« Filippseyskir biskupar skrifa vefbækurVia Dolorosa - leið hins kristna manns »

17.04.06

  08:42:10, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 525 orð  
Flokkur: Dymbilvika og páskar

Páskarnir eru hátíð gleðinnar

Jóhannes biskup Gijsen skrifaði grein í Kaþólska kirkjublaðið sem kom út fyrir páskana 2006 sem bar heitið „Páskar: Hátíð gleðinnar“. Þar sagði hann m.a.

Á páskadag óskum við hvert öðru gleðilegra páska. Hvað merkir það? Páll postuli segir: „Fyrst þér því eruð uppvaktir með Kristi, þá keppist eftir því, sem er hið efra, þar sem Kristur situr við hægri hönd Guðs. Hugsið um það, sem er hið efra, en ekki um það, sem á jörðinni er. Því að þér eruð dánir og líf yðar er fólgið með Kristi í Guði“ (Kól. 3, 1-3). [1]

Í predikun sinni í páskavökunni aðfaranótt 16. apríl 2006 gerði Benedikt páfi XVI. andlega hugleiðingu Páls postula úr Galatabréfinu að þungamiðju máls síns: „Sjálfur lifi ég ekki framar, heldur lifir Kristur í mér.“ (Gal. 2.20) og sagði m.a:

Frelsun þess sem við nefnum „Ég“ úr einangrun sinni, þessi upplifun nýs sjálfs þýðir að við finnum okkur innan víðáttu Guðs og við erum leidd til lífs sem hefur færst út úr samhenginu að „deyja og verða.“ Ógnarkraftur upprisunnar hefur tekið við okkur í skírninni og leiðir okkur áfram. Þannig náum við, þrátt fyrir hita og þunga daganna, að tengjast nýrri vídd. Við lifum í samfelldri inngöngu inn í þetta opna rými. Þetta er tilgangur skírnarinnar, að vera kristinn. Þetta er fögnuður páskavökunnar. Upprisan er ekki atburður í fortíð. Upprisan hefur teygt sig til okkar og náð okkur. Við grípum í hana og við grípum í hinn upprisna Drottin og við vitum að hann heldur fast í okkur jafnvel þó við þreytumst. Við höldum í hönd hans og þannig höldum við í hönd hvers annars og verðum sem einn hugur, ekki bara einn hlutur. „Sjálfur lifi ég ekki lengur heldur lifir Kristur í mér“. Þetta er forskrift kristins lífs sem á rætur í skírninni. Formúla upprisunnar innan tímans. Ef við lifum lífinu á þennan hátt þá umbreytum við heiminum. Þetta er forskrift sem er andstæð öllum hugmyndakerfum ofbeldis, þetta er forskrift andstæð spillingu og þrá eftir völdum og eignum. ... Lífið kemur til okkar vegna þess að við erum elskuð af honum sem er lífið, það kemur því við lifum með og elskum með honum. „Sjálfur lifi ég ekki framar, heldur lifir Kristur í mér.“ Þetta er leið krossins, leiðin sem þversker líf sem innilokað er í sjálfinu og sem opnar því leiðina til sanns og varanlegs fögnuðar. [2]

Predikun páfa er að finna í heild sinni á ensku á tenglinum sem gefinn er upp hér að neðan. Hún er hin athyglisverðasta fyrir þá sem vilja leita hins kristna skilnings á upprisunni og er best lesin í heild sinni.

RGB/Heimildir:
[1] Páskar: Hátíð gleðinnar. Jóhannes Gijsen Reykjavíkurbiskup. Kaþólska kirkjublaðið 16. árg. 4. tölublað apríl 2006, bls. 2
[2] „I Live, But I Am No Longer I“. Zenit News Agency. http://www.zenit.org/english

1 athugasemd

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Greinilega sterk predikun og ágeng til að fá menn til hins sanna kristna lífs, hvers grunneinkennum hann lýsir svo vel þarna í meitluðum orðum, páfinn okkar blessaður.

19.04.06 @ 23:09