« Pílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 12. kafliPílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 10. kafli »

25.06.07

  08:33:43, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 945 orð  
Flokkur: Pílagrimsferðir, Meðugorje

Pílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 11. kafli

25. júní. Sunnudagur.

Ég og Gunnar Lund vöknuðum snemma um morguninn og löbbuðum niður í plássið og þaðan stíginn sem lá upp á Krossfjallið (Krisevac). Við lögðum af stað um klukkan sjö. Þykkt rakamistur grúfði yfir sjóndeildarhringnum og trjánum. Duglegustu hanarnir höfðu byrjað að gala fyrir sólarupprás og þeir lötustu létu heyra í sér um það leiti sem við lögðum af stað.

Við höfðum ekki búist við að mæta neinum, en á leiðinni gengum við samt fram á heldur skuggalegan hóp ungra manna, sem gáfu okkur ókristilegt hornauga eins og þeir væru að mæla okkur út. Pílagrímar voru það ekki því að mér fannst sem ég gæti lesið endalínuna úr stöku Páls Ólafssonar út úr andlitum þeirra: „Betra er en bænagjörð/brennivín að morgni dags.“ Þó voru þeir fjarri því að vera drukknir. Við Gunnar hófumst strax handa við bænagjörðina þegar við komum að rótum fjallsins. Á leiðinni upp hefur verið komið fyrir listaverkum sem sýna svonefndar viðstöður krossferilsins. Krossferillinn er kaþólsk bæn sem oftast er beðin á föstunni eða til sérstakrar yfirbótar fyrir syndir. Hún samanstendur af fjórtán hugleiðingaratriðum úr píslarsögunni. Nokkurs konar Passíusálmar kaþólskra, nema meira er lagt upp úr íhugun og hugleiðslu. Á leiðinni upp á fjallið hafði því verið komið fyrir með reglulegu millibili fjórtán eirskjöldum með myndum úr píslarsögunni. Ferðin upp á fjallið felst í því að staðnæmast við myndirnar og lesa ákveðinn texta við hverja mynd. Síðan er hægt að ganga í þögn að næstu mynd, eða biðja rósakransinn á leiðinni. Stígurinn upp er gerður eins og allt þetta landsvæði úr þessum ljósu jarðföstu grjótnibbum. Sumar eru ávalar en aðrar hvassar. Á leiðinni upp mættum við engum nema berfættum þeldökkum manni gangandi grjótið á leiðinni niður um leið og hann bað. Við urðum fljótlega varir við fólk á eftir okkur og því fjölgaði stöðugt. Við vorum með þeim fyrstu upp á fjallið, komum upp um kl. 8.30. Sólin var farin að skína og það hlýnaði óðum. Uppi á fjallinu er stór kross úr steinsteypu, byggður milli 1930 og 1940 að mig minnir. Þarna voru líka fleiri krossar en sá stóri því litlum trékrossum hafði verið stungið þar milli steina. Fólkinu fjölgaði mjög ört þegar upp var komið og á örskömmum tíma voru yfir 100 manns komnir þangað upp og þar fjölgaði hratt. Uppi á fjallinu var nokkuð um að eldri konur sem og aðrir framkvæmdu helgiathafnir sem mér varð starsýnt á og fólust í því að mismuna sér áfram á hnjánum um leið og rósakransinn var beðinn. Þetta leit út fyrir að vera erfitt og vart framkvæmanlegt fyrr en upp var komið eins og gefur að skilja út af steinnibbunum. Frá Krossfjallinu er víðsýnt um nágrennið, toppur þess er á að giska í um 150-200 m. hæð yfir umhverfinu. Þaðan sést vel til Birtingarhæðar (Podbrdo) þar sem fyrsta vitrunin á að hafa átt sér stað. Sú hæð er í um tveggja km. fjarlægð í austurátt.

Eftir um hálfrar klukkustundar dvöl á fjallinu héldum við niður. Þá var mannmergðin á leiðinni upp orðin þvílík að leiðin eftir stígnum var ófær, það var eins og Laugavegurinn á góðum degi fyrir kringlutíð margfaldaður með fjórum væri á leiðinni upp. En niður komumst við þó einhvernveginn. Mikill fjöldi fólks var á leið til þorpsins. Hver rútan á fætur annarri staðnæmdist og hleypti út fólki. Þetta voru allar gerðir af rútum og allar gerðir af fólki. Þarna staðnæmdist stór tveggja hæða nýtísku og glansandi rúta, með lituðu gleri í rúðum örugglega með ferðasalerni og loftkælingu innandyra. Út úr henni steig glaðlegt fólk í góðum fötum með svissneska fánann. Þarna komu líka gamlar og litlar rútur af Dubrovnik-gerð, sem litu út fyrir að eiga að baki að minnsta kosti 30 ára ferðalag á hnúskóttri og harðri jörð Króatíu og Bosníu. Þær sigu á fjaðrirnar í beygjunum svo að ferðalangarnir, svartklæddar konur með slæður og magrir útiteknir karlar með sinaberar og krepptar hendur af vinnulúa gripu í járnstöngina á sætinu fyrir framan. Þetta var fátæklegt fólk en úr andlitum þeirra fannst mér ég lesa heiðarleika og einlægni.

Mannmergðin var óskapleg og hafðist margt að. Flest okkar fóru í króatísku messuna um kvöldið. Séra Jakob, sem tók þátt í messuhátíðinni um kvöldið sagði að Fransiskanarnir hefðu áætlað að um 100.000 manns hafi verið í Meðugorje þennan dag. Mannfjöldinn í króatísku messunni var líka mikill, um 40 þúsund héldu Fransiskanarnir, og breiddi sig yfir allt nágrenni kirkjunnar. Predikarinn talaði á króatísku lengi og af innlifun meðan rökkrið seig yfir og ljósin kveiknuðu eitt af öðru. Mannfjöldinn hlýddi á þögull. Ég þóttist nema orð eins og perestrojka og glasnost en skildi annars ekkert.

Framhald...

No feedback yet