« Pílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 14. kafliSvipmyndir frá Meðugorje »

27.06.07

  05:42:36, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1253 orð  
Flokkur: Pílagrimsferðir, Meðugorje

Pílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 13. kafli

27. júní. Þriðjudagur.

Lögðum af stað um fimmleytið um morguninn. Keyrðum í áttina til Ljubljana. Lentum í umferðartappa þegar við fórum framhjá Ljubljana og töfðumst í um hálfa klst. Við komum inn í Ítalíu hjá Sezana og Trieste um 10 leytið. Við landamærin var löng biðröð bíla. En allt gekk vandræðalaust.

Það var ekki laust við að sumum okkar létti þegar komið var út úr Júgóslavíu. Það var ekkert að landinu að finna og fólkið var vinsamlegt og hjálplegt, þó að það tíðkaði sumt viðskiptahætti sem við höfðum ekki vanist og gjarnan þyrfti að prútta. Svartamarkaðsbrask var í gangi, sérstaklega nálægt landamærunum, verðlag var óstöðugt og gengi dínarsins féll dag frá degi. Eitt sinn teygði sig strokinn og pússaður maður óumbeðið inn um bílgluggann og breyddi úr gullkeðju sem hann vildi selja fyrir þýsk mörk eða dollara. Við báðum hann vel að lifa. Himneskt gull en ekki jarðneskt var viðfangsefni okkar. Oft fór það ekki leynt að dollarar voru betur séðir en dínarar, enda ekki furða því verðgildi dínarsins virtist vera óljóst meðal landsmanna. Við ströndina höfðum við keypt einn og hálfan lítra af volgu kóki fyrir 75.000 dínara, en inni í landi fengum við sama magn fyrir 7.500 dínara! Við hraðbrautarbrúnina voru áningarstaðir sem voru lítið annað en dollarabúðir fyrir ferðamenn þar sem hægt var að kaupa litsjónvarpstæki og þess háttar fyrir litla upphæð í dollurum. Við stönsuðum við einn slíkan stað bara til að skoða og viti menn, stéttin kringum húsið var úr slattaðri steinsteypu, kannski byggð samkvæmt opinberum staðli um ferðamannaverslanir! Frekur gluggaþvottastrákur kom og þvoði framrúðuna á bílnum óumbeðið og heimtaði svo umtalsverða upphæð í dollurum, þegar honum var neitað heimtaði hann þýsk mörk, hann hafði ekki erindi sem erfiði því hann varð að sætta sig við sanngjarna dínaraþóknun. Það lá því í loftinu að okkur létti við að koma til Ítalíu. Ef til vill voru það loftkældar verslanir, með gnægðir af venjulegum varningi og að þar var hægt að kaupa kalt kók í áldósum á föstu verði og ekki þurfti að prútta um neitt. Við vorum alla vega viss um að vegabréfin yrðu ekki tekin af okkur í næturstað. Við gáfum í og lögðum strax í hraðferð í áttina til Mílanó eftir A-4 hraðbrautinni og séra Jakob fór að syngja. Hann hafði keyrt fram að þessu svo það kom í minn hlut að keyra yfir Norðurítalíu þennan sólríka sumardag. Það var dálítið mistur þar eins og fyrri daginn, en það kom ekki í veg fyrir að það sæist til gamallra og glæsilegra halla sem stóðu ekki langt frá veginum. Þetta var ekki svo ólíkt því að keyra um Landeyjarnar í svipuðu veðri, en þar sem þar eru sveitabæir á hólum eru á Norðurítalíu hallir á hæðum eða borgir við vötn. Við ókum síðan upp til Aosta sem er gömul Rómversk borg í Dólómítafjöllum við rætur ítölsku Alpanna. Þar er hrífandi náttúrufegurð, lítil sem engin loftmengun og brött fjöll með snævi þakta toppa umlykja héraðið. Það er á þessum slóðum sem páfi fer í sumarfrí. Aosta er hreinleg borg og ber með sér góðan þokka. Þegar við vorum þar var heiðskírt og loftið var svalt, tært og hressandi fjallaloft sem var góð tilbreyting frá rakanum og bitmýinu í mýrinni við Cadez eða menguninni í kringum Mílanó. Í Aosta úir og grúir af rómverskum fornminjum, hlaðnir veggir og götur, og ekki má gleyma dálitlum „sigurboga“ eða hliði frá rómverska tímanum. Til frekari skýringar skal þess getið að Aosta er sú ítölsk borg eða bær sem næst er St. Bernharðsskarðinu fræga Ítalíumegin, en sú leið var um margar aldir þjóðleiðin norðan úr Evrópu til Ítalíu. Það var þar sem Hannibal fór um með fíla sína til árásar á Ítalíu og þar fór líka Napóleón í sama tilgangi. Líklegt að margir Íslendingar hafi farið þessa leið fyrr á öldum, sérstaklega í kaþólskri tíð, þeir sem „gengu suður“. Þeir hafa að líkindum gengið gegnum hliðið hlaðna í Aosta. Það var því ekki laust við að ritara þessarar sögu þætti mikils um vert að fara í fótspor þessara fornu áa. Þarna var mikið af litlum ferðamannaverslunum. Þó að heimamenn tali ítalsku að mestu þá var þetta fyrst og fremst Alpaland. Franska og þýska hefðu gengið líka.

