« Pílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 16. kafliPílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 14. kafli »

29.06.07

  07:43:02, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1637 orð  
Flokkur: Pílagrimsferðir, Meðugorje

Pílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 15. kafli

29. júní. Fimmtudagur.

Við lögðum af stað um 10 leytið og héldum til Ars, þar sem nítjándu aldar presturinn hl. Jóhann María Vianney, verndardýrlingur sóknarpresta þjónaði. Saga þessa franska sveitaprests frá 19. öldinni er fyrir margra hluta sakir athyglisverð.

--o--

Jóhann María Vianney fæddist í Dardilly nálægt Lyon árið 1786, sonur fátæks bónda. Prestsnám hans spannaði árin 1806 til 1815 að vísu með fjórtán mánaða hléi þegar hann fyrir mistök var eftirlýstur fyrir liðhlaup og varð að fara í felur. Oft lá nærri að hann næðist. Einu sinni faldi hann sig í heybing og sverðsoddur leitarmanns stakkst á milli rifja hans. Þetta mál komst á hreint og hann gat haldið áfram að læra. Námið sóttist honum mjög seint. Hann var ómögulegur í latínu og því fékk hann ekki inngöngu í prestaskólann í Lyon, en gamall sóknarprestur tók hann í einkakennslu, því guðsótti og góðmennska Jóhanns sannfærði gamla prestinn um hæfileika hans til prestsskapar.

Tuttugu og níu ára var hann vígður, meira vegna grandvars lífernis, og persónulegra dyggða heldur en frammistöðu í námi. Fljótlega var hann sendur sem sóknarprestur til Ars-en-Dombes, tvö hundruð og fimmtíu manna sveitaþorps um það bil fjörutíu kílómetra fyrir norðan Lyon.

Hann lifði miklu bæna- og meinlætalífi, auk þess sem hann þrælaði sér út í prestsstarfinu. Hann nærðist rétt nægilega mikið til að halda lífi. Fyrstu sex árin borðaði hann að sögn lítið annað en soðnar kartöflur. Í frítíma sínum fór hann út í kirkjuna. Ars hafði um tíma verið þjónað frá næstu sókn, og kirkjuna þar sóttu í byrjun aðeins nokkrar eldri konur. En smátt og smátt varð áhrifa sóknarprestsins vart. Óþörf sunnudagsvinna, drykkjuskapur, formælingar og dans heyrði brátt sögunni til. Á tíu árum gerbreyttist þorpslífið og sögur af ótrúlegum umskiptum til trúarinnar og kraftaverkum fóru að berast frá Ars um langan veg. Sögurnar ollu því að mikill fólksfjöldi streymdi þangað að ná fundi sóknarprestsins. Hann var sagður búa yfir dulargáfum og geta sagt fyrir um framtíð manna, lesið hugsanir og hjörtu. Næstu þrjátíu árin biðu að jafnaði um þrjú hundruð manns á hverjum degi eftir því að fá að skrifta hjá honum. Fólksstraumurinn til sveitaþorpsins Ars var svo mikill að járnbrautarfélagið varð að opna bókunarskrifstofu í Lyon vegna ferðanna til Ars og koma á sérstökum áætlunarferðum þangað. Farmiðinn til Ars gilti í átta daga, því að fólk þurfti að bíða svo dögum skipti til að komast í skriftastólinn hjá sóknarprestinum.

Hann fór á fætur klukkan eitt að morgni gekk til kirkju, hringdi til angelusbænar til merkis um að skriftir gætu hafist. Klukkan sjö að morgni gerði hann hann hlé á skriftunum til að messa. Að lokinni þakkargjörð eftir messu fór hann aftur í skriftastólinn til klukkan ellefu en þá tók hann börn í kvertíma, að því búnu borðaði hann hádegismat, en tók sjaldnast meiri tíma til þess en fimmtán mínútur. Því næst heimsótti hann þá sem veikir voru en síðan fór hann aftur í skriftastólinn þangað til beðnar voru kvöldbænir. Að þeim loknum gekk hann til náða og svaf í um það bil þrjá til fjóra tíma. Talið er að hann hafi að jafnaði varið um átján klukkustundum í skriftastólnum á sólarhring. Til eru sögur um að hann hafi með bænagerð margfaldað korn fyrir áttatíu barna munaðarleysingjahæli sem hann kom á fót. Þann dag leit út fyrir að börnin yrðu að svelta, en ekkert varð af því. Talsvert var um að menn kæmu með peningagjafir til hælisins eða kirkjunnar, og oft fann sóknarpresturinn umtalsverðar fjárfúlgur í skrifborði sínu. Ótrúlegar sögur eru til um lækningakraftaverk hans. Sagt er að fólk sem var dauðveikt og læknar höfðu gefið upp alla von með hafi risið úr rekkju eins og ekkert hefði fyrir komið.

