« Pílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 15. kafliPílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 13. kafli »

28.06.07

  07:43:33, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 948 orð  
Flokkur: Pílagrimsferðir, Meðugorje

Pílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 14. kafli

28. júní. Miðvikudagur.

Þau okkar sem vöknuðu í tíma voru viðstödd morgunbænir og messu munkanna sem fór fram í lítilli hvelfingu undir húsinu sem innréttuð hafði verið sem kapella. Þar niðri mátti skynja nið aldanna berast frá margvísum og þungum burðarsteinum hússins. Þó að þetta væri í kjallarahvelfingu var þar bjart, hlýtt, þurrt og hreint. Munkarnir héldu messu, sungu tíðasöng sinn og gengu svo til morgunverðar.

Leiðin niður í kapelluna lá í gegnum gamla forstofu gistihússins og þar gat að líta stórar aðaldyr sem vissu út að þröngu sundi sem þjóðleiðin lá um. Fyrir dyrum var forn og rammgerð hurð boltuð saman með járni. Þar í forstofunni var áletrun rist í stein og stórt málverk af einum af frægari gestunum, Napóleóni Frakkakeisara á leið sinni yfir skarðið í maí árið 1800.

Á eftir morgunbænum leiddu munkarnir okkur til höfuðborðstofu sinnar. Það var ekki sú sama og kvöldið áður. Þar inni var pláss fyrir um 50 manns í sæti. Á veggjum gat að líta gamlar ljósmyndir frá því snemma á öldinni sem sýndu vegmóða skeggjaða og veðurbarða ferðamenn vera að borða brauð og ost í þessari sömu stofu. Því næst buðu munkarnir okkur að skoða safn klaustursins þar sem saga þjóðleiðarinnar og staðarins var rakin aftur úr grárri forneskju. Í sérstökum sýningarskála voru svo st. Bernharðshundarnir, sem kenndir eru við þennan stað. Þetta voru stórir hundar, hvítir og með brúnum flekkjum. Þeir lágu fram á lappir sínar í búrum og sváfu og gerðu sér ekki títt um gestakomur. Þar voru líka hvolpar að leik. Það var fróðlegt og skemmtilegt að sjá þetta allt. Á eftir versluðum við í lítilli minjagripaverslun í næsta húsi við klaustrið hinu megin við aðaldyrnar stóru. Þar var hægt að fá allt milli himins og jarðar. Þar voru margar tegundir af svissnesku súkkulaði, mikið úrval svissneskra útileguhnífa auk hefðbundins ferðamannavarnings. En það skemmtilegasta var samt sem áður hundadúkkurnar, eftirlíkingar af st. Bernharðshundum í öllum stærðum. Við hlóðum bílinn af hundadúkkum handa ættingjum og vinum sem höfðu átt afmæli meðan við vorum í burtu. Við lögðum af stað um tíuleytið. Séra Jakob keyrði niður hlykkjóttan veginn. Fjallalækir sem ærsluðust niður brattar hlíðarnar sameinuðust í yfirveguðum ám neðar. Þegar komið var niður af fjallinu lá leiðin um búsældarlega dali, með snyrtileg bændabýli í hlíðunum. Við héldum samt sem áður ekki lengra inn í Sviss, heldur tókum stefnuna til vinstri og ókum inn í Frakkland. Ferðinni var heitið til Annecy í Frakklandi og við fórum framhjá Chamonix. Því miður var dálítið skýjað svo við sáum ekki Hvítatind, (Mont Blanc) hæsta fjall Evrópu. Í Annecy var verslað og basilika hl. Frans frá Sales skoðuð. Ókum til þorpsins Jassans nálægt Lyon og tjölduðum þar. Þar var tjaldstæði með sundlaug.

Aftur í Frakklandi

Um kvöldið ókum við séra Jakob, Perla og ég til gamals herragarðs sem heitir Chateau de Macy, rétt hjá þorpinu Chasseley fyrir utan Lyon, en þar er til húsa ung menningarleg trúarregla. Menningarreglan í Cluny gæti heiti hennar verið á íslensku (The Cultural Order of Cluny á ensku). Reglan, sem stofnuð er af frönskum leikara á 7. áratugnum er byggð á ýmsum gömlum hugmyndum kristninnar, svo sem þeirri að Guð sé fegurð. Reglan starfar að því að færa upp leiksýningar, gefa út tímarit, mála málverk og fást við hverskonar listsköpun og listbjörgun. Mikið er gert af því að bjarga fögrum listaverkum frá gleymsku eða gömlum og fallegum húsum frá niðurníðslu. Eitt slíkt hús er Chateau de Macy, sem jafnvel mætti kalla kastala. Þarna í Macy byggðu þeir á sjálfsþurftarbúskap, heyjuðu túnin og héldu skepnur. Eitthvað mun vera um að tekið sé við ungum fíkniefnaneytendum frá Lyon til endurhæfingar. Þau buðu okkur í mat, og sýndu okkur híbýli sín sem voru mjög virðuleg. Þarna var gamalt eldhús með gríðarstórri eldstó þar sem bökuð voru brauð, borðsalur, danssalur, lítill leiksalur og svið þar sem þau æfðu leikritin og margt fleira. Ég ræddi aðeins við Kristófer, en svo hét einn þeirra. Hann gaf mér einhverja bestu tilgangsskýringu á verkinu „Beðið eftir Godot“ eftir Beckett sem ég hef heyrt á jafnskömmum tíma. Á eftir var okkur boðið til kvöldbæna í kapellunni. Reglusystkin fóru í einfalda ljósa kufla úr grófu efni fyrir bænagerðina. Kapellan var í kjallara hússins, þar var allt mjög hreint og þurrt og veggir hvítmálaðir en grófir. Lýst var upp með kertum og mig minnir kyndlum. Reglusystkin gengu inn tvö og tvö í senn, staðnæmdust fyrir framan altarið, signdu sig úr vígðu vatni og hneygðu sig svo mjög djúpt fyrir altarinu og guðslíkamahúsinu. Allt þetta skapaði sérstaka stemmingu sem var hvort tveggja í senn, hrifning og lotning. Að bænagjörðinni lokinni kvöddum við þau með virktum.

Framhald...

No feedback yet