« Svipmyndir frá Meðugorje Pílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 11. kafli »

26.06.07

  07:31:09, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 314 orð  
Flokkur: Pílagrimsferðir, Meðugorje

Pílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 12. kafli

26. júní. Mánudagur.

Við vöknuðum eldsnemma næsta morgun og lögðum af stað um sexleytið frá Meðugorje. Keyrðum upp miðja Júgóslavíu, gegnum Mostar, Prozor og Banja Luka. Borðuðum á veitingahúsi. Þetta er falleg leið. Á einum stað, í dalverpi nokkru var þó svo mikil mengun að skyggnið var ekki nema um 50 metrar, það hefur sennilega verið brúnkolareykur. Eitt sinn ókum við fram á heyvagn sem mjakaðist löturhægt áfram. Framundir vagninum sást á fætur á stórgrip, þegar farið var framúr kom í ljós að þetta var uxaeyki! Þarna lötraði uxinn áfram á malbikinu, hægt en örugglega.

Meðfram vegunum sem allir voru lagðir bundnu slitlagi sást fólk á gangi með orf og ljá eða hrífu um öxl. Víða biðu stórir hópar fólks við biðskýli við vegarbrúnina eins og þeir væru að bíða eftir strætó. Ekki var mikið um einkabíla, en talsvert um vörubíla. Ég hafði það á tilfinningunni að allir þessir fínu vegir væru ekki byggðir fyrir fólkið í landinu heldur fyrir skemmtiferðamenn á Volvóum og Bensum og ef til vill vörubílana. Það var líka eftirterktarvert hve hús landsmanna voru reisuleg og góð. Í sveitinni virtust flestir hafa efni á því að hlaða þriggja hæða villur sem síðan voru málaðar hvítar. Húsin og umhverfi þeirra voru hreinleg og snyrtileg. Það var ekki nema í þorpunum sem við sáum hús sem gætu kannski talist léleg. Þennan dag komumst við um 30 km framhjá Zagreb og tjölduðum á tjaldstæðinu við Cadez. Þar var fín aðstaða, m.a. sundlaug. Dálítið af bitmýi. Þar var mikið af þýskum skemmtiferðamönnum.

No feedback yet