Sr. Jakob hringdi til St. Bernharðsmunkanna í klaustrinu uppi á skarðinu og tók af þeim loforð um að við mættum gista þar. Við lögðum af stað upp á fjallið. Vegurinn var malbikaður og mátulega breiður. Hann hlykkjaðist í ótal bugðum á leiðinni upp. Þegar við vorum hálfnuð upp keyrðum við framhjá fjallaþorpinu St. Remy. Rétt áður en við komum upp í þokuna ókum við fram á kúahóp. Þetta voru stórar svartskjöldóttar kýr og þær töldu sig hafa jafnan rétt til vegarins, sem þær og höfðu. Sumar voru með bjöllur. Við stönsuðum og skoðuðum þær. Eftir kurteisismyndatökur, hefðbundið snus, eyrnablak og halaslátt héldum við áfram. Þegar við vorum næstum komin upp í skarðið komum við að svissneskri landamærastöð. Landamæravörðurinn var úti að spásséra í úníforminu, sem var það skrautlegasta sem við höfðum séð í þessari ferð. Svart með gylltum borðum og kaskeiti. Okkur hefði ekki þótt neitt skrýtið þó hann hefði verið með korða. Hann stoppaði okkur og spjallaði aðeins en þó eins og mest fyrir kurteisis sakir.

Hjá St. Bernharðsmunkum.

Nálægt þeim stað sem skarðið er hæst í 2472 m. hæð stendur klausturgistihús St. Bernharðsmunka. Þar fórum við inn. Verið var að taka söng munkanna upp á plötu og þeir báðu okkur að ganga hljóðlega um. Þeir leiddu okkur í borðstofu og færðu okkur spagettímat góðan og ljúffengt brauð. Allir borðuðu sig sadda og fengu svo eftirrétt. Að því búnu leyfðu munkarnir öllum að hringja sem vildu, þeir leiddu okkur til símstofu sinnar, þar sem voru fjarskiptatæki af öllum gerðum.

Því næst vorum við leidd til svefnherbergis þar sem pláss var fyrir fjölda manns í kojum. Einu svefngestirnir í þeim sal fyrir utan okkur voru tveir svissneskir hermenn í hjólreiða- og bakpokaferð. Þeir höfðu farið að sofa nákvæmlega á slaginu 10 (genau), og voru svo kurteisir að æmta hvorki né skræmta þó að létt væri yfir okkur ferðalöngunum.

Framhald...

No feedback yet