« Pílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 11. kafliPílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 9. kafli »

24.06.07

  09:02:45, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 514 orð  
Flokkur: Pílagrimsferðir, Meðugorje

Pílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 10. kafli

24. júní. Laugardagur.

Morguninn eftir voru allir þreyttir og sváfu út. Flest okkar fóru í ensku messuna kl. 12 á hádegi. þennan dag voru 8 ár síðan birtingarnar hófust. Amerískur prestur predikaði fyrir stórum hópi amerískra pílagríma og annarra enskumælandi. Hann sagði að ekkert kraftaverk hefði orðið í pílagrímsgöngunni upp á Krossfjallið kvöldið áður, nema það að allir komust óbrotnir niður aftur í myrkrinu og rigningunni.

Mikill trúarhiti var í messunni. Margir viðstaddra vildu haldast í hendur og lyfta þeim. (ýmsar athafnir svo sem að lyfta höndum eða kveikja eld á kertum eða öðrum eldfærum í messum eða meðan á helgiathöfnum stendur þekkist líka meðal gesta á rokktónleikum. Þarna virðist vera um einhverja sammannlega hrifningartjáningu að ræða.)

Síðdegis fóru flestir að versla en mikið kraðak af minjagripaverslunum var meðfram götunni til þorpsins og allt að kirkjutorginu. Þarna var gott úrval af eigulegum helgigripum, styttum af öllum stærðum og dýrleika, medalíum, rósakrönsum, myndum, myndböndum, hljóðböndum osf. Ég keypti nokkra góða muni, m.a. styttu af hinum flekklausa getnaði úr gegnheilum steini og borgaði fyrir eitthvað smáræði, mig minnir eitthvað um 1600 kr. Samt fann ég ekki krossmark sem ég var ánægður með fyrr en eftir nokkra leit. Rósakransinn byrjaði á tilsettum tíma rétt fyrir 6 að mig minnir. Fólkið tók að safnast saman og biðja inni og úti og hljómurinn frá bænagjörðinni barst frá gjallarhornum sem staðsett voru á kirkjutorginu.

Messan á króatísku var á sínum stað klukkan sjö síðdegis. Hún var enn fjölmennari en kvöldið áður. Í þetta sinn sá ég engin óvenjuleg fyrirbæri á sól. Eftir messuna blessaði fransiskanapresturinn Slavko Barbaric helgigripi. Þar á meðal voru nokkrir sem fóru til Íslands. Þetta gerði hann með miklum innileika og án flýtis. Það var eins og þessum manni lægi aldrei neitt á, hann bað rósakransinn alltaf jafnhægt og með virðuleika og það sama gilti um þessa blessun, það var vandað til hennar. Hann virtist vera alveg óþreytandi. Sennilega hefur hann aldrei vanið sig á flýtisvinnu svo sem að bjarga heyi undan rigninu eða eitthvað þessháttar. Manngrúinn var geysifjölmennur og fólk hlýtur að hafa streymt til staðarins allan daginn, enda ekki að furða því morgundagurinn var opinber afmælisdagur birtinganna og önnur mesta hátíð staðarins í Meðugorje. Það fór að rigna hægt og hljóðlega, það dimmdi og mjög fljótlega var komið myrkur. Þarna getur maður ekki reitt sig á rökkrið eins og á Íslandi, og það varð til þess að sum okkar urðu að paufast gegnum kraðak af fólki og bílum í myrkri og úðarigningu, með plastpoka með minjagripum í fangi, þessa hérumbil þrjá kílómetra frá nágrenni Jakobskirkjunnar að tjaldstæðinu.

No feedback yet