« Kenningin um Limbó kvödd | Gunnar Þórðarson semur messutónlist » |
Í Matteusarguðspjalli kafla 7. versi 6 stendur skrifað:
Gefið ekki hundum það sem heilagt er, og kastið eigi perlum yðar fyrir svín. Þau mundu troða þær undir fótum, og þeir snúa sér við og rífa yður í sig.
Síðar í sama guðspjalli er svipuð eða sama hugsun færð í orð í frásögninni af kanversku konunni (Mt. 15, 21-28):
Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar. Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: "Miskunna þú mér, herra, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda." En hann svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: "Láttu hana fara, hún eltir oss með hrópum." Hann mælti: "Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt." Konan kom, laut honum og sagði: "Herra, hjálpa þú mér!" Hann svaraði: "Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana." Hún sagði: "Satt er það, herra, þó eta hundarnir mola þá, sem falla af borðum húsbænda þeirra." [Leturbr. RGB]
Þá mælti Jesús við hana: "Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt." Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu.
Fleiri dæmi mætti tína til þar sem hann sýnir hinum auðmýktu og útskúfuðu sérstaka náð. Svo virðist sem um ákveðna þróun sé að ræða frá fyrstu tilvitnuninni. Líklega mun enginn kasta perlum fyrir svín í eiginlegri merkingu en þegar andleg verðmæti eru annars vegar má greinilega gera undantekningar.
RGB
Ragnar! Drottinn skynjaði í speki sinni að þessi kanverska kona var af hinni heilögu rót. Orðin Sonur Davíðs segja allt. Hún tilheyrði hinum sælu: „Sælir eru þeir er halda reglur hans, þeir er leita hans af öllu hjarta“ (Sl 119. 2).
Þetta er það sem hl. Páll boðar okkur: „Þegar heiðingjar. sem hafa ekki lögmál, gjöra að eðlisboði, það sem lögmálið býður, (að biðja um miskunn Drottins), þá eru þeir, þótt þeir hafi ekki lögmál, sjálfum sér lögmál“ (Rm 2. 14).
Þessi kanverska kona hlustaði á eðlisboð Guðs í djúpi hjarta síns og þá sá hún Guð í Jesú: Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá“ (Mt 5. 8).
Þvi hafa heiðingjarnir sér ekkert til afsökunar.
Vegna þess að Jesús er Guð veit hann hvað býr í manni. En það er allt annað mál fyrir okkur að vita og þá best að láta einhvern njóta vafans.