Hann var gagnrýndur af klerkastéttinni fyrir meinlætalíf sitt, sem sumir töldu að gengi allt of langt, og jafnvel heyrðust ásakanir um að hann væri geðveikur. Þeim ásökunum svaraði biskupinn á þann veg að hann vildi að allir prestarnir sínir hefðu snert af þeirri sömu geðveiki. Það sem samt er einna ótrúlegast við sögu hl. Jóhanns eru meint fyrirbæri þau sem áttu að hafa gerst í húsi hans og víðar. Undarleg hljóð heyrðust um nætur, reiðilegar raddir heyrðust kalla nafn sóknarprestsins í prestsbústaðnum og á munaðarleysingjahælinu. Mynd af hl. Guðsmóður og stytta af hl. Fílúmenu uppáhaldsdýrlingi sóknarprestsins voru oft ataðar aur og drullu. Sóknarpresturinn var dreginn um herbergið í rúmi sínu. Eina nóttina kom upp eldur í rúminu og breiddist út til nærliggjandi hluta, en stöðvaðist síðan. Þessi undarlegu fyrirbæri voru að sögn prestsins öruggir fyrirboðar þess að næsta dag kæmi einhver sem hefði stórsyndir að játa.

Prestarnir í nærliggjandi sóknum gerðu grín að þessum furðusögum og komu fram við Arsprest eins og hann væri truflaður á geði. Einn prestanna sem gert höfðu grín að þessu lenti þó í því að verða sjálfur vitni að fyrirbærum. Hann kom óttasleginn til sóknarprestsins og stundi því upp að prestsbústaðurinn í Ars væri að hrynja. Hl. Jóhann brosti aðeins. Presturinn, séra Chevalon, kallaði Drottin til vitnis eftir á og sagði að hann ætlaði ekki að hafa undrin í flimtingum framar og sóknarprestinn í Ars teldi hann heilagan mann. Sóknarpresturinn tók þessi fyrirbæri ekki sérlega nærri sér, hann sagði: „Það er krækirinn (grappin ) sem stendur fyrir þessu, hlæðu bara að honum.“ Hl. Jóhann Vianney dó árið 1859 þá 73 ára að aldri útslitinn eftir langa ævi meinlætalífs. Hann var tekinn í dýrlinga tölu 1925 og gerður að verndardýrlingi sóknarpresta.

--o--

Ennþá er Ars sveitaþorp, sem byggir afkomu sína á landbúnaði og ferðamönnum. En ekki voru jafn margir ferðamenn á ferli í Ars þennan dag sem við vorum þar, og sagt er að hafi verið rúmum hundrað og þrjátíu árum fyrr. Sóknarprestinum hafa verið reist vegleg minnismerki. Meðal annars neðanjarðarkirkja sem tekur fjölda manns. Hún er sjálfsagt neðanjarðar til að spilla ekki ásjónu þorpsins sem er einföld og friðsæl. Hús sóknarprestsins stendur enn og er nú safn, þar eru hans persónulegu munir meðal annars rúmið fræga sem kveiknaði í og má enn glöggt sjá ummerki eldsins á því. Sama kirkjan stendur enn, og þar er skriftastóllinn frægi. En það sem allra mesta furðu vakti var að líkami sóknarprestsins er til sýnis í glerkistu fyrir ofan hliðaraltari í kirkjunni. Hann er skrýddur fullum prestsskrúða. Andlitið hafði verið vaxborið. Þarna lá þessi litli líkami, varla lengri en einn og hálfur metri og hallaðist andlitið í áttina til ferðafólksins. Það var mikill friður yfir ásjónunni og góðleiki. Á veggnum til vinstri hékk óskaplegur fjöldi gamalla heiðursmerkja. Þegar betur var skoðað kom í ljós að nafn sóknarprestsins sást ekki á þeim. Þetta virtust vera heiðursmerki þeirra sem höfðu skriftað, skilin eftir hjá sóknarprestinum. Þarna ægði öllu saman. Þeim sem unnið höfðu til heiðursmerkjanna fannst ekkert betra gert við þau en að gefa þau litla prestinum, manninum sem sumir hinna efagjörnu álitu ruglaðan.

Við skoðuðum staðinn og á eftir messaði séra Jakob í gömlu sóknarkirkjunni. Eftir messuna héldum við frá Ars eftir hraðbrautinni í áttina til Reims. Það fór að rigna svo að sr. Jakob hringdi í vini sína, hjón sem bjuggu í Montrot nálægt Arc-en-Barrois í gömlu munkaklaustri frá 16. öld. Klaustur þetta hafði verði yfirgefið í frönsku byltingunni. Hjónin tóku okkur afar vel, buðu okkur til kvöldverðar og síðan þáðum við gistingu í húsi þeirra. Eitt húsið á landareigninni er ævagamall steinturn talinn frá árinu 1080. Við Gunnar og Hrafn fengum að sofa þar. Þetta var í þriðja sinn í ferðinni sem við gátum sofið í rúmi, hin tvö skiptin voru hjá Fransiskussystrunum í Sviss og hjá st. Bernharðsmunkunum. Það var góð hvíld frá tjaldinu.

--
Kaflinn um ævi Hl. Jóhanns M. Vianney var skrifaður fyrir Sóknarblað Kristskirkju og birtist í því blaði líklega árið 1988 eða 9. Aðalheimild að honum var Butler's Lives of The Saints, gefin út af Burns and Oates, London 1985, endurprentuð 1988. Fleiri ritaðar heimildir voru einnig notaðar en hverjar þær voru er gleymt enda vægi þeirra í frásögninni minna. Frekari heimildir um hl. Jóhann Vianney má finna á vefslóðinni http://www.newadvent.org/cathen/08326c.htm

No feedback yet