónulegan meting og þráhyggju valdsmanna, jafnframt einhverskonar hugmyndafræðilegum ágreiningi. Eru þetta ekki hinar sígildu orsakir styrjalda? Eftir á er tilgangsleysið svo augljóst. Það er eins og mennirnir gleymi ótrúlega oft mennsku sinni og því að hennar þarf að gæta vel.


1. júlí. Laugardagur.
Haldið heim

Þennan dag ókum við til Luxemborgar og komum þangað fyrir hádegi. Flest okkar flugu heim þann dag en þrjú urðu eftir og komu heim daginn eftir. Áður en ég læt staðar numið í frásögninni vil ég taka fram að hinar meintu birtingar hl. Guðsmóður í Meðugorje njóta ekki viðurkenningar kaþólsku kirkjunnar því að sögn eiga þær sér stað allt fram á þennan dag og hafa gert allar götur frá 1981. Aðeins birtingar sem eru hættar og hægt hefur verið að rannsaka í heild sinni njóta slíkrar viðurkenningar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Hér endar því sagan af pílagrímsferðinni til Meðugorje 1989. Megi Guð blessa þig lesandi góður og hafðu þökk fyrir athygli þína og þolinmæði meðan á lestrinum stóð.

No feedback yet