« Ritningarlesturinn 1. október 2006Ritningarlesturinn 30. september 2006 »

30.09.06

  08:22:54, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 581 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Persónan

Orðið persóna er komið úr latínu og dregið af orðinu „personare,“ að hljóma. Rómverskir leikarar báru grímur í hringleikahúsunum sem nefndar voru persona. Grímurnar mögnuðu raddir þeirra upp þannig að áheyrendur heyrðu betur hvað þeir sögðu. Þetta var eins konar „hátalarakerfi“ til forna. Ekki veit ég hvort þessar grímur hafi skaðað heyrn leikaranna eins og „nano-poddar“ nútímans gera að fróðra manna sögn ef þeir eru stilltir of hátt.

Í kristnum skilningi þýðir orðið persóna að enduróma raust Guðs og magna hana upp: Að verða að eins konar „endurvörpunartæki“ Guðs til heimsins. Fjölmargir nútímamenn eru hins vegar persóna sem endurvarpar því sem þeir eru sjálfir: Eigin persónu eða egói. Eitt sinn hlustaði ég á viðtal við konu eina í útvarpinu. Viðtalið stóð ekki yfir nema í tuttugu mínútur og til gamans taldi ég upp hversu oft konan greip til orðsins „ég.“ Það var 568 sinnum! Þetta er að heillast af sjálfum sér: Að hlusta á rödd sérdrægninnar í sjálfum sér. Þetta er sá sannleikur sem Grikkir til forna fólu í goðsögninni af Narcissus. Narcissus hafnaði ástum skógardísarinnr Echo og hún hefndi sín með því að láta hann verða ástfanginn af eigin spegilmynd í tjörn. Þar sem hann gat ekki svalað elsku sinni tærðist hann upp og breyttist í blóm sem síðan ber nafn hans: Páskalilja (narcissus).

Í sálarvísindum nútímans er „narcissism“ lýst sem sjúklegri sjálfselsku og bera vott um alvarlega persónuleikaröskun. En í augum veraldarhyggjunnar (secularism) er slíkt talið til dyggða og mannkosta og á hverjum vetri eru haldin fjölmörg „sjálfsstyrkingarnámskeið.“ Í hugleiðingunni með Ritningarlestrinum í dag bendir Tómas frá Akvínó okkur á hvernig við græðum sjúklega sjálfselsku. Það gerum við með því að ganga upp á fórnarhæð krossins. Þar drýpur háheilagt blóð Jesú yfir okkar eigin hjörtu, en í Gamla sáttmálanum var blóðið tákn lífsins. Þannig var prestum Arons meinað að neyta blóðs fórnarinnar vegna þess að það var forgildi hins yfirskilvitlega lífs sem Guðsonurinn myndi gefa mennskunni hlutdeild í með krossfórn sinni.

Þetta leiðir okkur inn í leyndardóm persóna Alhelgrar Þrenningar. Þar gefst Faðirinn Syninum að eilífu í elsku Heilags Anda. Þar endurómar allt í Elsku. Þegar við kynnumst þessari elsku er sjúkleg sjálfselska okkar grædd og við umbreytumst í HANN í kristsgjörningunni. Það er þetta sem Jóhannes guðspjallamaður greinir okkur frá: „Hann á að vaxa, en ég að minnka“ (Jh 3. 30). Þá getum við tekið undir orð Páls postula og sagt: „Sjálfur lifi ég ekki framar, heldur lifir Kristur í mér“ (Gal 2. 20).

BÆN:

Alhelga Hjarta Jesú,
uppsprettulind hins háheilaga blóðs.
Úthell krafti hreinsandi blóðs þíns
yfir lemstraðan líkama hinnar
stríðandi kirkju á jörðu og
kirkju þjáninganna í hreinsunareldinum.
Gef í miskunnarríkri gæsku þinni
að fleiri og fleiri sálir dragist til
kristsgjörningarinnar á jörðu
og úr þjáningum hreinsunareldsins.
Gef í krafti fyrirbæna okkar og
hinnar sigrandi kirkju himnanna
að allt mannkynið verði leitt
til dýrðar hinnar himnesku tjaldbúðar
í miskunnarríkri elsku þinni. Amen.

1 athugasemd

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Kærar þakkir fyrir kröftugan, vekjandi pistil, sem breyttist svo eðlilega í kröftuga bæn.

30.09.06 @ 11:06